Norræna Ráðherranefndin leggur til bann við andfemínisma

1.4.2013

Blogg

Svo gæti farið að þessi vefsíða verði ólögleg innan tíðar ef nýjar tillögur Norrænu Ráðherranefndarinnar ná fram að ganga. Í skýrslu sem kynnt er á vef nefndarinnar; Hvordan Motarbeide Antifeminisme og Høyre Ekstremisme?, setur ráðherranefndin fram tíu tillögur til aðildarríkja sinna um hvernig skal berjast gegn andfemínisma og hægri öfgum. Skýrslan er afrakstur ráðstefnu sem haldin var í Osló dagana 29-30 nóvember 2012 en er birt á vef Norrænu Ráðherranefndarinnar þann 25. mars sl.

Það er auðvitað engin tilviljun að gagnrýnendur femínisma og hægri öfgamenn skuli hér vera lagðir að jöfnu. Femínistarnir sem hér stungu niður penna eru vel harðsjóaðir lobbýistar og vita vel að það myndi reynast þeim ómögulegt að grundvalla þær ríkisaðgerðir sem eru lagðar til, á femínisma einum. Að splæsa femínisma saman við baráttumál sem almennt nýtur fylgis er því rakið. Það þarf hinsvegar ekki mikla yfirlegu til að sjá að það að gera gagnrýni á femínisma ólöglega er megin tilgangur þeirra aðgerða sem lagðar eru til.

skyrsla-norraenu-radherranefndarinnar-hofundarÞað er Velferðarráðherrann okkar, Guðbjartur Hannesson, sem situr fyrir Íslands hönd í Ráðherranefndinni en í skýrslunni eru þrír íslenskir forréttindafemínistar nefndir til sögunnar. Þær Gyða Margrét Pétursdóttir, Árdís Ingvarsdóttir og Ásta Jóhannsdóttir en Ásta skrifar einmitt lítinn kafla um Gillz málið og segir m.a. að fjömiðlar virðist vera að hvítþvo hann (e. cleaning him up) og að í gangi sé áætlun (væntanlega leynileg) um að koma honum aftur í sviðsljósið (e. Almost like a multi – small step plan is being followed preparing his return).

Það er hægt að lesa tillögurnar tíu á norsku og ensku í skýrslu nefndarinnar en ég tók að mér að íslenska þær fyrir lesendur hér:

  1. Andfemínískar hótanir og áreiti verði gert ólöglegt 

    Við leggjum til að norrænar ríkisstjórnir tryggi að hótanir og áreiti á grundvelli kyns verði gert ólöglegt. Berjast verður gegn hatursorðræðu á internetinu á sama hátt og gert er gegn hatursorðræðu á öðrum stigum samfélagsins. Lög gegn hatursorðræðu á netinu eru ekki í gildi hjá öllum norðurlöndunum.

  2. Aðgengileg úrræði til að tilkynna hótanir og áreiti verði sett upp 

    Þó móðganir, hótanir og áreiti gefi ekki alltaf tilefni til lögsóknar, þá hika fórnarlömb andfemínísks áreitis einnig við að hafa hafa samband við lögreglu. Við leggjum til að norrænar ríkisstjórnir tryggi aðgengileg úrræði fyrir fólk sem vill tilkynna áreiti og hótanir andfemínista og öfgamanna. Þessi þjónusta skal vera aðgengileg konum og körlum sem verða fyrir andfemínísku áreiti og hótunum vegna þess að þau taka þátt í opinberri umræðu og vegna þess að þau tala fyrir femínisma og kynjajafnrétti. Markmið þjónustunnar verður að vera að veita opinberan stuðning, minnka fyrirstöður, við að tilkynna andfemínisma, og gefa þau skilaboð að áreiti og hótanir verði ekki liðnar. Jafnréttisráðherrar, umboðsmenn jafnréttismála eða kynja- og kynþáttajafnréttisstofnanir / stofnanir sem annast réttindamál sam- og tvíkynhneigðra og transfólks, ættu að annast þjónustuna.

  3. Gera skal árlegar kannanir á andfemínisma 

    Það eru ekki fyrir hendi neitt heildaryfirlit yfir umfang andfemínískra ógnana, fjölda yfirlýstra andfemínista eða öfgahópa sem hafa andfemínisma sem hluta af hugmyndafræði sinni. Við mælum með að norrænar ríkisstjórnir feli stofnun eða grasrótarsamtökum það verkefni að kortleggja umfang og þróun andfemínisma á internetinu og annarsstaðar. Upplýsingar sem berast til áðurnefndrar tilkynningarþjónustu mun veita mikilvægar upplýsingar til að kortleggja andfemínisma.

  4. Rannsóknir á andfemínisma verður að gefa forgang 

    Eftir hryðjuverkaárásirnar þann 22. júlí hefur fjöldi rannsóknarstofnana hrint í framkvæmd áætlunum um að safna saman upplýsingum um hægri öfgahópa og útlendingahatur. Einnig er unnið að rannsóknum á ógn og ofbeldi íslamista. Þrátt fyrir það er ekki í gangi nein rannsóknarvinna sem miðar að því að rannsaka andfemínisma eða andfemínsma sem hluta af annari öfgahugmyndafræði. Við leggjum til að Norræna Ráðherranefndin og norrænar ríkisstjórnir setji af stað slíka vinnu.

  5. Til að auka jafnrétti og minnka mismunun þarf að breyta karlmennskuímyndum 

    Norræna velferðarríkið vinnur að kynjajafnrétti og gegn mismunun sem grundvallast á kyni, kynþætti, stétt, kynhneigð, trú, aldri og fötlun. Þetta starf þarf að efla og víkka til að breyta hefðbundnum hugmyndum um karlmennsku, vinna gegn staðalímyndum kynja og stuðla að breyttri og jákvæðari karlmennsku.

  6. Ráðast þarf í aðgerðir til að hjálpa jaðarsettum körlum og drengjum 

    Sumir drengir og karlar finnst þeir jaðarsettir í samfélaginu. Í einhverjum tilfellum má rekja þessa tilfinningu til löngunar til að viðhalda forréttindum karla en þetta getur einnig átt upptök sín í raunverulegri lífsreynslu. Þessi jaðarsetning og einangrun getur leitt til þess að viðkomandi verði hallari undir áróður og þá tilfinningu „að tilheyra“ sem öfgahópar geta boðið. Til að taka á þessu þarf að hrinda af stað áætlunum sem vinna gegn jarðarsetningu  karla. Beina ætti sjónum að brottfalli drengja úr skólum, glæpaforvörnum og aðgerðum til að tryggja meira samband milli feðra og barna eftir skilnað. Kynjajafnréttisstofnanir verða að gefa gaum málefnum karla, ekki sem andstæðu málefna kvenna, heldur sem órjúfanlegan þátt í kynjajafnrétti.

  7. Barátta gegn andfemínisma ætti að vera eitt af sviðum jafnréttisráðherra 

    Við mælum með að barátta gegn andfemínisma verði eitt ábyrgðarsviða ráðherra jafnréttismála á norðurlöndunum og að það verði rætt á fundum ráðherra jafnréttismála eða umboðsmanna jafnréttismála á sameiginlegum vettvangi norður- og evrópulanda.

  8. Fjölmiðlar verða að huga að ábyrgð sinni á að berjast gegn andfemínisma 

    Það eru bæði jákvæð og neikvæð dæmi um hvernig fjölmiðlar hafa stuðlað að opinberri umræðu þar sem andfemínistar hafa verið þátttakendur. Fjölmiðlar verða að tryggja að þeir hafi getu til að mæta öfgamönnum án þess að viðurkenna þá eða skoðanir þeirra. Stjórnendur ummælakerfa bera sérstaka ábyrgð á að notendur þeirra verði ekki fyrir ógnunum eða áreiti og að ummæli sem fela í sér útlendingahatur eða andfemínisma séu ekki viðurkennd eða að þeim stuðlað.

  9. Samstarf milli þjóða og hópa gegn andfemínisma verður að halda áfram 

    Andfemínismi er kjarni í hugmyndafræði og áróðri öfga hægriafla, íslamfóbíu, nýnasisma og gyðingahatri. Það er af þeim sökum, þörf á meiri þekkingarmiðlun milli fólks sem rannsakar mismunandi form öfgahópa og mismunun. Við leggjum til að Norræna Ráðherranefndin og norrænar ríkisstjórnir  stuðli að frekara samstarfi milli norðurlanda. Einkum og sér í lagi ættu rannsakendur og sérfræðingar á sviði kynja- og jafnréttismála að vera hafðir í ráðum varðandi baráttuna gegn öfgaöflum.

  10. Efna ætti til þverfaglegrar, Norrænnar ráðstefnu um andfemínisma 

    Við mælum með að Norræna Ráðherranefndin fylgi þessu eftir með samnorrænni ráðstefnu sérfræðinga sem í taka þátt, sérfræðingar á sviði kynjafræða, karlmennsku og í ýmiskonar öfgastefnum.

Það er nefninlega það. Hvar ætti maður að byrja? Eigum við að benda á hvað þessar tillögur eru atvinnuskapandi fyrir konurnar sem sömdu þær? Eigum við að benda á hvað valdakerfi femínsta er farið að líkjast ískyggilega mikið því valdakerfi sem þær segjast alla tíð hafa verið að berjast gegn, valdakerfi samtryggingar, forréttinda og kúgunar? Eigum við að benda á að þetta fólk spúir karlfyrirlitningu alla daga eins og það fá borgað fyrir það? (ó já, það fær víst borgað fyrir það). Eða eigum við bara að tala um þetta sem allra bestu staðfestingu, sem nokkru sinni hefur komið fram, á að forréttindafemínismi er í grunninn alræðishyggja og að forréttindafemínistar eru hlynntir margskonar kúgun svo fremi að kúgunin sé í þágu þeirra?

Gleymum ekki að femínistahreyfingin hefur ekki talið eftir sér að flytja inn og hampa konu sem líkir karlmönnum við apa (hér), hreykir sér af því að mismuna körlum sem eru hvað verst settir í samfélagi okkar (hér), aðhyllist afnám mannréttinda sem borgarar í hinum vestræna heimi náðu að tryggja sér fyrir aðeins nokkrum áratugum (hér), vill öfuga sönnunarbyrði þegar gerendur eru karlar (hér), kennir körlum um efnahagshrunið (hér), kenna börnum umgengnisfeðra að meðlög feðra þeirra séu ekki framfærsla (hér), afneita því að körlum sé mismunað (hér), afneita því að sumar konur ljúga til um ofbeldisglæpi til að skaða karla (hér), láta ofbeldistilburði óátalda á miðlum sínum svo fremi að þeir beinist bara að körlum (hér, hér, hérhér, hér og hér), dreifa lygum sem virðast til þess eins fallnar að ala á almennri karlfyrirlitningu (hér) og kalla karlmenn nauðgara (hér). Dæmin eru mýmörg og aðeins hluta þeirra er að finna hér á þessum vef (hér)

Og svo vill þetta fólk ákveða hvað má segja og hvað ekki. Það kemur mér ekki á óvart að forréttindafemínstar fái þá hugmynd í kollinn að banna ætti fólki að gagnrýna skoðanir þeirra. Það hefur löngu sýnt sig að forréttindahyggja þeirra á sér engin takmörk og íslenskir femínistar hafa áður farið fram á þetta. Sjá hér.

Hitt er svo annað mál að skv. séríslenskri skilgreiningu Femínistafélags Íslands á hugtakinu femínismi gæti reynst erfitt að finna skilgreiningu á andfemínisma sem eitthvað vit væri í. Ég efa það þó ekki að þær finna út úr því, stelpurnar.

Að lokum vil ég svo taka fram að ég er ekki and-femínisti skv. skilgreiningu orðabókar Oxford Háskóla á enska hugtakinu „anti-feminist“. Ég viðurkenni þó fúslega, og með stolti, að ég er and-forréttindafemínisti. Eitthvað segir mér að enginn greinarmunur verði gerður þar á þegar leyniþjónusta forréttindafemínista tekur til starfa.

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

,

6 athugasemdir á “Norræna Ráðherranefndin leggur til bann við andfemínisma”

  1. Sigurjón Says:

    Takk fyrir þetta framtak, Sigurður. Þetta fólk er greinilega hvergi að slá af þó að búið sé að margbenda á gegnumsýrt ofstækið hjá þeim. Nei, það vill bara meira af því sama!

    Það er hægt að sjá forréttindafemínismann út um allt, þó kannski best kristallast hann í svokallaðri Kynungabók. En í þessari skýrslu er hægt að sjá skýrt dæmi um hversu lagt þetta fólk er tilbúið að ganga í þöggun, ritskoðun og ofríki.

    Ég held að við séum bara rétt að sjá byrjunina í þessu. Því að það virðist vera mynstrið að því meir sem forréttinda/fórnarlamba femínismi er gagnrýndur, með rökum, með heimildum, með yfirveguðu mál og rökfestu, því meir forherðist þetta fólk.

  2. Sigurður Says:

    Ég er sammála því að þetta sé líklega bara byrjunin og velti reyndar fyrir mér þegar ég sá þetta hvort hugsanlega mætti rekja þetta til þess að vönduð og málefnaleg gagnrýni a forréttindafemínisma er að aukast víða erlendis.

    Spurning þó hvað þetta skeið mun vara lengi og hve mikill fáránleikinn þarf að verða áður en almenningur fer að sjá hvernig raunverulega er í pottinn búið.

  3. Siggi Sigurðsson Says:

    Ef tillögur Norrænu ráðherranefndarinnar um þessi mál ná fram að ganga, mun það væntanlega verða ólöglegt að gagnrýna eitthvað sem er sett fram í nafni feminisma. Slík gagnrýni yrði væntanlega skilgreint sem „áreiti“.

    Gætu þessar tillögur ekki hafa verið kokkaðar upp í Austur-Þýskalandi fyrir fall múrsins? Setjum bara inn „hagur alþýðu“ fyrir „jafnrétti,“ og „kommúnisma“ fyrir „feminisma“.

    • Sigurður Says:

      Einmitt. Það er akkúrat þetta sem er svo ógnvænlegt við tillögurnar, hvað myndi verða skilgreint sem áreiti? Ef sagan gefur einhverja vísbendingu þá mun „áreiti“ smátt og smátt ná utanum allt sem femínistar vildu helst vera lausir við í samfélaginu.

      Og hvað með heimildaþættir/myndir eins og Könskriget og Jafnréttisþversögnin? Þar var femínistum gerður sá óleikur að tekin voru upp viðtöl við þá. Raunar urðu þeir verulega ósáttir við það eftir á þó þeir hafi vitað af því að viðtölin við þá myndu verða birt og sendu kvartanir út um hvippinn og hvappinn.

      Annars finnst mér alveg óskiljanlegt að ekkert skuli vera fjallað um þessar tillögur á íslenskum fréttamiðlum.

%d bloggurum líkar þetta: