Karlalistinn: Þéttum raðirnar!

2.5.2018

Blogg

Á dögunum var tilkynnt um framboð karlalistans fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Harmageddon menn á X-inu tóku viðtal við tvo efstu menn á lista, þá Gunnar Kristinn Þórðarson og Gunnar Waage.

Þetta var núna 27. apríl sl. en flokkurinn var formlega stofnaður tveimur dögum fyrr, þann 25. apríl. Á degi foreldraútskúfunar.

Það vakti sérstaka athygli mína að kveikjan að þessu framboði var ekki síst tilkoma femínistaskjalanna svokölluðu, og það hvernig þau staðfestu að konur á æðstu stigum valdakerfisins eru að berjast hatrammlega og kerfisbundið gegn jafnrétti til handa feðrum og börnum.

Hér er ég að vísa til varaformanns Samfylkingarinnar, Heiðu Bjargar Hilmisdóttur og Höllu Gunnarsdóttur, ráðgjafa Forsætisráðherra í jafnréttismálum hvorki meira né minna.

Ég fagna vitaskuld tilkomu karlalista og hef raunar beðið hans lengi. Kynjastríðið er líklegast eina stríðið sem háð hefur verið þar sem annað liðið hreinlega mætti ekki til orustunnar.

Við búum nú við einu mögulega útkomu slíkrar ,,baráttu“. Verulega skortir á að karlar njóti sömu réttinda og konur á mörgum sviðum. Hér er bæði hægt að vísa til (ó)laga, óformlegra reglna og stjórnsýslulegrar framkvæmdar á ýmsum sviðum.

Þegar ég fyrst gerði þau mistök að kíkja undir teppið hjá femínistum sem aftur leiddi til þess að sú klassíska sýn sem ég hafði á kynjakerfið hrundi, varð mér fljótt hugsað til allra karlanna sem á undan hafa gengið, séð inn í þennan veruleika og kynnt sér hann en sleppt því að taka upp ruslið.

Eftir að hafa kynnt mér málin vel, held ég að ég þekki í dag helstu ástæður þess að karlmenn sem lenda í t.d. erfiðum forræðisdeilumálum, fölskum ásökunum og þvíumlíkt sitja óvígir eftir. Og ég hef skilning á því eins og ég held að allir hefðu, sem fengju innsýn í baráttu þeirra, sigra, og því miður allt of of oft, ósigra.

En kannski horfir nú til betri vegar. Nú eru greinilega komnir fram menn, og hugsanlega konur líka, sem ætla að taka til hendinni. Mér leyst mjög vel á viðtalið við þá nafna í Harmageddon. A.m.k. annar þeirra hefur látið til sín taka í félagsstörfum fyrir hönd karla og barna og unnið öflugt og óeigingjarnt starf á þeim vettvangi.

Það var dagljóst af þessu viðtali að þarna var enginn tröllaskapur í gangi. Engin kvenfyrirlitning og engar kröfur um forréttindi eða jafnstöðu. Aðeins jafnrétti. Óháð kyni.

Það eina sem ég saknaði kannski úr viðtalinu var breiðari fókus á réttindi karla og drengja. Þ.e. ekki bara foreldrajafnrétti. En sem splunkunýr flokkur, er auðvitað mikið verk óunnið og sjálfsagt á málefnavinnan eftir að mótast af þeim sem stíga fram og leggja hönd á plóg.

Reyndar fer Gunnar Kristinn betur yfir möguleg baráttumál í grein á vef Fréttablaðsins sama dag og viðtalið var tekið á X-inu. Ég held því að þetta framboð lofi góðu. Vonandi tekst því að laða til sín gott fólk á lista, í málefnahópa og sem fjárhagslega bakhjarla.

Þetta gæti verið upphafið að einhverju stórmerkilegu.

Ég hef haft það á tilfinningunni, þegar ég kynni mér umræðuna erlendis, að það sé nú loks einhver alvöru undiralda gegn forréttindafemínisma.

Þetta íslenska stjórnmálaafl er ekki það fyrsta sinnar tegundar í heiminum í dag. Nokkur ár eru síðan karlaflokkur var stofnaður í Bretlandi og nokkur fleiri síðan slíkur flokkur var stofnaður í Austurríki svo dæmi séu tekin.

Í kjölfar þess að ofangreind tvö framboð voru stofnuð, leiddi það til þess að umræðan færðist úr því að vera bara í athugasemdakerfum fréttamiðla, samfélagsmiðlum og bloggum, og rataði þess í stað inn í hljóð- og myndver hefðbundinna fjölmiðla.

Þetta er nýtt.

Þegar ég hóf að skrifa hér á þennan vef þá varla fundust viðtöl við fólk sem barðist gegn forréttindafemínisma hjá venjulegum fjölmiðlum. Núna eru komin fleiri stór nöfn en hægt er að halda í minni. Nú eru haldnar ráðstefnur um réttindamál karla, drengja og barna undir merkjum feðra- og karlréttindahreyfinga. Bókum til höfuðs fasískri kvenhyggju fjölgar og vandaðar heimildamyndir eru jafnvel gerðar.

Mér finnst þetta eitt og sér vera heilmikill sigur í sjálfu sér.

Með rausæji að leiðarljósi er þó auðséð að svona eins máls flokkur, er ekki að fara að taka borgarstjórastólinn. En þetta er byrjun. Eins og reynslan sýnir erlendis, þá mæta svona framboð fyrst háði í bland við beinar árásir í byrjun. Þá má líka líta til andstöðu þeirrar sem kvennahreyfingin mætti í árdaga til að finna vísbendingar um það sem býður frumkvöðlanna.

Miðað við umfang tálmunarmála í gangi hverju sinnni, er ekki endilega óraunsætt að sjá fyrir sér að svona flokkur nái inn manni í borgarstjórnarkosningum. Það vinnur líklega helst gegn framboðinu að það er stofnað svo stuttu fyrir kosningar.

Ef ekki tekst að ná manni inn, vona ég að hópurinn missi ekki dampinn og haldi áfram. Einn maður á þing væri stórkostlegt og nóg eitt og sér til að sjónarmið karla nái að koma fram í hinni svokölluðu kynjaumræðu, þó ekki væri til annars.

Það þarf menn og konur með breið bök til að taka fyrstu skrefin. Menn sem gera sér grein fyrir að Róm var ekki byggð á einum degi. Þetta er langhlaup gegnum svipugöng ríkjandi valdakerfis byggðu á kvenhyggju og er ekki á þeim buxunum að gefa neitt eftir.

Þegar upp verður staðið, mun sagan hinsvegar fara mjúkum höndum um þá sem tóku að sér að heyja baráttu sem einsýnt er að vinnst jafnvel ekki á vakt þess fólks sem tekur fyrstu skrefin.

Hvað er enda göfugra en að fórna sér í þágu jafnréttis og betra lífs fyrir fólk sem þú þekkir ekki neitt og er jafnvel ekki einu sinni fætt?

Ef jafnrétti til handa körlum og börnum er eitthvað sem þú, lesandi góður, brennur fyrir, hugleiddu þá hvað þú getur gert. Svona framboð þarf  undirskriftir til stuðnings framboðinu, fólk í málefnstarf og á lista auk fjárhagslegra bakhjarla.

Hugleiddu hvort nú sé rétti tíminn fyrir þig til að stíga fram eða styðja við þetta merkilega starf með einhverjum hætti.

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: