Jafnréttisháskólinn í Reykjavík

16.10.2018

Blogg

Ég hef verið að fylgjast með umræðunni í kjölfar þess að Kristinn Sigurjónsson, lektor, var rekinn úr starfi sínu hjá Háskólanum í Reykjavík.

Kristinn vann sér það til saka að taka þátt í jafnréttisumræðunni en gera þau mistök að hafa á henni aðrar skoðanir en stjórnendum skólans eru þóknanlegar.

Ég hef fylgst með Kristni um áraraðir enda deilum við áhuga á jafnréttismálum. Sem leiðir óhjákvæmilega til þess að ég hef séð til hans á þeim vettvangi.

Ég held að ég treysti mér til að fullyrða að ekkert sem Kristinn hefur látið frá sér fara um jafnréttismál, konur eða femínisma, svo mikið sem gárar vatnið í samanburði við það sem margir femínistar hafa látið frá sér um karlmenn eða karlavinkil jafnréttisbaráttunnar.

Og svo því sé haldið til haga, þá er ég hér að vísa til þjóðþekktra femínista sem margir hverjir, ef ekki bara flestir, eru á framfæri hins opinbera við að spúa sínu karlahatri á kostnað skattgreiðenda.

Mig rekur ekki í minni að hafa séð konu missa djobbið fyrir slíkar sakir. Sýnist þetta jafnvel bara vera hreint ágætt fyrir starfsframa og tækifæri þeirra kvenna sem slíkt við hafa.

Eftir að fregnir bárust af brottvikningunni, hefur komið fram að Jón Steinar Gunnlaugsson Hrl., ætli að vinna fyrir Kristinn og sækja málið, ef þarf, fyrir dómstólum.

Þetta gerir málið ansi hreint spennandi svona héðan frá séð.

Nú er úr vöndu að ráða fyrir hann Ara Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík. Hann er með þessari ákvörðun sinni, búinn að slá sjálfan sig til riddara.

Með þessu sendir hann okkur hinum skýr skilaboð um að hann telji sig þess umkominn að ákveða hvaða skoðanir starfsfólk skólans má hafa og hverjar ekki.

Og virðist þá einu gilda hvort það er innan eða utan veggja vinnustaðarins.

Svona almennt séð er ég þeirrar skoðunar að skildir jafnréttisriddara hljóti að vera þeim ansi þungir enda ekki ósjaldan sem maður sér þeim misbeitt.

Mér finnst þeir sem taka sér þetta hlutverk í nafni femínisma vera í einkar viðkvæmri stöðu enda samspil kynja margslungið og fullt af hliðstæðum sem eru ekki alltaf ljósar við fyrstu sýn.

En hver veit hvað næstu misseri leiða í ljós með það. Kannski hann Ari sé óskeikull í dómgreind sinni. Kannski mun hann ekki hika við að taka upp hanskann fyrir karlþjóðina ef eitthvað svipað kemur upp og koma þannig í veg fyrir að nokkrir karlar verði fyrir tilfinningalegum ónotum af hendi starfsmanna Háskólans í Reykjavík.

Þó það nú væri.

Allir vita að við verðum, sem samfélag, að beita öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir tilfnningaleg ónot.

Ein manneskja í tilfinningalegu uppnámi, er einni manneskju of mikið!

Mér er reyndar til efs að það líði á löngu þar til Ari fær tækifæri til að sanna sig í þessu hlutverki. Í núverandi tíðaranda, og miðað við fjölda kvenna sem vinna hjá Háskólanum í Reykjavík, tel ég eiginlega bara útilokað að veraldarvefurinni lumi ekki á a.m.k. nokkrum bætum á pari við það sem Kristinn gerði sig ,,sekan“ um þar sem ,,gerandinn“ er kona.

En kannski má segja að nýleg ummæli Ara gefi tilefni til bjartsýni.

Ég rakst á eftirfarandi í umfjöllun Vísis um tilkynningu sem Ari sendi frá sér vegna málsins. Þessi orð eru frá honum komin:

,,Eðlilegt er þó að taka fram að orðræða sem hvetur til mismununar eða haturs á grundvelli kyns, kynhneigðar, fötlunar eða kynþáttar er ekki liðin innan háskólans, enda þurfa allir sem nema og starfa innan veggja háskólans að geta treyst því að komið sé fram við þá af virðingu og að verk þeirra séu ætíð metin af sanngirni“

Talandi um að vera prinsipp maður.

Þessi orð hans leiddu reyndar huga minn að viðbrögðum hans í Hlíðarmálinu svokallaða. Minnugur þess, velti ég fyrir mér hvort Ari væri kannski nú þegar fallinn á prófinu.

Í því máli voru settar fram ásakanir um kynferðisbrot tveggja karlkyns nemenda við skólann gegn tveimur kvenkyns nemendum við sama skóla.

Þá vakti athygli mína að Ari tók sig til og vísaði mönnunum tveimur úr skólanum. Þetta gerði hann þrátt fyrir að málið væri ekki búið að fá efnislega meðferð og enginn úrskurður lægi fyrir.

Ég man að ég velti mikið fyrir mér hvar Ari drægi mörkin þegar hann tæki svona ákvarðanir.

En ég þurfti þó ekki að velta því lengi fyrir mér.

Því þegar allt kom til alls í Hlíðarmálinu reyndust gögn málsins ekki benda til sektar karlanna og áður en langur tími leið voru þeir meira að segja búnir að leggja fram kæru á hendur konunum fyrir rangar sakargiftir.

Fyrir mann eins og mig, sem er algerlega gersneyddur öllu sem telja mætti skyggnigáfu, segja svona upplýsingar mér að ég get ekkert vitað um málið annað en það að fagfólk í réttarvörslukerfinu, hefur metið það svo að gögn sem styðja fyrri ákæruna séu ekki líklega til að leiða til sakfellingar.

Og á þessum tíma, þegar kæran um rangar sakargiftir hafði ekki heldur fengið efnislega meðferð, get ég heldur ekki gefið mér að þar sé fram komin réttmæt kæra sem ætti að leiða til sakfellingar.

Hitt get ég vitað að í mínum huga er nauðgun annarsvegar og fölsk ásökun um nauðgun hinsvegar, hið minnsta álíka alvarleg brot.

Hér var því kominn upp pattstaða. Raunar eins fullkomin pattstaða og hugsast getur.

Sem áhugamaður um réttlátt samélag og jafnrétti óháð kyni, hlaut ég því að grennslast fyrir um það, hjá honum Ara okkar, hvað hann hyggðist gera til að taka á því að nemendur í skólanum hefðu fengið á sig kæru fyrir rangar sakargiftir.

Ég sendi því Ara eftirfarandi fyrirspurn:

,,Ágæti Ari Kristinn Jónsson,

Á dögunum bárust fréttir af því að tveir kvenkyns nemendur við Háskólann í Reykjavík hefðu kært tvo karlkyns nemendur fyrir nauðgun. Hér er ég að vísa til Hlíðarmálsins svokallaða.

Í kjölfarið bárust fréttir af því að Háskólinn hefði vikið karlkyns nemendunum frá námi á grundvelli þessara ásakana.

Síðar hefur komið fram að karlkyns nemendurnir umræddu hefðu lagt fram kæru á hendur kvenkyns nemendunum fyrir rangar sakargiftir og vilja augljóslega meina að engar nauðganir hafi átt sér stað.

Ég hef stvær spurningu til þín í þessu sambandi:

Hefur kvenkyns nemendunum verið vikið úr skólanum á grundvelli þeirra ásakana sem á þær hafa verið bornar?

Ef nei, hvers vegna ekki og hvernig tryggir Háskóli Reykjavíkur að kynjajafnréttis sé gætt við ákvarðanir um að víkja nemendum úr námi á grundvelli ásakana sem ekki hafa fengið lögformlega rannsókn, hvað þá að dómsniðurstaða liggji fyrir?

Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“

Þetta var seint á árinu 2015. Ari hefur enn ekki svarað.

Ég óttaðist um tíma að hann Ari hefði, vel meinandi, í hamaganginum sveiflað skildi sínum helst til digurmannlega fyrir sína burði og hreinlega rekið hann í hausinn og rotast.

Ef sú var raunin, þá er Ari allavega skriðinn undan skildinum núna.

Sem er gott.

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

,

One Comment á “Jafnréttisháskólinn í Reykjavík”

  1. Thorgeir Hjaltason Says:

    “ hreinlega rekið hann í hausinn og rotast.“Hefur hann ekki vankast og fengið heilahristing hverra afleiðingar eru að koma fram núna ?

%d bloggurum líkar þetta: