Orðabók

Skýringar á ýmsum þeim hugtaka sem okkur birtast í jafnréttisumræðunni. Hér er bæði að finna þekkt hugtök og skýringa fengnar, t.d. frá Jafnréttisstofu en einnig er hér að finna nokkur hugtök sem eru ný af nálinni sem er ætlað að ná utan um misrétti sem beinist að körlum.

Með því að smella á hugtak í yfirlitinu flyst þú sjálfkrafa að skýringu þess neðar á síðunni. Sendu endilega póst ef þér finnst eitthvað vanta.

Bein mismunun
Þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð en annar af gagnstæðu kyni við sambærilegar aðstæður.

Aftur upp 

Eðlisafneitun
Það að trúa að kyn mótist eingöngu vegna félagsmótunarlegra þátta og að eðli sé víkjandi þáttur í kynmótun.

Aftur upp 

Forréttindafemínismi
Femínismi sem miðar að því að tryggja konum forréttindi fram yfir karla fremur en jafnrétti.

Aftur upp 

Forvirkar sértækar aðgerðir
Sérstakar aðgerðir eru tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar. Þar getur þurft tímabundið að veita öðru kyninu forgang til að ná jafnvægi. Forvirkar sértækar aðgerðir eru aðgerðis sem gripið er til þegar rannsóknir benda til að hugsanlega muni halla á annað kynið einhverntíman í framtíðinni.

Aftur upp 

Frjálst vændi / Frjáls kynlífsþjónusta
Það vændi og sú kynlífsþjónusta sem veitt af fullveðja einstaklingi á þann hátt og innan þess ramma sem viðkomandi kýs sjálf(ur).

Aftur upp 

Jafnréttisfemínismi
Femínismi sem miðar að því að tryggja konum jafnan rétt á við karla.

Aftur upp 

Jafnréttisiðnaður
Stofnanir, nefndir, ráð og störf á vegum hins opinbera og stéttarfélaga og menntastofnana sem hafa þann eina tilgang að vinna að jafnréttismálum. Dæmi um þetta eru Jafnréttisstofa, Jafnréttisráð, Úrskurðarnefnd Jafnréttismála, jafnréttisfulltrúar menntastofnana, ríkis og bæja, nefdir og ráð sem starfa að umsjón og eftirfylgni með framkvæmd laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Aftur upp 

Jafnstöðulög
Hugtakið Jafnstöðulög er kannski það sem best lýsir hinni formlegu umbreytingu jafnréttisbaráttunnar yfir í forréttindabaráttu. Fáir vita að fyrstu jafnréttislög sem sett voru hér á landi, árið 1975, áttu skv. tillögum femínista að nefnast Jafnstöðulög en því var svo breytt í jafnréttislög í meðförum Allsherjarnefndar áður en frumvarpið var samþykkt. Hugtakið var svo sett fram í áliti Femínistafélag Íslands við frumvarp til nýrra jafnréttislaga í lok árs 2007 en í álitinu sagði að lög um jafnan rétt kvenna og karla væru sjálfsögð og að slík lög hefðu verið í gildi um áratugaskeið. Nú þyrfti hinsvegar að beina kröftum ríkisvaldsins til þess að jafna stöðu kvenna miðað við karla fremur en að jafna réttindi kvenna.

Aftur upp 

Jákvæð mismunun
Í lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla segir t.a.m. að þeim sé  ætlað að “bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu”. Með vísan í markmið þessara laga hefur þegar verið komið á ýmsum forréttindum til handa konum. Jákvæð mismunun er oft framkvæmd undir yfirvarpi sértækra aðgerða en það er alls ekki algilt.

Aftur upp 

Klámvæðing
Á vef jafnréttisstofu segir um klámvæðingu: „Klámvæðing er hugtak sem notað er til að lýsa því þegar klám og vísanir í myndmál, táknmyndir og orðfæri kláms eru notaðar í okkar daglega umhverfi. Klámvæðingin birtist víða til dæmis í auglýsingum, tónlistarmyndböndum, kvikmyndum og tísku. Þetta hefur leitt til þess að klámfengið efni hefur orðið sýnilegt og smeygja sér inn í daglega líf. Smátt og smátt hefur þetta aukið umburðarlyndi almennings gagnvart slíku efni sem er orðið samþykkt og jafnvel dáð menningarlegt fyrirbæri“.

Aftur upp 

Kynbundin áreitni
Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun, sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni ef það er alvarlegt.

Aftur upp 

Kynbundið ofbeldi
Ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þolanda, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi. Raunar er það svo að jafnréttisiðnaðurinn og forréttindafemínistar líta svo á að kynbundið ofbledi eigi bara við um ofbeldi sem karlar beita konur en ekki öfugt.

Aftur upp 

Kynbundinn dauðamunur
Sá munur á lífslíkum karla og kvenna, sjálfsvígstíðni og tíðni banvænna vinnuslysa sem ekki verður skýrður með öðru en kyni.

Aftur upp 

Kynbundinn launamunur
Sá munur á launum karla og kvenna sem ekki er útskýrður með öðru en kyni. Jafnréttisiðnaðurinn hefur unnið ágætis starf í að sannfæra þjóðina um að þessi munur sé allt að 35% en þegar rýnt er í greiningaraðferðir kemur fljótt í ljós að mörgum skýrirbreytum er kerfisbundið sleppt í mælingum á kynbundnum launamun. Þá er eftirtektarvert að forréttindafemínistar gera almennt ekki ráð fyrir að konur eigi að bera ábyrgð á eigin kjarabaráttu. Athugið að kynbundinn launamunur er ekki það sama og launamunur kynja sem einnig er lýst hér.

Aftur upp 

Kynbundinn refsimunur
Sá munur sem er á fjölda útgefinna ákæra í hlutfallslegu samræmi við fjölda brota karla og kvenna, ólíkt hlutfall skilorðsbundinna refsinga í dómum gegn körlum og konum og lengd fangelsisdóma milli kynja. Hér á landi sem annarsstaðar í hinum vestræna heimi fá konur ríkulegan afslátt á réttvísinni af ýmsum ástæðum. Mörg málsvarnarrök kvenna þættu aldrei tæk þegar um karlkyns brotamenn er að ræða og þegar brotafólk er dæmt til refsingar er hægt að sjá sláandi mun á lengd fangelsisdóma eftir því hvort um karl eða konu er að ræða. Þannig má segja að frelsi kvenna sé hærra metið en frelsi karla.  Aðeins ein rannsókn hefur verið gerð á kynbundnum refsimun hér á landi en erlendis eru þær orðið mýmargar.

Aftur upp 

Kynferðisleg áreitni
Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi kynferðisleg hegðun sem er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt

Aftur upp 

Kyngervi
Í kynjafræðum segir að kyngervi sé hugtak sem er notað um félagslega tilbúinn hlutverk kvenna og karla. Það sem við teljum kvenlegt og karlmannlegt sé lærð hegðun. Kyngervi breytist með tímanum og sé mismunandi innan og milli ólíkra menningarheima.

Aftur upp 

Kynjagleraugu
Hugtak sem femínistar byrjuðu að nota um það að koma auga á kynjamisrétti og er ágætt sem slíkt. Með því að skoða einhverja þætti samfélagsins í gegnum kynjagleraugu má oft koma auga á misrétti og greina ólíka stöðu kynjanna. Dæmi um notkun kynjagleraugna gæti verið að velta fyrir sér hversvegna jafnréttisiðnaðurinn hefur jafn mikinn áhuga og raun ber vitni á kynbundnum launamun en jafnlítinn eða engan áhuga á kynbundnum dauðamun á sama tíma. Mýmörg dæmi eru til um áhugaleysi jafnréttisiðnaðarins þegar kemur að málum þar sem hallar á karla.

Aftur upp 

Kynjasamþætting
Að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn kynjajafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu.

Aftur upp 

Kynjunargláka
Hugtakið kynjunargláka var fyrst sett fram sem spé í grein sem gekk manna á milli á vefnum fyrir þónokkru síðan. Ég hef ekki fundið þessa grein þrátt fyrir mikla leit en inntakið var á þá leið að við ofnotkun kynjagleraugna gætu femínistar áunnið sér kynjunargláku sem er einskonar rörsýn á bága stöðu kvenna en venjuleg gláka (augnsjúkdómur) veldur einmitt rörsýn og blindum blettum á sjónsviði.  Manneskja með kynjunargláku gerir sér þannig far um að sjá konur sem fórnarlömb í öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum svo undrun sætir.

Aftur upp 

Kynlífsþjónn
Regnhlífarhugtak yfir vændisfólk, fatafellur og erótíska dansara, klámmyndaleikara og annað fólk sem starfar í kynlífsiðnaði. Þarft og gott að nota þar sem það getur reynst flókið að flokka fólk með hefðbundum hætti. Þá er hugtakið kynhlutlaust ólíkt þekktari hugtökum s.s. vændiskona og gleðikona svo dæmi séu tekin.

Aftur upp 

Kynremba
Samnefnari fyrir karlrembu og kvenrembu. Þ.e. að trúa því að annaðhvort kynið sé betra en hitt. Í dag er kvenremba viðurkennd og jafnvel í tísku en karlremba almennt illa séð.

Aftur upp 

Launamunur kynja
Sá munur sem er á heildarlaunum allra kvenna og allra karla deilt með fjölda þeirra. Þá er ekkert tillit tekið til menntunar, tegundar starfs, ábyrgðar, reynslu eða starfshlutfalls.

Aftur upp 

Óbein mismunun
Þegar hlutlaust skilyrði, viðmið eða ráðstöfun kemur hlutfallslega verr við annað kynið nema slíkt sé viðeigandi, nauðsynlegt eða réttlætanlegt vegna hlutlægra þátta óháð kyni.

Aftur upp 

Sértækar aðgerðir
Sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar. Þar getur þurft tímabundið að veita öðru kyninu forgang til að ná jafnvægi. Dæmi eru um áratugalangar sértækar aðgerðir í þágu jafnréttis eins og forréttindafemínistar skilgreina það.

Aftur upp 

Söguleg skuld
Hugtak sem forréttindafemínistar nota um skuld sem þeim finnst þeir eiga hjá karlmönnum í dag vegna fyrri tíma misréttis. Á grundvelli þessarar hugmyndar hafa ýmisskonar forréttindi til handa konum verið réttlætt.

Aftur upp 

Umgengnistálmun
Tilburðir forsjárforeldris til að koma í veg fyrir eða minnka eftir fremsta megni samskipti barns við hið forsjárlausa foreldri. Margir vilja skilgreina umgengnistálmanir sem ofbeldi gegn þeim börnum sem í hlut eiga enda eru þau þar með svipt tækifæri til að mynda eðlileg tengsl við það foreldri sem tálmun beinist að.

Aftur upp 

Þvingað vændi / Kynlífsþjónusta
Það vændi og sú kynlífsþjónusta sem veitt er af óeðlilegri neyð, með mansali eða er á annan hátt stjórnað af þriðja aðila og að öllu eða einhverju leyti í óþökk einstaklings sem þjónustuna veitir.

Aftur upp 

%d bloggurum líkar þetta: