Stóra systir fylgist með þér og brýtur almenn hegningarlög

18.10.2011

Blogg

Í dag bárust fregnir af aðgerðahópi [femínista] sem kallar sig „Stóra systir“. Þetta ku vera hópur kvenna sem hefur, um nokkurt skeið að því er virðist, auglýst vændi í blöðum og á stefnumótasíðum með það fyrir augum að ginna karlmenn til að falast eftir vændi eða a.m.k. sýna því áhuga. Það að svara meðlimum hópsins virðist síðan vera túlkað sem fullframið brot og eru viðkomandi menn kallaðir „vændiskaupendur“ af talsmönnum hópsins og í fréttum, þrátt fyrir að hafa ekki keypt vændi.

Hópurinn afhenti einnig lögreglu upplýsingar um þessa menn. M.a. nöfn, heimilisföng, netföng, símanúmer og ljósmyndir af þeim ásamt því að gefa í skyn að upplýsingarnar kynnu einnig að verða birtar opinberlega. Hvað lögreglan á að gera við þessar upplýsingar veit ég ekki enda felst ekki brot í því að falast eftir vændisþjónustu eða forvitnast um hana skv. almennum hegningarlögum, ef svo væri myndu t.d. fréttamenn sem rannsaka slík mál teljast brotlegir svo dæmi sé tekið.

Nei, til að brot teljist fullframið þarf að koma til annaðhvort greiðsla eða samfarir með loforði um greiðslu, hvort heldur er fyrst. Öðru máli gegnir hinsvegar um þann sem auglýsir kynmök gegn greiðslu. Um það er 206. gr. almennra hegningarlaga skýr en í henni segir:

„Hver sem í opinberri auglýsingu býður fram, miðlar eða óskar eftir kynmökum við annan mann gegn greiðslu skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.“

Í hita leiksins hafa femínistarnir, sem mynda hópinn Stóra systir, semsagt gerst sekar um lögbrot sem varðar sektum og fangelsi allt að 6 mánuðum.

Ég ætla að veðja hægri handlegg (og ég er rétthentur) að þetta brot verði látið liggja milli hluta. Þetta eru jú konur sjáðu til.

SJ

21 athugasemdir á “Stóra systir fylgist með þér og brýtur almenn hegningarlög”

  1. Eyjólfur Says:

    Ég veit ekki einu sinni hvar á að byrja, svo hallærislegt er þetta mál. Hvað eru margar vikur síðan femínistar risu upp á afturlappirnar vegna meintra vændisauglýsinga í blöðum? Hér viðurkennir svo þessi hópur að hafa keypt slíkar auglýsingar í ginningartilgangi. Hvað ef þeir sem svöruðu voru í svipuðum ginningarleik eða rannsóknarvinnu? Þvílíkur brandari og fíflaskapur frá A til Ö.

    Nornaveiðar tíðkuðust fyrir margt löngu. Það mætti hæglega snúa því orði við í þessu tilviki. Hér eru það nefnilega nornirnar sem eru að veiða.

  2. Páll Says:

    Það verður þá í ósátt við hópinn ef þetta verður látið slæda. Á vefsíðu Stóru systur sést að fyrsta krafa hópsins er þessi: „geðþóttaákvarðanir stjórni því ekki hvaða lögum á Íslandi er framfylgt“ 😉

    http://storasystir.wordpress.com/2011/10/18/krofur-storu-systur/

  3. Eva Hauksdóttir Says:

    Það er reyndar líka ólöglegt að hvetja til ólöglegs athæfis. Ég sé ekki betur en að þessar stóru systur séu sekar um það líka.

  4. namo Says:

    Hérna hittir skrattin ömmu sína, múhahahaha

  5. valur Says:

    Gæti þetta eins ekki talist til persónunjósna?

  6. Theodór Gunnarsson Says:

    Ha ha! Frábært! Ég get ekki annað en velt fyrir mér hve pirraðar þær konur hljóta að vera sem lifa góðu lífi á vændi um þessar mundir. Þetta er aðför að rétti fólks til að ráða yfir eigin líkama.

  7. Hjörtur Freyr Says:

    Var að spá í einu þegar ég las þessa frétt…Er ekki lögbrot að taka upp símtöl án þess að tilkynna það í upphafi símtals að það sé verið að taka símtalið upp ? Einhver lögfróður sem getur svarað til um það ?

    • Siggi Says:

      Það er ekki refsivert lögbrot að taka upp símtal án þess að manneskjan á hinni línunni viti af því. En það er aftur á móti ekki hægt að nota upptökuna sem sönnunargögn fyrir rétti. Það er þó alltaf hægt að nota öll samskipti í gegnum tölvupóst eða sms skilaboð fyrir rétti.

  8. Gunnar Jörvi Says:

    Það er víst brot á fjarskiptalögum að taka upp samtal í síma án þess að báðir aðilar viti af því og séu sammála um að svo sé gert, er ég nokk viss um Hjörtur.

  9. Sigurður Jónsson Says:

    Takk fyrir innleggin öll og velkomin þau ykkar sem eruð ný.

    Já, það hefur verið bent á nokkur lögbrot í aðgerð hópsins. Það er greinilega til fólk sem lítur svo á að það njóti þeirra forréttinda að vera „jafnara“ fyrir lögum en aðrir.

    Af hverju ætli Stóra systir beini ekki sjónum sínum að lögbrotum vændiskvenna sem auglýsa þjónustu sína í blóra við lög? Það er í nánast öllum tilvikum auðvelt að rekja auglýsingarnar þar sem það þarf að greiða fyrir þær í tilviki blaðaauglýsinga en á vefsíðum gæti lögregla rakið handhafa IP talna án mikillar fyrirhafnar. Í þeim tilvikum hefur brot verið fullframið með ólöglegri auglýsingu og auðvelt að sýna fram á sekt sem liggur þegar fyrir svart á hvítu. Ef vændiskonur og menn byggju við þann raunveruleika þá myndi þetta fólk sjálfsagt fljótlega hætta að auglýsa og „vandamálið“ væri leyst.

    Theodór kemur inn á frelsi einstaklingsins til að ráðstafa eigin líkama. Femínistar hafa lagt áherslu á það frelsi í tengslum við fóstureyðingar en af einhverjum ástæðum vilja þær svo takmarka þetta frelsi þegar kemur að vændi.

    Ég held að það megi lesa út úr þessum áherslum öllum að Stóra systir og áhangendur hennar eru miklu áhugasamari um að skapa andrúmsloft karlfyrirlitningar heldur en nokkurntíman að bjarga portkonum frá sjálfum sér.

  10. Sigurður Jónsson Says:

    … svo má ég til með að benda á stutta en brilliant færslu á norn.is sem tekur á þessu út frá allt öðrum sjónarhóli:

    http://www.norn.is/sapuopera/2011/10/mynd_handa_storu_systur.html

  11. Gunnar Says:

    Ágæt umræða um málið í morgunútvarpinu: http://ruv.is/sarpurinn/morgunutvarpid/20102011/stora-systir

    Mér finnst nokkuð að verkefnisstjóri vændisathvarfs Stígamóta – Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir tilheyri þessum hóp. Hún talar af sér á nokkrum stöðum í viðtalinu.

  12. Gunnar Says:

    Hér er svo viðtal við þær sjálfar í Bítið á Bylgjuni: http://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=6877

    Skemmtilega málefnalegar þar. Spurðar um hvað þeim finnst um þá sem gagnrýna aðgerðirnar segjast þær bara ekkert skilja við hvað þeir eru hræddir og gefa í skyn að þeir sem eru ósammála þessum aðgerðum hljóti bara að vera hræddir og á lista samtakanna yfir meinta vændiskaupendur.

    Þöggun segi ég.

  13. Sigurður Jónsson Says:

    Takk fyrir slóðirnar Gunnar. Brynjar bendir í viðtalinu á að það séu þyngri viðurlög við brotum samtakanna en við því að kaupa vændi, sem aftur gefi vísbendingu um mismunandi alvarleika brotanna. Áhugaverður punktur.

    Það er líka merkilegt ef rétt er að Steinunn standi fyrir þessu. Hún hefur beinan hag af því að fjármagn fáist í rekstur athvarfs hennar. Er það ekki á gráu svæði svona siðlega ef hún tekur þátt í að framleiða vandann með þessum hætti?

  14. Guðný Benediktsdóttir Says:

    Hvað finnst ykkur um að hvetja til þess að fólk stundi persónunjósnir og og tilkynni þær til stofnana, Vinnumálastofnunar, Tryggingastofnunar, Lögreglu og jafnvel barnaverndarnefndar… Leiðandi til þess að grunlaust fólk lendir í ransókn hjá þessum aðilum byggt á grun annarra um að það sé á einhvern hátt að brjóta lög. Hver eru viðurlög þeirra sem koma með athugasemdir á borð til þessarra stöfnana sem ekki eiga við rök að styðjast ??

  15. Sigurður Jónsson Says:

    Velkomin Guðný og takk fyrir innleggið.

    Ég held, ef minnið svíkur mig ekki, að þegar um vanrækslu á börnum er að ræða þá hvíli bein lagaskylda á borgurum sem verða vitni að því að tilkynna það til þar til bærra yfirvalda. Mér finnst það hið besta mál enda börnin sjálf ekki kannski fær um að leita til viðkomandi yfirvalda.

    Hvað hitt varðar þá þekki ég bara dæmi um það að þessar stofnanir hvetji til persónunjósna. Lögregla og Tryggingastofnun óska ábendinga hafi fólk vitneskju um brot. Sú vitneskja þarf ekki að koma til með persónunjósnum né tálbeitum enda fólk sjaldnast í aðstöðu til að útdeila þeim gæðum sem fólk sækist eftir í ólögmætum tilgangi. Ef lögregla eða TR myndi hinsvegar hvetja til þess að ég njósnaði um þig eða öfugt þá myndi ég gagnrýna það. Ef þessar stofnanir sendu til mín eða þín tálbeitur sem, segjum, byðu „ókeypis“ peninga þá myndi ég vera jafnmikið á móti því og ég er á móti aðgerðum Stóru systur. Gleymum því ekki heldur að ef ég verð vitni að glæp eða tryggingasvikum þá hefur það ekki krafist þess að ég fremdi lögbrot sjálfur. Sú er hinsvegar raunin með aðgerðir Stóru systur sem sannarlega braut lög og það ekki bara ein.

    Meginröksemdin gegn því að nota tálbeitur, svona almennt, er sú að með því getur þú verið að fá manneskju til að fremja glæp sem hún annars fremdi ekki. Við erum jú öll breysk þó misjafnt sé hvar sá breyskleiki liggur. Þessvegna er talað um siðferðisþrek, vegna þess að hjá öllum manneskjum þver þetta þrek á einhverjum tímapunkti, við einhverjar aðstæður sem vonandi koma aldrei upp.

    Stóra systir framleiðir því glæpinn. Ef glæp skyldi kalla, þar sem hann var aldrei fullframinn.

  16. Sigurbjörn Says:

    Það að ræða við feminsta um vændi er eins og að ræða við kynþáttahatara um innflytendamál. Heilbrigð skynsemi er ekki til.

  17. Guðný Benediktsdóttir Says:

    Þið vitið það vel að að þessir karlar voru ekki saklausir frekar en „Stóra Systir“ þegar hún bendir á þarna er markaður „Svartur markaður“ með ólögleg „samskipti“ tveggja aðila. Það má vel deila um hvort þær hafi brotið lög (vafalaust gerðu þær það) en að fara útí að VERJA þessa menn sem svo „sviplega“ (einn daginn var ég úti að skokka en áður en ég vissi af var ég á leið upp að Rauðavatni að refsa 15 ára unglingsstelpu fyrir 25þús kr.) voru ginntir í gildru vondu vondu vændiskvennanna.. komon ? í alvöru ?

  18. Sigurður Jónsson Says:

    Guðný,

    Áður en ég svara síðasta innleggi þínu í heild sinni þá langar mig að leggja fyrir þig gestaþraut:

    Hvað segirðu um að við hættum þessu bloggveseni og hittumst á svítunni á Grand? Er með hana bókaða til morguns. Getum gert eitthvað miklu unaðslegra en að röfla hér og ég skal borga þér 25 þúsund fyrir.

    Er ég að brjóta lög hérna?

    • Guðný Benediktsdóttir Says:

      Gestaþraut… nei, ekki bara með því að segja þetta.

      En sorry, sé ekki aumur á þessum mönnum, djókarar eður ei.. Þetta er hættulegur „leikur“ og setur vonandi ótta í þá.

  19. Sigurður Jónsson Says:

    Guðný,

    Við erum ekki að tala um að þessir menn hafi allir verið að falast eftir að kaupa líkama 15 ára barna og umræðan snýst ekki um það. Eftir því sem þær sögðu sjálfar fyrst var meginuppistaðan karlmenn að falast eftir viðskiptum við fullorðnar konur. Þetta var eitt dæmi sem þær gáfu en eftir því sem gagnrýni á aðgerðir þeirra hefur orðið háværari hafa stuðningsmenn reynt að láta málið snúast um þetta tilvik sem þú bendir á.

    Ef sönnunarbyrgði væri svona létt væri örugglega hægt að koma meginþorra þjóðarinnar í fangelsi fyrir hin ýmsu „ætluðu“ brot. Ég efa það ekki að einhverjir menn á þessum lista hafi verið líklegir til að raunverulega kaupa vændi þegar á hólminn var komið en ég efa það heldur ekki að einhverjir menn á þessum lista hefðu ekki falast eftir vændi ef þeim hefði ekki verið boðið það og að einhverjir þeirra hafi t.d. verið að forvitnast fyrir forvitnis sakir og enn aðrir að fíflast.

    Og að lokum, ég er ekki að „verja þessa menn“. Ég er miklu fremur að verja mig og mína fyrir þjóðfélagsbreytingum sem ég tel neikvæðar.

%d bloggurum líkar þetta: