Brottnáms- og tálmunarmál Hjördísar Svan: Áður óbirt gögn

23.11.2013

Blogg

Sjálfsagt hefur enginn farið varhluta af máli Hjördísar Svan og hins danska Kim Gram Laursen en þau hafa um árabil staðið í hatrammri deilu um dætur sínar þrjár, þær Emmu, Mathildu og Miu sem Hjördís hefur ítrekað numið ólöglega á brott frá heimili þeirra í Danmörku og flutt hingað til Íslands, þvert á alla úrskurði sem fallið hafa í málinu í Danmörku og hér á Íslandi.

Eins og raunin er með flest ef ekki öll mál af þessum toga, birtist okkur í því sú mæðrahyggja sem veldur og viðheldur því að körlum er mismunað með kerfisbundnum hætti í forræðis- og umgengnismálum. Þá birtist okkur einnig sú undirliggjandi karlfyrirlitning sem í bland við mæðrahyggjuna viðheldur þessu vandamáli og jaðarsetur karla sem í svona baráttu standa. Það hefur sýnt sig að sé faðirinn af erlendu bergi brotinn, þá virðast gilda aðrar reglur en þegar um íslending er að ræða. Samfélagið allt leggst á eitt um að tæta í sig æru mannsins og fjölmiðlafólk leggur hefðbundin siðferðisviðmið til hliðar í umfjöllun um þessa menn.

Mæðrum er veittur, að því er virðist, óheftur aðgangur að fjölmiðlum þar sem þær fá að setja fram ærumeiðandi fullyrðingar um helvítis útlendinginn. Fullyrðingar sem merkilegt nokk, eru alltaf eins frá einu máli til annars. Þetta leggst vel í landann sem einatt virðist líta á fullyrðingar móður sem fullframkomnar sannanir fyrir andlegu, líkamlegu og jafnvel kynferðislegu ofbeldi. Næstum allir virðast ganga út frá því að móðir sem er ósátt við að börn sín séu ekki eingetin, sé í rétti þegar hún vill flytjast með börnin á brott frá heimalandi þeirra. Fáir virðast staldra við og ígrunda þá staðreynd að mæður í þessum málum hafa beina og ríka hagsmuni að því að sverta æru karlanna. Oft er þetta eina leiðin til að þær geti flutt með börnin til Íslands án samráðs við feðurna eftir að hafa eignast með þeim börn.

Til allrar hamingju er þessi kynbundna mismunun á undanhaldi hjá hinu opinbera, þ.e. lög og framkvæmd laga fer batnandi þó okkur mætti gjarnan miða hraðar. Það sama verður ekki sagt um viðhorf og hefðir samfélagsins þegar kemur að þessum málum. Kvennahreyfingin stendur með sínum og setur þessi mál einatt í samhengi við það sem þær kalla kerfisbundið ofbeldi karla gegn konum. Samtök femínista berjast svo gegn framgangi foreldrajafnréttis með beinum og skipulegum hætti og sýna lítinn vilja á samstarfi við réttindasamtök sem berjast fyrir jafnrétti á sviðum þar sem almennt hallar á karla.

Sifjamálin eru svo auðvitað sá málaflokkur sem einna best dregur fram þá hræsni sem einkennir baráttu kvennahreyfingarinnar sem rígheldur í forréttindi sem hið gamla kynjakerfi tryggði konum. Ef femínistar vildu í raun útrýma kynbundnu misrétti þá myndi hreyfingin hafna þeim forréttindum sem konur búa við á grundvelli kynferðis síns í málum sem þessum. Baráttufólk fyrir foreldrajafnrétti hefur bent á að með því að jafna ábyrgð og réttindi foreldra muni það sjálfkrafa hafa í för með sér aukna jafnstöðu á vinnumarkaði. Það virðist hinsvegar ekki hugnast kvennahreyfingunni að þurfa að taka ábyrgð í réttindabaráttu sinni. Að borða kökuna og eiga hana líka er eitthvað sem forréttindafemínistum hugnast betur að því er virðist.

Mál Hjördísar og Kim hefur farið í gegnum dómstóla sex sinnum. Bæði hér á Íslandi og í Danmörku. Minnst þrisvar hefur verið framkvæmt geðmat á málsaðilum (foreldrum og börnum) til að meta hæfni foreldranna auk þess að leggja mat á ásakanir Hjördísar á hendur fyrrum manni sínum um andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi gagnvart sér og börnum þeirra.

Málsskjöl sýna að Hjördís hefur haldið fast í þá kröfu að hún ein fari með forræði yfir börnunum og að þau dvelji hjá sér á Íslandi. Úr sömu skjölum má lesa að hún er ósveigjanleg í þessari afstöðu sinni. Skjölin sýna að Kim hefur aftur á móti óskað samstarfs við Hjördísi um umönnun barnanna og beinlínis viljað að börnin nytu samvista við hana þrátt fyrir hatramma baráttu þeirra í millum. Síendurtekið ólöglegt brottnám hennar á börnunum, nú síðast í ágúst á þessu ári og þá í fjórða sinn, sýnir að Kim hefur sýnt henni mikið traust og gríðarlegan samstarfsvilja þrátt fyrir að hún hafi ítrekað brugðist þessu trausti.

Mat sérfræðinganna, og dómar þeir sem fallið hafa í málinu, benda til þess að þau yfirvöld sem eru í hvað bestri stöðu til að meta öll gögn málsins hlutlaust, hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé fótur fyrir ásökunum Hjördísar. Ekki bara einu sinni, heldur sex sinnum. Það endurspeglast í því að dómar hafa alltaf fallið Kim í hag, fyrst með úrskurði um sameiginlegt forræði, en að börnin skyldu hafa lögheimili hjá honum, en síðar með því dæma honum fullt forræði yfir börnunum og þ.a.l. að hann skyldi verða lögheimilisforeldri þeirra einnig. Lesa má í sérfræðimati og dómum að Hjördís er að öllu leyti völd að því að dómarnir falla aftur og aftur þennan veg og það ætti ekki að reynast neinum erfitt að sjá að hún er sinn versti óvinur í þessu máli.

Við þessu hefur Hjördís brugðist með tvennum hætti. Annarsvegar með því að reka málið í fjölmiðlum og reyna að afla málstað sínum fylgis með því að spila inn á tilfinningar fólks og hinsvegar með því að nema börnin ólöglega á brott frá heimalandi sínu fjórum sinnum, nú síðast ágúst á þessu ári. Í þessu nýjasta brottnámsmáli naut hún fulltingis blaðakonunnar og femínistans Þóru Tómasdóttur sem skrifaði grein um hið ólöglega brottnám í æsifréttastíl og birti í tímaritinu Nýju Lífi sem lögmaður Hjördísar á einmitt og rekur. Í þessari grein, eins og reyndar í nánast allri annari umfjöllun innlendra miðla um málið, heitir það sem Hjördís gerir hér ekki ólöglegt brottnám barna heldur er ýmist talað um flótta eða hreinlega björgun.

Ég fullyrði að nánast allir sem lagst hafa á sveif með Hjördísi og blaðra um þetta mál í ummælakerfum og á samfélagsmiðlum hafa myndað sér skoðun á því á hreinum tilfinningalegum grunni. Ef maður skoðar feril málsins og málflutning Hjördísar gaumgæfilega sér maður fljótt að margt í því sem hún segir stenst ekki skoðun. Oftsinnis setur hún fram fullyrðingar sem eru beinlínis villandi en vel til þess fallnar að leika á fólk sem ekki hugsar með höfðinu.

Samband Hjördísar og Kim

Hjördís og Kim kynntust í desember árið 2002 í Horsens í Danmörku þangað sem Hjördís hafði flust búferlum með ungan son sinn, að eigin sögn til þess að læra dönsku. Þau bjuggu saman í Danmörku þar til í mars 2005 þegar þau fluttu með fjölskylduna til Bretlands þar sem þau bjuggu til júní 2006.

Frá Bretlandi fluttu þau til Íslands þar sem þau bjuggu í Hafnarfirði og síðar á Höfn í Hornafirði allt þar til ársins 2009 þegar Kim flutti til Danmerkur á ný og hóf störf hjá Lego. Þar undirbjó hann komu fjölskyldunnar sem að endingu kom í júní það sama ár. Dæturnar þrjár eignuðust þau í Danmörku 2004, Bretlandi 2006 og á Íslandi 2007.

Lengst af bjuggu þau Hjördís og Kim saman í óvígðri sambúð en þau létu gefa sig saman við borgaralega athöfn í Ráðhúsinu í Horsens í nóvember 2009. Það er Kim sem vinnur fyrir fjölskyldunni allan þennan tíma en Hjördís er að mestu heimavinnandi. Það er svo í mars árið 2010 sem Kim ákveður að skilja við Hjördísi, flytur út af heimilinu og tímabundið inn til systur sinnar.

Mars 2010: Hjördís nemur börnin ólöglega á brott í fyrsta sinn

Án samráðs við Kim, flýgur Hjördís til Íslands með dætur þeirra þrjár þann 22. mars. Hún hafði, þennan dag, látið líta svo út að hún væri að fara með börnin á leikskólann en sjálf sagðist hún vera að hefja nýtt nám þennan morgun. Kim kemst svo að því símleiðis á hádegi þessa sama dags hvers kyns er en þá tilkynnir Hjördís honum að hún og börnin séu á leiðinni með flugi frá Kaupmannahöfn til Íslands. Á þessum tíma voru Hjördís og Kim með sameiginlegt forræði yfir börnum sínum og börnin með lögheimili í Danmörku.

Aðeins nokkrum vikum eftir hið ólöglega brottnám, eða í apríl 2010, fer Hjördís aftur með börnin til Danmerkur eftir að hafa lærst það í umleitunum við hérlend barnaverndaryfirvöld að á grundvelli Haag samningsins hefðu íslensk stofnanir enga aðkomu að málinu og með það þyrfti að fara fyrir dönskum félags- og dómsmálayfirvöldum.

Málsskjöl sýna að eftir að hún kom aftur til Danmerkur tálmaði hún Kim umgengni við börn sín og fór huldu höfði í landinu. Á þessum tíma byrjar hún að leggja fram alvarlegar ásakanir á hendur Kim um margháttað ofbeldi gegn sér og börnum þeirra en því hefur Kim staðfastlega neitað. Þá sýna gögn að krafa um ákvörðun um inntak umgengnisréttar hafi verið send til dómstóla, þar sem Hjördís hafi neitað allri samvinnu um umgengnina og náð að tálma umgengni frá skilnaði í mars 2010 þar til um miðjan júní það sama ár.

Nokkur orð um Haag samnginginn

Haag samningurinn svonefndi er samningur um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa en hann var gerður í Haag þann 25 október 1980. Ísland er aðili að samningi þessum og hefur sem aðildarþjóð bæði réttindi og skyldur samkvæmt honum. Samningurinn kveður m.a. á um að þegar deilur um forræði eða umgengni barna koma upp er það yfirvalda þess lands sem fjölskyldan býr í að meðhöndla málið og eftir atvikum fella úrskurði um forræði, lögheimili og umgengni.

Sú ótvíræða skylda hvílir á Íslandi samkvæmt samningnum að barni, sem hefur verið flutt með ólögmætum hætti til Íslands, eða sem er haldið á ólögmætan hátt hér á landi, skuli skilað þegar í stað til heimalands. Ákvarðanir um afhendingu barna samkvæmt framansögðu eru teknar af héraðsdómara.

Héraðsdómari getur þó, þegar sérstaklega stendur á, þrátt fyrir þá niðurstöðu að um ólögmætt brottnám eða hald sé að ræða, ákveðið að barnið verði ekki afhent til heimaríkis þess m.a. ef alvarleg hætta er á að afhending muni skaða barnið andlega eða líkamlega, eða koma því á annan hátt í óbærilega stöðu eins og segir á vef Innanríkisráðuneytisins. Bæði aðildarríki þessa máls, Ísland og Danmörk hafa fullgillt þennan samning og bera því skyldur skv. honum.

Hér myndast hvatinn til að bera föður sakir um ofbeldi enda eina færa leiðin til að móðir geti flutt með börn sín til upprunalands síns og virt rétt föður og barna að vettugi. Það ætti ekki að vera erfitt, fyrir hvern sem er, að skilja að móðir sem ætlar sér að ná sínu fram í svona málum,  á kostnað allra annara, mun ávalt beita þessari aðferð þar sem þetta er einfaldlega eina leiðin sem henni er fær vilji hún flytja til upprunalands með börn sín án samþykkis föður og vera þar óáreitt.

September 2010: Málarekstur hefst fyrir Héraðsdómur í Kolding

Hjördís reyndi að hafa áhrif á félagsmálayfirvöld með það fyrir augum að láta breyta högun umgengni og forræðis með börnum þeirra. Hún sýndi engan samningsvilja en kaus þess í stað að efna til málaferla fyrir Héraðsdómi Kolding í september 2010.

Skv. bráðabirgðaúrskurði átti Kim að vera tryggð umgengni við börnin meðan á rekstri málsins stóð, aðra hverja viku, í tvö fyrstu skiptin 25. september og 9. október frá klukkan 10 á laugardegi til klukkan 12 á sunnudegi. Í framhaldinu átti umgengni föður að vera aðra hverja viku frá föstudags eftirmiðdegi til klukkan 12 á sunnudegi.

Gögn málsins sýna að Kim gerir upprunalega kröfu um að vegabréf barnanna séu tekin af Hjördísi og forræðið með börnunum sé alfarið hjá honum á meðan málið biði afgreiðslu. Hann féll síðar frá þeirri kröfu gegn því að Hjördís vistaði vegabréf barnanna hjá lögmanni sínum auk þess sem lögmaður gaf yfirlýsingu fyrir réttinum í umboði Hjördísar, þar sem hann sagði að enginn hætta væri á að hún myndi nema börnin ólöglega á brott. Þetta er augljóslega gert vegna ótta Kims við að hún nemi börnin aftur á brott með ólögmætum hætti en vistun vegabréfanna hjá lögmanni Hjördísar átti að minnka líkur á að þetta gerðist.

Október 2010: Hjördís nemur börnin ólöglega á brott í annað sinn

Þann 22. október, í miðjum málaferlum og áður en sálfræðimat getur að fullu farið fram, nemur Hjördís börnin ólöglega á brott í annað sinn og fer með þau til Íslands. Sama dag og Kim hittir hinn sérfróða matsmann fær hann tölvupóst frá Hjördísi þar sem hún tjáir honum að þær mæðgur séu fluttar til Íslands. Þetta er í annað sinn sem hún nemur börnin ólöglega á brott og nú í miðju dómsmáli sem hún sjálf stofnaði til og áður en sérfræðingur getur klárað sálfræðimat og lagt fyrir dóminn.

Hjördísi var þegar í stað send áskorun frá lögmanni danskra yfirvalda um að koma á lögmætu ástandi þar eð flutningur hennar með börnin til Íslands teldist sannarlega ólögmmætur. Fram kemur í málsskjölum að Hjördís ómakaði sig ekki við að svara þessari áskorun heldur hafi yfirvöld túlkað ummæli hennar í fjölmiðlum á þann veg að áskorun yrði ekki sinnt. Þá sýna gögn málsins að sjálfur lögmaður Hjördísar skoraði ítrekað á hana að snúa aftur með börnin og upplýsir hana um ólgömæti aðgerða hennar. Ekki verður annað séð en að Hjördís hafi komið þessum lögmanni sínum í bobba með því að bregðast trausti hans, sem hún gerir með því að stinga af eftir að lögmaðurinn hafði staðfest fyrir rétti að hún myndi ekki gera það og að hann myndi vista vegabréf barna þeirra hjá sér.

Við blasir að Hjördís hætti að verja hagsmuni sína í þessu tiltekna máli með því að mæta ekki aftur fyrir réttinn eins og að henni var lagt. Það leiddi til þess að niðurstaða var fengin án frekari aðkomu hennar. Vegna brotthvarfs Hjördísar og málareksturs hennar fyrir íslenskum dómstólum, tefst afgreiðsla málsins fyrir Héraðsdómi Kolding.

Nóvember 2010: Málarekstur hefst fyrir héraðsdómi Austurlands

Um leið og Hjördís nam börn þeirra Kim á brott í október 2010 gerðu dönsk yfirvöld kröfu um að íslensk yfirvöld tækju börnin af Hjördísi og sendu til Danmerkur eins og Haag samningurinn kveður á um að gert sé í tilvikum sem þessum, þ.e. gerð var svokölluð innsetningarkrafa fyrir Héraðsdómi Austurlands.

Hjördís grípur til þeirra einu varna sem gætu ógilt afhendingarákvæði Haag samningsins í þessu máli og hefur uppi ásakanir um ýmisskonar ofbeldishegðun Kims. Þá krefst hún þess fyrir dómi að sérfræðingur verði fenginn til að meta afstöðu barnanna til kröfunnar. Barna sem á þessum tíma voru þriggja, fjögurra og sex ára gömul.

Eftir að bæði Kim og Hjördís höfði gefið yfirlýsingu um að þau myndu una niðurstöðu sérfræðimatsins var Gunnar Hrafn Birgisson, sálfræðingur, fenginn til að ræða við börnin og meta með tilliti til framkominna ásakanna.

Mat hans eins og það er kynnt í dómi Héraðsdóms Austurlands er sem hér segir:

„Að mati Gunnars Hrafns séu stúlkurnar ekki dómbærar á það hvað sé þeim fyrir bestu í máli þessu. Þær taki afstöðu með móður á móti föður og þeim hætti til að líta á þetta mál á svart-hvítan hátt, þannig að móðir sé nærri algóð og geri allt rétt en faðir nær alvondur og geri margt rangt. Að mati Gunnars Hrafns sé mikilvægt að telpurnar verði losaðar úr því að líta á málin með þessum hætti og að foreldrar standi saman um að leiðrétta þetta.

Framburður telpnanna í viðtölum þessum bendi að mati Gunnars Hrafns hvorki til þess að þær systur þrjár hafi orðið fyrir ofbeldi né orðið vitni að því. Sálrænt ástand þeirra bendi heldur ekki til þess að þær hafi orðið fyrir áföllum af völdum heimilisofbeldis eða annars. Þrátt fyrir það séu þær óöruggar gagnvart föður og hafi áhyggjur af því að hann kunni að taka þær frá móður þeirra. B hafi áhyggjur af því að móðir þeirra verði af völdum föður skilin eftir ein á Íslandi.

Afstaða telpnanna í málinu virðist byggja á því að þær taki afstöðu með móður og vilji vera hjá henni. Þær virðist vera óöruggar og í varnarstöðu gagnvart föður. Þær hafi ekki skilning á orsökum þess að fjölskyldan hafi rofnað en þær virðist kenna föður um það og finna sig knúnar til að velja á milli foreldra sinna. Í umræðum telpnanna um föður virðist neikvæð atriði, t.d. það að faðir hafi hent púða í B, hafa verið blásin út þannig að stúlkurnar hafi sannfærst um að faðir þeirra sé vondur maður.

Athygli veki að telpurnar hafi frá tiltölulega litlu neikvæðu að segja um föður beinlínis af eigin reynslu. Þær virðist heldur ekki hafa frá neikvæðu að segja um hann sem þær hafi eftir öðrum, annað en það að hann ætli sér að taka þær frá móður og skilja hana eftir eina. Þær virðist horfa framhjá eða ekki leyfa sér að minnast góðra samverustunda með föður og séu hikandi að tala jákvætt um hann. Þær virðist magna upp hjá sér nokkurn ótta við hvað hann gæti hugsanlega gert þeim eða móður þeirra. Þær virðist að nokkru leyti álíta föður ógna öryggi þeirra.

Telpurnar virðist lítið muna eða vita um hvað hafi gerst í samskiptum foreldra þeirra í Danmörku í aðdraganda þess að móðir hafi flutt með þau systkinin til Íslands. Svo virðist sem móðirin hafi lent í erfiðri stöðu þar verandi útlendingur í landinu og einstæð með fjögur börn. Telpurnar virðist lítið vita um þær aðstæður sem þá hafi skapast hjá þeim og móður.

Sú spurning vakni hvaða möguleika móðirin hafi átt til að bjarga sér í framandi umhverfi og skapa börnunum öryggi þar úti eftir sambúðarslitin. Einnig vakni spurning um það hvernig faðir hafi hugað að hagsmunum barnanna við þær aðstæður og hvort hann hafi staðið að því með ábyrgum hætti gagnvart börnunum þegar móðir hafi verið með þau í þessari erfiðu stöðu. Út frá þessari athugun sem byggist á viðtölum við börnin fáist þeim spurningum ekki svarað.

Ljóst sé að A og B treysti móður og vilji vera hjá henni frekar en föður. Svo virðist að C sé sama sinnis. Það að telpurnar virðist sjá þá lausn eina í deilu foreldranna að þær snúi baki við föður eða hann hverfi úr lífi þeirra, gangi að mati Gunnars Hrafns gegn bestu hagsmunum þeirra og velferð. Ráðlegt sé að foreldrarnir taki höndum saman um að bæta samvinnu sína með dæturnar, að þeir standi saman að því að koma á umgengni feðginanna hið fyrsta og að því að hlúa að jákvæðum samskiptum dætra sinna við báða foreldra.

Gunnar Hrafn gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins, staðfesti hina skriflegu skýrslu og svaraði spurningum um efni hennar.“

Þá segir um mat Gunnars í dómsniðurstöðu:

„Niðurstaða Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings, sem hefur áratuga reynslu af að vinna með börnum í tengslum við mál er varða forsjá þeirra og velferð, var sú að hann sæi engin merki þess að telpurnar þrjár hefðu orðið fyrir ofbeldi sjálfar eða að þær hafi orðið vitni að ofbeldi. Sálrænt ástand þeirra bendi heldur ekki til þess að þær hafi orðið fyrir áföllum af völdum heimilisofbeldis eða annars. Þá svaraði Gunnar Hrafn því afdráttarlaust í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi ekki orðið var við neitt sem benti til þess að telpunum gæti stafað hætta af sóknaraðila málsins. Taldi Gunnar að í umræðum telpnanna hefðu neikvæð atriði varðandi föður verið blásin út þannig að stúlkurnar hafi sannfærst um að hann væri vondur maður. Hann telji þó athygli vert að þær hafi frá tiltölulega litlu neikvæðu að segja um föður sinn beinlínis eftir eigin reynslu.“

Og:

„Fram kemur hjá Gunnari Hrafni Birgissyni að hann telur að það sé mikilvægt að börnin séu losuð út úr því að taka afstöðu með móður á móti föður og verður niðurstaða hans ekki skilin öðruvísi en hann telji það andstætt hagsmunum barnanna verði þetta ekki gert. Kemur þegar af þeirri ástæðu ekki til greina að byggja í málinu á viljaafstöðu barnanna en einnig vegur hér þungt að elsta telpan er aðeins sex ára.“

Þann 7. Febrúar 2011 fellir Héraðsdóms Austurlands eftirfarandi dóm í málinu:

„Sóknaraðila (Kim) er heimilt að liðnum sex vikum frá uppsögu þessa úrskurðar að fá, A, fædda 2004, B, fædda 2006 og C, fædda 2007, teknar úr umráðum varnaraðila, (Hjördísar) og afhentar sér með beinni aðfarargerð, hafi varnaraðili ekki áður fært þær til Danmerkur eftir því sem nánar greinir í forsendum þessa úrskurðar.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hennar Sveins Andra Sveinssonar hrl. sem þykja hæfilega ákveðin 502.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Kæra úrskurðarins til Hæstaréttar frestar framkvæmd hans.“

Febrúar 2011: Málið fer fyrir Hæstarétt Íslands

Hjördís áfrýjar dómi Héraðsdóms Austurlands til Hæstaréttar strax í febrúar 2011. Um afgreiðslu Hæstaréttar er ekki mikið að segja annað en að Hæstiréttur staðfestir dóm Héraðsdóms Austurlands í einu og öllu þann 7. mars 2011:

„Sóknaraðila (Kim) er heimilt að liðnum sex vikum frá uppsögu þessa úrskurðar að fá, A, fædda 2004, B, fædda 2006 og C, fædda 2007, teknar úr umráðum varnaraðila, (Hjördísar) og afhentar sér með beinni aðfarargerð, hafi varnaraðili ekki áður fært þær til Danmerkur eftir því sem nánar greinir í forsendum þessa úrskurðar.“

Mai 2011: Málarekstur heldur áfram fyrir Héraðsdómi Kolding

Í mai 2011 tekur Héraðsdómur Kolding upp þráðinn þaðan sem frá var horfið þegar Hjördís nam börnin ólöglega á brott í miðjum málarekstrinum gegn Kim. Sálfræðimat er unnið og klárað yfir sumarmánuðina 2011.

Þegar Hjördís kemur aftur með börnin til Danmerkur kýs hún að dvelja með börnin í Kaupmannahöfn þó Kim hafi dvalarstað í Vejle, þaðan sem hún hvarf í annað skiptið sem hún nam börnin á brott árið áður. Þetta þýddi um þriggja klukkustunda akstursferð fyrir börnin í hvert sinn sem þau ferðuðust til og frá föður til að njóta samverustunda sem naumt voru skammtaðar fyrir.

Á meðan þessi málsmeðferð fer fram er Hjördís ekki skráð með heimilisfesti í Danmörku en hún skráir sig hinsvegar til heimilis í landinu eftir dómsúrskurð í þessu máli sem aftur gerir henni kleift að búa til ný gögn í undirbúningi sínum fyrir næsta mál.

Í október 2011 er dómur kveðinn upp. Forræði skyldi verða sameiginlegt en lögheimili barnanna skyldi vera á heimili Kim.

Niðurstaðan í heild sinni:

“Af niðurstöðu sérfræðimats veður ekki annað ráðið en að bæði sóknaraðili og varnaraðili finni til ábyrgðar sinnar gagnvart börnunum og séu hæfir til að annast þau. Viðhorf þeirra eru svipuð og þau ættu bæði að hafa góðan grunn til að byggja foreldrahlutverk sitt á.

Niðurstöður gefa einnig til kynna að börnin tengist bæði móður og föður. Í ljósi kringumstæðna í þessu máli eru tilfinningatengsl þeirra við móður sterkari en grunnviðhorf til föður eru þó ólöskuð. Því má ætla að gagnkvæm tilfinningatengsl við föður megi endurbyggja tiltölulega hratt.

Tiltekið er að mikilvægt sé fyrir velferð og tilfinningaþroska barnanna að njóta reglulegrar og mikillar samveru við bæði föður og móður. Þá segir í niðurstöðu að báðir foreldrar ættu að viðhalda tilfinningatengslum við börnin, burt séð frá hjá hvoru þau búi, og að börnin megi ekki aftur upplifa missi, hvorki í heild né að hluta.

Varnaraðili lét við málsmeðferð í ljós þá grundvallarskoðun sína að hún væri andsnúin sambandi / samskiptum barna við föður. Hún hefur, undir málsmeðferð þessari, numið börnin á brott og farið með þau til Íslands en á þeim tíma meinaði hún föður að hafa samskipti við börnin sem leiddi til þess að Rétturinn þurfti að kveða upp bráðabirgðaúrskurð um umgengni á meðan málsmeðferð stæði. Varnaraðili hefur á öllum stigum málsins haldið því fram að það þjóni ekki hagsmunum barnanna að að vera með föður sínum. Það eru engin gögn fram komin sem styðja neikvæða lýsingu á sóknaraðila sem föður og þá hefur sérfróður aðili lýst því yfir í niðurstöðu sérfræðimats, að ekkert bendi til þess að börnin hafi upplifað skaða eða orðið fyrir einhverskonar áfalli samskiptum sínum við föður.

Á grundvelli þessarar niðurstöðu, er það mat Réttarins að ástæða sé til að óttast að varnaraðili muni ekki stuðla að því að börnin njóti viðvarandi samskipta við föður ef börnin búa hjá varnaraðila og muni þannig vanrækja skyldur sínar gagnvart börnunum.

Sóknaraðili hefur við meðferð málsins lýst eindregnum vilja til að eiga samstarf við varnaraðila um ummönnun barnanna. Þá hefur hann sýnt að hann hefur skilning á mikilvægi þess að börnin haldi góðum tengslum við báða foreldra sína og sagt það sinn vilja.

Rétturinn álítur, í ljósi ofangreinds, að velferð barnanna sé best tryggð, búi þau hjá föður.

Í ljósi afstöðu sóknaraðila til mikilvægis þess að aðilar eigi gott samstarf um ummönnun barna sinna, er það mat Réttarins að aðilar muni geta sinnt skyldum sínum gagnvart börnunum ef þau búa hjá föður. Rétturinn tekur þannig undir varakröfu föður um að börnin skuli búa hafa lögheimili hjá honum eftirleiðis.

Þar sem varnaraðili hefur ekki enn ákveðið hvar hún muni dvelja á meðan börnin eru í Danmörku, getur Rétturinn ekki tekið afstöðu til högunar umgengnisréttar til handa henni.

Á þessum forsendum er það niðurstaða Réttarins að;

Forræði með börnunum þremur, Emma Soldis Gram Laursen, Matild Sóldís Gram Kimsdóttir og Mia Sóldís Gram Kimsdóttir verði sameiginlegt og að lögheimili þeirra skuli vera hjá Kim Gram Laursen.

Hvorugur aðili skal greiða hinum málskostnað né heldur til ríkis.

Hanne Rasmussen,
Dómari“

Niðurstöður sálfræðimatsins

Niðurstöður sálfræðimatsins sem gert var undir málarekstri fyrir Héraðsdómi Kolding voru gefnar út í júlí 2011. Í skýrslu sálfræðings segir:

„Það er niðurstaða mín að börnin sýna eðlilegan þroska og eru vel fúnkerandi miðað við aldur.

Í hegðunarmynstri barnanna kemur ekkert fram sem bendir til þess að þau hafi upplifað skaða eða orðið fyrir einhverskonar áfalli samskiptum sínum við föður. Þau treysta honum og þykir vænt um hann en á sama tíma hafa þau tilfinningu fyrir að eitthvað sé athugavert við hann og að þau eigi að halda fjarlægð við hann.

Á meðan Mia er á þroskastigi þar sem hún kennir öðrum um  eru Emma og Matilda í tilfinningalegum vanda um hvað þeim á að finnast um föður sinn og hafa á tilfinningunni að það sé eitthvað rangt við hann.

Emma og Matilda leyfa sér að finnast vænt um föður sinn en þurfa að finna sig í því þar sem þær reyna að halda aftur af þessum tilfinningum.

Hjá föðurnum upplifi ég að samskiptin einkennist af líflegum og glöðum börnum sem gátu ekki fengið næga líkamlega snertingu frá honum. Þær sækjast í hann án ástæðu og eru mjög náin tilfinningaleg tengsl á milli þeirra.

Hjá móðurinni bera samskiptin keim af venjulegum degi að miklu leyti enda í þekktum/kunnuglegum aðstæðum þar sem vitað var við hverju var að búast hvert frá öðru. Það er kærleiksríkt og hlýlegt samband milli móður og barna og þau bera til hennar mikið traust.

börnin tengjast bæði móður og föður. Í ljósi kringumstæðna í þessu máli eru tilfinningatengsl þeirra við móður sterkari en grunnviðhorf til föður eru þó ólöskuð. Því má ætla að gagnkvæm tilfinningatengsl við föður megi endurbyggja tiltölulega hratt.

Báðir foreldrar sýna heilbrigða virkni án persónuleikaþátta sem staðið gætu í vegi fyrir getu þeirra til að annast börnin. Þau virðast ábyrg og skilningsrík gagnvart börnunum og í samskiptum við börnin virðast þau bæði sýna börnum sínum skilning og hafa getu til að mæta þörfum þeirra.

Að mínu mati er orsök deilnanna ekki að leita í skorti á hæfni foreldranna, fremur viðhorfi þeirra til hlutverks hvors annars.

Faðirinn viðurkennir hæfni móður til að sinna hlutverki sínu en móðirin er aftur á móti þeirrar skoðunar að faðirinn sé ekki heill á geði og ófær um að sinna börnunum. Í augum móðurinnar er það réttlætanlegt að það sé hún, nú og í framtíð, sem annist börnin. Hún sér fyrir sér framtíð sína og barna sinna á Íslandi og hagar aðgerðum sínum eftir því.

Það er mat mitt að skilningur móðurinnar, og þar með forsendur fyrir aðgerðum hennar, sé ekki réttur. Það er skoðun mín að á þessum grunni, og án þess að vilja það, bregðist hún skyldum sínum til að annast um börnin.

Það er skiljanlegt að þessi mikli afstöðumunur foreldra leiði til þess að þeim takist ekki að eiga eðlilegt samstarf um uppeldi barna sinna. Ég vænti þess þó að þau muni una þeirri niðurstöðu sem fæst í málinu og að í framhaldinu verði hægt að koma á samstarfi sem þjóni hagsmunum barnanna.

Það er mikilvægt fyrir velferð og tilfinningaþroska barnanna að njóta reglulegrar og mikillar samveru við bæði föður og móður. Mikilvægt er að tilfinningasambandi við umgengnisforeldri sé viðhaldið til frambúðar, burt séð frá hjá hvoru þau búi, og að þau upplifi ekki aftur missi, hvorki í heild né að hluta. Báðir foreldrar ættu að stuðla að því að börnin hafi jákvæð viðhorf til bæði móður og föður.

Ef börnin koma til dvalar hjá föður, er mikilvægt að sterkum tengslum við móður sé viðhaldið. Ef börnin munu búa hjá móðurinni, er mikilvægt að stuðlað sé að enduruppbyggingu sambands þeirra við föður sinn. Mögulega með því að hann hafi þau til skamms tíma umfram það sem venjubundið er.“

Janúar 2012: Málarekstur hefst fyrir Vestri Landsrétti

Hjördís áfrýjar niðurstöðu Héraðsdóms Kolding til Vestri Landsréttar og er málið tekið fyrir í janúar 2012 og afgreitt í sama mánuði. Niðurstaða Héraðsdóms Kolding er staðfest, Kim og Hjördís skulu fara sameiginlega með forræði barnanna en lögheimili skal fylgja föður.

Febrúar 2012: Hjördís nemur börnin ólöglega á brott í þriðja sinn

Eins og kannski mátti búast við af fenginni reynslu, nam Hjördis börnin ólöglega á brott í febrúar 2012. Nú í þriðja sinn og innan við mánuði eftir að niðurstaða fékkst í áfrýjunarmáli sem hún höfðaði og tapaði. Að þessu sinni fregnaði Kim það í gegnum lögmann sinn að Hjördís og dætur þeirra væru komnar til Íslands.

Hér á landi fór Hjördís huldu höfði og Kim gat því ekki haft samband við börn sín.

Júlí 2012: Börnin tekin af Hjördísi með aðfarargerð

Í júlí 2012 gerist það að sýslumaður fer á dvalarstað Hjördísar og tekur börnin þrjú af henni á grundvelli innsetningarkröfunnar sem staðfest var með dómi Héraðsdóms Austurlands og síðar Hæstaréttar Íslands. Þegar fulltrúi sýslumanns kemur á staðinn eru þar fyrir um 10 – 15 stuðningsmenn Hjördísar og fulltrúinn metur aðstæður svo að réttast sé að kalla lögreglu á staðinn sem hann og gerir.

Framkvæmd innsetningaraðgerðarinnar, og þá sérstaklega hlutur lögreglu í henni, hefur verið harðlega gagnrýnd af Hjördísi og fylgismönnum hennar. Þá hefur Hjördís talað um það í einhverjum hinna fjölmörgu viðtala sem íslenskt fjölmiðlafólk hefur tekið við hana, að Kim hafi ekki einu sinni haft fyrir því að vera á staðnum þegar innsetningaraðgerðin var framkvæmd og sagt það vera til marks um áhuga- og skeytingarleysi hans gagnvart börnunum.

Hjördís skautar fram hjá því að þetta var í þriðja sinn sem sýslumaður gerði tilraun til að framfylgja úrskurði dómstóla landsins. Í hin tvö skiptin lét Hjördís sig hverfa með börnin og í þau skipti hafði Kim ferðast hingað til lands ásamt fylgdarliði á sinn kostnað í erindisleysu. Daginn eftir að börnin voru fjarlægð frá Hjördísi lendir Kim á Íslandi og sækir börnin til að fara með þau aftur til síns heima.

Af einherjum stórundarlegum ástæðum virðist enginn fjölmiðlamaður spyrja sig hversvegna Hjördís lét til þess koma að taka þyrfti börnin úr fangi hennar þegar hún hefði vel getað forðað því að þau yrðu fyrir slíkri reynslu. Varla hélt Hjördís að embætti sýslumanns myndi bara sleppa því að framfylgja úrskurði dómstóla ef það yrði þeim óþægilegt? Þetta er bersýnilega gert til að afla henni fylgis meðal fólks sem ekki hefur vald yfir tilfinningum sínum. Hér setur hún því hagsmuni sína ofar hagsmunum barna sinna með freklegum og skaðlegum hætti fyrir börnin.

Ágúst 2012: Nýtt mál fyrir Héraðsdómi Kolding

Í ágúst 2012 er málið aftur tekið fyrir af Héraðsdómi Kolding. Enn að kröfu Hjördísar. Dómur er kveðinn upp í september það sama ár og nú kveður svo við að Kim er dæmt fullt forræði yfir börnunum þremur. Þessari niðurstöðu er áfrýjað til Vestri Landsréttar í október 2012 og er það í annað sinn sem mál Hjördísar og Kim kemur fyrir Vestri Landsrétt.

Febrúar 2013: Málarekstur fyrir Vestri Landsrétti

Áfrýjunarmálið er dómtekið í febrúar 2013. Rétturinn mælir strax fyrir um að gert verði nýtt sálfræðimat svo hægt sé að meta nýframkomnar ásakanir Hjördísar um ofbeldi Kims á hendur börnunum.

Vinna við sálfræðimatið fer fram á þriggja mánaða tímabili frá mars til og með mai 2013. Í þessu mati er rætt við báða foreldra og börnin þrjú. Þá er einnig rætt við starfsfólk skóla og leikskóla sem börnin sækja og lagt mat á gögn sem Hjördís hefur lagt fram sem eiga að staðfesta ofbeldi Kim á hendur börnunum.

Niðurstaða sálfræðingsins var kynnt í mai og er hún þessi:

„Hér er um tvö blóðforeldri að ræða þar sem móðirin Hjördís SA er frá Íslandi en faðirinn Kim GL frá Horsens. Þau eiga saman þrjú börn á aldrinum 5 – 9 ára. Móðirin, Hjördís SA, átti fyrir dreng sem nú er 15 ára og býr hjá frænku sinni á Íslandi.

Parið átti í sambandi frá árinu 2003 til 2010 og í sambandinu gætti nokkurrar togstreytu. Frá 2010 hafa verið uppi miklar deilur um búsetu og í beinu framhaldi forræðisdeila. Á meðan sambúð þeirra stóð bjuggu þau í Bretlandi, Íslandi og Danmörku.

Fyrir liggja margir úrskurðir í máli þessu frá Héraðsdómi Kolding, Landsrétti, Héraðsdómi Austurlands á Íslandi sem síðar var staðfestur í Hæstarétti ásamt ákvörðun barnaverndaryfirvalda á Íslandi. Í tengslum við málareksturinn hafa komið að aðrir sérfræðingar s.s. íslenskir og danskir sálfræðingar.

Móðirin, Hjördís SA segir að faðirinn hafi beitt ofbeldi í sambandi þeirra. Einkum gegn syni hennar og elstu dóttur þeirra, Emmu. Hún er eindregin í þeirri afstöðu sinni að faðirinn sé ofbeldismaður. Þá liggja fyrir skýrslur, núna nýlegast skýrsla sem á að lýsa kynferðislegu ofbeldi föðurins gegn yngstu dóttur þeirra, Miu.

Ásakanir um ofbeldi hefur verið ástæða þess að móðirinn hefur í þrígang flutt með börnin til Íslands án samþykkis föður. Tvisvar hefur Hjörís SA verið ákærð fyrir ólöglegt brottnám barnanna. Aðilar málsins gefa mismunandi upplýsingar um hvort málaferlum á Íslandis sé lokið eða ekki.

Hjördís SA virðist vera föst fyrir og ósveigjanleg í neikvæðri afstöðu sinni til föðurins. Þá virðist hún ekki gefa því gaum hvernig hennar eigin hegðun hefur viðhaldið deilunum og fest börnin í vítahring. Hún virðist fyrst og fremst líta á sig sem verndara barnanna og sýnir lítinn skilning á trygglyndi barnanna. Verði henni dæmt forræði yfir börnunum vill hún einungis að faðirinn fái að sjá börnin undir eftirliti og þá ekki fyrr en eftir að rannsókn, á ásökunum hennar um ofbeldi í þeirra garð, lýkur.

Faðirinn, Kim GL hafnar ásökunum um líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi. Hann sakar móðurina um að stunda neikvæða innrætingu og lygar.

Hann virðist hafa lítinn skilning á trygglyndi barna sinna og er óeðlilega ýtinn við þau auk þess sem hann leggur hart að þeim að þau segi ekki ósatt í viðtölum vegna málsins.

Hann er þeirrar skoðunar að börnin þurfi að njóta tengsla við móðurina og leggur til að hún hafi umgengi við þau aðra hvora helgi frá föstudagskvöldi til mánudagsmorguns.

Það er mat undirritaðs að báðir foreldrar séu hæfir til að uppfylla grunnþarfir barna sinna. Bæði sýna þau getu til að skapa þeim eðililegan ramma, gæta að og stuðla að örvun við hæfi þess aldurs sem börnin eru á. Þá virðast þau bæði hafa tilfinningu fyrir hverju einu barni á einstaklingsgrunni.

Átök milli foreldranna eru mjög mikil og börnin sýna þess glögglega merki að hafa orðið fyrir áhrifum af þeim.

Öll börnin þrjú virðast vera í tilfinningatengslum við báða foreldra sína og sýna hvoru þeirra um sig mikið trygglyndi. Þau tjá þörf fyrir, og kosti við báða foreldra. Öll börnin þrjú virðast þó halda þessari þörf leyndri og finnst þau ekki geta tjáð hinu foreldrinu frá tilfinningum sínum vegna tryggðar sinnar.

Undirrituðum virðist sem stúlkurnar hafi þurft að tjá sig um ástandið svo oft og við svo marga, að þær kunni að virðast óöruggar og óvissar um eigin reynslu, umfang hennar og þess hvað það er sem þetta fullorðna fólk er að leita eftir. Margar ásakanirnar gegn föðurnum virðast mjög almenns eðlis og endurteknar. Í tilviki allra þriggja stúlknanna hefur að mínu mati ekkert komið fram sem bendir til þess að þær hafi erfiða reynslu af föður eða að þær hafi orðið fyrir einhverskonar áfalli í samskiptum sínum við föður. Allar þrjár sýna tilfinningalega tengingu við föður og bera til hans gleði og traust. Það er ekkert samræmi milli framkominna fullyrðinga um föður og hegðunar stúlknanna í nálægð við hann.

Yngsta stúlkan sýnir helst einkenni pressu og óþæginda. Hún sýnir einkenni barns sem býr ekki við eðlilegan stöðugleika eða tengsl við jafningja/vini en það má rekja til þess að talsvert rof hefur verið á leikskólagöngu hennar vegna deilna foreldranna. (Mia er nú byrjuð í skóla og faðirinn segir hana vera ræðnari og almennt opnari eftir þá breytingu).

Eldri stúlkurnar tvær sýna í daglegu lífi sínu eðlilegan þroska og virkni miðað við aldur. Líf þeirra virðist hafa náð stöðugleika hvað varðar, menntun, félags- og tilfinningalíf. Börnin lýstu löngun til að búa hjá móður og lýstu tengslum við Ísland.

Verði móðurinni dæmt forræði, munu börnin líklegast flytjast með móður sinni til Íslands. Þau munu upplifa enn eitt rofið á tengslum sem einkum eldri stúlkurnar hafa byggt upp. Þetta kann að valda skaða sem stendur þá í samhengi við þá óreglu sem þær hafa lifað við hingað til og koma niður á tengslamyndun við jafningja/vini. Mikilvægt er að umgengni allra þriggja stúlknanna við föður verði regluleg og varanleg komi til þess að núverandi högun forræðis og lögheimilis verði breytt.

Móðirin tekur mjög afgerandi neikvæða afstöðu gegn föður. Ósveigjanleg afstaða hennar til sambands stúlknanna við föður og skortur á skilningi fyrir því að það kann að vera önnur hlið á á málinu en sú mynd sem hún dregur upp, gerir stúlkunum erfitt að viðhalda sambandi við föður sinn og mynda sér sjálfstæða skoðun á honum sem byggir á reynslu þeirra sjálfra.

Á grundvelli þess sem fram hefur komið í matsgerð minni þá er það mat mitt að móðirin eigi í erfiðleikum með að stofna til og viðhalda eðlilegu samstarfi við föðurinn.

Ef föðurnum verður dæmt forræðið munu stúlkurnar, einkum þær tvær eldri, getað viðhaldið því sambandi sem þær hafa þegar myndað við föður. Hvað viðvíkur yngstu stúlkunni þá er mikilvægt að skapaður sé friður og jafnvægi í lífi hennar og að henni sé hlíft við átökum foreldra í sínu daglega umhverfi.

Þá verður það öllum þremur stúlkunum áfram mikilvægt að vera í reglulegum og góðum tengslum við móður sína. Faðirinn hefur lagt til hvernig slíku samstarfi megi hátta og virðist skilja þörf barnanna fyrir tengsl við móður. Þá viðurkennir hann, þrátt fyrir að bera mikinn kala til móðurinnar, að hún veiti stúlkunum eitthvað jákvætt.

Félagsmálayfirvöld í Horsens hafa samþykkt að veita föðurnum ráðgjafarstyrk sem undirritaður telur bæði ákjósanlegt og æskilegt.“

Þegar koma átti að dómsuppkvaðningu í málinu fyrir Vestri Landsrétti í júní 2013 tilkynnti Hjördís veikindi deginum áður. Það varð til þess að þinghaldi var frestað til 6. september eða um þrjá mánuði.

Ágúst 2013: Hjördís nemur börnin ólöglega á brott í fjórða sinn

Áður en dómur var kveðinn upp í málinu fyrir Vestri Landsrétti, nánar tiltekið þann 4. ágúst á þessu ári nemur Hjördís börnin ólöglega á brott í fjórða sinn og flýgur með þau til Íslands. Með henni í för að þessu sinni var Þóra Tómasdóttir, landsþekktur femínisti og ritstjóri tímaritsins Nýtt Líf sem er einmitt í eigu lögmanns Hjördísar, Hreins Loftssonar. Hún ritar svo grein um brottnámið í septemberhefti blaðsins og af skrifum hennar að dæma virðist hún telja þessa ólöglegu aðgerð vera hið besta mál.

Þegar þetta er skrifað er það ekki á almennu vitorði hvar Hjördís og börn hennar eru niðurkomin en fram hefur komið að þau fái í það minnsta menntun við einhvern skóla. Kvisast hefur út að Innanríkisráðuneytið og Velferðarráðuneytið sé að skipta sér af málinu með óeðlilegum hætti en ég get ekki enn staðfest í hverju þau afskipti eiga að felast.

September 2013: Dómur Vestri Landsréttar

Þann 6. september sl. kvað Vestri Landsréttur svo upp úrskurð í málinu. Kim var dæmt fullt forræði yfir börnunum og dómur undirréttar í Kolding því staðfestur. Athugið að þetta er eftir að nýjar ásakanir Hjördísar í garð Kim eru rannsakaðar.

Niðurlag

Þetta mál allt saman er einkar ógeðfellt. Það er enda eðli svona mála sem rekin eru að þetta miklu leyti í fjölmiðlum. Deilur um það sem er okkur kærast hljóta alltaf að verða hatrammar þegar aðilum málsins ber ekki gæfa til að vinna saman í þokkalegu samlyndi. Að fara með svona mál í fjölmiðla leiðir aldrei til góðs og börnin munu alast upp við það að einkalíf þeirra er opinbert. Þá verður ekki séð að neitt sé á þessari fjölmiðlaumfjöllun að græða nema kannski að auðvelda fjáröflun til leigu á einkaþotum og málskostnaði síbrotakonunnar enda fokið í flest skjól ef dómarar fara að láta álit sitt stjórnast af fjölmiðlaumfjöllun. Takið eftir að fyrirferð Kims í fjölmiðlum hefur nánast engin verið.

Hjördís og stuðningsmenn hennar hafa rekið herferð gegn Kim með fulltingi íslenskra fjölmiðla og her fólks sem tekið hefur afstöðu í málinu á tilfinningalegum grunni. Mann óar við tilhugsuninni um samfélag þar sem annar aðilinn í forræðisdeilu hefur jafn greiðan aðgang að fjölmiðlum og raun ber vitni, og notar þennan aðgang til að ausa ósönnuðum ásökunum um alvarlegt ofbeldi á hendur gagnaðila og það án þess að svo mikið sem einn fjölmiðlamaður láti sér detta í hug að kynna sér málið á hlutlausan hátt.

Ég hef undir höndum skjáskot þar sem Kim er hótað ofbeldi af hendi íslendinga, sjá hér. Þá hef ég einnig undir höndum afrit af tölvupósti sem sendur var til samstarfsmanna Kim þar sem ásakanir Hjördísar voru settar fram sem fullsannaðar staðreyndir með það fyrir augum að hann missti starf sitt, sjá hér. Greinilegt er að það á ekki aðeins að hafa af kvikindinu börn og æru, það á einnig að svipta manninn lífsviðurværi sínu.

Eins og jafnan er þegar konur eiga undir högg að sækja í réttarkerfinu hefur kvennahreyfingin svo ekki látið sitt eftir liggja. Í þessu máli hefur hún kinnroðalaust farið fram á að alþjóðasamningar, sem leiddir hafa verið í lög hér á landi, verði teknir úr sambandi vegna þess að það myndi henta Hjördísi betur. Stofnanir sem enga lögsögu eiga í málinu hafa átt að láta til sín taka og þegar þær hafa ekki gert það, hafa þær mætt harkalegri og óréttlátri gagnrýni af hálfu þessa fólks sem finnst ótækt að farið sé að lögum í stað þess að ríki og stofnanir geri bara nákvæmlega það sem þetta fólk heimtar hverju sinni.

Inn í þetta spilar að stofnanirnar mega ekki tjá sig um einstök mál, umfram það sem opinbert er, og geta því ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Haag samningurinn er alveg skýr hvað varðar réttarfarslega meðferð svona mála og á hann hefur reynt í rúma þrjá áratugi. Barnaverndarstofa og Innanríkisráðherra hafa ekkert lagalegt umboð til að ógilda úrskurði danskra yfirvalda sem, með Íslandi, eru aðilar að Haag samningnum. Það vakti þó athygli mína að Fréttablaðið birti aðsenda grein starfsmanns Barnaverndarstofu, „Úlfur, úlfur“ en inntak hennar ber með sér að það sé eitt og annað sem skýri það að dómar falla ekki Hjördísi í vil og að starfsfólki barnaverndaryfirvalda finnist umræðan í þessu máli á villigötum.

Þá er það einfaldlega þannig að á meðan mál sem þessi eru í vinnslu fyrir dómstólum, gerist það að framkvæmdavaldið, þ.e. Innanríkisráðuneytið, barnaverndarnefndir, Barnaverndarstofa og sýslumenn hafa enga lögsögu í málinu. Samt er heimtað að þessar stofnanir beiti sér og þegar það er svo ekki gert, er ráðist á yfirmenn þessara stofnana og þeir úthrópaðir sem illmenni.

Gríðarlegu magni óhróðurs gegn Kim hefur verið dælt út úr herbúðum Hjördísar. Framsetning fullyrðinga hennar er þess eðlis að oft má sjá innra ósamræmi í þeim, jafnvel í sama viðtalinu, auk þess sem þær eru oft einfaldlega svo lygilegar að furðu sætir að þær séu teknar alvarlega. Embættismönnum, læknum o.fl. er ætlað að hafa sagt eitthvað eða gert eitthvað sem alls ekki rúmast innan umboðs þeirra s.s. þegar læknir er sagður hafa staðfest að Kim hafi beitt dóttur sína ofbeldi. Slíkt gera læknar einfaldlega ekki, þeir geta staðfest áverka og skráð niður það sem móðir þeirra segir að hafi valdið þeim en ekki söguna meir.

Hvers vegna skyldi Hjördís beita þessari aðferð í baráttu sinni? Hversvegna skyldi Hjördís einatt hlaupa frá réttarhöldum sem jafnvel er stofnað er til af henni sjálfri? Hversvegna skyldi Hjördís vinna svo gegn hagsmunum sínum eins og staðfest er að fyrrverandi lögmaður hennar í Danmörku skýrði ítarlega fyrir henni að hún væri að gera með endurteknu ólöglegu brottnámi? Þvílíkur afleikur sem það væri ef sönnunargögnin sem hún segist hafa gegn Kim eru jafn góð og hún fullyrðir. Er heldur ekkert forvitnilegt við það hvernig hún tímasetur brottnámið?

Hversvegna ætli Hjördís hiki ekki við að valda börnum sínum tjóni eins og sálfræðingar hafa staðfest að ólöglegt brottnám þeirra og afleiddur óstöðugleiki valdi þeim? Hversvegna gerði Hjördís yfirvöldum svona erfitt fyrir að nema börnin á brott frá henni eins og úrskurður lá fyrir um? Hversvegna spyr enginn um ábyrgð hennar á því að láta málið þróast með þeim hætti að kalla varð til lögreglu þegar aðfarargerðin var framkvæmd?

Hversu erfitt heldur fólk að það sé að véla börn, sem ekki hafa náð grunnskólaaldri, til að segja hvað sem er um hvern sem er? Hversu lengi er fólk til í að trúa því að dómkvaddir sérfræðingar bæði hérlendis og erlendis séu ekki færir um að komast að réttri niðurstöðu í málinu? Finnst fólki ekkert umhugsunarvert að aftur og aftur sé komist að sömu niðurstöðu í málinu, að börnunum sé best borgið í umsjá föður síns og að það myndi beinlínis ógna velferð þeirra verði móðurinn dæmt forræðið?

Finnst engum skrýtið hvernig ásakanir Hjördísar stigmagnast eftir því sem hún tapar málum sínum oftar? Hvað les fólk út úr því að annar barnsfaðir Hjördísar hefur stigið fram undir einni frétt DV af málinu og lýst því hvernig hún tálmaði honum umgengni við elsta son sinn?

Hinn almenni stuðningsmaður eða aðstandendur Hjördísar hafa auðvitað frítt spil. Þetta fólk getur tekið afstöðu á eins veikum eða tilfinningalegum grunni og því sýnist. Því er jafnvel frjálst að vilja réttarfar þar sem sá sem hefur efni á síðustu einkaþotunni sigrar. Slík vitfirring er fólgin í þessháttar hugmyndum að okkur hinum mun líklega aldrei standa raunveruleg ógn af þessu hugarfari.

Öðru máli gegnir um fjölmiðlafólk sem hefur litið á það sem hlutverk sitt að básúna öllum ásökunum Hjördísar óhindrað til almennings svo að a.m.k. einn blaðamaður DV hefur hlotið dóm fyrir. Hvernig er það með ykkur, hvað haldið þið að felist í því að hafa ,,gagnrýna hugsun“? Kannski það að berja hausnum við steininn endalaust og líta svo á að dómstólar tveggja landa komist síendurtekið að rangri niðurstöðu þrátt fyrir að hafa yfirsýn yfir gögn málsins og þar með þau gögn sem að sögn Hjördísar eiga að sanna sekt Kims? Ef þið lítið í kringum ykkur, finnst ykkur þá sem konur standi höllum fæti í forræðismálum? Segir það ykkur ekki neitt að kona missi forræðið yfir börnum sínum í lagaumhverfi sem er konum eins hagfellt sem raun ber vitni?

Við fjölmiðlafólk sem gagnrýnilaust hefur veitt Hjördísi aðgang að miðlum ykkar til að viðhafa meiðandi ummæli um föðurinn og spila með fólk, segi ég þetta:

Þið eruð einfaldlega flón.

SJ

Sjá einnig:

Ætlar Innanríkisráðuneytið að fara á svig við lög?
Innanríkisráðuneytið hundsar dönsk yfirvöld
Viðtal við barnsföður Hjördísar Svan
Hanna Birna svarar

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

, ,

80 athugasemdir á “Brottnáms- og tálmunarmál Hjördísar Svan: Áður óbirt gögn”

  1. Arndis Hauksdóttir Says:

    Það er einkennilegt að lesa þetta þar sem ég get ekki séð að þetta sé skrifað undir nafni. En þú (hver sem þú ert nú ) vilt fá nafn við ummæli. Það er í góðu lagi mín vegna þar sem ég rita aldrei nafnlaust. En að öðru leyti er þetta ótrúleg skrif. Þarna er snúið upp á raunveruleikann á ósvífinn hátt með því að nota allt sem er að því virðist jákvætt fyrir Kim Laursen. En öllu sleppt sem gæti komið honum illa. Gæti tætt þetta niður lið fyrir lið og geri það er þarf. Eitt af þvi ósvífnasta af því sem stendur þarna að Kim hafi sýnt samstarfsvilja!!! Það er hrein lygi. Og þetta hefur ekkert með mæðrahyggju að gera, hvílíkt kjaftæði. Þetta snýst um gróft ofbeldi af hendi föður gegn þrem börnum. Þér til upplýsingar þekki ég þessi börn vel og veit hvað þær hafa þurft að þola. Hafa sagt mér það sjálfar. Og í guðana bænum komdu ekki með þessa ömurlegu klisju að börnunum hafi verið innprentað það sem þær segja. Börn eru ekki hálfvitar. Skýrsla Gunnars Hrafns var gerð eftir 20. mín. samtal við tvær elstu stelpurnar. Þarf að segja meira? Til er önnur skýrsla sem tveir barnasálfræðingar gerðu og hún segir allt aðra sögu. Þá skýrslu neituðu dómarar að taka til greina því hún kom of SEINT. Sálfræðingurinn í Dk talaði aldrei við börnin ein. Mér er eiginlega hulin ráðgáta hvað þér gengur til?? Hefur þú svo einhverntíma heyrt um að börn eigi að njóta vafans??? Við þig segi ég þú ert ekki flón, þú ert illkvittin/n

    • Ívar Says:

      Sæl Arndís ég væri endilega til í að sjá þig taka þetta lið fyrir lið, forvitinn að sjá aðra hlið á þessu. Þú átt greinilega tilfinningalegra hagsmuna að gæta, því eins og þú segir þá þekkiru bæði Hjördís og dætur hennar.
      Greinin kemur þó greinilega fram undir skamstöfuninni SJ (líklegast Sigurður Jónsson)
      en mér finnst greinarhöfundur þó miklu frekar vera að gagnrýna kerfið sjálft og fjölmiðla frekar en Hjördísi og er ég þar alveg sammála honum.
      Hjördísi þekki ég ekki neitt og kýs að tjá mig ekkert um hana.

    • Sigurður Says:

      Velkomin og takk fyrir innleggið Arndís.

      Hér fangar þú inntak málflutnings þíns fólks ágætlega.

      1. Óhentugar og jafnvel skjalfestar staðreyndir málsins verða ,,lygi“. Sbr. staðfestur vilji Kim til að stúlkurnar umgangist móður sína einnig. Tillögur um umgengni við hana o.s.fv. Einnig sú staðreynd að hann treystir henni fyrir dætrunum án eftirlits í aðdraganda þess að hún rænir þeim í fjórða sinn. Mér finnst það aðdáunarvert af honum svona í ljósi forsögunnar.

      2. Þú segir það ,,ömurlega klisju að börnunum hafi verið innprentað það sem þær segja“. Það er leikur einn að innprenta svona ungum börnum hvað sem er. Að búa þeim aðstæður þar sem þær upplifa sig á flótta milli landa frá fúlmenni sem ætlar að taka þau frá móður sinni og skilija hana eftir eina er ágætis byrjun. Sjálfur myndi ég treysta mér til að innprenta börnum á þessum aldri að fúlmennið hefði reynst tröll sem ætlaði að éta þau og jólasveininn með. Gögnin bera með sér að þeim hafi verið innrættar hugmyndir og það má meira að segja lesa út úr þeim hvaða hugmydnir, t.d. einmitt sú hugmynd að þau verði tekin og móðirin skilin eftir ein svo þau muni aldrei aftur sjá hana. Þetta gengur þvert á framkominn vilja Kims. Að láta börnin upplifa það að lögregla þurfi að rífa þau úr fangi móður var efalítið einnig áhrifaríkt, mun eflaust innsigla þessar ranghugmyndir barnanna.

      3. Þú dregur hæfi Gunnars Hrafns í efa. Sálfræðings með áratuga reynslu af vinnu með börnum. Ég bendi á að Gunnar hefur einmitt verið gagnrýndur fyrir að stuðla að og viðhalda mæðrahyggju t.d. með gagnrýni hans á hugmyndir um foreldrafirringu. Margir hefðu sagt fyrirfram að mat hans myndi falla móður í hag. Þá bendi ég á að Gunnar Hrafn á aðeins eitt sálfræðimat af þremur sem fjallað er um í þessari grein en öll þrjú mötin eru efnsilega samhljóða. Þú myndir væntanlega vilja meina að hinir sálfræðingarnir séu líka fífl.

      4. Já, ég ef ítrekað heyrt, í þessu máli, að börnin eigi að njóta vafans. Hvernig sá vafi virðist sjálfkrafa eiga að þýða það að þau dvelji hjá móður en ekki föður, er kannski það sem einna best kristallar mæðrahyggjuna sem ég bendi á en þú hafnar. Niðurstaða dómstóla er að hafi Kim forrræðið og sé lögheimilsforeldri þeirra, þá muni þær njóta tengsla við báða blóðforeldra sína. Verði Hjördísi fengið forræðið muni þau réttur þeirra til beggja foreldra verða virtur að vettugi – af henni. Hjördís hefur ekki beinlínis farið leynt með þessar fyrirætlanir sínar.

      5. Já, ég hlýt að vera vondur. Eru, í huga þínum, ekki annars bara tvær tegundir fólks í heimi hér? Gott fók (þú og þínir) og vont fólk (við hin)?

      6. Og nú get ég eiginlega ekki hamið mig þó ég hafi ætlað mér það. Getur þú bent mér á eitthvað það í málflutningi ykkar sem er jákvætt fyrir Kim eða er það bara skylda okkar hinna að gæta jafnvægis í umfjöllun um málið?

    • Helga Dögg Says:

      Afar áhugaverð lesing sem kemur mér ekki á óvart. Oft eru þetta ráð móður sem stendur höllum fæti gagnvart föður í forsjárdeilu. Reyndar bíð ég eftir að móðirin ásaki föðurinn um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum sínum. Mæður virðast svífast einskis þegar kemur að forsjármálum. Hef lesið nokkuð marga dóma þar sem slíkar ásakanir eru settar fram og eiga ekki við rök að styðjast. Illa fer móðirin með börnin sín að leggja þetta á þau í stað þess að sætta sig við orðin hlut, taka þátt í lífi barnanna og njóta samvista með þeim á móts við föður barnanna. Lögbrot sem þessi á íslenska ríkið ekki að taka þátt í og ég vona, fyrr en seinna, að dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að við líðum ekki svona framkomu í forsjárdeilum, hvorki af hendi móður eða föður.

      Ég undrast að Arndís hafi ekki tekið málið lið fyrir lið og hrakið það sem hún segir mikið bull og vitleysu. Það sýnir rökleysuna sem oft er í málflutningi og að segja sálfræðing, sem skipaður er af dómsvaldinu, vilhallan öðru foreldrinu er með ólíkindum. Hvað með alla sem að málinu koma og eru hlutlausir aðilar, eru dómarar ekki hlutlausir? Með eindæmum að halda svonalöguðu fram.

      Sem betur fer höfum við dómstóla og sérfræðinga sem hugsa um hag barnanna ekki foreldrana, því oftar en ekki gleymast börnin í ofstækinu að ná sér niður á fyrrverandi maka.

  2. Ásdís Emilía Björgvinsdóttir Says:

    Takk kærlega fyrir þetta. Ég hef haft voðalega litla samúð með málstað Hjördísar, en maður hefur kannski stundum aðeins hugsað hvort eitthvað geti verið til í því sem hún heldur fram (veikt þó) en eftir þennan lestur þá er alveg fokin út í veður og vind samúðin, sú litla sem var.

  3. Britta virkelyst Says:

    Jeg har ikke fået læst det hele igennem, må tage det lidt efter lidt. men kender historien helt fra start. Vil kun komme med få kommentarer. Hvorfor rejser Hjørdis i juni 2009 ned til Kim i Danmark med børnene? I det godt halve år derefter, inden Kim forlader hjemmet, når de endog at blive Gift. Og jeg skriver det var Kim der forlod hjemmet. Dråben der fik bægeret til at flyde over, var kort fortalt at nu ville Hjørdis have hus med svimmingpool men Banken sagde nej. Dette udløste et raseri uden lige hos Hjørdis dette varede ved i dagevis, godt hjulpet til af hendes mor, der boede hos dem.
    Af det jeg har læst af artiklen kan jeg bevidne at det er RIGTIGT. og det er der andre der også kan.

  4. Sigurjón Says:

    Takk fyrir framtak þitt, Sigurður. Þú átt heiður skilinn fyrir þetta.

    Gott að halda þessu til haga, óhróðurinn úr herbúðum Hjördísar var farið að verða ansi stækur. Eins og viðbrögð Arndísar sýna. Enn eru nytsamir kjánar að verja Hjördísi og hennar óhæfuverk gagnvart börnum sínum og Kim.

  5. Friðjón Árnason Says:

    Einu sinni sameinaðist íslenska þjóðin gegn manni að nafni Halim Al fyrir að stinga af ólöglega úr landi með dætur sínar og íslenskrar konu og þótti glæpsamlegt atferli. Nokkur dæmi hefur maður heyrt síðan um íslenskar „Halim Al“ konur sem léku nákvæmlega sama leik og hann en þá stóð íslenska þjóðin og yfirvöld með þeim konum, líklega af því að þær eru íslenskar. Nú gerist þetta enn einu sinni og enn er íslensk kona í „Halim Al“ hlutverkinu og þrátt fyrir marga dóma margra dómstóla í tveimur löndum gegn málstað konunnar leyfir fjöldi fólks sem tjáir sig opinberlega sér að úthrópa útlendinginn og hampa málstað konunnar. Hvort konan eða maðurinn fara með réttara mál veit ég ekkert um en er hér að benda á að það virðist ekki skipta máli þegar fólk tekur afstöðu í málum sem varða íslenska og erlenda foreldra, útlendingarnir eiga alltaf undir högg að sækja í umræðunni. Réttlætisvitund margra sem taka slíka afstöðu virðist engin vera þegar að því kemur að standa með Íslendingum gegn útlendingum, hvort sem þeir hafa réttan eða rangan málstað að verja.

  6. Halldór Says:

    Af hverju er þessi kona ekki í fangelsi, bæði fyrir illa meðferð á börnunum og/eða fyrir mannrán.

  7. Málfríður. Says:

    Mjög goð grein þetta er nú reyndar eitthvað sem ég hef haft á tilfinninguni frá upphafi þessa máls,og hef þ.a.l ekki trúað málflutningi Hjördísar og co. og svo tók nú steininn úr þegar hún flaug til Íslands í einkaþotu með blaðamönnum.

  8. Ómar Már Þóroddsson Says:

    Ég verð að segja að fullyrðing Arndýsar um að hún geti hrakið greinina lið fyrir lið er ekki trúverðug. Ef hún getur það af hverju gerir hún það ekki. Er sammála að það er ömurlegt þegar börn lenda í svona aðstöðu. Og þegar foreldri segist vera að hugsa um hag barnana en hagar sér svo svona, það er sorglegt. Því alltaf bitnar þetta á börnunum. Það er einnig ótrúlegt að dómarar skuli alltaf dæma rangt í þessu máli. Hvaða hagsmuni hafa þeir af því? Ég verð að viðurkenna að ég greip aldrey þennann málflutning um að það væri rétt að stinga af til Íslands. Því maður verður alltaf að vera gagnrýnin og vera samkvæmur sjálfum sér.

  9. Fríða Bragadóttir Says:

    ég veit svo sem ekkert hvað er rétt í þessu máli, eða hvort annað foreldrið er hinu betra eða kannski ætti frekar að nota orðið skárra. en hins vegar hefur þetta tiltekna mál margsinnis orðið mannréttindanefnd ESB tilefni til athugasemda við danska félagsmálakerfið og réttarkerfið. meðal annars hafa þeir gert athugasemdir við að skýrslur sálfræðinga og leikskólakennara sem styðja ásakanir móðurinnar um ofbeldi hafi verið hunsaðar og svo hitt að danska kerfið virðist sjálfkrafa alltaf dæma forræði til þess foreldris sem er danskt sé hitt foreldrið erlent. og svo þekki ég til nokkurra barnaverndarmála í Danmörku og get fullyrt að þeir eru áratugum á eftir okkur varðandi barnalög og reglur um forræði, hljómar undarlega en er samt satt.

    • Martin Says:

      Hér væri réttast að benda á heimildir fyrir þessum staðhæfingum.

    • Sigurður Says:

      Velkomin Fríða og takk fyrir innleggið.

      Það er gott þú skyldir bera þetta upp. Þetta er nefninlega enn ein fullyrðingin sem ég hef heyrt síendurtekið sem ekki reyndist fótur fyrir þegar að var gáð.

      Hér ert þú væntanlega að meina nefnd á vegum Evrópuþingsins ,,Committee on petitions“ en ekki mannréttindanefnd ESB.

      Þá ertu líklega að vísa til þess að nefndin eyddi heilum 12 línum í ,,þetta tiltekna mál“ skjali sem nefndin hefur birt og kallar ,,working document“. Nefndin segir hvergi að þetta mál hafi sem slíkt verið tilefni til athugasemda við danska félags- og réttarkefið og því síður ,,endurtekið“ eins og þú orðar það.

      Nefndin tiltekur 10 mál sem meginmál þessarar athugunar og listar þau upp í lok skýrslunnar. Mál Hjördísar er, andstætt því sem þú segir, ekki eitt þessara mála. Eftir því sem ég kemst næst byggir nefndin þessi lauslegu skrif sín á einhliða upplýsingum frá Hjördísi sem útaf fyrir sig er ámælisvert.

      Ég hef hvergi séð að nefndin hafi gert athugasemdir við að skýrslur sálfræðinga og leikskólakennara hafi verið ,,hundsaðar“. Getur þú bent mér á hvar þetta kemur fram?

      Mig langar að nefna að Hjördís eða stuðningsmenn hennar virðast hafa fullyrt við þessa nefnd að sálfræðimat hafi tekið tuttugu mínútur. Það kemur fram í skýrslunni. Taktu eftir að í innleggi Arndísar hér að ofan segir hún þetta um matið sem gert var hér á landi, að það hafi verið gert á tuttugu mínútum. Ég fæ því ekki betur séð en að Hjördís og hennar fólk hafi villt um fyrir nefndinni. Nema danirnir eigi líka að hafa skammtað sér tuttugu mínútur í matið.

      Að lokum má ég svo til með að benda þér á að ,,danska kerfið“ kvað upprunalega upp þann úrskurð að Kim og Hjördís skyldu hafa sameiginlegt forræði og það var ekki fyrr en eftir þriðja brottnámið sem ,,danska kerfið“ gafst upp á Hjördísi þannig að eitthvað virðist þetta mál liggja öðruvísi en þú lætur í veðri vaka og Hjördís jafnvel staðið betur að vígi en aðrlir útlendingar eins og þú lýsir stöðu þeirra.

      Þarna erum við því líklega sammála í því að danir mættu bæta sig þar sem það er náttúrulega stórundarlegt hvað glæpsamleg hegðun Hjördísar borgar sig lengi. Ég hefði viljað sjá Kim dæmt fullt forræði miklu fyrr.

      • fridabraga Says:

        afsakið, en ég hef tilhneigingu til að finnast yfirlýsingar frá virtum hæstaréttarlögmanni, þar sem hann vitnar í skýrslur og vitnisburði með nöfn og dagsetningar, vera trúverðugri heldur en yfirlýsingar ykkar sem hér farið mikinn. http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_adsent/um-tviskinnung-islenskra-barnaverndaryfirvalda?Pressandate=200904251+or+1%3D%40%40version–%2Fleggjumst-oll-a-eitt%25%2Fmailto%3Aauglysingar%40pressan.is+pressan%40pressan.is

        og allir sem eitthvað fylgjast með fréttum hljóta að vita af þeim stórfellda vandræðagangi sem ríkt hefur í barnaverndarmálum í Danmörku um langa hríð, hvert stórmálið hefur rekið annað. og ég get því miður ekki vitnað í gögn um þær fjölskyldur sem ég þekki til sem hafa haft hjá sér börn sem barnavernd hefur tekið af vanhæfum foreldrum, einungis það sem ég veit frá fyrstu hendi. þar í landi er það t.d. ennþá þannig að alveg sama hver ástæðan er fyrir forræðissviptingu þá er málið tekið fyrir dóm á hverju ári, af því það gæti verið að foreldrarnir bættu ráð sitt. og á hverju ári eru fósturfjölskyldurnar og börnin í hræðilegu stressi fyrir þessi réttarhöld og barnið þorir aldrei að festa rætur á nýja staðnum. og ég þekki persónulega dæmi um barn sem var tekið frá fósturfjölskyldu sinni og sent aftur til foreldranna eftir 12 ár! og þar af hafði barnið ekki séð foreldrana síðustu 10 árin, svo þetta var bláókunnugt fólk. svona er aldrei gert á Íslandi, vegna þess að það telst ekki gott fyrir börnin að rífa þau upp með rótum. í Danmörku er enn þann dag í dag talað um réttindi foreldra, það eru foreldrar sem hafa umgengnisRÉTT, en ekki börnin. hér eru það börnin sem eiga rétt á umgengni við báða foreldra sé það ekki talið vinna gegn velferð þeirra.

        og einhver fullyrti hér að læknir geti ekki úrskurðað um að áverkar séu af völdum ofbeldis, hvers konar kjaftæðði er það? auðvitað sér vanur læknir mun á því hvort áverkinn er vegna þess að ég rak mig í hurð eða af því ég var kýld!!

        • Kristinn Sigurjónsson Says:

          fridabraga, Þú nefnir að í Danmörku hafa barnaverndaryfirvöld látið foreldrum barnið í té eftir það hafa liðið 10 ár og þá þekkir það ekki foreldrana. Þetta er akkurrat það sem Hjördís Svan hefur leikið. Hún hefur meinað föður sonarins að umgangast hann svo þeir þekkjast ekkert í dag. Er það ekki að níðast á barni sínu. Er einhver ástæða til að ætla að hún muni ekki leika sama leikinn gagnvar Kim og dætrum sínum.

      • Sigurður Says:

        Téður lögmaður er lögmaður Hjördísar og það er hreinlega hans djobb að grípa í allt sem jafnvel getur virst að tönn á festi og hanga svo á því eins og hundur á roði. Þannig vinnur hann að hagsmunum skjólstæðings síns og það er hann að gera með þessari grein.

        Ég get ekki haldið uppi vörnum fyrir danskt ríki og stöðu málaflokksins þar. Ég hef ekki kynnt mér málið nógu vel til þess né vekur það sérstaklega áhuga minn. Það sem aftur á móti vekur áhuga minn er þetta tiltekna mál. Hjördís og stuðningsmenn hafa tönnlast á því að hún sé fórnarlamb einhverskonar þjóðernishyggju og spillingar í dönsku kerfi. Þetta sama fólk hefur vísað í vinnu nefndar á vegum Evrópuþingsins. Ég kannaði þessa þræði, bæði með því að lesa það sem stóð í skýrslunni um mál Hjördísar og með því að hafa samband við nefndina. Það sem kom í ljós er að það sem fylgismenn Hjördísar hafa sagt um störf nefndarinnar og mat hennar á máli Hjördísar er einfaldlega ekki satt heldur ósatt. Það er það sem skiptir máli ef við ætlum að ræða þetta tiltekna mál. Nefndin lagði ekkert mat á mál Hjördísar og staðfestir í tölvupósti að hún hafi enga hugmynd um hvernig í málinu liggur enda hefur nefndin bara fengið upplýsingar frá Arndísi Hauksdóttur. Þú munt geta lesið meira um þetta nefndarmál sérstaklega innan tíðar.

        Varðandi hugmyndir þínar um meinta skyggnigáfu lækna þá ertu væntanlega að vísa í mín orð um það. Ég segi í greininni:

        „Embættismönnum, læknum o.fl. er ætlað að hafa sagt eitthvað eða gert eitthvað sem alls ekki rúmast innan umboðs þeirra s.s. þegar læknir er sagður hafa staðfest að Kim hafi beitt dóttur sína ofbeldi. Slíkt gera læknar einfaldlega ekki, þeir geta staðfest áverka og skráð niður það sem móðir þeirra segir að hafi valdið þeim en ekki söguna meir.“

        Við þetta stend ég. Málið snýst ekki um það hvort samstuð við hurð olli áverkunum. Málið snýst um það hvort það er manneskja sem veitti áverkana og þá hvaða manneskja, Kim eða einhver annar/önnur. Það getur enginn læknir skorið úr um fyrir víst, það er dómstóla að skera úr um og það hafa þeir gert.

    • Helga Dögg Says:

      Fríða þú segir stórfréttir, að Danir séu langt á eftir íslendingum í forsjármálum. Veit ekki betur en þegar sameiginleg forsjá er dæmd hér á landi þá er lögheimili nánast undantekningalaust hjá móður. Það má telja á fingrum annarar handar þegar feðrum er dæmd forsjá eða lögheimilið. Við getum vart talist framarlega í þessum málaflokki fyrr en við viðurkennum, með lögum, að barn geti átt tvö lögheimili hjá báðum foreldrum sínum. Mæðraveldið er gífurlegt hér á landi sem sýnir fjölda einstæðra mæðra. Feður ættu og eiga að gera meira tilkall til barna sinna.

      Sigurður segir það sem ég vildi sagt hafa, endilega komdu með staðfestu á umfjöllun ESB um Hjördísar og Kim.

      Kveðja.

      • Ásdís Emilía Björgvinsdóttir Says:

        Tek heilshugar undir þetta með þér Helga Dögg!

    • Guðný Says:

      Þetta er alveg hárrétt hjá Fríðu, ég bý í Danmörku og hef oft orðið vitni af sambærilegum málum í dönskum fjölmiðlum þar sem móðirin er erlendur ríkisborgari og börnin hafa verið dæmd forsjáin dönskum föður. Dönsk yfirvöld eru á hálum ís með þetta. Man eftir máli móður frá Swiss sérstaklega þar sem drengurinn var dæmdur föður í Danmörku hún rændi honum síðan til Swiss sem dæmdi móður í hag. Læt fylgja link þar sem er verið að ræða svona mál hér; http://portal.foreignersindenmark.dk/forum/forum_posts.asp?TID=3888

      Einnig finnst mér mjög undarlegt að Hjördís hafi farið út til Dk í nóvember 2009 og gifst Kim í góðri trú og hann yfirgefur hana í mars 2010 aðeins 4 mánuðum síðar? Fannst honum hann hafa öll sín mál á hreinu í sínu heimalandi þá? Ég sé ekkert annað en örvæntingarfulla móður sem gerir hvað sem er til að berjast með klóm og kjafti fyrir börnunum sínum. Hver myndi ekki gera það? Ég veit að það eru mál hjá mannréttindardómstólum vegna óréttlætis danskra dómstóla í garð útlendinga. Endalaust hægt að efast en það er megn skítalykt af þessu máli. Ég vona að stúlkurnar fái að vera hjá mömmu sinni.

      • Sigurður Says:

        Velkomin og takk fyrir innleggið Guðný.

        Þegar ég les innleggið þitt sé ég.að meginuppistöðu þjóðernishyggjurökin, þau að danir dæmi einatt sínu fólki í vil. Þá veltir þú fyrir þér, að því er virðist, hvort það að Kim skyldi kvænast Hjördísi aðeins fjórum mánuðum áður en hann gafst upp á henni hafi verið lagalegt útspil hans til að styrkja stöðu sína..

        Nú langar mig að taka fyrst fyrir þessi þjóðernishyggjurök sem eru furðulega fyrirferðamikil hjá fylgismönnum Hjördísar:

        Þegar þetta er skrifað hafa fallið 7 dómar í málinu (nú síðast um að Hjördis skuli afhent dönskum yfirfvöldum vegna glæpa sinna). Fyrstu tveir dómarnir í þessu máli féllu hér á Íslandi. Nánar tiltekið austur á fjörðum í febrúar 2011 og mánuði síðar hjá Hæstarétti sem staðfesti dóm Héraðsdóms Austurlands. Strax í þessum fyrstu málaferlum koma fram vísbendingar um að Hjördís sé að innræta börnunum ranghugmyndir um fðður sinn eins og þú getur lesið um í niðurstöðu sálfræðimats þess íslenska sálfræðings sem matið vann.

        Þetta gerist rúmum 92 árum eftir Ísland öðlast fullveldi frá dönum og tæpum 67 árum eftir að þjóðin öðlaðist fullt sjálfstæði frá dönum. Ég tel í þessu ljósi óhætt að álykta að áhrifa dana gætir ekki í þessum íslensku dómum.

        En svona til að skemmta skrattanum skulum við skoða hvernig þessum rökumr reiðir af eftir að dómar fara að falla í málinu í Danmörku. Þá sjáum við að það er ekki fyrr en við fimmtu dómsuppkvaðningu (og þeirri þriðju í Danmörku) sem Hjördís missir forræðið í hendur Kim. Þetta er í september 2012 þegar konan er búin að nema börnin ólöglega á brott þrisvar sinnum. Í hinum málunum var þeim alltaf dæmt sameiginlegt forræði þrátt fyrir ítrekuð brot Hjördísar. Ég fæ því ekki betur séð en að danir hafi sýnt henni óeðlilega linkind ef eitthvað er.

        Er þessi þjóðernishyggjuhugmynd núna útrædd eða er mér að yfirsjást eitthvað?

        Varðandi hjónabandið þá held ég að lagaleg staða barnanna hafi verið óbreytt eftir sem áður. Haag samningurinn miðar við að lögsaga svona mála sé í því landi þar sem börn hafa lögheimili þegar foreldrar slíta samvistum.

  10. Kristinn Sigurjónsson Says:

    Vel skrifað og orð í tíma töluð

  11. Ómar Már Þóroddsson Says:

    Fríða. Er eithvað að því að föðurnum sé fengið forræðið? Er sem sagt ESB búnir að gera athugasemdir í öll skiftin í þessu máli? Sem sagt að dómarar séu visvitandi að brjóta á öðrum aðilanum?

  12. Torfi Says:

    Var ekki Hjördís tilnefnd maður/kona ársins af DV hér um árið í þokkabót?

  13. Arndis Hauksdóttir Says:

    Ég mun ekki svara nafnlausum leigupenna Kims og Brittu móður hans (sundlaugarBrittu) hér meira. Sé að það þjónar ekki neinum tilgangi fyrir börnin. Sérstaklega ekki eftir að hafa skoðað hvers konar síða þetta er. Veit að flestir munu sjá í gegnum þessi skrif. Þau sem gera það ekki mega eiga sig. En ég finn fyrir sorg að lesa flest kommentin hér. Fæst hafa hag barnanna í huga.

    • Martin Says:

      Sumsé: Þú munt ekki svara gagnrýni né styðja staðhæfingar þínar úr hvorum tveggja athugasemda þinna með staðreyndum. Nei, það er auðveldara að kalla aðra leigupenna, draga heilindi þeirra í efa og segja þau mega eiga sig. Þín skrif dæma þig einnig, Arndís mín. Farðu vel með þig.

    • Lárus Sigurðsson Says:

      Þú áttir fyrsta kommentið hér Arndís og sagðist geta; „tætt þetta niður lið fyrir lið og geri það er þarf“. Varstu að segja satt? Ef svarið er já, þá skaltu gera það, annars hlýt ég að líta á þessa fullyrðingu þína sem ósanna.
      Góðar stundir.

    • Sigurður Says:

      Ef þú vilt gefa þér að ég beri annað nafn en ég gef upp og nota það svo sem fyrirslátt til að hlaupast frá yfirlýsingum þínum þá verður svo að vera.

      Ég vænti þess að það sé líka fyrir neðan virðingu þína að eiga samskipti við aðra þá hér sem hafa beðið þig að standa undir fullyrðingum þínum?

      • Helga Dögg Says:

        Eins og við var að búast hefur Arndís ekkert í höndunum. Mér sýnast öll skrif sem kallast vilhöll Hjördísi vera áróður meira en rökstuðningur við mál hennar. Okkur munar lítið um að setja okkur á háan hest og vita meira um málið en dómarar og sálfræðingar. Það er miður að Arndís skuli ekki sjá sóma sinn í að svara því sem hún segist geta rökstutt. Tilfinningar bera fólk oft ofurliði í málefnum sem þessum og það sýnist mér hafa gerst með Arndísi, því miður.

        Það er með ólikinum að bera við að fólk skrifi hér undir nafnleynd. Fyrirsláttur fyrir rökleysu, eða?

        Kveðja. Helga Dögg

        • Ásdís Emilía Björgvinsdóttir Says:

          Þetta er akkúrat tilfinningin sem maður hefur fyrir fylgismönnum Hjördísar. Geta ekki beitt neinum rökum, heldur eru bara með svona blammeringar og haga sér eins og tilfinningalegir goshverir, gjósa úr sér alls kyns ótrúverðugum fullyrðingum og geta ekki rökstutt neitt sem þau segja – samanber Arndís hér!

    • Haukur Says:

      Heil og sæl Arndís

      Ég sé ráð til þess að þagga niður í þessum Sigurði. Mig grunar, að hann hafi ekki gefið leigupennatekjurnar frá Kim upp til skatts. Snúðu þér því til ríkisskattstjóra með ábendingu um meint skattsvik Sigurðuar. Hann heppir þá vonandi sömu örlög og bróðir hans í glæpum Al Capone gerði um árið. Sannanir þínar munu án ef duga til að hann þrufi að borga háar sektir fyrir svikin, eða jafnvel sitja inni, fer líklegast eftir upphæð greiðslnanna. Ég meina sannanir þínar hljóta vera byggðar á gildum og traustum heimildum, öðrum en þeim að hann sé ekki í alla staði sannfærður um málflutning Hjördísar, en ef ekki, þá er svo sem ekkert ólíklegt að skattayfirvöld á Íslandi taki jafn óhrekjandi röksemdarfærslu gilda. Svo, ekki hika Arndís, láttu Sigurð finna fyrir því hvar Davíð keypti ölið!

    • Guðrún Hulda Fossdal Says:

      Arndís, ég hef lítið tekið þátt í umræðum um þetta mál. Sérstaklega þar sem ég á erfitt með að mynda mér skoðun. En ég ásamt flestum sem ég þekki og hafa heyrt af þessu máli ber eingöngu hag stúlknanna fyrir brjósti.
      Ég verð að taka undir það að á Íslandi er mæðraveldi, þó það hafi vissulega tapað krafti sínum.
      Ef faðir á Íslandi fær forræði yfir börnum sínum er of fyrsta spurning sem er spurð „er mamman í neyslu?“ eða „er eitthvað að mömmunni?“ það er sjaldan gert ráð fyrir því að faðirinn hafi einfaldlega verið betri uppalandi þó báðir foreldrar væru hæfir og ekkert að þeim.
      Ef móðir ákveður að barn sé betur komið hjá föður sínum koma líka fáránlegar spurningar og hún er óðara dæmd sem t.d. djamm fíkill eða verra.
      Ef barn fæðist án þess að foreldrar séu saman er almennt viðhorfið á Íslandi það að faðir barnsins eigi að geta beðið með að mynda geðtengsl við barnið á meðan barn og móðir tengjast svo barnið verði ekki fyrir tengslaröskun.

      Hvað viðkemur þessu máli þá verð ég að segja það að rök Hjördísar skemmdust mikið þegar hinn barnsfaðir hennar steig fram og sagði sína sögu.
      Hans saga er merkilega mikið í samræmi við sögu margra Íslenskra feðra sem ákveða að leggja ekki meira á barn sitt og hætta í umgengisbaráttu frekar en að draga barn sitt inn í slagsmál.
      Ég þekki ófá dæmi þar sem faðir var dæmd umgengni, jafnvel komið á staðinn ásamt fulltrúa sýslumanns og móðirin ekki verið á svæðinu með barnið.
      Þessir menn hafa sumir hverjir komið helgi eftir helgi og alltaf komið að tómum kofa, án þess að móðirin hafi þurft að sætta ábyrgð gerða sinna.

      Börnin í þessu máli skipta máli, tengsl þeirra við ættmenni sín á báða bóga skipta máli.
      Börn sem alast upp við það að þurfa að skammast sín fyrir að elska foreldri sitt skaðast og missa getuna á því að þekkja sínar sönnu tilfinningar og það er eitthvað sem ætti að hafa að leiðarljósi í þessu máli fyrir utan margt annað.

      • Guðrún Says:

        Mikið er ég sammála þér, en gleymum ekki að til eru börn sem hafa beðið eftir pabba aftur og aftur, en hann kemur ekki og sá pabbi hefur jafnvel staðið i forræðisdeilu við móðurina 😦

  14. Ásta Says:

    Mér hefur alltaf fundist vanta rosalega mikið inn í þetta mál, staðreyndir, sem styðja hennar málstað betur. Hún segir hitt og þetta, og segir að börnin hafi sagt frá ofbeldinu, ég hef séð myndir sem eiga að vera af áverkum sem faðir á að hafa veitt barninu á meðan það var í hans umsjá. Ef þetta er allt satt og rétt sem hún segir, hvernig getur það verið að dómstólar komist alltaf af sömu niðurstöðu ? Mér finnst líka rosalega ámælislegt að kalla sálfræðinga sem hafa lagt mat á málið vera fífl, af því að þeir eru ekki á hennar máli. Ég verð að segja að 3 sálfræðingar sem komast að sömu niðurstöðu, hlítur að vera ansi trúverðugt. Og annað er að í fyrsta málinu þeirra var þeim dæmd sameiginleg forsjá, þar sem að í danmörku er yfirleitt alltaf venjan að dæma sameiginlega forsjá í forsjá málum, og þá virðist það ekki hafa skipt máli að hann væri dani og hún íslensk, eins og hún og hennar fólk er alltaf að impra á að útlendinum sé misnunað í svona málum. Ég finn virkilega til með þessum börnum, og mér finnst hegðun hennar í þessu máli vera virkilega ámælisverð. Þessi grein er mjög vel skrifuð, listar allt mjög vel upp, þannig að maður getur rifjað upp málið í heild sinni, eins finnst mér gott að fá linka á dómana, til stuðings á þessum staðreyndum.

    • Sigurður Says:

      Velkomin Ásta og takk fyrir innleggið.

      Það er sem stendur bara einn dómur aðgengilegur á netinu. Það er dómur Héraðsdóms Austurlands.

      http://www.domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=A201000018&Domur=5&type=2&Serial=2

      • Ásta Says:

        Sæll, já ég veit að dómarnir eru ekki opinberir, en þú ert samt sem áður að vitna í þá ekki satt ?, eða allavega skildi ég það. Ég veit einmitt að dönsku dómarnir eru ekki opinberir, eins og gert er hér á Íslandi, en þú hefur augljóslega fengið þá, og þeir hafa verið þýddir.

        • Sigurður Says:

          Jú þetta er rétt hjá þér. Í greininni gefur að líta beina tilvitnun í íslenska dóma og niðurstöðu sálfræðimats. Dönsku dómarnir og greinargerðir sálfræðinga voru þýddar úr ljósrituðum frumgögnum.

          • Guðrún Says:

            Hvar kemstu í þá?

          • Þorsteinn Kolbeinsson Says:

            Sæll Sigurður

            Verulega góð lesning. Virkar allt frekar clean cut og miðað við þetta er ég sammála þér. Líkt og Guðrún skrifaði 25 janúar langar mig einnig að vita hvernig þú hefur fengið aðgang að dómsskjölum sem þú ert að þýða úr í þessari grein, svona fyrst það er ekki aðgengilegt online.

          • Sigurður Says:

            Sæll Þorsteinn, sæl Guðrún,

            Ég hafði gleymt að svara þér Guðrún. Afsakaðu það.

            Nú hef ég bara ekki leyfi til að gefa upp hver lét mér þessi gögn í té.

            Ef einhver efast um að þessar heimildir séu réttar þá bendi ég á að slíkt hefði auðvitað verið afhjúpað af stuðningsmönnum Hjördísar um leið og innihald þeirra var birt.

  15. Haraldur Magnússon Says:

    Virkilega góð samantekt á þessu máli. Takk

  16. krimer Says:

    Var það sundlaugin, eða skortur á sundlaug, sem olli þessu fjaðrafoki?

    • Sigurður Says:

      Ég myndi nú segja að það væri fulllangt gengi að segja að það sem hrjái Hjördísi sé bara skortur á sundlaug.

      En það sem móðir Kims segir hér fyrir ofan er að skömmu áður en Kim gafst upp á sambandi við Hjördísi vildi hún að þau keyptu hús með sundlaug. Bankinn mun hafa neitað að veita þeim lán fyrir kaupunum sem aftur varð þess valdandi að Hjördís (og reyndar móðir hennar) varð mjög fjandsamleg í garð Kim. Þetta hafi í raun orðið hinn endanlegi ásteytingarsteinn í sambandinu og valdið því að Kim skildi við Hjördísi.

      Um þetta er auðvitað ómögulegt að fullyrða nokkuð og hér endursegi ég bara það sem hér hefur verið sagt á dönsku af móður Kim.

  17. Sigurður Says:

    Má til með að benda á frábæra grein Evu Hauks um málið sem hún birtir á vefnum http://www.kvennabladid.is.

    Hér gefur að líta viðtal við annan barnsföður Hjördísar sem, ef satt reynist, bendir til að Hjördís hafi innrætt syni sínum neikvæðar hugmyndir um föður sinn og tálmað honum umgengni.

    Sjá: http://kvennabladid.is/2013/12/02/vidtal-vid-barnsfodur-hjordisar-svan/

  18. steinar mar Says:

    Ég býð spenntur eftir mótrökum sem tæta niður lið fyrir lið. Að gera það ekki væri stórkostlega heimskulegt. Ef það er ekki gert geri ég ráð fyrir að það sé ekki hægt, ergo að það sem í greininni standi sé satt.

  19. Sigurður Says:

    Í meðfylgjandi skjáskoti má sjá nýjar upplýsingar í málinu sem koma frá konu sem einnig á barn með Þorsteini Eyfjörð Benediktssyni. Skjáskotið sýnir ummæli sem hún færði inn undir grein Evu Hauks á Kvennablaðinu.

  20. Sigurður Says:

    Nýtt í málinu: Hjördís kærir til Hæstaréttar úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, um að hún skuli afhent dönskum yfirvöldum á grundvelli handtökuskipunar.

    http://www.ruv.is/frett/kaera-handtokuskipun-til-haestarettar

  21. Ingibjörg Says:

    Ég er mjög fegin þessari umfjöllun þinni um málið.
    Þótti þetta mál afskaplega undarlegt fyrst þegar ég heyrði af því.

    Aðstandendur Hjördísar (eða hún sjálf) voru með einhverja stuðnginssíðu, þar sem ítrekað voru birt myndbönd sem hún tók upp af börnum sínum.
    Í nokkrum af þessum myndböndum voru börn hennar grátandi. Hún gerði ekkert til þess að hugga börnin, heldur markvisst att þeim áfram í augljósri vanlíðan sinni með frösum á við, „Viltu nokkuð aftur fara til Kim?“, „Er Kim ekki vondur?“

    Fann alveg svakalega skítalykt af þessu, enda það fyrsta sem mér datt í hug var að þessi viðbrögð voru þjálfuð.

    Skoðun mín á þessu máli hefur alltaf verið frekar óvinsæl, en að mínu mati ættu börnin að vera hjá föður sínum og helst ekki hitta móður sína nema í vöktuðum heimsóknum.

    Mikið af þessum meintum sálarskaða sem hún heldur fram að börnin hafi orðið fyrir, hefði verið afskaplega auðvelt að koma í veg fyrir. Enda tel ég það nokkuð víst að hún sjálf hafi verið orsökin.

  22. Helgi Says:

    Arndís, Hvernig útskýrir þú þá frásögn hins barnsföðurs Hjördísar. Eða þá frásögn einnar af barnsmæðrum þess manns um að Hjördís hafi bæðið tálmað umgengni gagnvar þeim manni og það sem meira er, að hún hafi neitað syskinunum um að hittast? Ertu að halda því fram að allt þetta fólk ljúgi?

  23. Kristinn Sigurjónsson Says:

    Veit einhver hvar börnin hans Kims eru, eru þau komin heim til hans.

    • Sigurður Says:

      Þau eru ekki komin til hans nei. Skv. því sem fram hefur komið í fjölmiðlum eru þau með móður sinni einhversstaðar Íslandi en hvar nákvæmlega er ekki á almennu vitorði.

      Hinsvegar vita viðkomandi yfirvöld vel hvar þau eru staðsett enda ganga þau í skóla hér eftir því sem fram hefur komið sömu miðlum.

  24. Bjorn Says:

    Heyrði að þetta væri eitt allsherjar samsæri gagnvart þessari Hjordísi. Bæði frá móður systur elsta barns hennar og margra annarra. Það þarf engan sérfræðing til að sjá að hún Hjordís er mjög óhæf móðir og hefur einungis sína hagsmuni að leiðarljósi og enga aðra. Væri allt í lagi hjá henni þá myndi hvaða móðir sem vilja það að t.d elsti sonur hennar myndi kynnast systur sinni.

    Það má líka spyrja sig afhverju dómstólar hafa ávallt komist að þeirri niðurstöðu að faðir eigi að hafa forræði og lögheimili. Varla er það líka samsæri gegn henni en þeir sem halda því fram ættu alvarlega íhuga sinn hugsunargang og hvernig þau lýti á dómaframkvæmd. Varla eru dómstólar að leika sér að því að dæma forræði til ofbeldismanns, nei það gera þeir ekki en og því skal spyrja ,,afhverju vinnur hún ekki þessi mál fyrir dómstólum ?,,.

  25. Helgi Says:

    Það sem er magnað við þetta mál er hve augljós samtrygging fjölmiðlamanna er. Þrátt fyrir að bent hafi verið á að Hjördís hafi stundað umgengnistálmanir gagnvart öðrum barnsfeðrum sínum þá halda fjölmiðlar hlífiskildi yfir hverjum öðrum í málinu og minnast ekkert á þetta atriði hefur ekki verið tekið til umfjöllunar í þeim miðlum sem fjalla hvað mest um mál Hjördísar.

    Annað athyglisvert má sjá í grein dv.is um málið:

    http://www.dv.is/frettir/2013/12/22/kaera-handtokuskipun-hjordisi-til-haestarettar/

    Í greininni segir orðrétt:

    „Þá hafi ráðuneytið lýst yfir áhyggjum við dönsk yfirvöld um stöðu barnanna vegna þess að skólayfirvöld og fleiri hafi sakað föðurinn um ofbeldi gegn börnunum.“

    Blaðamönnum DV og RÚV hefur ekki í eitt skipti dottið í hug að leita sannleikans í málinu og fá að sjá þessi skjöl sem skólayfirvöld og fleiri ótilgreindir aðilar eiga hafa sent dönskum yfirvöldum. Þeir lepja einungis upp það sem Hjördís heldur sjálf fram án nokkurra gagnrýnna spurninga.

    Fleiri skjöl sem Hjördís segir að séu til t,d læknaskýrslur, hafa ofangreindir fjölmiðlar heldur ekki farið fram á að sjá.

    Ef gögnin eru til þá verður það að teljast undarleg blaðamennska að vitna hvergi í þau eða staðfesta tilveru þeirra.

    Vinnsla frétta af þessu máli er blaðamannastéttinni allri til háborinnar skammar.

    • Sigurður Says:

      Þú bendir á mjög áhugaverða hlið þessa máls sem mér finnst einmitt sýna sig mjög vel í þessu máli.

      Fjölmiðlar virðast ekki valda hlutverki sínu í málum sem þessum. Þá finnst mér ég greina ákveðin áhrif (e. effect) sem lýsa má þannig að því meir sem fjölmiðlar láta misnota sig, því erfiðara reynist þeim að viðurkenna mistök sín og fara að fjalla um málið á hlutlausan hátt þar sem það myndi jú opinbera mistök þeirra sjálfra.

      Þessi grein hér ásamt grein Evu, þar sem viðtal er tekið við fyrri barnsföður Hjördísar, ætti að leiða hverjum sem er fyrir sjónir að það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að allan málsferilinn hefur fjarað undan Hjördísi eða a.m.k. að verulegur vafi hljóti að vera á að hún komi hreint fram í málinu miðað við vitnisburði og önnur gögn málsins.

      Þá hefur öllum þessum fjölmiðlum verið send ábending um óeðlilega afgreiðslu Innanríkisráðuneytisins í þessu máli sem lýst er í bréfi Arndísar Hauksdóttur, stuðnings- og vitorðsmanns Hjördísar í málinu. Þeir þegja allir þunnu hljóði yfir því þó hér sé um að ræða ætlað brot á alþjóðasamnigum sem leiddir hafa verið í lög hér og verið í gildi um áratugaskeið. Sjá: https://forrettindafeminismi.com/2013/11/27/brottnams-og-talmunarmal-hjordisar-svan-aetlar-innanrikisraduneytid-ad-fara-a-svig-vid-log/

      Hefðu þessir fjölmiðlar kannað sannleiksgildi þeirra frásagna að skólayfirvöld hefðu sakað föðurinn um ofbeldi, hefðu þeir komist að því að það er einfaldlega ekki rétt að skólayfirvöld hafi gert það. Hið rétta er að einstakur starfsmaður lét undan þrýstingi Hjördísar að skrifa bréf til danskra yfirvalda sem innihélt hennar fullyrðingar um orsakir vanlíðunar. Nefnd skólayfirvöld báðust í framhaldi afsökunar á bréfi starfsmannsins og drógu þessar ályktanir til baka enda kennarinn ekki í nokkurri einustu stöðu til að skera úr um það hvort umræddu barni liði illa vegna föður eða móður.

      Dönsk yfirvöld hafa vitaskuld tekið afstöðu til þessara gagna og augljóslega fellt þann dóm að ekkert sé til í þessum ásökunum. Íslenskir fjölmiðlamenn, og af því er virðist ráðuneytisstarfsmenn, hafa skv. fréttum af því áhyggjur að dómstólar hafi ekki litið til þessara gagna eða tekið afstöðu til þeirra. Ef þetta er ástæða seinagangs við afgreiðslu málsins þá er það hneyksli útaf fyrir sig.

  26. Helgi Says:

    Hlutdeild Arndísar prests í málinu og framganga er fyrir neðan allar hellur. Ég velti fyrir mér hvort prestum leyfist slíkt ? Og ef ekki , þá er mér spurn, Hvað ætla yfirvöld að gera í málinu?

  27. Sigurður Says:

    Þá hefur Hæstiréttur kveðið upp úrskurð. Hann er nákvæmlega eins og ég bjóst við, staðfesting á niðurstöðu úr héraði, Hjördís verður afhent dönskum yfirvöldum þar sem hún mun þurfa að sæta refsiábyrgð vegna glæpa sinna.

    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/01/23/afhent_donskum_yfirvoldum/

    Ég hef hinsvegar ekki upplýsingar um að íslensk yfirvöld hafi svarað fyrirspurnum Kims eða danskra yfirvalda.

  28. Helga Nína Heimisdóttir Says:

    Íslendingar hafa lögfest Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna og það samræmist honum ekki að framselja Hjördísi Svan til Danmerkur. Ég hef fylgst með myndum af börnunum inni á facebook frá því Hjördís fór fyrst út, Ég hef líka fylgst með bréfum Emmu elstu dótturinnar, sem innihéldu yfirleitt sögur af bræðisköstum Kim sem hún kallar aldrei pabba og segist alltaf vera hrædd. lýsingar hvernig hann hafi tildæmis í einu bræðiskastinu keyrt matborðið svo fast á Matthildu að hún náði ekki andanum, og fleiri álíka sögur. Eins var Hjördís Svan búin að vera í ca tvo mánuði á Íslandi haustið 2012 þegar Mía yngsta dóttirin trúði leikskólastarfsmanni fyrir því að pabbinn hefði verið vondur við sig í klofinu. Hjördís var ekki látin vita fyrr en hún kom út. Barnið hafði verið tekið á leikskólanum og keyrt með það í einn eða tvo tíma með lögreglu bíl í yfirheyrslu til Esbjerg á leiðinni er hringt í Kim og spurt hvort hann vilji að lögfærðingurinn hans verði viðstaddur. Þegar í yfirheyrslu herbergið er komið þá er barninu tilkynnt að þarna upp á vegg sé myndavél og pabbinn fái að sjá og heyra allt sem hún segir. Varðandi þau lög sem gildi þá segir í þeim að „taka beri tillit til vilja barns, allt eftir aldri og þroska barns“. Dómar sem dæmir svona mál er ætlað að ákveða hvort hann tekur tillit til vilja barnsins eftir eigin geðþótta um hvort hann hlustar á börnin eða ekki. Fengu Íslandingar ekki nóg af svoleiðis geðþótta ákvörðunum fárra (ÚTVALDRA) eftir Breiðuvíkur hroðann? Ég þekki feður, sem þykir það þægilegt að segja það að mamman sé svo erfið að þeir formi ekki að eiga í samskiptum og sleppa því að umgangast börnin og ætla svo að hafa samband við þau þegar börnin eru orðin auðveldari í umgengni og ekki þarf að skipta á skítableyjum eða ganga með þau grátandi um gólf allar nætur, þá er það þannig að börnin kæra sig ekkert um að umgangast pabbann sem kom aldrei, eins og ég hef heyrt að hafi verið tilfellið með Þorstein Eyfjörð fyrri barnsföður Hjördísar Svan. Svo skal einnig bent á að ef móðir tálmar það að faðir fái að umgangast barnið þegar honum hentar þá má hún eiga von á sektum, en feður sem aldrei taka börnin sín í umgengni þeir fá enga sekt. Ég óska ekki eftir neinum svörum við þessum athugasemdum mínum. Kannski á ég eftir að fara lið fyrir lið í stað Arndísar yfir þetta, en hef ekki tíma til þess sem stendur. HNH

    • Kristinn Says:

      Ótrúlega mikill flökkusögukeimur af öllu því sem Helga skrifar hérna og síðari hlutinn er líklegast með því bjánalegra sem ég hef lesið.

      Ég reikna hinsvegar með því að þú farir ekki yfir neitt lið fyrir lið því líklegast er eins og í tilfelli Arndísar ekkert sem þú hefur í höndunum sem getur hrakið það sem hér hefur verið skrifað (og er byggt á opinberum gögnum)

  29. Sigurður Says:

    Nú segir dv.is fréttir af því að danskir lögreglumenn séu væntanlegir hingað til lands til að flytja Hjördísi til Danmerkur. Í sömu frétt kemur fram að börnin verði áfram á Íslandi og að Kim verði að höfða sérstakt mál til að fá þau til sín.

    Þá segist dv einnig hafa heimildir fyrir því að Innanríkisráðuneytið hafi lofað Hjördísi að ekki yrði farið að lögum í máli hennar rétt eins og ég skrifaði um í færslunni „Ætlar innanríksiráðuneytið að fara á svig við lög:

    „Samkvæmt heimildum DV hafði innanríkisráðuneytið gefið aðstandendum Hjördísar til kynna að hún yrði ekki framseld úr landi, en það gæti engu að síður gerst á næstu dögum“

    http://www.dv.is/frettir/2014/2/4/hjordis-svan-flutt-til-danmerkur/

  30. Heimir L Fjeldsted Says:

    Efir að hafa lesið allt framangreint, er samúð mín með málstað Hjördísar að engu orðin. Hún gerir börnum sínum meiri miska en þau geta umborið þegar fram líða stundir. Hennar aðstoðarfólk hefur sett ofan.

    • Ásdís Emilía Björgvinsdóttir Says:

      Heimir, ert þú ekki að leika tveim skjöldum hérna? Ert þú hinn sami Heimir L. Fjeldsted sem er að kommenta á síðunni hjá Arndísi prest og ert fylgjandi Hjördísi Svan?!

  31. Guðbjörg Says:

    Æj æj æj . Er þetta í alvörunni þarft innlegg í þetta mál eða málefnanlegt yfir höfuð.!!!!

    „Kvennahreyfingin stendur með sínum og setur þessi mál einatt í samhengi við það sem þær kalla kerfisbundið ofbeldi karla gegn konum. Samtök femínista berjast svo gegn framgangi foreldrajafnréttis með beinum og skipulegum hætti og sýna lítinn vilja á samstarfi við réttindasamtök sem berjast fyrir jafnrétti á sviðum þar sem almennt hallar á karla.“ Þvílíkar alhæfingar. Er ekki hægt að ræða þetta af skynsemi, í alvörunni og er þetta þessum málflutngi sem annars gæti verið svo ágætur til framdráttar.

    Held að við séum flestar ef ekki allar konur í landinu partur af þessari „kvennahreyfingu“, hver með sínu nefi en ætla þeim það ekki, helming landsmanna, að styðja þá framkomu að skilja að börn og föður. Það vill það enginn og það vill enginn styðja slíkt nema brýna nauðsyn beri til.

    Við erum öll varnarlaus gegn blekkingarleik þegar hann er vel skipulagður, hver sem á í hlut sem gerandi, konur eða karlar. Konur hafa átt brattan að sækja einnig þegar heimilisofbeldi hefur átt sér stað og þurft að afhenda börn sín ofbeldismönnum sem einnig leika blekkingarleiki. Það að einhver nýti sér það með fölskum hætti til að skilja að börn og föður er ófyrigefanlegt og tuska í andlit þeirra sem raunverulega hafa þurft eða þurfa að búa við ofbeldi.

    Þetta mál er fáránlegt frá upphafi til enda og ég vona svo innilega að börnin hafi ekki hlotið of mikinn skaða af hver sem raunveruleikinn er. Það hallar verulega á móður þegar 8 dómar falla henni í óhag og ég á bara erfitt með að trúa að kerfið hafi brugðist börnunum og henni í öll skiptin.

    Drögum samt ekki helming þjóðarinnar fyrir dóm í þessu tiltekna máli. Ég þekki enga konu sem styður aðskilnað föðurs og barna nema eitthvað alveg einstakt og alvarlegt komi til (og þá standa allir saman, konur og karlar). Það er algerlega óþolandi að þurfa að sitja undir þessu……þið konur……styðjið allar…..standið saman…… það er bara ekki þannig og hefur aldrei verið. Þetta er ekki börnunum fyrir bestu og ekki ætla það helmingi þjóðarinnar að dæma þvert á það, af því bara fyrir einhvern rembing. Í alvörunni!!!!!!

    • Sigurður Says:

      Velkomin Guðbjörg og takk fyrir innleggið.

      Fyrst af öllu; þú virðist taka því svo ég sé með orðinu ,,kvennahreyfingin” að tala um allar konur í landinu. Það er alls ekki svo og ég biðst afsökunar ef ég hef verið óskýr. Ég er með enska hugtakið ,,women’s lobby” í huga sem er miklu nær íslenska hugtakinu femínistahreyfingin sem aftur telur mikinn minnihluta íslenskra kvenna að mínu mati og því alls enginn ,,fulltrúi” allra íslenskra kvenna. Þessi síða virðist vera vel sótt af konum og skv. mælingu á Youtube rásinni þá eru konur rétt um 40% gesta minna. Mikill hluti ábendinga þeirra sem mér berast koma líka frá konum þannig að það myndi alls ekki lýsa skrifum mínum rétt að segja þau vera til höfuðs konum.

      Að þessu sögðu þá held ég að margir, bæði karlar og konur, sjái þess nú merki hér og þar að þessari kvennahreyfingu hugnist ekki að láta eftir þau forréttindi sem konur búa við undir þessum málaflokki. Ég alhæfi ekki og get dregið fram dæmi þessu til staðfestingar en þau eru að finna hér á þessum vef. Dæmi þar sem skipulögð samtök femínista ýmist neita samstarfi við eða vinna gegn samtökum sem vinna að jafnrétti á sviðum þar sem á karla hallar.

      Ástæða þess að ég skrifaði þetta er sú að þegar skrifin voru gerð, mátti þegar sjá málsmetandi femínista lýsa yfir stuðningi við Hjördísi án nokkurra gagna, aðeins á grundvelli fullyrðinga hennar. Hildur Lilliendahl sannfærðist t.d. við að horfa á Hjördísi viðhafa ærumeiðingar í garð föðurins fyrir framan upptökuvélar á vef Pressunnar. Þó kom ekkert þar fram sem studdi fullyrðingar hennar – ekki neitt. Um þetta skrifaði Hildur stuðningsgrein sem ætla má að hafi verið til þess hugsuð að afla Hjördísi fylgis meðal femínista.

      Síðan sjáum við auðvitað annan málsmetandi femínsta, Þóru Tómasdóttur, skrifa einhliða umfjöllun í Nýtt Líf, Hjördísi til stuðnings og ekki bara það, heldur fylgir henni í einkaflugvél til þess að ræna börnunum og gerist þar með vitorðsmaður í glæp Hjördísar.

      Taktu líka eftir hvað umfjöllun um þetta mál er ólík eftir miðlum og þeim sem skrifa fréttirnar. DV, sem verður að teljast mjög femínískt blað, skrifar enn um brottnám Hjördísar sem ,,flótta” og passar sig að endurtaka ásakanir Hjördísar í hverri frétt um málið. Ásakanir sem hafa verið marghraktar. Síðast en ekki síst sjáum við svo framgöngu Hönnu Birnu í málinu en framganga ráðuneytis hennar er fordæmalaus. Við búum nú við kerfi þar sem hægt er að hitta þennan æðsta yfirmann dómsmála í landinu og freista þess að fá sérstaka afgreiðslu mála sinna með því að höfða til tilfinninga hennar.

      Ég er sammála þér að það væri algjörlega fáránlegt af mér að stilla þessu upp sem konur (allar) á móti körlum en það var bara ekki meining mín.

  32. Sigurður Says:

    Vísir segir ranlega frá því að Hjördís hafi verið dæmd í fjögurra vikna gæsluvarðhald ytra. Hið rétta er að hún er í farbanni. Frjáls ferða sinna en má ekki fara úr landinu og þarf að koma á lögreglustöð einu sinni á dag til að láta vita af sér. Í sömu frétt er haft eftir Láru V. Júlíusdóttur, lögmanns Kims að hún telji að nú ættu íslensk yfirvöld að láta börnin af hendi. Sjá: http://www.visir.is/hjordis-i-gaesluvardhaldi-i-horsens/article/2014702089939

    DV segir frétt þess efnis að Hjördís sæti nú farbanni. Í þeirri frétt er birt yfirlýsing frá lögmönnum Hjördísar Svan. Annar þeirra er Hreinn Loftsson en hann lætur m.a. hafa eftir sér: ,,Mál þetta hefur ekki verið flutt í fjölmiðlum af hálfu undirritaðra lögmanna þar sem um viðkvæm persónuleg mál er að ræða“. Sjá: http://www.dv.is/frettir/2014/2/8/hjordis-i-farbanni/

    Hreinn virðist vera búinn að gleyma yfirlýsingu sem hann birti á vef Pressunnar þann 5. júlí 2012 og svo hinu að hann er eigandi Nýs Lífs sem sendi hafði ritstjóra sinn með í för þegar Hjördís nam börnin ólöglega á brott í á síðasta ári. Hreinn hefur því ekki aðeins látið það eftir sér að flytja hið persónulega mál í fjölmiðlum heldur hefur hann ekki talið eftir sér að græða á því pening í gegnum eignaraðild sína að Nýju Lífi.

    Í yfirlýsingu sinni ýja lögmennirnir að því að Kim óttist að fara í brottnámsmál en sjálfur hefur Kim sagt að hann vilji helst forðast það þar sem slíkt muni kosta dæturnar enn meiri sársauka en þegar er orðinn í formi þess sem hann kallar innrætingar Hjördísar.

    • María Jónsdóttir Says:

      Eftir að hafa kynnt mér þessi gögn hér á síðunni með tilvísun í dóma sem hafa fallið og lesið viðtalið við Þorstein, annan barnsföður Hjördísar, finnst mér málið fyrir neðan allar hellur. Mínu eigin barni var snúið gegn mér með innrætingum svo ég fylgist með málinu. Það er enginn leikur að lagfæra slíkt. Á hinn bóginn á ég vinkonu sem var innrætt hatur á föður af móður þegar hún var á barnsaldri. Hún dýrkaði móður sína til tuttugu og þriggja ára aldurs, en eftir það snéri hún alveg við blaðinu og fór að hitta föður sinn. Hún hefur átt mjög erfitt með að fyrirgefa móður sinni.

      Mér finnst merkilegt hvernig stuðningsmenn Hjördísar hegða sér og reka málið með dylgjum og svívirðingum opinberlega. Rak augun í ummæli frá Arndísi Hauksdóttur presti sem virðist einn af dyggustu stuðningsmönnum Hjördísar og var steinhissa. Hér er hluti af ummælunum:

      „Nú hafið þið örugglega séð sorann á netinu um málið. Ég get greint ykkur frá því að þar hafa farið fremst í flokki dæmdur fíkniefnasali, dæmdur nauðgari, síða sem kallast „forréttindafeminismi“ og er stútfull af kvenhatri. Sá er heldur henni úti skrifar undir fölsku nafni en ég er með áræðanlegar heimildir um höfundinn, kona sem á bróður sem tók barnið af barnsmóður sinni er það var enn á brjósti og flakkaði með það um landið í marga daga. Barnið var nær dauða en lífi. Ekki má gleyma „norninni“ (hún kallar sig það sjálf) sem tók „viðtal“ við fyrri barnsföður Hjördísar. Ein lygaþvæla frá upphafi til enda frá manni sem eiginlega er hvorki læs né skrifandi og mikill óreglumaður. Ég ætla ekki að reyna að skilja hvað þessu mannvali gengur til.“

      Þessum fésbókarummælum var svarað með illa rökstuddum upphrópunum um samstöðu. Verð að játa að mér finnst þetta ekki sæma presti. Ég sá viðtal við Hjördísi þar sem hún lýsir sinni hlið á málinu og fannst það mikil einföldun staðreynda. Stuðningsmenn hennar virðast reiða sig á gögn gegn Kim sem verða birt síðar. Það verður merkilegt að sjá.

      • Sigurður Says:

        Velkomin og takk fyrir innleggið María.

        Heiftin í Arndísi er nú ekki síst það sem varð til þess að vekja forvitni mína á þessu máli. Af því að lesa ummæli hennar á netinu, þá virðist hún drifin af almennri ólund – þó einkum út í karlmenn – frekar en nokkru öðru.

        Það er áhugavert að sjá að fólk sem gerir út á að dreifa sora skuli brigsla manni um slíkt við það eitt að telja upp staðreyndir og vísa til gagna málsins. Þegar ég skrifaði þessa grein átti ég von á að andsvörin yrðu krefjandi en þau voru víst engin þegar upp var staðið. Sé greinin hér að ofan lesin og athugasemdir Arndísar í beinu framhaldi sést að hún er ekki alveg í tengslum blessunin.

        Arndís hefur ekkert fyrir sér í því að ég heiti öður nafni en ég gef upp og allra síst að ég sé kona – systir manns sem rændi barni. Mér finnst þessi ummæli hennar lykta af vænibrjáli og ég efast um að ég sé einn um þá skoðun.

        Áhugavert sem þú segir að barn þitt hafi verið beitt innrætingu. Ég þekki sjálfur svona dæmi en þó ekki nálægt mér þannig. Mér er minnisstætt eitt dæmið þar sem dóttir hafði ekki samband við föður sinn vegna þess að henni hafði verið sagt að hann vildi ekkert með hana hafa. Faðirinn hafði svo ekki samband við dótturina vegna þess að honum hafði verið sagt að hún vildi ekkert með hann hafa. Bæði tjáðu þau vinum þrá sína til að ná saman og það varð svo fyrir tilstuðlan sameiginlegs kunningja að þau náðu loks saman þegar hún var komin hátt á fertugsaldur. Þarna var móðirin að hefna sín á karlinum fyirr að hafa skilið við sig.

        Ég gæti haft áhuga á sögunni þinni, vertu í tölvupóstsambandi ef það er eitthvað sem þú ert opin fyrir.

        • Lárus Sigurðsson Says:

          Ég er sammála þér, þessi framkoma prestsins er ein af ástæðum þess að stuðningur við Hjördísi minnkaði. Ef presturinn hefði gætt orða sinna og sleppt yfirgengilega ýktum yfirlýsingum sínum þá hefði hún kannski gert gagn fyrir málstað Hjördísar. Ég hef ekki ennþá séð hana „tæta þetta niður, lið fyrir lið“ eins og hún sagðist ætla að gera, það gerir hana að lygara og þar með tapar Hjördís trúnaði.

  33. Kári Says:

    Rakst rétt í þessu á tvö áhugaverð innlegg frá föður barnanna á dv.is;

    It’s very simple!

    1. The mother is forcing the children to create drawings or write texts about bad things about the father and then she forces them to say it in either kindergarten, school or wherever the mother wants to raise a doubt forwards the father.

    2. If a child tells about it in the school, then the school is obligated to report it to the municipality and also to the police. This process is a standard process and can be executed for an unlimited amount of times.

    3. When this new documentation has been created, the next in line takes over and that is the lawyer. His/her job is to blow this up to be very dramatic and thereby use it in courts, authorities, the press etc.

    Since this is a mechanism that we have in our society to protect our children from being abused, reporting these matters can go on and on. There is no feature in this mechanism to prevent from abuse of the mechanism! Therefore it is possible for a person with the wrong intentions to abuse this and always hold the momentum with new doubts and accusations and start new cases over and over again, just like we see it in this case. In one year or in five years there will still be new documentation because it is possible to keep creating new material, and why not do it since the ordinary population is paying for it.

    The chain is not stronger than the weakest link!

    Og svo þetta:

    Hjórdis Svan’s Icelandic lawyer Hreinn Loftsson and her Danish lawyer Thomas Berg are only in this for money and nothing else! They have no case what so ever and have never had, which is proven in all their lost cases. One huge problem in this case is that it is possible to kidnap children from Denmark without anybody can or will do anything about it. Even if I alarm the authorities about my great concern that my children are on their way out of the country, nothing is done and it does not make it easier when the icelandic authorities then are helping the kidnapper. So this is just running in a loop and can go on forever and will because of Hjórdis Svan behavior plus the two above mentioned lawyers. The lawyers don’t care about the children’s wellbeing and neither does Hjördis Svan, they are only interested in making a lot of money on this case. Hreinn Loftsson was paid around 600.000 Icelandic kr. Just for the appeal case regarding the arrest order, this is an example of what the Icelandic and Danish tax money are spend.

    It is child abuse, but very good for business!

    Ég held að það fólk sem styrkir þetta glæpakvendi með peningagjöfum ætti að skammast sín fyrir að halda þessari martröð gangandi.

  34. Haukur Sigurðsson Says:

    Sigurður, þakka þér kærlega fyrir að safna saman og greina málefnalega frá þeim staðreyndum (skjalfestu upplýsingum) sem til eru um þetta mál og allt þess ferli. Því hefur ekki einn einasti fjölmiðill landsins verið nálægt ennþá. Æra þessa fjölmiðla væri meiri fyrir vikið, ef þeir myndu hreinlega sjálfir viðurkenna hvaða skrif og órannsakaðar aðdróttanir hefðu betur aldrei litið dagsins ljós. En slík fyrirmyndarhegðun íslensks fjölmiðils mun því miður seint sjást. Þakka þér hugsjónastarfið.

    • Sigurður Says:

      Velkominn Haukur og takk fyrir kveðjuna.

      Þetta mál er mjög góður spegill á samfélag okkar og ákveðnar meinsemdir í því. Þú nefnir aðgerðarleysi fjölmiðla og það er vissulega rétt að þeir hafa með bæði aðgerðum og aðgerðaleysi í máli þessu sýnt hversu auðveldlega þeir láta misnota sig í svona málum. Ég spái því að enginn fjölmiðill muni viðurkenna mistök sín í þessu máli þó ég merki nú aðeins yfirvegaðri umfjöllun um þetta mál núna, sérstaklega á Vísi.

      Það má eiginlega segja að regluverkið sé að þróast hraðar í átt til foreldrajafnréttis heldur en viðhorf samfélagsins svona almennt. A.m.k. finnst mér ég sjá það á þessu máli.

  35. Johanna Gardarsdottir Says:

    Mál barna eða þeirra sem geta minnst varið sig ná auðveldlega tökum á tilfinningunum. Ég verð mest pirruð á sjálfri mér þegar mín auma meðvirkni vaknar og svona mál bera á góma og fer að leggja við hlustirnar. Sem betur fer hefur manni lærst að leiða hjá sér a.m.k. oftast, umræður og fréttir af þessum málum þó einstaka sinnum reki forvitnin/ fróðleiks-fýsnin mann áfram.

    Það er svo sem vitað mál að einhliða rökstuðningur er sjaldnast sá eini rétti. Öll deilumál eiga sér fleiri hliðar, hvort sem málin heita Hjördís Svan, Ella Dís eða Halim Al. Þau eiga það sameiginlegt að hafa dregið þjóðina inn í umræðuna eins og um væri að ræða mál náinna ættingja. Allt í einu förum við að láta þessi mál okkur varða og tökum afstöðu með eða móti, allt frá aumum almenningi til embættismanna.

    En það sem ég vildi helst hafa sagt;
    „SVEI þeim sem mæta til leiks með börn sín að vopni og það á opinberum vettvangi“

    PS
    Mæðraveldi er eigingjarnt veldi, því miður og meðan ungarnir okkar eru litlir viljum við hafa þá í augsýn. Það eru mannréttindi ap börn eigi foreldra eða staðgengla foreldra en það eru ekki mannréttindi að eiga börn.

    • Sigurður Says:

      Velkomin Jóhanna og takk fyrir innleggið.

      Já, ekkert okkar er yfir það hafið að lenda í því stöku sinnum að láta stjórnast af tilfinningum. Því miður er þetta eiginleiki sem er markvisst misnotaður í svona málum, af fólki sem á hagsmuna að gæta – með allt of góðum árangri. Verra þykir mér þegar embættismenn falla í þessa gryfju.

      Tek heilshugar undir orð þín að það er slæmt að nota börn sem vopn og að það eru réttindi barna að njóta beggja foreldra.

  36. Sigurður Says:

    Til upplýsinga:

    Ég hef nú fengið upplýsingar um að fjölskylda og stuðningsmenn Hjördísar Svan sé að bregðast við skrifum mínum með því að segjast hafa upplýsingar um að ég sé dæmdur ofbeldismaður. Hvurslags ofbeldi ég á að hafa framið hefur mér ekki tekist að fá upplýsingar um en skv. systur Hjördísar þá á það allt eftir að koma í ljós.

    Þessar aðdróttanir eru rangar eins og aðrar sem frá þessu fólki koma. Sakavottorð mitt er tandurhreint.

  37. Kristinn Says:

    Þetta eru nú bara örlög þeirra sem þora að hafa aðra skoðun en Hjördís og stuðningsmannaliðið hennar. Þetta má t.d. sjá á facebook síðu Arndísar þar sem hún nafngreinir dæmdan fíkniefnasala sem hefur leyft sér að tjá sig um þetta mál.

    Það er eins með þetta og aðrar staðreyndir í málinu að ekki á að láta þær neitt vefjast fyrir sér. Öllu skal slengt fram!

%d bloggurum líkar þetta: