Um bloggið

Fyrst af öllu vil ég taka fram að höfundur hefur ekkert á móti jafnréttissinnuðum femínistum, nema síður sé. Hér er aðeins sett fram gagnrýni á öfgafemínisma sem ég vil aðgreina skýrt frá venjulegum femínisma enda finnst mér engar öfgar felast í kröfu um jafnrétti. Ég bið fólk að hafa það í huga þegar það les bloggið. Tölvupóstfang mitt er neðst á þessari síðu.

Hugmyndafræðin

Þegar ég var lítill drengur var það á allra vitorði að ljúga mætti hverju sem var svo fremi að maður krossaði vísifingur og löngutöng hægri handar fyrir aftan bak.

Höfundur er ósköp venjulegur karlmaður sem mótaðist í samfélagi þar sem mikið var talað um bága stöðu kvenna. Ég uppgötvaði ungur að ég hafði tileinkað mér margskonar viðhorf sem byggðust ekki á mínum reynsluheimi heldur því sem stöðugt var tönnlast á í fjölmiðum.

Ég kem ekki frá slæmum stað hvað þetta varðar. Þ.e.a.s. ég er, sem betur fer, ekki forræðislaus faðir sem farið hefur halloka út úr samskipum við barnsmóður né hef ég orðið fyrir beinni mismunun á annan hátt. A.m.k. ekki að neinu ráði. Mér varð það einfaldlega á að kíkja undir teppið og sá mér til mikillar undrunar að ansi margar fullyrðingar femínista standast enga skoðun og byggjast, því miður, allt of oft á mjög veikum hugmyndagrunni sem oft  er gæddur búningi fræðilegrar þekkingar til að afla honum meira fylgis.

Eftir að hafa svo farið að lesa mér til og fylgjast með hinni svokölluðu jafnréttisumræðu, sá ég að hópur fólks í samfélaginu fer þar fram af mikilli heift og offorsi. Þetta vakti forvitni mína, sérstaklega þar sem þessum hópi fólks var tamt að fullyrða að hann hefði höndlað einskonar endanlegan sannleika sem ku vera kenndur í kynjafræði. Þeir sem sæju það ekki væru bara bjánar, gjarnan gamaldags bjánar. Þá finnst mér hræsni einkenna þennan hóp fólks meir en nokkurn annan hóp í þjóðmálaumræðunni. Fljótlega gerði ég það upp við mig að þetta fólk væri það sem kallað er á góðri íslensku öfgafólk.

Öfgar í jafnréttisbaráttu geta sjálfsagt allir verið sammála um að hefjist þegar hreyfing, eða einstaklingar innnan hennar, krefst réttinda umfram viðmiðunarhóp, þ.e. forréttinda. Ég veit að langflestir femínistar eru jafnréttissinnar, en ég veit jafn vel að það á ekki við um alla. Mér finnst nauðsynlegt að aðgreina öfgafulla femínsta frá öðrum og kýs að flokka þessar tvær fylkingar í jafnréttisfemínista annarsvegar og forréttindafemínista hinsvegar, ekki ósvipað og Christina Hoff Sommers gerir í bók sinni Who Stole Feminism. Rétt er að taka fram að hugtökin sem hún notar eru Equity feminism annarsvegar og Gender feminism hinsvegar. Íslenska orðið jafnréttisfemínisti nær ágætlega utanum fyrra hugtakið en bein íslensk þýðing á hugtakinu Gender feminism væri kyngervisfemínismi. Inntak þess sem ég kalla forréttindafemínisma og þess sem Sommers kallar kyngervisfemínisma er þó hið sama.

Raunar held ég að framtíð femínisma sé undir því komin að gerð verði aðgreining á öfgafemínsma og hófsömum femínisma. Sennilega vinnur ekkert femínistahreyfingunni jafn mikið ógagn og öfgafullur málflutningur forréttindafemínista sjálfra nema ef vera kynni skortur á sýnilegri þátttöku jafnréttisfemínista á vettvangi kynjaumræðunnar.

Við fólk sem veltir fyrir sér hvort ég sé ekki bara haldinn kvenfyrirlitningu segi ég þetta: Femínistahreyfingin telur andlegu atgervi kvenna svo áfátt, að á 200 þúsund ára þróunarsögu nútímamannsins (homo sapiens), hafi konum ekki tekist að þróa neina styrkleika til mótvægis við karla og þ.a.l. orðið körlum undirsettar. Þetta hafi svo leitt til þess að nú þurfi konur aðstoð ríkisins við flesta þætti síns daglega lífs.

Þetta þykir mér heldur dapurleg sýn á konur og samræmist ekki reynslu minni af þeim. Konur og karlar eru ólík að eðli og það er miklu nærtækari skýring á því að konur og karlar sýna ólíkt atferli í samfélaginu, heldur en að konur séu einatt viljalaus verkfæri í höndum  karla sem hafi annarlega hagsmuni að leiðarljósi. Hliðarafurð þessarar lífsskoðunar er svo endalaus framleiðsla á karlfyrirlitningu og óþarfa sundurlyndi milli kynja.

Konur og karlar hafa ávallt lagt sameiginlega til krafta sína í þágu samfélagsins, bara hvort á sinn hátt. Með þessu er ég ekki að leggja til afturhvarf til þess sem við köllum hin hefðbundnu kynhlutverk en ég hafna því alfarið að lagður sé sá gildiskvarði á konur eða karla að hægt sé að tala um að framlag annars kynsins sem minna virðis en hins.

Bloggið tengist engum samtökum eða stjórnmálaflokkum og hefur sem slíkt aðeins það eina áhugamál að velta fyrir sér kynjastríðinu, sem er í fullum gangi. Lesendur geta því séð gagnrýni á stjórnmálaflokka til hægri, vinstri og á miðju eftir því sem við á.

Efnistök

Það er breytilegt frá einum tíma til annars hvað það er sem ég hef áhuga á, en með því helsta má nefna: Vænisýki forréttindafemínista, tvöfallt siðgæði, karlahatur/karlfyrirlitningu, rangfærslur forréttindafemínista, lögbundin eða kerfisbundin forréttindi kvenna, kvenrembu, kvennafræði, stofnanir og félög sem vinna eða eiga að vinna að jafnréttismálum, og síðast en ekki síst hvernig málefnum karlmanna er kerfisbundið haldið utan við umræðu um jafnréttismál af fólki sem á að starfa að jafnréttismálum á kostnað skattborgaranna, en gerir ekki.

Hægt er að kalla fram efnisflokka með því að velja efnisflokk á hliðarstikunni hægra megin við meginmálsdálkinn.

Aðferðafræði

Aðferðafræði minni verður kannski best lýst á þann veg að ég sæki nálgun mína að mestu, ef ekki öllu leyti, í smiðju forréttindafemínista sjálfra og þessvegna breytileg frá einum tíma til annars, allt eftir því í hvaða fasa kynjabaráttan er í hverju sinni.

Ég mun velta mér upp úr því sem mér finnst bera keim af forréttindafemínisma, ég mun túlka lög og lagagreinar þröngt málstað mínum til framdráttar, jafnvel sýna af mér smá ofsóknarbrjálæði og vera heimtufrekur og smámunasamur. Ég mun þó reyna að forðast í lengstu lög að vera dónalegur þó ærslagangur geti aukist ef mér finnst tilefni til að endurspegla með því, aðferðir forréttindafemínsta.

Markmið

Markmiðið með síðunni er tvíþætt. Annarsvegar að vera aðgengilegt safn upplýsinga um forréttindafemínisma og verða einskonar gagnasafn sem stækkar með tímanum. Hinsvegar er það að láta rödd karlréttinda heyrast, en hér má m.a. sjá bréfasamskipti við helstu stofnanir jafnréttisiðnaðarins, sem ætlað er að hafa raunveruleg áhrif þó síðar verði. Þá má búast við stækkandi safni erinda sem send eru forréttindafemínistum sem stungið hafa höfðinu út um gluggann en ekki svarðað þar sem þær hafa engan áhuga á umræðu, aðeins áróðri.

Ég hvet gesti til að kynna sér hvernig nota megi síðuna á sem hagnýtastan hátt svona fyrir utan að lesa bara röflið í mér frá degi til dags.

Þá er ég líka áhugasamur um að karlar (og konur sem eru sama sinnis) taki virkari þátt í umræðunni. Ég bendi í þessu sambandi á síðurnar Taktu þátt og Óskast.

Athugasemdir og áskrift

Hægt er að gera athugasemdir við færslur í 90 daga frá birtingu. Ég vona að það verði notað af skynsemi, en sökum starfs míns mun ég ekki hafa tíma til að taka þátt í umræðum frá degi til dags, eða jafnvel að líta inn svo dögum skiptir.

Ég undirstrika þá ósk að við sýnum hófsemi í umræðum og ég geri ekki kröfu um að fólk skrifi undir nafni svo fremi að farið við sýnum kurteisi. Upplýsingar um tölvupóstföng þeirra sem færa inn athugasemdir eru einnig meðhöndlaðar sem algjört trúnaðarmál.

Hægt er að gerast áskrifandi að blogginu með því að skrá tölvupóstfang í kassann hér í neðra hægra horni síunnar. Þá færðu sjálfkrafa nýjustu færslur sendar í pósthólfið þitt. Upplýsingar um netföng áskrifenda eru meðhöndlaðar sem trúnaðarmál og verða ekki gefin upp eða notuð í öðrum tilgangi en til sjálfvirkra sendinga á nýjustu færslum. Hægt er að afskrá sig af listanum hvenær sem er.

Til að komast í samband við höfund er hægt að senda tölvupóst á gmail netfangið:

antispam

%d bloggurum líkar þetta: