Brottnáms- og tálmunarmál Hjördísar Svan: Hanna Birna svarar

28.1.2014

Blogg

hanna-birna-kristjansdottirÍ óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær lagði þingmaður Bjartrar framtíðar, Björt Ólafsdótttir, fram fyrirspurn um brottnáms- og tálmunarmál Hjördísar Svan.

Fyrirspurninni beindi hún til Innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, og þykja mér svör Hönnu Birnu varpa ljósi á spurningar sem velt er upp í tveimur eldri færslum hér á þessum vef, annarsvegar Brottnáms- og tálmunarmál Hjördísar Svan: Ætlar Innanríkisráðuneytið að fara á svig við lög og hinsvegar Brottnáms- og tálmunarmál Hjördísar Svan: Innanríkisráðuneytið hundsar dönsk yfirvöld.

Fyrirspurnin hljóðar svo:

„Herra forseti. Ég vil inna hæstv. innanríkisráðherra eftir því hvað íslensk yfirvöld gera til að tryggja hagsmuni íslenskra barna í útlöndum, eins og við skuldbundum okkur með lögum til að gera.

Ég spyr að gefnu tilefni. Við höfum fengið fregnir undanfarið af erfiðu forræðismáli dansks föður og íslenskrar móður og Hæstiréttur á Íslandi hefur nú dæmt móðurina í framsal til Danmerkur og þar með börnin líka.

Sérstök evrópsk þingnefnd var að störfum í Danmörku 2013 og rannsakaði sérstaklega aðferðir og dómsúrskurði Dana í forræðismálum þar sem annað foreldri er af erlendu bergi brotið, m.a. þetta tiltekna mál. Nefndin komst að því að verulega hallaði á meðferð og á að réttur erlendra foreldra sé virtur til jafns við þá dönsku. Því er eðlilegt að spurt sé: Hefur innanríkisráðuneytið gengið úr skugga um að hagsmunir íslensku barnanna séu tryggðir eða hyggst það gera það?“

Áður en við víkjum máli að Hönnu Birnu má ég til með að benda á rangfærslu sem kemur fram í fyrirspurn þingmannsins.

Hér virðist komin enn einn stuðningsmaður Hjördísar sem telur að fjórir dómstólar í tveimur löndum hafi komist að rangri niðurstöðu í samanlagt átta skipti. Þá eru ótaldar a.m.k. tvær sérstakar úttektir, annarsvegar íslenska Innanríkisráðuneytisins og hinsvegar danska Félags-, barna- og samþættingarráðuneytisins en með þeim hefur verið lagt mat á málatilbúnað Hjördísar í heil tíu skipti svo vitað sé.

Þá nefnir Björt til sögunnar evrópunefndina, Committee on petitions, sem hún segir hafa rannsakað sérstaklega aðferðir og dómsúrskurði Dana í forræðismálum þar sem annað foreldrið er að erlendu bergi brotið. Björt segir að nefndin hafi m.a. skoðað mál Hjördísar og segir í beinu framhaldi að nefndin hafi komist að því að verulega hallaði á að réttur erlendra foreldra sé virtur til jafns við þá dönsku.

Það er rangt að nefndin hafi skoðað mál Hjördísar Svan.

Nefndin var heimsótt af Arndísi Hauksdóttur, heitasta stuðningsmanni Hjördísar Svan og vitorðsmanni hennar í hinu ólöglega brottnámi. Þar hlutstaði nefndin á það sem Arndís hafði að segja og gat um það í skýrslunni. Í skýrslu nefndarinnar eru listuð þau mál sem skoðuð voru efnislega og þeirra getið í viðauka 1 á bls. 12 í skýrslunni, sjá hér. Mál Hjördísar Svan er einfaldlega ekki þar á meðal.

Í ljósi þess að íslenskir fjölmiðlar virtust líta á heildarniðurstöðu nefndarinnar sem einhverskonar áfellisdóm yfir meðferð máls Hjördísar, sendi ég nefndinni fyrirspurn um það hvort hún hefði farið yfir mál Hjördísar efnislega. Um það hafði nefndin þetta að segja:

„the Hjørdis Svan Adalheidurdottir petition has not yet been examined so we can not know at this stage if it will be deemed admissible or not.“

Þar höfum við það. Nefndin skoðaði ekki mál Hjördísar og niðurstaða hennar í öðrum ótengdum málum hefur einfaldlega ekkert um mál Hjördísar að segja. Þá bendi ég á að fyrstu tveir dómarnir  í málinu, sem eins og allir hinir féllu Kim í vil, voru kveðnir upp á Íslandi. Hvernig dönsk þjóðernishyggja á að eiga einhern þátt í þessum dómsuppkvaðningum get ég ekki skilið og raunar grunar mig að það fólk sem heldur þessu fram skilji það ekki heldur við nánari athugun.

Og svona fyrst við erum að þessu þá kemur Hjördís ekkert sérstaklega illa út í dönskum dómum fyrr en fullsýnt þykir að hún er óhæf til samstarfs um uppeldi barnanna. Það er ekki fyrr en við fimmtu dómsuppkvaðningu (og þeirri þriðju í Danmörku) sem Hjördís missir forræðið í hendur Kim. Þetta er í september 2012 þegar konan er búin að nema börnin ólöglega á brott þrisvar sinnum. Í hinum málunum var þeim alltaf dæmt sameiginlegt forræði þrátt fyrir ítrekuð brot Hjördísar svo segja má að danir hafi nú ekki sparað frændsemina ef við ætlum á annað borð að hugsa á þessum forheimskandi nótum.

Þá er komið að svari Hönnu Birnu sem er ansi upplýsandi í ljósi samskipta minna við Ráðuneytið vegna þessa máls, komum að því síðar:

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina og þingmanninum fyrir að taka málið upp. Hvað varðar þessa þætti almennt þá, eins og þingheimur þekkir, eru ákveðnar varnir í gangi fyrir íslensk börn sem búa erlendis, sérstaklega ef börnin eru íslenskir ríkisborgarar. Ég á erfitt með að tjá mig um einstaka mál en tel þó að mér sé heimilt að segja frá þeirri upplifun minni í kringum þetta mál að við hljótum öll að harma hvernig því hefur reitt fram og hver staðan í málinu er.

Málið er sorglegt, það er persónulegt, það er átakanlegt og vekur okkur öll til umhugsunar um marga hluti er tengjast þáttum í samfélagi okkar. Það sem innanríkisráðuneytið hefur gert og hefur legið ljóst fyrir og komið fram í fjölmiðlum er það — og fyrst og síðast er það verkefnið — að reyna að verja hag barna og tryggja að þau njóti alls þess besta sem mögulegt er og njóti samvista við foreldra og að rétturinn sé ætíð þeirra megin. Það eru þeir samningar sem við höfum undirgengist, svokallaður Haag-samningur, auk þess sem það er hin eðlilega meðferð mála í siðuðum samfélögum eins og Ísland er. Þess vegna fór innanríkisráðuneytið í ákveðna skoðun á þessu máli eins og fram kom í fjölmiðlum síðastliðið sumar og ég óskaði eftir því að gerð yrði athugun og úttekt á því hvernig málið hefði á sínum tíma verið fram rekið af hálfu yfirvalda. Í ljós kom þá ákveðin niðurstaða af hálfu innanríkisráðuneytisins þar sem bent var á ákveðna þætti er tengjast meðferð málsins hjá sýslumönnum. Þetta er þekkt og þingmaðurinn þekkir það úr umræðunni.

Nú er staðan orðin önnur. Eins og hv. þingmaður vitnar til þá hefur móðirin verið dæmd í Hæstarétti til að fara til Danmerkur og mæta örlögum sínum þar. Innanríkisráðuneytið hefur áréttað og ítrekað sagt að gæta þurfi hagsmuna þessara barna og það kom fram í umræddu bréfi og umræddri úttekt frá innanríkisráðuneytinu, þ.e. mikilvægi þess að menn virði Haag-samninginn þegar kemur að meðferð þessara mála.“

Sem Björt svarar:

„Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góð svör. Þó að þetta mál sé persónulegt og erfitt er það samt sem áður á okkar borði. Það snýst um þrjú ef ekki fjögur börn og við verðum að taka á því. Mér finnst gott að heyra að innanríkisráðherra geri það. Staðan er núna sú að æðsta dómsvald Íslands hefur framselt eða ætlar að framselja þessa móður. Það er vissulega mjög umhugsunarvert. Ég veit að það er erfitt að vera í þessum stólum ykkar núna en ég hvet ykkur til að gera allt sem þið getið til að beita ykkur í málinu.“

Sem Hanna Birna svarar að endingu svo:

„Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um stöðu þessa máls og þá hryggð sem við hljótum öll að finna fyrir vegna þess hvernig það hefur borið upp og hver niðurstaðan er núna samkvæmt dómstólum. Við getum hins vegar ekki, eins og hv. þingmanni og þingheimi öllum er kunnugt um, blandað okkur með neinum hætti í niðurstöður dómstóla. Við höfum engar heimildir til slíks. Þess vegna hefur innanríkisráðuneytið, í öllu því sem við höfum tekist á hendur er varðar þetta mál sérstaklega, í ágætu samstarfi við velferðarráðuneytið, forsætisráðuneytið o.fl., beitt sér fyrir því og minnt á það innan stjórnkerfisins að gæta að því að hagur þessara barna sé tryggður eins og hægt sé minnug þess að börnin eru íslenskir ríkisborgarar og þurfa við þessar aðstæður á ákveðinni vernd íslenskra stjórnvalda og íslenska kerfisins, ef hægt er að kalla það það, að halda.“

Já, þá er það staðfest. Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, treystir ekki dómstólum hérlendis eða í Danmörku og lýsir hér í raun yfir stuðningi sínum við Hjördísi Svan. Hvað er annars að harma við það að þessi síbrotakona mun nú loks þurfa að taka ábyrgð á gjörðum sínum og að börnin fari aftur til föður síns þar sem þau bjuggu í öll skiptin sem þessi kona nam þau ólöglega á brott? Af hverju hljótum við öll að finna til hryggðar yfir því að konan sé látin sæta ábyrgð ólöglegra gjörða sinna?

Fyrir mér er þetta staðfesting á því að bréfið sem Arndís Hauksdóttir skrifaði og sendi öllum þingmönnum lýsir atvikum rétt. Í því kemur fram að fyrirhugað ólöglegt brottnám á börnunum var á vitorði Innanríkisráðherra þegar það var í undirbúningi og að Hjördísi hafi verið lofað stuðningi sem fælist í því að ráðuneytið myndi ekki fara eftir lögum í málinu tækist henni að koma börnunum hingað til lands af eigin rammleik.

Og nú get ég einnig skilið hversvegna Innanríkisráðuneytið svarar ekki fyrirspurnum um málið, hvorki mínum eða lesenda minna, Kim sjálfum eða jafnvel danska Félags-, barna- og samþættingarráðuneytinu. Það er vegna þess að faðir þessara barna er í huga Hönnu Birnu, persona non grata.

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

26 athugasemdir á “Brottnáms- og tálmunarmál Hjördísar Svan: Hanna Birna svarar”

 1. Helga Dögg Says:

  Sorglegra en orð fá lýst. Velti fyrir mér hvort Íslendingar, þá yfirleitt feður, fái sömu meðaumkun hjá þeim tveimur og Hjördís fær. Þetta er þingi og þjóð til skammar svo ekki sé dýpra í árina tekið. Stjórnsýslan setur niður og Hanna Birna sýnir svo ekki verður um villst að hún blandar sér í mál sem henni kemur ekki við á þeim nótum sem hún kemur að málinu. Dómstólar hafa dæmt og eftir því á að fara, þegjandi og hljóðalaust!

  • Svavar Þór Einarsson Says:

   Feður á íslandi fá ekki sömu réttindi og mæður.
   Ég er sjálfur að ganga í gegnum forræðisdeilu við mína fyrverandi á milli landa. Hef ég ekki fengið að sjá dóttir mína í tæp 2ár og veltist málið um kerfið erlendis. En þar sem að móðir segir nei að þá er réttur föður engin.

 2. Eiríkur Says:

  Hreint út sagt snargeggjað, þetta er slagur sem verður að taka til enda og vinna, Hjördís má ekki komast upp með að svína á dómstólum, föðurnum og börnunum með þessum hætti. Hversu mikið og oft er búið að sýna fram á að hún er sú sem er gerandi og ofbeldismanneskjan, engin karl hefði fengið sömu linmeðferð og kona eins og í þessu tilfelli.

  Eiki

 3. Kristinn Sigurjónsson Says:

  Björt nefnir að börnin séu 3-4, það verður nefnilega forvitnilegt að sjá hvernig fer fyrir syni Hjördísar. Hvort Hanna Birna muni styðja hana við að hindra að hann kynnist föður sínum. Hann gæti þá komist að því að pabbinn sé ekki vondur maður heldur sómakær faðir sem hefur farið á mis við son sinn og hann við pabba sinn, vegna þess hvernig Hjördís hegðar sér, allt í sátt og samlindi við innanríkisráðuneytið og undirtillur þess (löggjafavaldið, dómsvaldið, sýslumann og barnaverndarnefndar)

 4. Helgi Says:

  Heyrði því fleygt að hún hefði með þessu hugsað sér að bæta ímynd sína eftir lekamálið. Það er auðvitað auðvelt fyrir hana að gaspra eitthvað út í loftið um upplifun sína og tilfinningar í þessu máli þegar Hæstiréttur er nú búinn að ljúka því og ekkert verður að gert.

  Ef það er rétt þá virðist hún trúa því að Hjördís njóti enn stuðnings íslensku þjóðarinnar. Mér sýnist þó á umræðunni að það sé alls ekki svo lengur.

 5. Helgi Says:

  Og eitt enn .. ég ætla að leggja til að allt það fólk sem styrkti Hjördísi með peningagjöfum vegna þess „óréttlætis“ sem það taldi hana vera að verða fyrir á sínum tíma, styrki nú Kim um sömu upphæð vegna þess óréttlætis sem hann er nú augljóslega að verða fyrir.

 6. evaevahauksdottir Says:

  Ég sé ekki betur en að hún sé að gefa í skyn að hún muni (jafnvel í samstarfi við fleiri ráðuneyti) beita sér fyrir því að börnin verði kyrrsett á Íslandi. Af hverju er annars ekki búið að afhenda Hjördísi dönskum yfirvöldum?

  • Sigurður Says:

   Ég skil hana einmitt þannig líka. Í öllu falli hefur hún boðið föðurnum og dönskum yfirvöldum upp á lítil og ógreinileg samskipti um það hvernig málinu mun fram vinda.

   Skv. lögum á að framselja Hjördísi fimm dögum eftir dómsuppkvaðningu sem var síðasta fimmtudag þannig að íslensk yfirvöld eru enn og aftur að bregðast í þessu máli.

   Mér finnst ég ekki geta treyst á að Hanna Birna muni virða lög í þessu máli og trúi því satt að segja ekki fyrr en ég sé það að stúlkurnar verði sendar til síns heima.

  • Sigurjón Says:

   Ég hef einmitt sömu áhyggjur, að börnin verði hér í umsjón vandamanna sem ekki hafa forræði fyrir börnunum á nokkurn hátt.

 7. Sigurður Says:

  Sendi eftirfarandi á Björt til að leiðrétta rangfærslur hennar:

  Ágæta Björt Ólafsdóttir,

  Vegna ummæla þinna á 56. Þingfundi mánudaginn 27. jan sl. um brottnáms- og tálmunarmál Hjördísar Svan Aðalheiðardóttur vil ég koma eftirfarandi á framfæri við þig:

  1. Þú segir: „Við höfum fengið fregnir undanfarið af erfiðu forræðismáli dansks föður og íslenskrar móður og Hæstiréttur á Íslandi hefur nú dæmt móðurina í framsal til Danmerkur og þar með börnin líka“

  Það er rangt sem þú segir að börnin hafi verið dæmd til framsals til Danmerkur með móðurinni. Allt fram til þess er þinghald hófst hjá Hæstarétti Íslands hafði hvorki föður barnanna né dönskum yfirfvöldum verið svarað, af íslenskum yfirvöldum, um það hvað yrði um börnin færi svo að móðirin yrði framseld.

  2. Þú segir að evrópsk þingnenfnd hafi rannsakað „sérstaklega aðferðir og dómsúrskurði Dana í forræðismálum þar sem annað foreldri er af erlendu bergi brotið, m.a. þetta tiltekna mál“

  Þetta er rangt. Nefndin var heimsótt af Arndísi Hauksdóttur, heitasta stuðningsmanni Hjördísar Svan og vitorðsmanni hennar í hinu ólöglega brottnámi. Þar hlustaði nefndin á það sem þessi vitorðsmaður í glæpum Hjördísar hafði að segja og gat um það í skýrslunni. Í skýrslu nefndarinnar eru listuð þau mál sem skoðuð voru efnislega og þeirra getið í viðauka 1 á bls. 12 í skýrslunni. Mál Hjördísar Svan er einfaldlega ekki þar á meðal.

  Í ljósi þess að íslenskir fjölmiðlar virtust líta á heildarniðurstöðu nefndarinnar sem einhverskonar áfellisdóm yfir meðferð máls Hjördísar, sendi ég nefndinni fyrirspurn um það hvort hún hefði farið yfir mál Hjördísar efnislega. Um það hafði nefndin þetta að segja:

  “the Hjørdis Svan Adalheidurdottir petition has not yet been examined so we can not know at this stage if it will be deemed admissible or not.”

  Nefndin skoðaði semsagt ekki mál Hjördísar og niðurstaða hennar í öðrum ótengdum málum hefur einfaldlega ekkert um mál Hjördísar að segja. Þá bendi ég á að fyrstu tveir dómarnir í málinu, sem eins og allir hinir féllu Kim í vil, voru kveðnir upp á Íslandi en ekki í Danmörku og því auðséð að Hjördís er ekki fórnarlamb slíks óréttlætis í málinu.

  Þá er vert að nefna að ferill máls Hjördísar sýnir að hún hefur síst af öllu verið beitt misrétti af dönskum dómstólum. Hún kom ekki illa út í dönskum dómum fyrr en fullsýnt þótti að hún er óhæf til samstarfs um uppeldi barnanna. Það er ekki fyrr en við fimmtu dómsuppkvaðningu (og þeirri þriðju í Danmörku) sem Hjördís missir forræðið í hendur Kim. Þetta er í september 2012 þegar konan er búin að nema börnin ólöglega á brott þrisvar sinnum. Í hinum málunum var þeim alltaf dæmt sameiginlegt forræði þrátt fyrir ítrekuð brot Hjördísar svo segja má að danir hafi nú ekki sparað frændsemina.

  Að lokum vil ég benda þér á að núna hefur verið dæmt í þessu máli átta sinnum af fjórum dómstólum í tveimur löndum. Þrír sálfræðingar hafa gert sálfræðimat á málsaðilum við vinnslu þessara mála. Þá hafa ráðuneyti bæði hér og í Danmörku gert sérstaka athugun á vinnslu málsins eftir á, að beiðni Hjördísar. Þannig að segja má að málið hafi fengið efnislega meðferð tíu sinnum en aldrei leitt til niðurstöðu sem var Hjördísi í vil.

  Hvernig þú, og aðrir sem virðast sömu skoðunar, teljið að ekki sé búið að kanna framkomnar ásakanir Hjördísar til hlítar eða hvernig þið teljið að ekki sé unnið með hagsmuni barnanna að leiðarljósi er erfitt að skilja. Helst grunar mig þó að hér sé á ferðinni hrein mæðrahyggja og að þið verðið ekki sátt fyrr en móðurin fær sínu framgengt burt séð frá lögum, reglum og hagsmunum barnanna.

  Kveðja,
  Sigurður Jónsson

  • Sigurjón Says:

   Flottur. Vel sagt.

  • Sigurður Haraldsson Says:

   Og hverju svaraði þingmaðurinn?

   • Sigurður Says:

    Hún hefur engu svarað enn. Satt best að segja á ég heldur ekki von á svari. Það hefur verið mín reynsla að þegar maður sýnir kynrembum fram á kynrembu sína þá verða þær fyrst og fremst bara pirraðar.

  • Kristinn Sigurjónsson Says:

   Þetta eru glæsileg samantekkt. Það er samt reynslan að það virðist ekki vera hægt að rökræða við þetta lið. Það er eins og að rökræða við ofsatrúarfólk. Það er spurning hvort nú sé ekki kominn tími fyrir Kim að fara í mál við íslenska stjórnkerfið (innanríkisráðherra) og hvort ekki væri hægt að efna til fjársöfnunar til að liðka fyrir honum. Svona valdníðslu og lögbrot er ekki hægt að líða af stjórnkerfinu.

   • Helga Dögg Says:

    Ef Kim ætlar sér alla leið á hann lögsækja íslenska ríkið, komi í ljós að ráðherrar hundsi dóm Hæstaréttar. Hanna Birna á ekkert með að taka fram fyrir hendur dómstóla. Vona að hann láti kné fylgja kviði.

   • Sigurður Says:

    Hann mun auðvitað þurfa að gera það ef börnin verða ekki send á sama tíma og móðirin.

    Yfirvöld eru þegar komin fram yfir þann tíma sem þau hafa – lögum samkvæmt – til að framselja Hjördísi.

    Ég ætla að þetta komi í ljós mjög fljótlega

  • Halli Says:

   Verulega vel sagt.

 8. Eyjólfur Says:

  Jahérna! Ekki gefast upp. Þú (og Kim) átt í höggi við sannkallaða ruslakistu, en vonandi tekst að rétta hana af áður en innihaldið flæðir út um allt.

 9. Helgi Bjarnason Says:

  Framhaldið er fyrirsjáanlegt. Handtökuskipunin er í gildi en lögreglan mun ekki gera tilraun til að leita Hjördísi uppi samkvæmt skipun frá Innanríkisráðherra. Svo þannig mun málið verða svæft hægt og rólega.

 10. Sigurður Says:

  Nú segir dv.is fréttir af því að danskir lögreglumenn séu væntanlegir hingað til lands til að flytja Hjördísi til Danmerkur. Í sömu frétt kemur fram að börnin verði áfram á Íslandi og að Kim verði að höfða sérstakt mál til að fá þau til sín.

  Þá segist dv einnig hafa heimildir fyrir því að Innanríkisráðuneytið hafi lofað Hjördísi að ekki yrði farið að lögum í máli hennar rétt eins og ég skrifaði um í færslunni “Ætlar innanríksiráðuneytið að fara á svig við lög:

  “Samkvæmt heimildum DV hafði innanríkisráðuneytið gefið aðstandendum Hjördísar til kynna að hún yrði ekki framseld úr landi, en það gæti engu að síður gerst á næstu dögum”

  http://www.dv.is/frettir/2014/2/4/hjordis-svan-flutt-til-danmerkur/

 11. Sigurður Says:

  Ég tek eftir að stuðningsmenn Hjördísar fara nú mikinn í ummælakerfi dv vegna nýjustu fréttar um málið á þeim miðli. Það er átakanlegt að sjá hvað lítið er orðið eftir af stuðningsmönnum og hve framlag þeirra er orðið þunnt.

  Nú er helst hangið á hinum ógildu evrópunefndarrrökum og jafnvel vísað í villandi frétt RÚV um málið. Ég sendi því eftirfarandi ábendingu til fréttastofu RÚV:

  „Góðan dag,

  Mig langar að benda ykkur á villandi fréttaflutning ykkar og hvernig hann er að valda skaða.

  Nú eru stuðningsmenn Hjördísar Svan að benda á frétt frá RÚV þess efnis að nefnd á vegum Evrópuþingsins hafi gert einhverskonar athugun á máli hennar og staðfest að Hjördís sé fórnarlamb mismununar. Sjá: http://www.ruv.is/frett/mal-islenskrar-konu-daemi-um-mismunun

  Þetta er beinlínis villandi frétt. Umrædd nefnd hitti Arndísi Hauksdóttur, aðalstuðningsmann Hjördísar og vitorðsmann í brotum hennar og hlustaði á það sem hún hafði að segja rétt eins og hún gerði með fjöldan allan af öðrum konum. Nefndin tók tíu mál til efnislegrar athugunar og telur þau upp í skýrslu sinni. Mál Hjördísar er ekki þar á meðal.

  Í ljósi þess að íslenskir fjölmiðlar virtust líta á skýrslu nefndarinnar sem einhverskonar áfellisdóm yfir málsmeðferð í mála Hjördísar var nefndinni send fyrirspurn um það hvort og þá hvernig hún hefði skoðað málið. Um það hafði nefndin þetta að segja:

  “the Hjørdis Svan Adalheidurdottir petition has not yet been examined so we can not know at this stage if it will be deemed admissible or not.”

  Sjá nánar: https://forrettindafeminismi.com/2014/01/28/brottnams-og-talmunarmal-hjordisar-svan-hanna-birna-svarar/

  Kv. Sigurður“

  Ég ét svo auðvitað hattinn minn ef RÚV leiðréttir þetta, já eða nefnir þetta yfir höfuð.

 12. Helgi Bjarnason Says:

  Einbeittur brotavilji hennar kristallaðist í því að eftir þá niðurstöðu Hæstaréttar um að handtökuskipunin skyldi standa að þá í stað þess að gefa sig fram sjálf lét hún lögregluna þurfa að hafa fyrir því að sækja hana. Vonandi verður hún dæmd í margra ára fangelsi fyrir þessi aumkunarverðu og andstyggilegu brot sín gagnvart börnunum.

 13. Helga Dögg Says:

  Hvernig má það vera að íslensk stjórnvöld viðurkenni ekki dóm í Danmörku og viðurkenni dæmda forsjá. Mér finnst með ólíkindum ef satt reynist að börn Hjördísar og Kim fari ekki til föður síns þegjandi og hljóðalaust nú þegar Hjördís er komin til Danaveldis og komin í farbann. Þarf hann virkilega að höfða mál hér á landi? Hver er hagur barnanna af því að dvelja hjá móðurmólki frekar en föður? Vangaveltur.

%d bloggurum líkar þetta: