Ekki mínir #almannahagsmunir

18.11.2015

Blogg

Ég hef aldrei trúað að ég hefði, eða gefið mig út fyrir að hafa, skyggnigáfu af nokkru tagi. Ég hef heldur aldrei litið á kynferðisofbeldi sem liðakeppni á milli kynja eins og margir virðast því miður gera.

Ég er líka blessunarlega laus við allar vænibrjálshugmyndir þeirrar tegundar að réttarvörslukerfi okkar láti sér í léttu rúmi liggja hafgsmuni fórnarlamba kynferðisofbeldis. Þaðan af síður trúi ég því að ég búi í samfélagi sem leynt og ljóst vill styðja kynferðisbrotamenn við iðju sína.

Af þessum sökum reyni ég eftir fremsta megni að taka ekki afstöðu þegar ég les fréttir af meintum kynferðisofbeldisbrotum. Hvorki með meintum geranda né meintum þolanda.

Ekki aðeins reyni ég þetta vegna þess að mér finnst það siðferðislega ábyrgt að halda aftur af ímyndunarafli mínu, heldur ekki síst vegna þess að mér finnst hreinlega heimskulegt að álykta eitthvað um svona mál út frá jafn takmörkuðum upplýsingum og fréttaumfjöllun er. Frá sjónarhóli sem veitir mér nákvæmlega enga yfirsýn yfir málavöxtu og hefur ansi oft reynst ekki aðeins ónákvæmur, heldur beinlínis rangur.

Stundum næ ég ekki að halda aftur af ímyndunaraflinu og hugur minn tekur af skarið. Ályktar um hvað sé rétt í málinu og hvað rangt. Þetta gerist þá jafnan leiftursnögggt og án þess að ég fái við það ráðið.

Þetta getur auðvitað ekki grundvallast á neinu öðru en mínum eigin fordómum enda hef ég, eins og áður sagði, enga skyggnigáfu. Í þágu hagsmuna og velferðar hinna sönnu fórnarlamba í þessum málum hef ég því rekið annan varnagla. Það er að sitja á þessari skoðun minni og leyfa þar til bærum aðilum að vinna sína vinnu í friði fyrir mér.

Ég vil auðvitað síður verða uppvís af því að taka afstöðu gegn raunverulegum þolanda. Ef ásökun um nauðgun reynist rétt, þá er fórnarlamb nauðgunarinnar með sönnu þolandinn í málinu. Ef ásökun er hinsvegar fölsk, er fórnarlamb ásökunarinnar og sá eða sú sem upphaflega hlýtur stöðuna ,,meintur gerandi“ orðinn þolandinn í málinu. Öll skrif mín sem finna má á þessum vef um meint nauðgunarmál koma fram annaðhvort eftir að niðurstaða er fengin í málið eða þá sem viðbrögð við óábyrgum skrifum og fréttaflutningi annara.

En nóg um það. Í dag ætla ég að skrifa um mál sem margir vísa til sem Hlíðarmálsins.

Lesendum til hægðarauka ætla ég að byrja á að lista hérna upp allar efnislegar upplýsingar sem fram hafa komið um málið sjálft í fjölmiðlum til þessa í réttri tímaröð. Ég einskorða mig við fréttaflutning af:

a. kærum kvennana á hendur mönnunum
b. samskiptum Lögreglu við fjölmiðla
c. kæru meintra karlgerenda á hendur meintum kvenþolendum
d. mótmælum fyrir framan Lögreglustöðina við Hverfisgötu

Ég sleppi hér fréttaflutningi af deilum lögmanna málsaðila enda ekkert í þeim upplýsingum að ég tel sem fólk hefur notað til að mynda sér skoðun á málinu nema þá hugsanlega alheimskustu synir og dætur internetsins:

  • 4. nóvember kl. 7:00: Frétt birtist á Vísi undir yfirskriftinni ,,Grunur um nauðgun á bekkjarskemmtun HR„. Í fréttinni kemur fram að skv. heimildum Fréttablaðsins hafi Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu til rannsóknar gróft kynferðisbrot sem sagt er hafa átt sér stað á bekkjarskemmtun nemenda HR helgina 16 til 17. okt sl. Skv. fréttinni á gerandi að vera karlmaður á þrítugsaldri en þolendur tvær konur, einnig á þrítugsaldri og samnemendur hans við skólann. Fram kemur í sömu frétt að stjórnendur HR hafi búið svo um hnúta að nám geti haldið áfram með sem eðlilegustum hætti hjá hlutaðeigandi en að ráðstafanir hafi gerið gerðar til að meintur gerandi og þolendur þyrftu ekki að eiga í samskiptum. Í niðurlagi þessarar fréttar kemur fram að Lögregla hafi aðspurð ekki viljað tjá sig um málið þegar eftir því var leita. Þetta segir okkur að heimildir Fréttablaðsins af málinu eru ekki komnar frá Lögreglunni.
  • 4. nóvember kl. 18:45: Vísir birtir frétt undir yfirskriftinni ,,Um tvö nauðgunarmál að ræða„. Hér koma í fyrsta sinn fram þær upplýsingar að um sé að ræða tvö aðskilin mál sem áttu sér stað ,,sitt hvorn daginn í október“. Fram kemur að Lögregla staðfestir ekki að búið sé að leggja fram kærur en staðfestir þó að til rannsóknar séu meint kynferðisbrot sem stemmi við umræddan tíma.
  • 5. nóvember kl. 7:00 Vísir birtir frétt undir yfirskriftinni ,,Nauðgunarmál í HR: bæði atvikin að lokinni skólaskemmtun í miðbæ Reykjavíkur„. Hér koma fram upplýsingar um að ekki sé um einn meintan geranda að ræða, heldur tvo. Annan á þrítugsaldri, hinn á fertugsaldri. Önnur konan á að hafa orðið fyrir nauðgun af hendi annars mannsins en hin er sögð hafa verið nauðgað af þeim báðum. Þá kemur fram að fyrra atvikið hafi átt sér stað þann 7. október en ekki verið tilkynnt fyrr en hið síðara kom upp u.þ.b. tíu dögum seinna. Hér er tilgreint hvar annar meintu gerenda starfar auk þess sem lesendur eru upplýstir um að mennirnir eigi að hafa farið með aðra konuna í heimahús í Hlíðunum og hún þá verið í annarlegu ástandi. Sagt er að grunur leiki á um að þeir hafi byrlað konunni ólyfjan og eiturlyfjum og svo beitt hana grófu kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi. Þá kemur hér fram í fyrsta sinn að Lögregla staðfestir að búið sé að leggja fram kæru og ítrekað sem áður hefur komið fram, að málið sé í rannsókn. Þá kemur fram að Lögregla ætli ekki að tjá sig um þetta mál umfram það sem búið er og því ljóst að hér er enn ekki byggt á heimildum frá lögreglu. Þá er haft eftir nemendum við HR að meintur gerandi hafi verið sendur í leyfi frá námi.
  • 5. nóvember kl. 13:23: Vísir birtir frétt undir yfirskriftinni ,,Meintur nauðgari sendur í leyfi„. Hér segir að karlmaðurinn sem starfar hjá Hótel Reykjavík Marina hafi verið sendur í leyfi frá fyrirtækinu en hann starfaði þar á skrifstofu fyrirtækisins.
  • 9. nóvember kl. 6:00: Vísir birtir frétt undir yfirskriftinni ,,Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana„. Hér segir Vísir frá því að Lögregla hafi framkvæmt húsleit í fjölbýlishúsi í Hlíðarhverfinu í Reykjavík. Sagt er að Lögregla staðfesti að tvær kærur hafi verið lagðar fram í málinu og strax á eftir segir að skv. heimildum blaðsins hafi ,,árásirnar verið hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar„. Þá segir að skv. áreiðanlegum heimildum blaðsins hafi Lögreglan fundið í íbúðinni ,,ýmis tól og tæki sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur“ auk þess sem það ,,voru hankar í loftinu sem grunur leikur á ða mennirnir hafi nota til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana„. Hér kemur einnig fram að Lögregla vill ekki staðfesta hvað hafi fundist við húsleitina og því ljóst að heimildarmaður blaðsins hvað það varðar er ekki Lögreglan. Þá er hér tekið fram það sem þegar var vitað, að mönnunum hafi verið sleppt að lokinni frumrannsókn lögreglu og að ekki hafi verið farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim.
  • 9. nóvember kl. 10:40: Vísir birtir frétt undir yfirskriftinni ,,Þótti ekki ástæða til að fara fram á gæsluvarðhald yfir sakborningum„. Hér er haft eftir Árna Þór Sigmundssyni, yfirmanni kynferðisbrotadeildar Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu að ekki hafi verið ,,forsendur fyrir því að úrskurða mennina tvo sem grunaðir eru um nauðgun í Hlíðarhverfinu í gæsluvarðhald„. Þá segir Árni að mennirnir hafi verið í haldi í Sólarhring á meðan frumrannsókn málanna fór fram og þeim ,,sleppt úr haldi þegar þau atriði sem voru rannsakanleg voru komin fram. Því var ekki hægt að fara fram á gæsluvarðhald út frá rannsóknarhagsmunum„. Aukinheldur kemur fram að það hafi verið mat ákærusviðs Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu að ekki væri hægt að úrskurða sakborningana í gæsluvarðahald út frá rannsóknar- eða almannahagsmunum.
  • 9. nóvember kl. 12:06: Vísir birtir frétt undir yfirskriftinni ,,Annar grunuðu farinn úr landi?„. Hér er sagt frá því að svo virðist sem annar maðurinn sem grunaður er í málinu hafi farið af landi brott. Í uppfærslu kl. 17:00 af sömu frétt segir að báðir mennirnir séu farnir úr landi.
  • 9. nóvember kl. 13:17: Vísir birtir frétt undir yfirskriftinni ,,Ætla að mótmæla aðgerðaleysi lögreglunnar í kynferðisbrotamálum„. Hér segir frá fyrirhuguðum mótmælum sem Oddný Arnarsdóttir boðaði til á Facebook kl. 17:00 þann sama dag fyrir framan Lögreglustöðina á Hverfisgötu. Er þetta sagt gert í ljósi frétta um að ekki hafi verið farið fram á gæsluvarðhald yfir sakborningum í Hlíðarmálinu.
  • 9. nóvember kl. 15:17: Vísir birtir frétt unna upp úr yfirlýsingu frá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu undir yfirskriftinni ,,Lögreglan segir allt kapp lagt á að upplýsa meint kynferðisbrot„.  Þar sem þetta er fyrsta heildræna yfirlýsing Lögreglu um tiltekið mál er ekki úr vegi að pósta henni bara í heild sinni hér:,,Vegna frétta um rannsóknir tveggja kynferðisbrota, sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum í dag og undanfarna dag, vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu taka fram að málin eru í algjörum forgangi hjá kynferðisbrotadeild embættisins og allt kapp er lagt á að upplýsa þau. Rannsókn þeirra miðar vel, en eðli málsins samkvæmt getur lögreglan hins vegar ekki upplýst um málsatvik, m.a. með tilliti til meintra þolenda. Nauðsynlegt er þó að taka fram að sumt í umfjöllun fjölmiða er ekki í samræmi við fyrirliggjandi rannsóknargögn lögreglu.
     
    Lögreglan hefur fundið fyrir mjög sterkum viðbrögðum í samfélaginu í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla um áðurnefnd mál, og hafa henni borist fjölmargar fyrirspurnir áhyggjufullra borgara vegna þessa, ekki síst á samfélagsmiðlum embættisins. Það er skiljanlegt og undirstrikar mikilvægi þess að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haldi stöðugt áfram að vinna að grundvallarmarkmiði sínu, sem er að tryggja öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa, starfa og dvelja í umdæmi hennar.“
  • 9. nóvember kl. 16:09: Vísir birtir frétt undir yfirskriftinni ,,Getur ekki svarað af eða á hvort lögreglan hafi gert mistök við rannsókn á meintum kynferðisbrotum„. Hér er vitnað til og rætt við Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, aðstöðarlögreglustjóra og yfirlögfræðing á skrifstofu Lögreglustjóra en hún segir hér m.a: ,,Ef fara á fram á gæsluvarðhald yfir sakborningi á grundvelli almannahagsmuna þarf að liggja fyrir sterkur rökstuddur grunur„. Spurð hvort ekki standi til að endurmeta afstöðu lögreglunnar til gæsluvarðhaldsúrskurðar segir hún svo ekki vera. Þá segir Alda að það sé nánast aldrei farið fram á farbann á íslenskum ríkisborgurum m.a. í ljósi sterkar samningsstöðu við önnur lönd varðandi framsal í íslenskum ríkisborgurum. Hún svarar því neitandi hvort talið sé að hætta stafi af sakborningum í þessu máli og ítrekar efni fyrri yfirlýsingar frá embættinu um að ýmislegt sem fram hafi komið í fjölmiðlum fram að þessu sé ekki í samræmi við fyrirliggjandi rannsóknargögn og segir beinlínis að dökk mynd hafi verið dregin upp.
  • 9. nóv. kl. 17:25: Vísir birtir frétt undir yfirskriftinni ,,Við viljum bara að eitthvað verði gert„. Hér er tekið viðtal við Oddnýju Arnarsdóttur sem skipulagði mótmælin fyrir utan lögreglustöðina. Í fréttinni segir að nokkur hundruð manns séu samankomnir fyrir framan stöðina til að mótmæla. Oddný segist í viðtalinu ekki efast um heilindi lögreglunnar og vilja hennar til þess að taka til í þessum málaflokki ,,heldur er það bara akkurat þetta að þessi mál virðast ekki fá athyglina sem þau þurfa„.
  • 9. nóv kl. 17:51: Vísir birtir frétt undir yfirskriftinni ,,Hiti í mótmælendum: Púað og kallað að lögreglustjóra„. Hér segir að Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu hafi fengið óblíðar móttökur þegar hún ávarpaði mótmælendur. Á hana hafi verið púað og hún kölluð asni og sögð lögbrjótur.
  • 10. nóv kl. 7:00: Vísir birtir frétt undir yfirskriftinni ,,Segir ekki refsivert að eiga tæki og tól„. Hér er haft eftir Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, yfirlögfræðþingi og aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu að ,,þó svo fólk eigi tæki og tól þá sé það eitt og sér ekki refsivert„. Þá segir Alda ,,Í okkar gögnum höfum við ekki neitt sem sýnir að íbúðin sé útbúin til nauðgana„.
  • 10. nóv kl. 8:05: Rás 2 birtir innslag í Morgunútvarpi Rásar 2 undir yfirskriftinni ,,Kærðar fyrir rangar sakargiftir„. Innslagið er viðtal sem tekið var við Vilhjálm H. Vilhjálmsson lögmann annars sakborningsins. Þar kom fram að Vilhjálmur hafi nú lagt fram kæru fyrir hönd skjólstæðings síns á hendur báðum stúlkunum fyrir rangar sakargiftir. Í máli Vilhjálms kom fram að skjólstæðingur hans hafi viðurkennt að hafa haft samræði við aðra stúlkuna en sagt það með vilja hennar og að fyrir liggji gögn sem sýni að stúlkan og maðurinn hafi átt í vinsamlegum samskiptum í um mánaðarskeið, m.a. eftir að hin meinta nauðgun á að hafa átt sér stað. Í seinna tilvikinu sé sakarefnið þó nokkuð óljóst en þar á konan að hafa verið neydd af hinum sakborningnum til að hafa munnmök við skjólstæðing Vilhjálms. Mennirnir hafna þessari atvikalýsingu aflarið að sögn lögmannsins. Þá kemur fram í máli Vilhjálms að umrædd tæki og tól sem gerð voru upptæk hafi verið keðja af boxpúða, gömul reiðsvipa og ein tölva.
  • 11. nóv kl. 7:00: Vísir birtir frétt undir yfirskriftinni ,,Skýrsla kæranda lýsir notkun tóla„. Hér kemur fram að önnur stúlkan segir í kæruskjali að annar gerenda hafi bundið hendur hennar saman með keðju og slegið hana með svipu.
  • 17. nóv kl. 14:13: Rúv birtir frétt undir yfirskriftinni ,,Kærir aðra konuna fyrir kynferðisbrot„. Í fréttinni segir að annar mannanna sem kærðir voru í Hlíðarmálinu hafi nú lagt fram kæru á hendur annari konunni fyrir meint kynferðisbrot gegn sér. Fram kemur að þetta kynferðisbrot eigi að hafa átt sér stað á sama tíma og hið meinta kynferðisbrot sem konan kærði upphaflega fyrir.

Þetta eru öll efnisatriði málsins eins og þau hafa birtst okkur undanfarnar vikur. Það er ekkert efnislegt annað sem hefur komið fram í þessu máli og við höfum engar aðrar upplýsingar ef frá er talið slúður og kjaftasögur sem virðast því miður vera óhjákvæmilegur fylgikvilli svona mála en skipta á endanum engu máli fyrir niðurstöðuna.

Það sem blasir við mér þegar ég horfi á fréttir af málinu er að Vísir er leiðandi í fréttaflutningi af því fyrst um sinn og byggir allar fyrstu fréttir sínar á upplýsingum frá ónefndum heimildarmanni en ekki upplýsingum frá Lögreglu. Þær litlu upplýsingar sem Lögregla sendir frá sér eru í töluverðu ósamræmi við fréttaflutning Vísis, meira að sega svo mjög að Lögregla sér þörf á að mótmæla honum sérstaklega sem er fáheyrt í meintum kynferðisbrotamálum. Þessu hefur Kristín Þorsteinsdóttir, Aðalritstjóri 365 augljóslega gert sér grein fyrir enda pakkað í klassíska femíníska vörn. Gripið til slagorða.

Það er erfitt að henda hér reiður á því áreiti og þeim hótunum sem meintir karlgerendur í þessu máli hafa mátt þola eftir að málið kom upp. Af þeim hafa verið birtar myndir á samfélagsmiðlum, þeir nafngreindir og þeim hótað aflimunum. Þá hefur lögmaður annars mannsins upplýst að settur hafi verið upp falsaður facebook reikningur í nafni annars mannsins og frá honum send ýmis skilaboð að því er virðist til að kasta rýrð á persónu mannsins.

Sjálfur hef ég séð heilan helling af, að því er virðist, venjulegu fólki krefjast þess að þessir menn verði ýmist barðir, aflimaðir, lokaðir inni í búrum til eilífðarnóns eða þeir drepnir ef ekki allt þetta. Þá hef ég séð alvöru fréttamiðla hýsa greinar eftir launaða blaðamenn sem virðast lýsa þeirri skoðun að það sé óþarfa formsatriði að splæsa á þessa menn réttlátum réttarhöldum áður en þeir geti talist sekir. Þetta er auðvitað grafalvarleg þróun.

Veit ég hvar sökin liggur í þessu máli? Nei. Ég hef engar aðrar upplýsingar um þetta mál en þær sem fram hafa komið í fjölmiðlum og eru raktar hér að ofan. Til að telja mig hafa vissu fyrir sök á grundvelli jafn lítilla upplýsinga yrði ég að vera einhverskonar brjálæðingur. Hreint flón eða femínistahúligani. Nú eða bara hvort tveggja.

Það virðist hinsvegar enginn skortur á fólki hér á landi treystir sér til að skera nákvæmlega úr um það hvernig málið liggur. Og merkilegt nokk, alveg eins og í Gillz málinu svokallaða, nú eða Ísafjarðarmálinu, er þetta fólk alveg með það á hreinu að karlmennirnir í málinu séu sekir.

Og hvað hefur þetta fólk nú fyrir sér í því að karlarnir séu sekir saka?

Nákvæmlega það sama og í hinum málunum tveimur. Þ.e.a.s. frétt þess efnis að karl hafi verið vondur við konu. Eða öllu heldur; að kona hafi sagt karl hafa verið vondan við sig.

Punktur.

Þetta fólk las frétt um að kona hafi lagt fram kæru á hendur karli/körlum. Þar með er þetta fólk búið að leysa þetta sakamál langt á undan lögreglunni og öllum hinum afturhaldsseggjum feðraveldisins.

Eins og oft vill verða þegar þvílík múgæsing grefur um sig, þá hefur verið hreint ævintýralegt að lesa hvernig þetta fólk hefur leyst þetta mál. Margir segja að það að mennirnir hafi farið af landi brott sanni sekt þeirra, fyrir aðra var það útlitið. Já, útlit mannanna sannar sekt þeirra!

Og hvað gerist næst?

Í algjörri fullvissu fyrir óbrigðugleika þessarar náðargáfu sinnar marseraði þetta fólk svo niður á Hverfisgötu til að láta lögreglu vita af þessari rannsóknarniðurstöðu sem ekkert var til sparað við að ná. Væntanlega þá til að Lögregla væri ekki að ómaka sig um of við formsatriðin en einnig til að heimta svör við því hvernig á því stæði að Lögregla hafi ekki fyrir löngu stigið inn í nútímann með þessum umbótasinnum og tileinkað sér þessar sömu skjótvirku og nútímalegu rannsóknaraðferðir.

„Við viljum bara að eitthvað verði að gert“ var haft eftir skipuleggjanda mótmælanna. Hún veit væntanlega að þessi hálfkæringur hljómar skár en hennar raunverulega krafa. Sú að karlar verði sviptir grundvallarmannréttindum. Mannréttindum sem hún vill án efa ekki að verði tekin af henni og kynsystrum hennar. Bara körlum.

Það sem einkum virðist hafa farið í taugarnar á þessum húligönum var það að lögreglan virtist vera að fylgja reglum réttarríkisins. Af skrifum og öskrum þessa fólks að dæma átti þetta alltsaman að víkja í þessu máli af því að þessu fólki fannst þessi saga bara eitthvað svo sannfærandi. Ég meina, það stóð á visir.is að íbúðin hefði verið útbúin til nauðgana ekki satt? Nokkuð sem yfirlögfræðingur Lögreglunnar og Aðstoðarlögreglustjóri, Alda Hrönn Jóhannsdóttir, sá ástæðu til að taka sérstaklega fram að væri ekki sannleikanum samkvæmt og hafði verið leiðrétt áður en mótmælin fóru fram.

Raunar sá Alda Hrönn ástæðu til að ganga lengra og tók fram að ýmislegt annað sem fram hafi komið í fjölmiðlaumfjöllun um mál byggðist ekki á rannsóknargögnum málsins. Ef vel er að gáð sést að ef upplýsingar frá lögreglu eru skoðaðar og túlkun fjölmiðla sleppt, benda þessar upplýsinga fremur til þess að hér teljist veikar forsendur til kæru frekar en hitt.

Hafa skal í huga að Lögregla er í afar erfiðri stöðu til að tjá sig um einstök mál. Þetta vita femínistar í framvarðarsveitinni og hagnýta sér æ ofan í æ á hátt sem er ekki annað hægt en að dást að. Svona í taktísku tilliti.

Þess ber að geta að ritstjóri 365 miðla, Kristín Þorsteinsdóttir segist, þrátt fyrir ummæli Aðstoðarlögreglustjóra, standa við téða frétt þó hún sé augljóslega efnislega röng og íbúðin hafi hreint ekki verið ,,útbúin til nauðgana„. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi fjölmiðill dreifir slúðri í meintum kynferðisbrotamálum. Ég vísa aftur til Ísafjarðarmálsins en ég gæti tiltekið fleiri dæmi ef ég vildi ekki binda þessa umfjöllun við mál er varða meintar falskar ásakanir um kynferðisbrot.

Þann 10. nóvember verður ákveðinn vendipunktur í máli þessu. Þá er lögð fram kæra á hendur báðum konunum fyrir rangar sakargiftir. Annar og veigameiri vendipunktur verður svo hinn 17. nóvember þegar önnur konan sem áður hafði kært nauðgun, er nú sjálf kærð fyrir kynferðislega áreitni og nauðgun á öðrum mannanna sem hún hafði áður sakað um að hafa nauðgað sér.

Hér blasir við að hinn femíníski æsingarmúgur er kominn í ansi óþægilega stöðu. Kröfugerð þessa fólks hefur verið eitthvað á þessa leið:

  • Fólki sem segist hafa verið nauðgað á undantekningalaust að trúa.
  • Fólk sem ásakað er um nauðgun skal álitið sekt af réttarvörslukerfinu uns því tekst að sanna sakleysi sitt.
  • Fólk sem er ásakað um nauðgun á undantekningalaust að hneppa í gæsluvarðhald. Burt séð frá því hvort lögregla telji sterkan rökstuddan grun liggja fyrir um sekt, eða hvort hún telji það þjóna rannsóknar- og/eða almannahagsmunum.
  • Dreifa skal opinberlega myndum og nöfnum fólks sem ásakað er um nauðgun.

Ef við skoðum Hlíðarmálið í þessu ljósi og þá einungis út frá þeim upplýsingum okkur almenningi eru aðgengilegar, þá er nákvæmlega sama magn og sama tegund upplýsinga sem liggur fyrir um sekt beggja aðila á þessari stundu.

Tja, og þó. Það má eiginlega segja að upplýsingar sem benda til sektar kvennana séu meiri ef við ætlum að meta upplýsingar um málið með jafn einfeldningslegum hætti og femínistar hafa gert í þessu máli og mæla sekt málsaðila eftir sömu stiku. Væri það ekki annars mjög í anda jafnréttis?

Konurnar hafa jú báðar verið sakaðar um rangar sakargiftir og önnur um kynferðislega áreitni og nauðgun í þokkabót. Karlarnir hafa einungis verið ásakaðir um nauðgun. Tvö – eitt myndi femínistafól sem ætlaði að vera samkvæmt sjálfu sér kannski hugsa en hvenær hefur það svosem gerst að femínistafól hafi verið samkvæmt sjálfu sér?

Hér skal aftur tekið fram að ég veit ekkert um þetta mál annað en það sem fram hefur komið á fréttamiðlum auk þess auðvitað sem augljóst er, að einhver er hér að segja ósatt. Það er ómögulegt að segja til um það út frá fréttaflutningi hver er með hreina samvisku hér og hver ekki. Þetta get ég auðveldlega unað við vegna þess að ég er ekki litaður af hatri í garð annaðhvort karla eða kvenna. Ég hef því enga þörf til að sjá aðra niðurstöðu í þessu máli en þá sem rétt er og réttlát á hvorn veginn sem hún fer.

Þetta mál dregur auðvitað fram í dagsljósið það hugmyndafrðilega gjaldþrot sem femínistar hafa öskrað sig út í. Er við einhverju öðru að búast þegar siðferðiskompásinn er ekkert annað en fyrirlitning á karlmönnum?

Það sem gerir það að verkum að femínistar láta aftur og aftur standa sig að þessu er að þorsti þeirra fyrir sögum sem staðfesta dragúldna heimsmynd þeirra, (karlar vondir, konur góðar), er óseðjandi. Veruleikinn er hinsvegar sá að framboðið af þessum sögum er miklu mun minni en eftirspurnin. Sem betur fer.

Hvernig ræður þessi hugmyndafræði við þá stöðu sem hér er komin upp? Að hér eru karl og kona sem saka hvort annað um nauðgun? Til hvaða forskrifta ætla femínistar að grípa hér þegar ekki aðeins stendur orð á móti orði varðandi eina kæru heldur kæra á móti kæru og báðar um nauðgun?

  • Á núna undantekningalaust að trúa þeim sem segjast hafa verið nauðgað?
  • Á núna að álíta þann sekan sem sakaður hefur verið um nauðgun, þangað til viðkomandi tekst að sanna sakleysi sitt?
  • Á núna að hneppa fólk sem er ásakað um nauðgun í gæsluvarðhald, burt séð frá því hvort lögregla telur sterkan rökstuddan grun um sekt fyrir hendi eða því hvort lögregla telur það þjóna rannsóknar- og/eða almannahagsmunum?
  • Á núna að dreifa myndum og nöfnum þeirra sem sakaðir hafa verið um nauðgun opinberlega?

Hér ætla femínsistar ekki að gera neitt þessu líkt. Þeir ætla að taka stöðu með konunum í þessu máli af því að þær eru konur. Femínistar voru búnir að ákveða hvar sökin lá áður en þetta mál kom upp. Ekki bara í þessu eina máli heldur öllum. Sökin liggur alltaf hjá karlinum af því að hann er karl. Svo einfalt er það. Þetta er grundvöllur ,,umbótahugmynda“ þessa fólks.

Það sem gerir þetta mál sérstakt er að í þessu máli munu einmitt þessi sömu fól fótum troða allar sínar eigin kröfur um framkomu við meinta þolendur nauðgunarmála. Annað er óhjákvæmilegt og er raunar þegar tekið að gerast. Þetta eru fyrirsjáanleg örlög hugmyndafræði sem boðar jafn einfeldningslega sýn á orsakir og eðli ofbeldis og femínismi gerir.

Já, sannið þið til. Þessu tiltekna meinta fórnarlambi nauðgunar (karlinum) verður ekki mætt með skilningi og umhyggju af þeim sem slíka nálgun hafa hingað til boðað. Orð þess munu dregin í efa og honum úthúðað opinberlega af þessum kyndilberum réttlætis til handa þolendum kynferðisofbeldis.

Og hvað sýnir þetta okkur?

Þetta sýnir okkur bara nákvæmlega hvað það er sem drífur femínista í ,,baráttu“ sinni. Þetta sýnir okkur dagljóst að þegar búið er að núlla út þær breytur sem liggja sitthvorumegin við samasemmerki kynjajöfnunnar þá stendur aðeins eitt eftir:

Djúplægt hatur femínista á körlum.

Ekki réttlætiskennd, ekki jafnréttishugsjón heldur gengdarlaus karlfyrirlitning sem fyrir löngu er orðin svo alltumlykjandi í þessu þjóðfélagi að við erum hætt að taka eftir henni.

Þetta sýnir okkur líka að það er síður en svo vanþörf á siðlegum réttarfarsreglum í samfélagi manna.

Að lokum óska ég þess að í þessu máli sannist sekt á þá sem sekir eru og raunveruleg fórnarlömb í málinu hljóti uppreist æru og bót að því marki sem hægt er að bæta þau brot sem þau hafa orðið fyrir.

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

, , , ,

3 athugasemdir á “Ekki mínir #almannahagsmunir”

  1. geiri Says:

    Ég sá það strax að þegar þetta í raun littla mál sem hefði geta fengið réttlæta nyðurstöðu fyrir annahvorn aðilan er í raun ónýtt og ekkert áreiðanlegt mun koma í ljós. það er í raun búið að flæma mennina úr landi, það mun flækja ransóknina mjög mkið og tefja málið, jafnvel munu þeir aldrei koma hingað aftur þó að þeir munu vera dæmndir sekir, það er búið að taka þá af lífi á Íslandi.
    Lögmaðurinn fór auðvitað djúpt í skotgrafirnar og er í raun að reyna að vinna mál sitt í gegnum fjölmiðla og gagn kæru, sem á sér kannski enga stoð og er í raun bara að til að tefja málið. þessi múgsefjun fer bara illa með allaaðilana og mun minnka áhuga fólks til að kæra kynferðisbrot.
    þetta er ekkert annað en morð og ef að annar þeirra deyr eða skaðast af hendi einhvers sem heldur að hann sé hetja, þá er skömmin öll þeirra sem settu nöfninn og myndirnar á netið og þá á að kæra sem samseka í því máli og hafa verið með hnefana sem mest á lofti.
    Ég treysti lögregluni og saksóknara til að vinna sína vinnu og skila rétlætri nyðurstöðu.

    • Grumpy old men Says:

      Ég treysti lögregluni og saksóknara til að vinna sína vinnu og skila rétlætri nyðurstöðu Ég er ekki eins viss um það Saksóknari finnst mér hlaupa full mikið eftir blaðrinu í Stígamótum og Konunum á Knús

  2. Stjáni Says:

    Gæti verið að þegar konurnar fóru seinna að tala saman að þær voru kviðmágkonur og afbríðissemin hafi brotist út í því að kæra þá.

%d bloggurum líkar þetta: