Eldur og brennisteinn

21.11.2015

Blogg

Samtökin Stígamót hafa nú stigið fram og opinberað harða afstöðu gegn fórnarlömbum falskra ásakana um kynferðisbrot.

Mér er ekki kunnugt um að samtökin hafi áður tekið skýra afstöðu gegn fórnarlömbum ofbeldis. A.m.k. opinberlega. Hér er því um ákveðinn vendipunkt í starfsemi samtakanna að ræða.

Mál er varða falskar ásakanir, eða eftir atvikum meintar falskar ásakanir, hafa verið óvenju fyrirferðamikil í umræðunni að undanförnu eins og sjálfsagt flestir hafa tekið eftir.

Hver sem er getur lent í falskri ásökun um kynferðisbrot en ég held þó að flestir sjái að karlmenn eru sá hópur sem er í langmestri hættu á að verða fyrir slíku ofbeldi.

Það er auðvitað nógu alvarlegt í sjálfu sér að taka afstöðu gegn fórnarlömbum hvers kyns ofbeldis en það sem gerir þetta sérstaklega alvarlegt að mínu mati er þetta:

Stígamót eru að hluta til fjármögnuð með opinberu fé. Það þýðir að sá þjóðfélagshópur sem samtökin ráðast hér gegn, er tilneyddur til að fjármagna þessa baráttu fyrir afnámi mannréttinda sinna, fyrir atbeina þeirra ráðamanna sem taka ákvörðun um að veita opinberu fé til samtakanna.

Þetta er auðvitað siðlaust.

Ég sendi eftirfarandi erindi til Stígamóta:

,,Góðan dag,

Ég sá rétt í þessu frétt á Vísi þar sem vitnað var til orða sem birtust á fésbókarsíðu Stígamóta í dag. Þar segir m.a:

,,Nú rignir eldi og brennisteini eins og stundum áður. Það er svo komið að okkur sýnist ekki bara erfitt að mæla með því að kæra kynferðisofbeldi. Okkur sýnist að svo sé komið að nærtækast sé að ráða fólki frá því að kæra. Það er ekki bara vonlítið að ná fram réttlæti, heldur á fólk á hættu að vera úthrópað glæpafólk. Það getur átt von á að vera kært fyrir falskar ásakanir og þurfa þá að sanna það sem lögreglunni tekst oftast ekki að sanna, að nauðgun hafi átt sér stað. Í þá stöðu er ekki hægt að setja fólk og það er óviðunandi“

Það er umhugsunarvert að þessi orð skuli falla þegar hvert meint nauðgunarmálið á fætur öðru virðist hafa verið byggt á röngum ásökunum. Ég nefni Gillz málið og Ísafjarðarmálið.

En fleiri mál bíða afgreiðslu þar sem ekki virðist óvarlegt að segja að a.m.k. leiki verulegur vafi á að byggji á réttmætum ásökunum. Ég nefni hér t.d. nýlegt fjárkúgunarmál þar sem kona brást við kæru fyrir fjárkúgunina með því að kæra þolanda kúgunar sinnar fyirr nauðgun. En hótun um nauðgunarásökun var einmitt inntak fjárkúgunartilraunar hennar til að byrja með. Það mál bíður þó afgreiðslu og ég tel í því ljósi óvarlegt að álykta um lyktir þess á þessari stundu.

Ég hef tvær spurningar til Stígamóta í þessu sambandi:

  1. Er það skoðun ykkar hjá Stígamótum að konur gerist aldrei sekar um að setja fram falskar ásakanir um nauðgun eða annað kynferðisofbeldi?
  2. Er það skoðun ykkar hjá Stígamótum að svipta ættti karlmenn þeim mannréttindum að geta kært lögbrot sem á þeim eru framin eða að það eigi að gera það löglegt að bera karlmenn röngum sökum?
Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“

Það mun auðvitað ekkert koma út úr þessari fyrirspurn. Fólkið hjá Stígamótum mun ekki sjá að sér eða hætta að neyða karlmenn til að fjármagna baráttu samtakanna gegn mannréttindum sínum. Það er of mikil stemmning fyrir karlfyrirlitningu innan þessara samtaka og raunar í samfélaginu öllu, til þess að svo megi verða. Því miður.

Þess utan held ég að femínistar séu ófærir um að viðurkenna að tiltekin mál hafi reynst byggð á falskri ásökun. Þeir geta sumir tjáð sig um falskar ásakanir með almennum hætti en þá aðeins til að tala fyrir litlu umfangi þeirra og óþarfa þess að taka þurfi á því sem vandamáli. Fórnarlömbin eru jú bara karlmenn.

En að femínisti viðurkenni að ákveðið ,,nauðgunarmál“ hafi reynst fals frá upphafi til enda?

Ómöguleiki. Hreinn og klár ómöguleiki.

,

4 athugasemdir á “Eldur og brennisteinn”

  1. Grumpy old men Says:

    Passaðu þig félagi Ef Þú villist til að segja sannleikan um Stigamót og annað þessháttar þá verður þú kærður fyrir hatursglæp

  2. Grumpy old men Says:

    Hér er bloggpóstur sem er sérlega athyglisverður http://kunstler.com/clusterfuck-nation/good-little-maoists/

  3. Elva Dögg Says:

    Hahahahahahaha!!!!

  4. Halli Magg Says:

    Hér á Wikipedia má sjá samantekt á rannsóknum á False accusation of rape. Þar kemur fram að rangar sakargiftir um nauðganir eru að meðaltali um 8%, eða nálægt 1 af hverri 10 nauðgunarákærum.
    https://en.wikipedia.org/wiki/False_accusation_of_rape

    Mér kæmi ekki á óvart að þessi tala gæti jafnvel verið hærri í löndum/samfélögum þar sem mikill stuðningur er við feminísk viðhorf og réttur/virðing gagnvart karlmönnum er í samræmi lægri.

    Þó að þetta sé sett hér fram má ekki gleyma að stærra vandamál er hversu hátt hlutfall nauðgara sleppur við að vera dæmd(ur) fyrir brot sitt. Tvö aðskilin vandamál, sem tengjast.