Stígamót kynna hugmyndafræði sína: Sekur – sama hvað!

7.12.2011

Blogg

Ég rakst á ansi merkilegt innlegg á fésbókargrúppu Femínistafélags Íslands í gær. Þar var félagið búið að hanna textaspjald með hugleiðingu um eina grunnforsendu þess réttarkerfis sem við búum við. Textinn var svohljóðandi:

„Hugmyndafræðin „saklaus uns sekt sannast“ er ekki fullnægjandi þegar um nauðgunarmál er að ræða. Samkvæmt þeirri grunnhugsun eru sekir nauðgarar á hverju ári innan við tíu, á sama tíma og Stígamót og Neyðarmóttakan fást við um 250 nauðganir á ári og vitað er að það er toppurinn á ísjakanum. Þar með eru nauðgarar í að minnsta kosti 240 tilfellum saklausir á Íslandi á hverju ári, þrátt fyrir að hafa framið gróf mannréttindabrot. 

Grunnhugsunin er auðvitað að dæma ekki nema sekt sé sönnuð, en ef við förum alla leið þangað að þar með séu viðkomandi saklausir, erum við í raun að dæma 240 konur á hverju ári fyrir að bera rangar sakir á menn. Flestar þessara kvenna reyna ekki að ná rétti sínum, ef þær reyna það eru þær tortryggðar og málin felld niður“

Undir þetta ritar engin önnur en Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta til margra ára.

Eins og við var að búast varð svo uppi fótur og fit í athugasemdakerfinu þegar einhverjir sáu þessu sitthvað til foráttu. Skyldi engan undra enda er hér um að ræða samtök sem að mestu eru rekin fyrir almannafé og nota það m.a. til að breiða út þessa hugmyndafræði sína. Þessi afstaða Stígamóta, og svör nokkurra femínista í athugasemdakerfinu, veita okkur dýrmæta innsýn í hugmyndir forréttindafemínista um kynferðisofbeldi. Mig langar að taka út nokkur þeirra ummæla sem ég rakst á í umræðunum og reyna að varpa ljósi á þá vegferð sem Stígamót og forréttindafemínistar eru á.

Eitt það fyrsta sem venjulegt fólk gæti séð að þessari hugmynd Stígamóta eru tilvik þar sem kona sakar mann ranglega um nauðgun sem gerist vissulega eins og dæmin sanna. Þetta vandamál afgreiðir einn femínistinn með eftirfarandi hætti:

„þetta er álíka mýta og hamingjusama hóran, undantekning sem á aðeins við í einstaka tilfellum“

Hér sjáum við svart á hvítu að í huga forréttindafemínista er greinilega eitthvað til sem heitir ásættanlegur fórnarkostnaður þegar kemur að afgreiðslu réttarkerfisins á ætluðum nauðgurum. Einhver ótilgreindur fjöldi dómsmorða er greinilega ásættanlegur í huga þessarar hreyfingar sem svo oft kennir sig við mannréttindi.

Annar femínisti virðist vera á þeirri skoðun að afgreiðsla réttarkefisins í þessum málum verði að vera á einn veg og að ákvörðun um sekt eða sakleysi sé gagnkvæmt útilokandi á þýðið þegar hún segir:

„BASIC. Engin geimvisindi. Annad hvort 240 naudgarar a ari eda 240 lygarar“

Þetta er mjög í anda þeirra alhæfinga sem gjarnan sjást hjá allskyns öfgahópum, raunveruleikinn er annaðhvort svartur eða hvítur  – ekkert þar á milli.

Enn annar femínistinn tekur að sér að beita þá sem eru Stígamótum ósammála þöggunartilburðum þegar hún segir:

„voðalega eru margir hræddir strákar að kommenta, open your goddamn minds…“

Smekklegt, ef þið eruð ósammála þessu þá eruð þið bara hræddir strákhvolpar með lokaðan huga, ekki alvöru karlmenn. Mjög algengt stef í málflutningi forréttindafemínista.

Ég ætla ekki að gera augljósa innri rökvillu í hugleiðingu Guðrúnar að umtalsefni hér. Hinu hef ég meiri áhuga á að birting hennar er  mikilvæg öllum þeim sem vilja skilja hugmyndafræði forréttindafemínista. Það að femínistum finnist að það þurfi að líta á kynferðisbrot sem alveg sérstaka glæpi sem ekkert eigi sammerkt með öðrum glæpum er engin nýlunda. Þetta á sér djúpar rætur í femínískri hugmyndafræði en í sinni ýtrustu mynd líta femínistar svo á að nauðganir séu tæki sem karlmenn nota til að halda konum kerfisbundið niðri fremur en að vera bara hver annar ofbeldisglæpur sem vitfirringar fremja.

Þó það hafi ekki komið fram í athugasemdakerfinu þá er annar mikilvægur þáttur sem vert er að nefna í þessu samhengi. Það er sú staðreynd að forréttindafemínistar hafa þegar náð góðum árangri í að markaðssetja þá hugmynd að ef karlmaður sætir ákæru um kynferðisbrot en er síðan sýknaður, þá sé það ekki vegna þess að hann er saklaus heldur vegna þess að ekki tókst að sanna brotið.

Þessi samsuða leiðir óhjákvæmilega til þess að þegar einhver kona bendir á einhvern karl og segir hann hafa nauðgað sér þá er hann sekur, sama hvað.

Þetta færðu fyrir skattpeninginn þinn.

SJ

, ,

5 athugasemdir á “Stígamót kynna hugmyndafræði sína: Sekur – sama hvað!”

 1. Sigurður Jónsson Says:

  Því er svo við þetta að bæta að þegar þessi athugasemd er gerð hafa 306 manns „líkað“ innleggið á vegg Femínistafélags Íslands.

  Ég man ekki eftir að hafa séð aðrar eins undirtektir við neitt innlegg í þessari grúppu. Femínistar virðast því ansi hreint hrifnir af þessum hugleiðingum.

 2. Theódór Gunnarsson Says:

  Þetta er alger klikkun, og það sem er svo bilað er það, að þessar konur gætu alveg komið þessu í gegn einn daginn. Nú er t.d. svo komið, að í raun er lífi manna rústað á því andartaki sem konur ásaka þá. Maður getur rétt ímyndað sér hvernig það verður að vera karlmaður þegar búið er að snúa sönnunarbirðinni við. Þá getur hvaða kona sem er tekið hvaða karlmann sem er úr umferð, þegar henni dettur það í hug. Það er dagljóst að þegar slíkt fyrirkomulag er orðið að veruleika, þá verður það misnotað sundur og saman.

  Ég þekki dæmi sjálfur, sem vinur minn lenti í, en það var þannig að hann kynntist ungri konu á balli og þau fóru saman heim til hans. Þau skelltu sér saman í bælið og því loknu tilkynndi daman honum að hún hyggðist kæra hann fyrir naugðun, nema hann borgaði sér ákveðna upphæð. Hún benti honum einmitt á að það eitt að hún ásakaði hann myndi valda honum gríðarlegum óþægindum, sem hann gæti komist hjá með því að borga.

  Hann gat hrundið þessari árás með því að hafa sjálfur samband við lögreluna, en þá gugnaði daman.

 3. Páll Says:

  Burt séð frá commentunum sem femínistar hafa gert við þetta innlegg Guðrúnar þá finnst mér það alveg nógu alvarlegt að Stígamót hafi þessa skoðun. Svo finnst mér skrýtið að þetta sé ekki fréttaefni.

 4. Sigurður Jónsson Says:

  Já Theódór, tilhugsunin um þetta í framkvæmd er ekki góð. Ég hef einmitt verið að lesa um nokkur tilvik um falskar ásakanir í bandarískum Háskólum. Þessi dæmi sýna, svo ekki verður um villst, að til eru konur sem eru reiðubúnar að rústa lífi fólks af tiltölulega léttvægum ástæðum. Í einu tilvikinu virðist sem ásökunin hafi komið fram eftir að prófessor gerði sig sekan um að draga í efa femínískar kenningar um tíðni nauðgana.

  Bandaríkjamenn eru komnir nokkuð lengra en við í þessu og þar er ásökun um kynferðislega áreitni eða ofbeldi þegar orðin að handhægu vopni þeirra sem það nota.

  Ég get líka tekið undir með Páli, það er eftirtektarvert að þetta skuli ekki vera fréttamatur. Hér eru líklega virtustu samtök femínista á Íslandi að staðfesta þá skoðun sína að líta ætti á karlmann sem sekan um leið og ásökun er sett fram og taka þennan brotaflokk þannig út fyrir sviga m.t.t. allra annara brotaflokka. Auðvitað á ekki að slá af kröfunni um að böndum sé komið á kynferðisbrotafólk en það er ekki ásættanlegt að fórna saklausum borgurum á þeirri vegferð.

  Ætli það myndi fara jafnhljótt ef karlmaður myndi, fyrir hönd einhverra samtaka, lýsa þeirri skoðun sinni að undantekningarlaust ætti að líta svo á að konur sem setji fram ásökun um nauðgun séu að segja ósatt? Ég efast um það.

 5. Gunnar Says:

  Vertu ekki með þessi leiðindi Sigurður. Það má ekki trufla konur eins og Laurie Ann Martinez sem sviðsetti nauðgun til að sannfæra karllinn sinn um að flytja.

  http://www.dv.is/frettir/2011/12/11/svidsetti-naudgun-til-ad-sannfaera-eiginmanninn-um-ad-flytja/

%d bloggurum líkar þetta: