Stekkjastaur

12.12.2011

Blogg, Hugvekjur

Munið þið eftir jólakortum Femínistafélags Íslands? Nú er komin ný og endurbætt útgáfa af nokkrum jólasveinum og munu þeir birtast hér, eftir því sem þeir ramba til byggða fram að Jólum.

Meðal nýjunga eru að í ár eru allir jólasveinarnir konur – einmitt eins og einhver jólasveinn Femínistafélagsins óskaði sér. Ég þakka forréttindafemínistum kærlega fyrir innblásturinn og vona að þið njótið. Til að sýna þakklæti mitt í verki ákvað ég að jólasveinarnir væru ekki bara hvaða konur sem er, þeir skyldu vera yfirlýstir femínistar líka.

Stekkjastaur óskar sér að Jafnréttisstofa hætti að líta á sig sem Kvenréttindastofu

Fyrsti Jólasveinn bloggsins er sjálf Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu í gervi Stekkjastaurs. Hún þykir vel að þessari viðurkenningu komin en hún hefur sýnt það í verki að hún lítur fyrst og fremst á Jafnréttisstofu sem Kvenréttindastofu. Kristínu er ekkert um réttindamál karla gefið og hefur meira að segja sagt að sér finnist jafnréttisumræðan á villigötum ef minnst er á misrétti gagnvart körlum. Þetta má glögglega sjá á vefsíðu Jafnréttisstofu og heyra má í nánast hvert sinn sem Kristín tjáir sig opinberlega um jafnréttismál … ég meina kvenréttindamál.

Stekkjastaur óskar sér að Jafnréttisstofa hætti að líta á sig sem Kvenréttindastofu en Kristín syngur hátt og snjallt: Ég þori get og vil! … með hjálp kynjakvóta, jákvæðrar mismununar, sértækra aðgerða og forvirkra sértækra aðgerða.

SJ

,

4 athugasemdir á “Stekkjastaur”

 1. Inga Says:

  Rugl. Það er ekki gert ráð fyrir jákvæðri mismunun í íslenskum lögum og það er ekkert til sem heitir forvirkar sértækar aðgerðir.

 2. Kristinn Says:

  Ef hugmynd er ekki til í íslenskum lögum er gefið að enginn er leynt eða ljóst að starfa eftir henni!

 3. Inga Says:

  Sjá orðabók Jafnréttisstofu. http://jafnretti.is/jafnretti/?D10cID=Page3&ID=37

  Jákvæð mismunun (e. positve discrimination)
  Þorgerður Einarsdóttir skilgreinir hugtakið í Morgunblaðinu, 27. ágúst 2004: „Það er jákvæð mismunun þegar einstaklingur af því kyni sem hallar á er ráðinn í starf, að uppfylltum lágmarksskilyrðum, jafnvel þótt hæfari einstaklingur af hinu kyninu sé meðal umsækjenda.“ Jákvæð mismunun er ekki það sama og sértækar aðgerðir. Íslensk löggjöf styður sértækar aðgerðir en ekki jákvæða mismunun.

 4. Sigurður Jónsson Says:

  Sæl Inga og velkomin.

  Ég er ósammála þér bæði með jákvæða mismunun og forvirkar sérstækar aðgerðir. Þó Þorgerður sverji jákvæða mismunun af femínisma þá er það fyrst og fremst af ímyndarlegum ástæðum myndi ég telja. Það mætti kannski frekar segja að sértækar aðgerðir og jákvæð mismunun séu það sama. Það virðast engin takmörk fyrir því hve lengi sértæk aðgerðir getur staðið og bendi ég í því sambandi á kvennastyrki og lánatryggingasjóð kvenna. Þar hefur mismunun viðgengist um áratugaskeið og ekkert útlit er fyrir að því verði hætt. Mér finnst hæpið að nefna það sértæka aðgerð þegar karlmenn geta lifað ævi sína á enda undir þeim sértæku aðgerðum sem mismuna þeim. Þetta er því ekkert annað en jákvæð mismunun.

  En talandi um Þorgerði, þá er hún einmitt ein þónokkurra femínista sem hafa farið fram á sértækar aðgerðir til höfuðs atvinnuleysi kvenna jafnvel þó ekkert bendi til að konur hafi farið verr út úr efnahagshruninu en karlar. Máli sínu til stuðnings hefur Þorgerður bent á að einhverjar erlendar rannsóknir sýni að oft bíti atvinnuleysi konur frekar. Sú hefur alls ekki verið raunin hérlendis og því finnst mér óhætt að segja að krafa um sértækar aðgerðir til bjargar atvinnulausum konum sé krafa um forvirkar sértækar aðgerðir.

%d bloggurum líkar þetta: