Jafnréttisstofa stuðlar að útbreiðslu neikvæðra staðalímynda um karlmenn

6.2.2013

Blogg

Ég ætla að halda áfram að röfla yfir því að íslenska kvennahreyfingin skuli hafa staðið fyrir, og hampað komu Germaine Greer hingað til lands árið 2006. Ég veit að þetta eru endurtekningar en það skiptir máli að rekja alla þræði, ætli maður að sýna fram á hræsni og kvenrembu forréttindafemínista með fullnægjandi hætti.

Nú er það Jafnréttisstofa og ákvörðun stofnunarinnar um að auglýsa komu Greer á sínum tíma. Það skal tekið fram að núverandi Framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, Kristín Ástgeirsdóttir, gengdi ekki embættinu á þeim tíma sem stofnunin auglýsti og hvatti konur til þátttöku á ráðstefnu þeirri er hér um ræðir.

Þið munuð sjá að af auglýsingunni, og svörum Jafnréttisstofu að dæma, virðist það mat stofnunarinnar að útbreiðsla hatursáróðurs í garð karla og drengja sé eitthvað sem eigi erindi í jafnréttisumræðuna.

Ég skrifa eftirfarandi til Jafnréttisstofu:

„Góðan dag,

Ég þýddi fyrir skemmstu útdrátt úr fyrirlestri Germaine Greer sem bar yfirskriftina „Equality is not enough“ sem haldin var í Liverpool árið 2009. Það vakti strax athygli mína hve hatursfull Greer er í garð drengja og karla. Sjá: http://www.youtube.com/watch?v=mPSxAkmUxwU (Það þarf að styðja á cc neðst í hægra horni myndspilara til að fá fram íslenskan texta).

Í fyrirlestri sínum líkir Greer körlum við górilluapa sem geri ekki neitt en láti þess í stað konur gera allt fyrir sig. Hún segir karla eyða stórum fjárhæðum í tómstundir, klámneyslu og fjárhættuspil. Þessar tómstundir stundi þeir að sögn Greer, einkum til að geta verið á stöðum þar sem konur eru ekki en það geri þeir vegna innbyggðrar ólundar sinnar í garð kvenna. Konur geti, með nærveru sinni einni saman, gert tilveru karla ömurlega vegna þessarar ólundar. 

Konur, aftur á móti, elski karla sem Greer segir vera einskonar fötlun. Einkum þegar kemur að ást þeirra á sonum sínum sem hún líkir á einum stað við hunda vegna atferlis sem hún hefur greinilega megna ímugust á.

Hún segir fyrirtækjamenningu vera karlamenningu og karlamenning sé menning hruns. Karlkyns stjórnendur geri ekkert í vinnunni sinni annað en að sitja við autt borð og bíða eftir að fá launabónusa á milli þess sem þeir geri það sem þeim sýnist við annað fólk.

Eins og öllu sómakæru fólki ætti að vera skiljanlegt, þótti mér þessi málflutningur í meira lagi fyrirlitningarhlaðinn. Mér brá því nokkuð þegar ég sá að Greer hafði verið boðið hingað til lands árið 2006 sem lykilfyrirlesara á ráðstefnunni Tengslanet III – Völd til kvenna í umsjón Herdísar Þorgeirsdóttur og Háskólans á Bifröst. Af fréttaflutningi og öðrum skrifum í kringum ráðstefnuna að dæma, eru heilmikil líkindi milli þess fyrirlesturs sem ég skrifa um hér að ofan, og þeim sem haldinn var á Bifröst 2006. Þá leiðir örstutt rannsóknarvinna í ljós að þetta eru vel þekkt viðhorf Germaine Greer.

Aftur brá mér þegar ég sá að þessi ráðstefna og Greer sjálf, var kynnt á vef Jafnréttisstofu og Greer mærð sem einskonar jafnréttishetja. Sjá: http://www.jafnretti.is/jafnretti/default.aspx?D10cID=ReadNews3&ID=47 Mig langar í þessu sambandi að beina eftirfarandi spurningum til Jafnréttisstofu:

Fór fulltrúi eða fulltrúar á vegum Jafnréttisstofu á þessa ráðstefnu?

Hversvegna er það mat Jafnréttisstofu, að það sé viðeigandi að gera manneskju hátt undir höfði sem viðhefur viðlíka hatursáróður í garð karla og drengja?

Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“

Kristín Ástgeirsdóttir svarar:

„Blessaður og sæll.

Enginn þeirra sérfræðinga sem nú vinna á Jafnréttisstofu vann hér árið 2006. Ekkert okkar sótti þessa ráðstefnu og þar af leiðandi skrifaði ekkert okkar fréttina um Germaine Greer. Í fréttinni kemur fram að hún sé ein umdeildasta kona heims á sviði jafnréttismála, ekki er það hástemmt lof eða hvað? Það er rétt hún hefur alltaf verið mjög umdeild og langt í frá að jafnréttissinnar eða femínistar séu sammála henni. Jafnréttisstofa reynir að kynna þá atburði og þau skrif sem snerta jafnrétti kynjanna en það þýðir ekki að Jafnréttisstofa sé sammála öllu því sem þar kemur fram.

Kv.
Kristín

Sem ég svara:

„Sæl og takk fyrir skjót svör.

Ég veit að þú stjórnaðir ekki Jafnréttisstofu á þessum tíma og ekki ætla ég þér að hafa auglýst þennan brjálæðing. Hins vegar fæ ég ekki betur séð en að Hugrún R. Hjaltadóttir sé á starfsmannalistanum ykkar og hún er skráð fyrir þessari frétt á vef ykkar.

Mér finnst nú, að ætli Jafnréttisstofa að taka sig alvarlega þá ætti hún að sniðganga fólk sem breiðir út svona hatursáróður. Mér er til efs að Jafnréttisstofa myndi fara jafn fögrum orðum um karlmann sem líkti konum við eigingjarna apa og stúlkubörnum við hundstíkur við mikinn fögnuð þröngs hóps öfgamanna.

Nú myndi ég sæta lagi og fjarlægja þessa frétt auk þess að biðjast, fyrir hönd stofnunarinnar, afsökunar á því að hafa gert þessum kynrembda brjálæðing jafn hátt undir höfði og raun ber vitni. En ég er auðvitað ekki jafnréttisstofustjóri og stjórna því ekki hvað þú kýst að gera.

Kv. Silfurbakurinn Sigurður“

Sem Kristín svarar:

„Sæll Sigurður.

Á meðan ég stýri Jafnréttisstofu verður hvorki tekin upp ritskoðun né staðið fyrir sögufölsunum. Þessi frétt var birt á sínum tíma og þar við stendur. Það væri mjög sérkennilegt að fara að afneita henni núna hvað sem konan sagði á sínum tíma. Það á að ræða málefnalega en ekki að fjarlægja fréttir.

Kv.Kristín.“

Ég myndi segja að þetta sé ágætlega lýsandi fyrir þá ágalla jafnréttisiðnaðarins sem ég reyni að benda á hér á þessari síðu. Ég held ég þurfi ekkert að hjálpa lesendum að sjá að þetta hefði aldrei getað átt sér stað ef um hefði verið að ræða hatursáróður sem beindist gegn konum.

Fyrrum framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu, sem og núverandi framvæmdastjóra og a.m.k. einum starfsmanni, finnst bara ekkert athugavert við það að alið sé á karlfyrirlitningu í samfélagi okkar og það með aðstoð og atbeina Jafnréttisstofu.

Og það þrátt fyrir ákvæði gildandi Jafnréttislaga (sem Jafnréttisstofu ber að starfa eftir) um að sporna skuli við útbreiðslu neikvæðra staðalímynda um hlutverk karla og kvenna.

Þetta „meikar sens“.

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

,

5 athugasemdir á “Jafnréttisstofa stuðlar að útbreiðslu neikvæðra staðalímynda um karlmenn”

  1. Guðrún Unnur Ægisdóttir Says:

    Mál til komið að fá G.Greer hingað afur. Var einmitt að leita að „The female Eununch“ í morgun.Hef fengið Greer hugskeyti frá þér. Þá bók kanntu náttúrulega afturábak og áfra. En fyrir okkur, sem vorum kornungar þegar hún kom út, var sú bók opinberun. Svo er G.G. svo skemmtileg.

  2. Sigurður Says:

    Velkomin og takk fyrir innleggið Guðrún.

    Heyrðu nei, nú er ég ekki búinn að lesa kvengeldinginn en ég á von á íslenskuðu eintaki í póstinum sem ég hef hug á að lesa.

    Ég vissi að Greer var talsvert lesin í leshringjum rauðsokka á árum áður og er forvitinn að sjá hvort boðskapur Greer hafi verið jafn hatursfullur þá og nú eða hvað annað hafi höfðað svo til femínista þess tíma.

  3. Sigurjón Says:

    Sæll Sigurður.
    Það er gott hjá þér að ýta aðeins á Jafnréttisstofu. Að fá svona fordómafullt fólk til að tala um jafnréttismál, sem geta aldrei verið knúið fordómum gegn heilu kyni, er þessari stofnun til skammar. En ég tek þó undir með Kristínu að leyfa þessari frétt að vera, óþarfi að sópa þessari skömm undir teppið.

    Mér finnst þó merkilegt að á sama tíma og ungt fólk virðist vera að hverfa aftur í íhaldsamari hugmyndir um kynin (hlutverk og eðli) skv. könnunum þá er maður að verða var við meiri heift róttækra femínista í garð karla sem og aukinnar umræðu sem býr til staðalímynd um karla sem endalausan viðbjóð og konur sem endalaus fórnarlömb karla.

    Það er eins og því meir sem maður ræðir þessi mál, því meiri umræða sem er í gangi, því dýpra fer fólk í skotgrafirnar og kreddurnar. Þetta er ekki heilvænleg þróun og boðskapur Greer um einmitt þetta á að vera afhjúpaður sem slíkur og gagnrýndur.

    • Sigurður Says:

      Alveg sammála. Það er fínt að þessi auglýsing standi fyrst Jafnréttisstofa sér á annað borð ekki ástæðu til að biðjast afsökunar á að hafa stuðlað að útbreiðslu þessarar karlfyrirlitningar.

      Ég vissi svosem að þetta erindi myndi ekki hafa neitt slíkt í för með sér enda var það ekki tilgangurinn, frekar að sýna fram á þessa karlfyrirlitningu sem alið er á í samfélagi forréttindafemínista.

      Áhugaverð pæling með vaxandi heift forréttindafemínsta samfara aukinni íhaldssemi. Manstu hvar þú sást þessar kannanir sem þú talar um?

  4. Gunnar Says:

    I like it! Hún segir jafnréttissinnar eða femínistar … náðuð þið þessu? Er framkvæmdastjóri jafnréttisstofu og fyrrum rauðsokka að viðurkenna að jafnréttissinnar og femínistar eru ekki það sama?

%d bloggurum líkar þetta: