Kötlufellsmálið: Kona brennir eiginmann sinn lifandi og mætir stuðningi í samfélaginu

13.10.2013

Blogg

Eftir að hafa skrifað um Nicole Ryan, konuna sem reyndi að ráða leigumorðingja til að myrða eiginmann sinn og hlaut enga refsingu fyrir, fékk ég senda forvitnilega ábendingu. Það var kona á besta aldri sem minntist íslensks sakamáls þar sem ung kona myrti barnsföður sinn og eiginmann með því að kveikja í honum þar sem hann lá sofandi á heimili þeirra hjóna. Þetta er ekki ósvipað og gerðist í máli Rajini Narayan í Ástralíu sem ég hef einnig fjallað um hér.

Þetta hörmulega mál varð þekkt sem „Kötlufellsmálið“ þar eð glæpurinn var framinn í íbúð í Kötlufelli. Skv. konunni sem skrifaði mér, átti sér stað töluverð umræða í samfélaginu í kjölfar atburðarins. Eins ótrúlega og það kann að hljóma, þá virtist talsverður fjöldi kvenna telja að ofdrykkja fórnarlambsins réttlætti drápið á honum og virtist standa í þeirri meiningu að konan væri fórnarlambið í málinu! Ekki karlinn og ekki börnin þeirra, heldur konugreyið sem átti svo bágt að hún neyddist bara til að kveikja í karlhelvítinu.

Það var þann 25. Janúar árið 1981 sem konan, Björg Benjamínsdóttir, þá 26 ára, hellti bensíni yfir eiginmann sinn, Sigfús Steingrímsson 37 ára, þar sem hann lá sofandi í hjónarúmi þeirra og bar síðan eld að. Björg hafði áður sent tvö ung börn þeirra á brott og yfirgaf sjálf íbúðina eftir að hafa lagt eld að manni sínum. Lík mannsins fannst síðar í eldhúsi íbúðarinnar, þangað sem hann hafði hlaupið brennandi úr svefnherberginu.

Í september þetta sama ár var konan dæmd í héraði til 16 ára fangelsisvistar fyrir morðið og fyrir að hafa í leiðinni stofnað öðrum íbúum fjölbýlishússins í stórhættu. Hæstiréttur mildaði svo refsingu konunnar og lækkaði fangelsisdóm um tvö ár, úr 16 í 14, þann 13. mars 1983.

Ég get ekki sagt að ég sjái neitt athugavert við dómana sem hún hlýtur í héraði og svo fyrir Hæstarétti. Það sem hinsvegar er áhugavert við málið er sú umræða sem átti sér stað í kjölfarið. Umræðan í þessu tilviki er ekki ólík þeirri umræðu sem oft vaknar þegar konur fremja viðlíka voðaverk í dag. Þ.e. að karlar sem drepnir eru af konum sínum hafi einfaldlega átt það skilið.

Þetta sýnir auðvitað að karlfyrirlitning er síður en svo ný af nálinni. Þá vekur þetta kannski upp spurningar um réttmæti þess að líta á fyrirlitningu sem beinist að konum sem kynbundið vandamál eða part af einhverskonar kynjakerfi sem miðar að því að undirsetja konur körlum.

Eftirfarandi er aðsent bréf konu sem birtist í Dagblaðinu þann 29. september 1981. Bréfið er skrifað til stuðnings morðingjanum. Eftir því sem ég kemst næst eru þau viðhorf sem hér koma fram, lýsandi fyrir afstöðu fylkingar fólks á þessum tíma, aðallega kvenna, sem fannst konan hafa unnið þjóðþrifaverk með því að hafa brennt eiginmann sinn og barnsföður lifandi (haldið ykkur nú fast):

„Kona er dæmd í sextán ára fangelsi fyrir að ráða manni sínum bana með því að bera eld að honum sofandi. Fyrir utan að hafa orðið manni sínum að bana er konan talin hafa farið ógætilega með eld, sem hæglega hefði getað orðið öðru fólki að fjörtjóni. . .

Auðvitað á enginn að verða öðrum manni að bana hvorki með því að bera að honum eld eða á einhvern annan hátt. Það var víst ekki okkur mönnunum gefið í upphafi að hafa vald og ráð á því hvenær annað fólk yfirgefur þennan volaða heim.

En hvað liggur á bak við þetta ógæfuverk þessarar vesalings konu? Það er enginn sem talar um það. Hvað skyldi þessi vesalings maður hennar oft hafa „banað konu sinni“ en bara i andlegum skilningi. Hve oft skyldi hann ekki hafa farið ógætilega með ,,eld“ jafnvel svo að mætti verða öðru fólki að tjóni? Það er enginn sem talar um það.

Á margan hátt skil ég þessa vesalings konu mjög vel. Ég hef svo mikla samúð með henni að ég get ekki með nokkru móti komið orðum að þvi, og er ég ekki sú persóna sem er þekkt að því að verða orðfátt.

Þessi kona er ekki eina konan á islandi sem hefur þurft að búa við þessar aðstæður sem leiddu hana að lokum til ógæfuverks i örvæntingu. Því er ekki einhver sem gripur i taumana áður en svona er komið fyrir fólki? Af hverju eru ekki menn sem haga sér eins og manni skilst að þessi maður hafi gert teknir „úr umferð“ áður en einhver verðtur til þess að koma þeim yfir i eilifðina með þessum hræðilegu afleiðingum?

Hvort er fórnarlambið?

Ég er gift drykkjumanni. Ég hef hundrað sinnum eða jafnvel oftar staðið frammi fyrir þeirri freistingu að hreinlega ganga frá honum. Hundrað sinnum er kannski of oft,— en í það minnsta nokkrum sinnum en til allrar hamingju hefur mér tekizt að stilla mig. — Ég er viss um að örvænting vesalings konunnar var slík daginn sem verknaðurinn var framinn að hún vissi ekki sitt rjúkandi ráð, jafnvel þótt hún hafi virzt vera,,eðlileg“.

Ég er ekki vön að hafa samúð með afbrotamönnum, en ég tel ekki að þessi kona sé afbrotamaður. Maðurinn sem hún „drap“ var afbrotamaðurinn. Hann var sjálfur búinn að „drepa“ konuna sína mörgum sinnum, svo ekki sé minnzt á vesalings börnin.

Ég vorkenni svo þessari konu að ég veit ekki hvernig ég á að láta það í ljósi, ef það mætti verða henni til einhvers hugarléttis. En auðvitað getur ekki samúð einhverrar kerlingar úti í bæ orðið henni til hugarhægðar. Það getur ekkert orðið henni til hugarhægðar nokkurn tímann framar því hún á ekki lengur neitt lif fyrir höndum. Sextán ára fangelsisdómurinn er sennilega barnaleikur á móti því að þurfa að bera með sér það sem drykkjumaðurinn fékk hana til þess að gera.

Ég spyr aftur: Hvers vegna eru svona drykkjusvolar, sem gera eiginkonur sínar meira og minna truflaðar á geðsmunum, ekki teknir úr umferð áður en af því hljótast voðaverk? Kannski vegna þess að þrátt fyrir allt þá búum við enn í svolitlu karlrembuþjóðfélagi. Það er ekki hróflað við þessum, ég leyfi mér, að segja, skepnum.

Þeir Ijúga að okkur, — við vitum að þeir gera það, en við getum ekkert gert. Ef „allt er í lagi“, en það er nefnilega verið að reyna að hjálpa þessum svinum til þess að halda i sjálfsvirðingu sína löngu eftir að hún er rokin út í veður og vind, þá látum við eins og við trúum því sem þeir segja. Auðvitað getur lika hitzt svo á að það reynist rétt. En það veit ekki nokkur maður fyrr en hlutirnir hafa orðið.“

Það veldur mér heilabrotum að svona bréf skuli yfir höfuð hafa fengist birt í dagblaði. Ég held að það hefði verið óhugsandi að dagblað á þessum tíma, og enn í dag ef því er að skipta, hefði birt bréf frá karlmanni sem óraði um að drepa konuna sína. Raunar kæmi mér ekki á óvart að slíkt bréf væri bara áframsent til lögreglunnar.

Þankagangur sem þessi er ekki bundinn við þessa einu konu eða lítinn hóp kvenna ef því er að skipta. Hugmyndin um að konur eigi að hafa rétt á að drepa eiginmenn sína, ef þær eru ósáttar við sambúðina, er útbreidd og hefur þegar verið bundin í lög víða um hinn vestræna heim eins og dæmin sanna.

Sem betur fer höfðu slíkar femínistafantasíur ekki verið innleiddar í íslensk lög þegar þessi kona var dæmd. Hvað framtíðin ber í skauti sér skal hinsvega ósagt látið. Það eru mörg fordæmi fyrir því að konur eins og Björg gangi frjálsar frá nákvæmlega svona verknaði. Það sýnir auðvitað hvað karlfyrirlitning femínískrar hugmyndafræði er takmarkalaus fái hún aðeins að ,,blómstra“.

SJ

| Taktu þátt | Óskast | Rannsókna- & heimildasafn |

12 athugasemdir á “Kötlufellsmálið: Kona brennir eiginmann sinn lifandi og mætir stuðningi í samfélaginu”

 1. Símon Says:

  Alveg hreint ótrúlegt, sýnir að samspil viðhorfa og kyns er mun flóknara en er talið, það er skuggalega auðvelt að selja þá hugmynd að kona sé fórnarlamb og þetta viðhorf virðist mjög algengt meðal kvenna um sig sjálfa. Þar sem kona lítur á sig sem fórnarlamb eða aðra konu á hún þar með að bera minni ábyrgð, þetta er mjög skrýtið jafnrétti og setur mann aftur í þá stöðu að þegar þessi mál fá rýni þá er rétttindabaráttan búin og við tekin forréttindabarátta kvenna.

  Símon

  • Sigurður Says:

   Já það er víst alveg öruggt að þetta samspil er miklu mun margþættara en af er látið. Hagur femínistahreyfingarinnar er að halda uppi þeirri sjónhverfingu að hálfvitahætti eins og þessum sé beint að konum í meira mæli en körlum.

   Þá er hægt að tala um ,,kynbundinn vanda“ og ráða sig í vinnu við að ,,leysa“ þann vanda.

 2. evaevahauksdottir Says:

  Ég man vel eftir umræðunni um þetta mál og það er alls ekki rétt sem kemur fram i lesendabréfinu að engin hafi talað um það hvað konan var búin að ganga í gegnum. Þvert á móti varð ég vör við mikla samúð með henni. Ég man eftir umræðum heima hjá mér þar sem fram kom það sjónarmið að konan hefði verið svo niðurbrotin að hún hefði ekki treyst sér til að fara frá honum. Ég þá á 14. ári spurði hvort það væri virkilega auðveldara að kveikja í lifandi manneskju og gera börnin sín föðurlaus, en að ganga í gegnum ljótan skilnað. En ég var auðvitað bara krakki og hafði ekki vit á þessu.

  • Sigurður Says:

   Skemmtilegt að þú skulir muna eftir umræðunni um þetta mál Eva. Mér finnst þetta ansi merkilegt fyrirbæri, þetta umburðarlyndi fyrir drápum kvenna á körlum. Þetta birtist okkur auðvitað sjaldan hér á landi þar sem morð eru svo sjaldgæf en kemur reglulega upp erlendis.

   Sú sem vakti athygli mína á málinu lét fylgja með að konan hefði ekki þurft að sitja af sér dóminn á endanum en ég hef ekkert fundið sem staðfestir það og get ekki séð hvernig hún hefði átt að sleppa við afplánun dómsins. Þekkir þú eitthvað til þess?

 3. Torfi Says:

  Wictim blaming much?

  • Stefán Says:

   Djúpt Torfi, mjög djúpt.

  • Páll Says:

   Já, Torfi, það er rétt hjá þér.

   Fórnarlambið sem var brennt lifandi er svo blammerað eftir dauðann í þessari blaðagrein.

   • Torfi Says:

    Svo það sé nú enginn misskilningur um það þá er það einmitt þannig sem ég sé málið. Ég var að deila á þau viðhorf að morðinginn skyldi mæta samúð og meðaumkvun en ekki öfugt.

 4. fridabraga Says:

  því miður er staðan enn þann dag í dag þannig að konur sem búa við gegndarlaust ofbeldi fá litla eða enga hjálp til að losna undan því. þessi tiltekna kona var búin að búa við óendanlega mikið ofbeldi, bæði andlegt og líkamlegt í fjölda ára. og ekki bara hún, líka börnin, og allir aðrir ættingjar. hún var búin að skilja við manninn en losnaði samt ekki við hann. og þetta var hennar örþrifaráð. ein kunningjakona mín flutti með börnin sín til Ástralíu til að losna undan ofbeldi fyrrum eiginmanns, hann flutti á eftir henni! þetta er að sjálfsögðu ekki afsökun fyrir manndrápi, en svo sannarlega skýring á því hvers vegna konan gerði þetta.

  • Sigurður Says:

   Nú veit ég fyrir víst að þú ert meðvitð um tilvist Samtaka um kvennaathvarf þar sem þú bentir mér á það í innleggi undir annari færslu. Mér finnst ansi vel í lagt að segja að konur fái litla eða enga hjálp við að losna undan sambandi við ætlaða ofbeldismenn.

   Ég held að ég geti með nokkurri vissu sagt að það séu frekar karlar sem búi með ofbeldiskonum sem fái litla hjálp við að komast út úr slíku enda virðist það vera almenn skoðun að karlar geti allt en konur ekkert.

   Ef konunni fannst auðveldara að kveikja í manninum heldur en að fara frá honum þá finnst mér það vera skýr vísbending um að hún hafi verið klikkuð.

   Annaðhvort hættum við að velta fyrir okkur skýringum á því hversvegna konur drepa karla eða byrjum að leita réttlætinga/skýringa á því hversvegna karlar drepa konur á sama tíma.

   Ég gæti svo tiltekið nokkra karla sem ég kannast við eða hef séð til sem þurft hafa að þola alvarlegt ofbeldi, stundum líkamlegt, stundum andlegt, af hendi kvenna. Ég hef meira að segja horft upp á fleiri en eitt tilvik þar sem sjálfsmynd og sjálfsvirðing karla varð að engu eftir áralangt andlegt ofbeldi kvenna.

   Á sama hátt og ég er ekki til í að daðra við hugmyndir um að konur eigi að hafa félagslegt rými til að drepa karla, þá er ég ekki til í að ræða það sem möguleika að þessir karlar ættu að mega drepa konur sínar.

   • Fríða Bragadóttir Says:

    fyrirgefðu, var ég afsaka það að konan skyldi drepa manninn? ef þú lest það þá misskilurðu mig. ég var að segja að þetta væri skýringin á því sem gerðist. og eitt af stóru vandamálunum hjá konum sem eru í sambandi við ofbeldismenn er að það dugar oft svo ótrúlega skammt að skilja við þá, þær losna ekki við þá samt. þekki nokkur dæmi þar sem konan á endanum flutti aftur til ofbeldismannsins af því að það var illskárra að búa með honum og vita nokkurn veginn hvenær barsmíðarnar kæmu en að búa annars staðar og hafa hann stöðugt fyrir utan gluggann á kvöldin með ógnandi látbragð, á bílnum að elta konuna og börnin um allan bæ, búinn að brjótast inn og brjóta og bramla þegar hún kom heim, ekki einu sinni heldur margoft, búinn að terrorisera aldraða foreldra og aðra ættingja. slíkt spennuástand, að vita aldrei hvað kæmi næst, er algjörlega óþolandi. og því miður hefur það verið þannig að lögreglan hefur fá úrræði haft til að bregðast við kvörtunum um svona. oft t.d á maðurinn ennþá lögheimili á sama stað, neitar að skrifa undir skilnaðarpappíra, og svo er þessi fáránlega regla að hver sem er getur skráð lögheimili sitt hvar sem er án þess að húsráðendur viti. þó að það hjálpi sem betur fer mörgum að dveljast í Kvennaathvarfinu eða sækja þangað ráðgjöf, þá er það bara því miður svo alltof oft alls ekki nóg. í þessu tilfelli sem hér um ræðir var konan búin að skila við manninn, en losnaði bara samt ekki við hann.

    • Sigurður Says:

     Nei ég var ekki að segja að ég liti svo á að þú værir að afsaka manninn. Þú fyrirgefur en ég get bara virst svolítið höstugur þegar ég gagnrýni þessa hyggju, sem allt of margir aðhyllast, að konur geti verið í rétti þegar þær drepa menn sína af yfirlögðu ráði.

     Sú hugmynd sprettur ekki út úr einhverju tómi. Á undan henni koma einmitt vangaveltur um ástæður þess að konur drepa menn sína. Nokkuð sem myndi aldrei gerast í málum þar sem karlar drepa konurnar sínar.

     Þú getur talið upp allskonar mál um ofbeldi karla gegn konum og ég get á móti lengi talið upp mál um ofbeldi kvenna gegn konum. Ég er t.d. núna að fylgjast með íslensku máli þar sem kona hefur sett upp vefsíðu með níði um fyrrverandi mann sinn og barnsfaðir. Sett upp fésbókarprófíla í hans nafni, tálmað honum umgengni við börn sín og haft í ýmiskonar hótunum við hann. Hann á með konunni þrjú börn og mun þ.a.l. aldrei losna við hana úr lífi sínu. Þessi kona mun án efa nýta sér kynbundin forréttindi sín og beita hann ofbeldi í gegnum þræði sem liggja til hans í gegnum börn þeirra.

     Við ættum ekki að láta á ofbeldi sem kynbundið vandamál, það stuðlar að misskiptingu í aðgengi og úrrræðum auk þess að gera okkur blind fyrir ákveðnum birtingarmyndum ofbeldis.

%d bloggurum líkar þetta: