Bókin Heterophobia: Sexual Harassment and the Future of Feminism, er önnur bók Jafnréttisfemínistans Daphne Patai sem ég kynni hér. Eins og í fyrri bók hennar; Professing Feminism, sem hún skrifaði ásamt Noretta Koertge, er nútímafemínismi hér skoðaður með gagnrýnum augum.
Hér er það þó ákveðinn þáttur femínismans sem er skoðaður sérstaklega. Þ.e. Heterófóbían eða „óttinn við hitt kynið“ eins og það útleggst á okkar ylhýra, sem kemur svo áberandi fram í nánast öllum hugmyndum forréttindafemínista um samskipti kynjanna.
Áratuga reynsla Patai innan kvennafræða gefur henni einstakt sjónarhorn á viðfangsefnið sem skilar sér vel í skrifum hennar. Höfundur rekur upphaf þess sem hún gengur svo langt að kalla iðnað, e. Sexual Harassment Industry, í Bandaríkjunum og hvernig forréttindafemínistar skópu andrúmsloft tortryggni og kynjagremju sem kostað hefur margan manninn æruna.
Hér er ekki verið að hafna því að kynferðisleg áreitni sé raunverulegur vandi heldur er hér gagnrýnt hvernig útþynning hugtaksins „kynferðisleg áreitni“ hefur skapað nýtt misrétti í stað þess að uppræta misrétti. Þá hafi þessi fórnarlambsmenning stuðlað að því að í auknum mæli er litið á konur sem einskonar börn í samfélagi manna, ófærar um að komast í gegnum venjulegan dag öðruvísi en að verða fyrir enn einu sálarmorðinu.
Rakin eru dæmi um gjörsamlega fáránlegar tillögur femínista um útvíkkun kynferðisofbeldishugtaka sem væru hver annari fyndnari ef ekki væri fyrir þá staðreynd að margar þessara hugmynda hefur þegar tekið að reka á fjörur okkar. Þá eru rakin fjölmörg dæmi um falskar ásakanir um áreitni og kynferðisofbeldi, einkum háskólastúdenta gegn prófessorum, og hvernig þessar ásakanir hafa rústað og jafnvel tekið líf þeirra sem fyrir þeim verða. Það á sama tíma og femínistar hafna þeim möguleika að konur geti lagt fram falskar ásakanir um kynferðisáreitni eða ofbeldi vegna einhverskonar eðlislægra eiginleika sem gera eiga konur siðferðilega æðri körlum.
Ég myndi segja að þessi bók eigi sérstakt erindi einmitt núna fyrir fólk sem hefur áhuga á að sporna gegn öfgafullum femínisma. Áhersla femínistahreyfingarinnar nú um stundir er einmitt á baráttuna gegn kynferðisofbeldi. Hluti þeirrar baráttu er auðvitað góðra gjalda verður en mörgum finnst sem forréttindafemínistar fari stundum fram í annarlegum tilgangi og segja jafnvel að baráttan sé orðin að einskonar fórnarlambavæðingu.
Útgáfuár: 2000
Síðufjöldi: 296
SJ
12.9.2013 kl. 11:44
Gaman að sjá þig kominn á kreik aftur. Áhugaverð bók.
Stundum velti ég því fyrir mér hvort ástæða öfgafeminismans sé að leita í því að feminisminn hefur þegar fengið allan lagalegann ójöfnuð lagfærðann og er því í tilvistarkreppu.
Tilvistarkreppa gæti þá þýtt að fólk sem berst fyrir feminismann hefur allt í einu í raun ekkert að berjast fyrir þar sem markmiðunum er náð.
Í framhaldi af þeirri pælingu gæti manni dottið í hug að sama fólk gæti fundið upp á því að ausa upp moldviðri í kringum hluti sem eru í raun ótengdir jafnréttisbaráttu til að geta haldið áfram að vera í sviðsljósinu og hugsanlega haft af því tekjur og/eða völd.
Mér þykir vandamálið vera samt svolítið skilgreining á feminisma, því eftir því sem ég veit best er feminismi bara alls ekki skilgreindur, en er stundum meðhöndlaður sem pólitík og stundum meðhöndlaður sem hugsjón eða lífsstíll? Ég held líka að þessi skortur á skilgreiningu gerir það að verkum að sumt fólk vill vera „svona feministi“ en ekki „hinn feminisminn“. Af þessu leiðir líka að það að segja að jafnrétti sé samasem feminismi er rökleysa því jafnrétti er ágætlega skilgreint og mælanlegt (hefur verið notað t.d. í samhengi við réttindabaráttu svartra og samkynhneigðra) en ekki feminismi.
B. kv.
Óli
12.9.2013 kl. 15:07
Velkominn og takk fyrir innleggið Óli.
Ég held að femínismi hafi svosem verið skilgreindur ágætlega. Finna má lýsingar á einum fjöritíu greinum femínisma ef ég man rétt. Hinsvegar nota femínistar nokkrar aðferðir til að drepa umræðunni á dreif sem ruglar fólk auðveldlega sem ekki hefur kynnt sér viðfangið til hlítar. Með því að skoða allar helstu kenningar femínisma má nánast segja að femínismi sé allt um leið og hann er ekki neitt.
Þannig hef ég séð femínista hafna því að femínistar séu á móti klámi og benda á grein femínisma sem kallast sex positive feminism, eða pro-porn feminism. Slík grein er til en það er auðvitað fjarstæða að halda því fram að með því sé hægt að segja að femínistar séu ekki á móti klámi enda hafa slíkir femínistar ekki beinlínis verið áberandi hér á landi.
Annars held ég að þú lýsir vandamálinu ágætlega. Byltingarhreyfingar hætta ekki og fara heim þegar björninn er unninn. Þær seilast til valda og taka til við að verja völd sín.