Bókin Professing Feminism: Cautionary Tales from the Strange World of Women’s Studies er skrifuð af tveimur jafnréttisfemínistum, þeim Daphnai Patai og Noretta Koertge sem báðar hafa akademískan bakgrunn og hafa kennt innan kvennafræða um áratugaskeið.
Hvatinn að útgáfu bókarinnar segja þær vera áhyggjur sínar af dvínandi gæðum kvennafræða sem fræðigreinar. Í bókinni rekja þær hvernig þetta félagsvísindasvið hefur sífellt verið að færast nær og nær því að einangrast og þróa með sér innbyrðis skoðanakúgun. Þannig segja þær ólíklegt að viðteknum skoðunum eða grunnkenningum kvennafræða sé ógnað innan frá af fræðafólki og rekja raunar nokkur dæmi þar sem slíkt hefur reynst fræðimönnum dýrkeypt mistök.
Hluti bókarinnar var unninn upp úr viðtölum höfunda við fólk sem hafði kynnst innviðum kvennafræðinnar annaðhvort sem nemendur eða kennarar. Í formála bókarinnar segir að nánast hver einasta kona sem veitti viðtal við samantekt bókarinnar óskaði eftir því að ekki yrði hægt að tengja nafn sitt við efnið á nokkurn hátt sem, út af fyrir sig, hlýtur að teljast athyglisvert.
Það er ekki hægt að segja að bókin sé léttmeti en hún er, sem heimild um furður kvennafræðinnar, nokkuð upplýsandi og margt sem í henni kemur fram er mjög áhugavert. Tilgangur bókarinnar er sagður vera að kalla eftir breytingum og auknum fræðilegum/faglegum metnaði innan kvennafræða um allan heim sem höfundar óttast að muni lognast út af í núverandi mynd ef fólkið sem greinin samanstendur af lætur ekki af kreddufestu sinni.
Ég get ekki sagt að það hafi komið mér beinlínis á óvart að lesa um skort kvennafræðinnar á sjálfsgagnrýni eða hvernig gagnrýnni hugsun hafi verið fórnað fyrir pólitísk markmið, femínísk orðræða er jú að miklu leyti afurð síns akademíska arms og er til vitnis um það. Ég get þó sagt að þegar ég byrjaði að kynna mér öfgafullan femínisma þá bjóst ég við að brjálæðið væri bundið við unga róttæklinga en að hjá eldri konum og sérstaklega fræðikonum gætti meiri hófsemi og rökhyggju. Þessi bók er því miður vitnisburður um allt annað.
Fyrir þá sem vilja kynna sér akademískan femínisma og skilja hvernig strokkur karlfyrirlitningar er kyntur, þá er þetta skyldulesning.
Útgáfuár: 1995
Síðufjöldi: 256
SJ
19.12.2009
Bækur