Launamunur kynja eða kynbundinn launamunur?

13.2.2013

Blogg

Mér finnst alltaf svolítið merkilegt hvað það er algengt að yfirlýstir femínistar þekkja hvorki haus né sporð á eigin kenningum eða hugtökum. Auglýsing og kynningarefni VR vegna Jafnlaunavottunar er gott dæmi um þetta.

Í framsetningu kynningarefnis á vef, og í auglýsingunni sjálfri, sést greinilega að þeir sem vinna að jafnlaunavottun innan VR þekkja ekki muninn á hugtökunum „launamunur kynja“ annarsvegar og „kynbuninn launamunur“ hinsvegar.

Þetta er ekki bundið við VR. Þennan rugling má sjá hjá fjöldanum öllum af atvinnufemínistum og stundum fær maður á tilfinninguna að þessum hugtökum sé viljandi misbeitt til að kynda undir þessari einni vinsælustu samsæriskenningum forréttindafemínista.

Ég verð þó að segja að mér finnst all sérstakt að leggja í þetta mikla fjárfestingu við að kynna Jafnlaunavottun en láta taka sig á svona heimaskítsmáti.

En það er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem VR bregst bogalistin í „jafnréttisbaráttunni“, þetta er jú stéttarfélagið sem hvatti fyrirtæki til að mismuna körlum með því að gefa konum sérstakan afslátt hér um árið.

Ég læt nægja að senda femínistunum hjá VR eftirfarandi bréf vegna þessa máls en ég á örugglega eftir að skrifa meira um Jafnlaunavottunina á næstunni:

„Góðan dag,

Eftir að hafa horft á auglýsingu ykkar „Eitthvað ósýnilegt“ fór ég inn á vef ykkar og kynnti mér lauslega jafnlaunavottun. Nú sé ég að á vef ykkar skýrið þið hugtakið „Launamunur kynja“ með röngum hætti og ruglið greinilega við hugtakið „Kynbundinn launamunur“. Þá ber inntak auglýsingarinnar það einnig með sér að þessa misskilnings gæti hjá jafnréttissérfræðingum VR. 

Á vefnum ykkar er spurningunni „hvað er launamunur kynjanna“ svarað með eftirfarandi hætti:

„Baráttan fyrir jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði hefur staðið áratugum saman. Lög um launajöfnuð karla og kvenna voru sett 1961 og fimmtán árum síðar voru fyrstu eiginlegu jafnréttislögin sett. Þrátt fyrir að margt hafi áunnist frá þessum tíma er ennþá óútskýrður munur á launum karla og kvenna fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf.

Þess vegna þurfum við að leita nýrra leiða og sækja okkur ný vopn í þessari baráttu. Markmiðið er að eyða launamun kynjanna og tryggja öllum þau sjálfsögðu mannréttindi sem felast í jafnrétti til launa. Við leitum samstarfs við fyrirtækin í landinu. Hagsmunir launafólks og atvinnurekenda fara saman í þessari baráttu“ [Tilvitnun líkur].

Á vef Jafnréttisstofu segir um Launamun kynja:

„Launamunur kynjanna vísar til þess munar sem er á hreinum tekjum karla og kvenna. Hér er því ekki um að ræða sama hugtak og kynbundinn launamun, sem er einnig er skilgreindur hér“.

Um hugtakið kynbundinn launamun segir hinsvegar:

„Sá munur á launum karla og kvenna sem stendur eftir þegar búið er að leiðrétta fyrir muni á menntun, aldri, starfsaldri, starfshlutfalli, starfsstétt, yfirvinnu og vaktaálagi“.

Það er því alveg skýrt að í öllu efni ykkar eruð þið að rugla saman annarsvegar útskýrðum launamun og hinsvegar meintum óútskýrðum launamun. Þetta er jafnréttisumræðunni ekki til framdráttar og mér finnst að sérfræðingar ykkar í jafnréttismálum ættu nú að kunna svona einföldum atriðum skil.

Tja, nema ykkur finnist að sjómaður í fullu starfi og móttökuritari í hlutastarfi ættu að hafa sömu laun?

Bestu kveðjur,
Sigurður“

,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: