Niðurstaða Kærunefndar Jafnréttismála í máli Höllu Bergþóru Björnsdóttir gegn Innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, vegna skipunar í embætti Sýslumanns á Húsavík, hefur þegar verið krufin til mergjar á umliðnum dögum. Þar af leiðandi langar mig ekki að fjalla um efnisþætti málsins sérstaklega. Mig langar hinsvegar að nota þetta mál til að skoða hvernig ólög og önnur vitleysa er gædd lífi af þeim pólitísku öflum sem hafa hagsmuni af henni hverju sinni.
Það kemur líkast til engum á óvart að ég er harður andstæðingur kynjakvóta. Mér finnst hugmyndir forréttindafemínista um að hægt sé að staðla eitthvað sem er jafn flókið og ráðningarferli, sýna öðru fremur hvað femínistahreyfingin er í lítilli snertingu við raunveruleikann. Ég hef ráðið nóg af fólki sjálfur til að vita að matsferlið er einfaldlega of flókið og margslungið til að það sé hægt að staðla. Sérstaklega þegar horft er til huglægra þátta.
Það er einmitt þetta huglæga mat sem er ásteytingarsteinninn í þessu máli. Í úrskurði Kærunefndar er ekki annað að sjá en að umsækjendur séu jafnhæfir þegar litið er til hlutlægra (mælanlegra) þátta. Þá koma til hinir huglægu (ómælanlegu) þættir en Ögmundur hefur einmitt bent á tvo þætti í þessu huglæga mati. Annarsvegar hefur hann bent á að Svavar Pálsson, karlinn sem skipaður var, hafi starfað hjá embættinu við góðan orðstýr í átta ár og þar af í tvö ár sem settur Sýslumaður. Ég segi góðan orðstýr vegna þess að starfsmenn embættisins höfðu með bréfi til Innanríkisráðherra, óskað eftir því að Svavar yrði ráðinn. Miðað við það sem ég hef séð í viðtölum við Ögmund virðist hann hafa metið málið svo að hlutlægir og huglægir þættir féllu samanlagðir Svavari í hag.
En snúum okkur þá að viðbrögðunum. Pólitískir andstæðingar Ögmundar eru nú orðnir kaþólskari en páfinn í jafnréttishugsjón sinni og gera hvað þeir geta til að berja á Ráðherranum fyrir afglöpin. Allir láta þeir í veðri vaka að þeir hefðu beitt sér öðruvísi, hefðu þeir verið í sömu sporum. Ögmundur er aukinheldur mjög umdeildur innan síns eigin flokks og nú gefst okkur kjörið tækifæri til að sjá hvernig átakalínur liggja innan flokksins en margir samflokksmanna hans hafa deilt vagni með stjórnarandstöðuflokksmönnum í árásum sínum á Ögmund.
Jú jú, það er vissulega neyðarlegt að rifja upp þrumandi yfirlýsingar Ögmundar sjálfs þegar pólitískir andstæðingar hans fengu á lúðurinn frá honum fyrir samskonar brot á hinum svokölluðu jafnrétttislögum. Og jú, það hlýtur að teljast vandræðalegt fyrir Ögmund að verða nú fyrir barðinu á ólögum þeim sem flokkur hans hefur svo ötullega barist fyrir að yrðu sett.
En allt þetta sýnir að mínu mati hvernig vitleysan fær vængi. Það þarf ekki ofurnæmt pólitískt nef til að sjá að áhugi margra stjórnmálamanna á hugmyndum femínista er í óþægliega miklu samhengi við hagsmuni þeirra af því að slíkar hugmyndir nái fram að ganga.
Rétt eins og í tilviki Jóhönnu Sigurðardóttur, sem einnig gerðis brotleg við jafnréttislög, ætla ég því ekki að grýta Ögmund í þessu máli heldur taka undir með honum að það er eitthvað bogið við kerfi sem stuðlar að því að lakari umsækjandi sé ráðinn í starf vegna „jafnréttissjónarmiða“.
SJ
7.9.2012 kl. 20:17
Nú eru það ekki bara „forréttindafemínistar“ og jafnréttislög sem telja að hægt sé að „staðla“ ráðningarferli, heldur íslensk stjórnsýsla, stjórnsýslög og Umboðsmaður Alþingis.
Málið snýst raunar ekki um að „staðla“ ráðningarferli, heldur að ákvörðun um ráðningu sé tekin á málefnalegum forsendum í skilningi stjórnsýslulaga. Þetta á alls ekki bara við þegar borin eru saman karl og kona sem sækja um sama starf.
Það geta vel talið málefnaleg sjónarmið að einn umsækjandi komi ekki vel út úr viðrukenndu prófi, eða að umsagnir og meðmæli bendi til að annar sé betri í mannlegum samskiptum en hinn.
Í tilfelli Ögmundar gat hann EKKI bent á neinar alvöru málefnalegar ástæður fyrir því að sá sem ráðinn var hafi verið betri en hinn sem ekki var ráðinn og kærði.
7.9.2012 kl. 23:47
En hvaða réttur er það þá að heimta að eitt kynið fái starfið út frá hvaða kyn það er, ef báðir aðilar eru nákvæmlega jafn hæfir? Ef að það hefur verið lagt mat og báðir aðilar eru jafn hæfir, má þá ekki bara ráða hvern sem er? Kynið er engin breyta hérna, því ef að konan væri hæfari en karlinn samt ráðin, þá væri kynið orðið breyta.
13.9.2012 kl. 23:58
Já þú segir það Skeggi. Þarna greinir okkur á. Mér finnst mark takandi á þeim ástæðum sem Ögmundur hefur reifað. Þannig að mér finnst hann hafa komið með alvöru málefnalega ástæður eins og þú kallar það.
8.9.2012 kl. 9:43
Maðurinn, sorrí, manneskjan gleymir oft myndinni sjálfri – og einblínir um of á það sem myndin er af. Að hugsa er að hugsa huglægt um hlutlægt. Huglæg er hugsunin. Við skulum skoða boðandann og hvernig hann hugsar, í stað þess að vandræðast með það hvað hann er að hugsa. Boðandinn og markmið hans er grundvallarmál sem skipta öllu máli ef vilji er til að skilja hagsmuni viðkomandi; skilja hvaðan hann kemur og hvert hann er að fara.
Boðandinn birtir og raungerir merkingu þess sem hugsað er. Þú heyrir auglýsingu í útvarpi: „Við tippum – Lottó“. Kannski kaupir þú miða. Þú heyrir auglýsingu í útvarpi: „Við tippum – Goldfinger“. Kannski kaupir þú miða. Huglægt eða hlutlægt?
9.9.2012 kl. 14:26
Þekktir femínistar hafa núna verið dæmdir/úrskurðaðir brotlegir við jafnréttislögin. Fólk sem ég myndi aldrei ætla að vera annað en einlægt í markmiðum sínum um jafnrétti kynjanna. Þetta eru Valgerður Bjarnadóttir (fyrrum framkvæmdastýra jafnréttisstofu, dómur Hæstar. féll svo henni í vil síðar) Ögmundur og Jóhanna,
Þetta segir mér bara eitt: Það er eitthvað athugavert við þessi lög um hvaða viðmið eiga að vera við framkvæmd þeirra. Ef huglægt mat á ákaflega mikilvægum þáttum, t.d. eins og mannlegum samskiptum, er ekki relevant þá erum við í raun að auglýsa eftir Georg Bjarnfreðarsyni í hvert sinn sem auglýst er embætti á vegum ríkisins.
Nota bene, færni í mannlegum samskiptum hefur verið talinn einn mikilvægasti þátturinn sem stjórnendur horfa á þegar þeir ráða í stöður.
10.9.2012 kl. 12:38
ERROR-skilaboð tölvunnar eru skemmtileg samskipti. Skemmtilegustu sjónarhornin eru þau að tölvan skilur að hún skilur ekki og þann skilning kemur hún á framfæri við notandann, sem verður að teljast mannleg samskipti – þessi orð öll flugu í haus minn við lestur á færslu Sigurðar og allra athugasemdanna (minnar einnig). Skynja að við erum allir „lost“ yfir „hlutlægu“ mati gagnrýnanda Ögmundar á huglægu mati hans. ERROR. Við skiljum að við skiljum ekki. Og það er sama hverju við svörum tölvunni, hún skilur ekki neitt. Svipað og gagnrýnendur Ögmundar.
14.9.2012 kl. 0:01
Stýrikerfið mitt fraus eiginlega við lestur athugasemda þinna 😉 Of lítið vinnsluminni hugsanlega …
17.9.2012 kl. 8:22
Hehe. Hugsaðu þér ef hörðustu femínistarnir fengju nú svona error-skilaboð um lítið vinnsluminni, þrátt fyrir meðvitundarleysið. Og minnisleysið.