Heimskar dræsur

4.9.2012

Blogg

Út er komin bókin Fantasíur kvenna í ritstjórn Hildar Sverrisdóttur. Í bókinni gefur að líta 51 frásögn kvenna af kynórum sínum. Eins og svo oft þegar konur ræða málefni kvenna, þá er eins og jörðin þurfi að skjálfa undan mikilfengleik þess. Þannig heyrðist að ritstjóri teldi þetta verk vera tímamótaverk á sínu sviði og að það opinberaði áður óþekktar hliðar kvenhugans. Bókin ku tileinkuð kynfrelsi kvenna og er tilgangur hennar sagður að fagna kynórum kvenna og upphefja. Eins og það þurfi að koma fólki á óvart að konur hafi fjölbreytta og innbyrðis ólíka kynóra.

Svo fremi að val þitt sé í sátt við rétttrúnaðarkirkju forréttindafemínista?

Það er hinsvegar svo að fólk hefur gert þetta margsinnis áður. Sú sem ég þekki líklegast best er Nancy Friday sem gaf út bókina My Secret Garden: Women’s Sexual Fantasies árið 1973 eða fyrir tæplega hálfri öld. Þegar Nancy gaf út sína fyrstu bók var eins og það kæmi mörgum í opna skjöldu að konur hefðu yfir höfuð kynóra en nú virðist það valda meira fjaðrafoki hvernig kynóra konur hafi. Það er einmitt kannski áhugavert að velta því fyrir sér hvort þetta sé til vísbendingar um það að kennivald yfir konum hafi ekki minnkað heldur bara færst frá einum hópi til annars samfara kvenfrelsisbyltingunni.

Ég var einhverntíman að skoða klámnotkun kvenna í samanburði við klámnotkun karla og hvernig kynin neyttu kláms á ólíkan hátt. Þá las ég tvær af bókum Nancy Friday; Forbidden Flowers (útg. ’75) og Women on Top (útg. ’91). Í þessum bókum las ég um hugaróra kvenna á öllum aldri og á öllum félagsstigum. Sumar frásagnirnar voru sakleysislegar en aðrar ekki svo mjög. Þannig mátti lesa allnokkrar frásagnir af kynlífi kvenna með dýrum og óra þeirra um kynlíf með einstaklingum undir lögaldri.

Nú, eins og þá, birtist okkur þrástefið um að þær konur sem leggji til frásagnir sínar í svona bækur séu ekki réttrar gerðar. Þær séu óvenjulegar eða jafnvel veikar og er stundum jafnvel gefið í skyn að ritstjórar svona bóka séu ekki allir þar sem þeir eru séðir. Í tilviki Nancy Friday lýsti tímaritið Ms. (Ms. Magazine) því t.d. yfir að konan væri ekki femínisti og þ.a.l. kvenfjandsamleg. Einhverjir gagnrýnendur þóttust vissir um að það hefðu bara verið karlar sem sendu henni hugaróra sína undir því yfirskyni að þeir væru konur, enda auðvitað bara saurugur karlmannshugur sem getur svona nokkuð af sér, vildu þessir femínistar meina. Konur eru nefninlega, eins og við öll vitum, saklaus, hrein blóm með svo barnslegan huga að þær má sveigja í allar þær áttir sem feðraveldið telur æskilegt og ásættanlegt hverju sinni.

Um leið og ég heyrði af þessu framtaki Hildar vissi ég því hver viðbrögðin yrðu og viti menn. Launsátursfemínistinn reið á vaðið, þegar aðeins hafði frést að bókin væri í smíðum, og benti á að það yrðu líklegast bara karlar sem sendu inn sögur. Eftir að bókin kom út hafa einhverjar manneskjur, sem hafa þann starfa að gagnrýna bækur, komið fram og skýrt fyrir okkur hinum hvernig þetta getur bara ekki staðist. Konur hugsi bara alls ekki svona og að þetta sé ekki eðlilegt.

Mér finnst þessi textabútur Sólrúnar Lilju Ragnarsdóttur úr gagnrýni hennar á bókina, lýsandi fyrir þau viðhorf sem hinir réttþenkjandi góðborgarar hafa verið að láta í ljós á síðustu daga:

„Fantasíurnar hljóma margar eins og þær séu skrifaðar eftir uppskrift frá klámiðnaðinum frekar en að vera sprottnar úr hugarheimi kvenna. Að höfundar hafi einblínt á það hvað fólk vildi lesa og hvað vekti athygli frekar en að opinbera raunverulegar fantasíur sínar. Ég vil allavega frekar trúa því að það sé raunin heldur en að klámiðnaðurinn hafi náð að brengla ímyndunarafl kvenna svo mikið að þær telji sér trú um að fantasíur þeirra eigi að snúast um að þær stundi nauðugar kynlíf“

Semsagt; það eru bara bilaðar konur sem skrifuðu í bókina. Ef þú ert kona sem aðhyllist kynlíf sem ekki er femínistum sæmandi þá ertu ósjálfstæð og illa gefin sem aftur hefur leitt það af sér að þér finnst þú þurfa að bæla raunverulegar langanir þínar og telja sjálfri þér trú um að þú viljir eitthvað sem þú vilt alls ekki í raun.

Af hverju sagði siðvanda frökenin ekki bara að bókin væri skrifuð af heimskum dræsum sem ætti ekki að ljá rödd opinberlega sökum þess hve illa áttaðar þær væru?

SJ

4 athugasemdir á “Heimskar dræsur”

 1. Kristinn Says:

  Skemmtileg grein.

  Er ekki lykilorðið í tilvitnuninni góðu orðið „eigi“?

  Um hvað „eiga“ fantasíur okkar allra að vera?

  Spurðu á næsta safnaðarheimili femínista áður en þú lætur þér detta í hug að skrifa bók um þínar eigin fantasíur eða annarra, því annars munu þeir afmyndaðir í framan af hneykslan hvetja samfélagið til að þvo hendur sínar af þér og brengluðum löngunum þínum.

  Þetta er veruleikafirrt lið.

  • Sigurður Says:

   Takk og blessaður aftur.

   Jú mér finnst þetta einmitt vera málið. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig það sé að sitja eilíft undir því í almennum fjölmiðlum hvernig ég „eigi“ eða „eigi“ ekki að vera. Femínistar virðast almennt líta svo á að þeir séu að frelsa konur úr viðjum svona krafna en gera, ef eitthvað er, mestu kröfur allra til kvenna um hvernig þær eigi að vera.

   Það má kannski virða það femínistum til vorkunar að þeir virðast trúa því af mikilli festu að þeir tali í umboði hins góða eða „rétta“ ef svo má að orði komast. Það er sjálfsagt auðvelt að verða svona firrtur þegar maður trúir því um sjálfan sig.

 2. Egill Says:

  Flott grein enn og aftur hjá þér. Öll höfum við mismunandi kynóra og það á ekki að vera til neitt rétt eða rangt í þeim efnum á meðan það er innan ramma laganna, og það er ótrúlegt að fólk þykist geta sagt hvað fólk eigi að vilja í rúminu og hvað er afleiðing klámiðnaðarins. Ef fólk nýtur einhvers með makanum þá er það frábært, sama hvort það sé komið úr klámmynd eða Disney mynd.

  Ég var orðinn hræddur um að þú værir hættur að skrifa, það hafði ekkert komið inn í smá tíma 🙂
  Þetta er frábær síða hjá þér og að sjálfsögðu er hún hluti af daglega netrúntinum hjá mér.
  Takk fyrir mig.

  • Sigurður Says:

   Sæll Egill og velkominn.

   Já mér þykir þetta hin mesta furða. Ég hef aldrei nokkurntíman fundið hjá mér þörf fyrir að mynda mér skoðun á því hvað fólk gerir í kynlífi sínu svo fremi að það sé með samþykki og sátt allra þátttakenda og í samræmi við lög. Það er sjálfsagt þessvegna sem ég á erfitt með að skilja hvaðan þessi þörf sprettur, að básúna því um allt hvað aðrir megi gera í rúminu án þess að teljst ruglaðir.

   Ég er ekki hættur að skrifa. Ég fæ alltaf við og við þörf til að kúpla mig frá deilum og dægurþrasi. Oftast kem ég því þá þannig fyrir einhverjar greinar birtist fram í tímann en nú tók ég mér bara óvanalega langt frí svo það eina sem kom í sumar voru tvær fyrirfram skrifaðar færslur.

   Takk fyrir lesturinn!

%d bloggurum líkar þetta: