Borg karlfyrirlitningar

27.4.2012

Blogg

Ég held áfram að andæfa ummælum Guðrúnar Jónsdóttur, talskonu Stígamóta í þá veru að í ljósi þekkingar femínista sé það úrellt hugmyndafræði að karlmenn njóti tiltekinna mannréttinda.

Þetta er um margt sérstakt mál sem veitir okkur góða innsýn í tvöfallt siðgæði forréttindafemínista sem virðast í fúlustu alvöru setja mannréttindi kvenna ofar karla. Þá veitir þetta okkur líka fádæma góða innsýn í það hvað samfélag okkar virðist móttækilegt fyrir þeirri hugmynd að það sé í lagi að rýra mannréttindi karla svo lengi sem það sé gert í þágu kvenna en sú hugmynd hvílir efalítið á staðalímyndinni um góðu, viðkvæmu konuna og vonda karlinn sem hefur verið markaðssett um nokkurra áratuga skeið núna.

Nú sendi ég Borgarstjóra, Jóni Gnarr erindi þar sem ég spurði hvernig það samræmdist Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar að styrkja félagasamtök sem opinberlega tala gegn mannréttindum karla. Aðeins eru nokkrir dagar síðan ég birti samskipti mín við Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar v. virkilega ógeðfelldra ummæla um karlkyns starfsmenn Reykjavíkurborgar og fyrirlitningarhlaðinnar rannsóknar á meintri klámfýsn þeirra. Það virðist því af nógu virðist að taka hjá Reykjavíkurborg þessi misserin, því miður.

Bréfið til Jóns:

„Ágæti Jón Gnarr,

Þann 4. desember 2011 birtust á vegg fésbókargrúppu Femínistafélags Íslands eftirfarandi ummæli Guðrúnar Jónsdótttur, talskonu Stígamóta;

“Hugmyndafræðin „saklaus uns sekt sannast“ er ekki fullnægjandi þegar um nauðgunarmál er að ræða. Samkvæmt þeirri grunnhugsun eru sekir nauðgarar á hverju ári innan við tíu, á sama tíma og Stígamót og Neyðarmóttakan fást við um 250 nauðganir á ári og vitað er að það er toppurinn á ísjakanum. Þar með eru nauðgarar í að minnsta kosti 240 tilfellum saklausir á Íslandi á hverju ári, þrátt fyrir að hafa framið gróf mannréttindabrot.

Grunnhugsunin er auðvitað að dæma ekki nema sekt sé sönnuð, en ef við förum alla leið þangað að þar með séu viðkomandi saklausir, erum við í raun að dæma 240 konur á hverju ári fyrir að bera rangar sakir á menn. Flestar þessara kvenna reyna ekki að ná rétti sínum, ef þær reyna það eru þær tortryggðar og málin felld niður”

Eins og sjá má, setja Stígamót sig hér upp á móti því að karlmenn njóti grundvallarmannréttinda eins og þau eru skilgreind í 11. grein Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 62. grein Mannréttindasáttmála Evrópu og 70. greinar Stjórnarskrár Íslenska lýðveldisins, um að maður er sætir ákæru skuli teljast saklaus uns sekt hans er sönnuð. Ekki aðeins er hér verið að vinna að afnámi grundvallarmannréttinda heldur bera skilaboðin ekki annað með sér en að afnám þessara mannréttinda skuli eingöngu beinast gegn karlmönnum sem myndi þá teljast brot á lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla frá 2008 einnig.

Nú veit ég að Reykjavíkurborg hefur verið að styrkja starfsemi Stígamóta en Guðrún Jónsdóttir neitaði að láta mér í té upplýsingar um fjárhæðir þeirra styrkja. Finnst borgarstjóra það fara saman við Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar að styrkja samtök sem berjast fyrir afnámi grundvallarmannréttinda eins þjóðfélagshóps?

Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“

Svarið:

„Sæll Sigurður.

Vísa til erindis þíns dags. 3. mars sl. þar sem varpað er fram þeirri spurningu hvort mér finnist það fara saman við mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar að styrkja samtök sem berjast fyrir afnámi grundvallarmannréttinda eins hóps.

Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, grein 2.1.2, stendur: „Reykjavíkurborg einsetur sér að vinna gegn kynbundnu ofbeldi, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt. Öll starfsemi borgarinnar skal taka mið af þessu markmiði.“

Frá árinu 1992 hafa Stígamót veitt þolendum kynferðisofbeldis stuðning og þjónustu. Þjónustan er veitt bæði konum og körlum og hafa fjölmargir einstaklingar borið þess vitni hversu mikil lífsbjörg hún hefur verið þeim. Árið 2011 var fjöldi nýrra mála hjá Stígamótum 313. Þess utan veita Stígamót mörgum einstaklingum þjónustu árum saman.

Undirritaður getur ekki tekið undir að samtökin Stígamót berjist fyrir afnámi grundvallarmannréttinda. Reykjavíkurborg er stolt af stuðningi sínum við Stígamót og fellur hann að fyrrnefndri grein mannréttindastefnu borgarinnar. Stuðningurinn er nýttur til að þjónusta þolendur kynferðisofbeldis og um mikilvægi þess hljótum við öll að vera sammála.

Jón Gnarr“

Takið eftir að Jón forðast að taka afstöðu til kjarnans í erindi mínu. Þ.e. að samtök sem í krafti borgaryfirvalda, eru styrkt af almannafé vinni gegn grundvallarmannréttindum afmarkaðs hóps í samfélaginu. Þess í stað bendir Jón á það sem Stígamót gera vel eins og það kaupi þeim inneign til að vinna gegn mannréttindum annara.

Strax í inngangi Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar (sem nálgast má hér) blasir við að daður Stígamóta við afnám mannréttindaákvæða Stjórnarskrár Íslands og alþjóðlegra Mannréttindasáttmála er algjörlega í blóra við stefnuna sjálfa en þar segir:

„Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var af borgarráði 16. maí 2006, byggir á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Stefnan er byggð á jafnræðisreglunni og miðar að því að allar manneskjur fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu“

Það er ekki annað að sjá en að í huga Jóns sé allur þessi fagurgali fremur ætlaður konum en körlum og að borgaryfirvöld þurfi bara að fara eftir Mannréttindastefnu sinni þegar það hentar. Hugsanlega bara þegar það kemur vel út ímyndarlega.

Það skyldi þó ekki vera að Jón hafi pólitískara nef en hann vill vera láta?

SJ

, ,

2 athugasemdir á “Borg karlfyrirlitningar”

  1. Ingimundur Says:

    Nú er, eins og þú örugglega veist Sigurður, tækifæri til að viðhafa sömu aðferð og þú hefur áður beitt, og fara fram á rökstuðning borgarstjóra (þá hvernig), að hann sýni fram á hvernig ofangreind grein 2.1.2 um að Reykjavíkurborg vinni gegn kynbundnu ofbeldi, endurtek vinni gegn kynbundnu ofbeldi
    samræmist því að veita samtökum sem sinna þolendum, endurtek sinna þolendum kynferðisofbeldis fjárstyrk.
    Mannréttindaákvæðið talar um vinna gegn ofbeldi, á meðan Stígamótum er lýst í bréfi borgarstjóra sem samtökum sem sinna þolendum verknaðar.
    Ég sé ekki samræmi þar á milli, sýnist þetta rökvilla, í svarinu er að auki bara fullyrt að samræmi sé, svo frekari rökstuðning finnst mér borgarstjóri eða svaramaður/svarakona hans þurfa að gefa og hvet þig til að benda á rökvilluna og fara fram á rökstuðninginn.

    Ég tel að samtök sem aðstoða þolendur kynferðisofbeldis séu þörf, en spurning þín snérist ekki um það og borgarstjóri á að geta skilið á milli þarfrar þjónustu og samræmis á milli ákvæða sem honum ber að vinna eftir og framkvæmda hans. Það þarf líklega að segja honum það tvisvar.

    Svo er ástæða til þess að fara fram á að borgarstjóri sýni fram á að tilvitnuð orð Guðrúnar Jónsdóttur feli ekki í sér að talað sé gegn mannréttindum (karla) með hliðsjón af mannréttindaákvæðum m.meiru.
    Það kann að vera að borgarstjóri geti rökstutt slíkt, en hann þarf að gera það.

    Til viðbótar bendi ég ólöglærður maðurinn á að vera kann að rétt sé í upphafi að benda á að þú eigir rétt á fullnægjandi rökstuðningi, með hliðsjón af 7., 10. 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga, en fróðari menn geta hugsanlega útskýrt það frekar.

    • Sigurður Jónsson Says:

      Tja, ég ætla nú, held ég, að láta staðar numið hér hvað varðar Reykjavíkurborg í þessu máli. Ég held að það sé tímasóun að elta einstök mál, eins og þetta til enda. Meiningin með þessu erindi var að láta það viðhorf heyrast inn í borgarkerfið að til væru karlmenn sem litu ekki á það sem smámál að verið væri að mæla fyrir afnámi mannréttinda þeirra. Með birtingu þess vonast ég svo til að sem flestir sjái fyrir hvað þetta fólk sem stýrir borginni vill standa.

      Reykjavík Jóns Gnarr hefur þegar sýnt að hún virðist taka karlfyrirlitingu fagnandi og fjármagnar herlegheitin meira að segja með stolti. Þessi barátta vinnst ekki með því að fella eina og eina kvenrembu á ritvellinum. Hún vinnst með aukinni meðvitund um þessa meingerð í samfélagi okkar og það er það sem ég vil gera.

      Annars er þetta fróðleg ábending varðandi stjórnsýslulögin sem gæti nýst mér í samskiptum við aðrar stofnanir sem án umboðs hefur verið breytt í baráttutæki forréttindafemínista. Takk fyrir það!

%d bloggurum líkar þetta: