Að skrifast á við femínista er góð skemmtun. En það er ekki bara gamansins vegna sem ég skrifast á við femínista, síður en svo. Mér finnst mikilvægt að andæfa öllu sem mér finnst bera keim af karlfyrirlitningu eða misrétti í búningi jákvæðrar mismunuar o.s.fv. Þá finnst mér líka mikilvægt að þær skoðanir sem ég tala fyrir, heyrist. Þá þannig að að nái eyrum þeirra fjölmörgu forréttindafemínista sem Ríki og sveitarfélög sjá ástæðu til að greiða laun fyrir að breiða út boðskap sinn.
Hér eru samskipti við Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar sem ég hef lumað á í nokkurn tíma en er kannski viðeigandi að birta núna þar sem málefnið sem varð tilefni þessara skrifa minna er eitt þeirra mála sem Eva Hauksdóttir reifaði í nýafstöðnu viðtali í Silfri Egils. Þ.e. rannsókn á klámnotkun karlkyns starfsmanna Reykjavíkurborgar og útgáfa bæklings sem byggir á þeirri sömu rannsókn. Erindið sendi ég eftir að hafa lesið viðtal við höfund rannsóknarinnar, Thomas Brorsen Smidt stuttu áður.
Sem fyrr vissi ég að það kæmi ekkert út úr því nema það að gagnrýni mín hefði þá formlega verið sett fram. Reyndar fannst mér, þegar ég skrifaði bréfið, eins og ég væri persóna í gamanmynd enda tilvitnanir í Thomas með miklum ólíkindum. Því fór hinsvegar fjarri að þetta væri eitthvað gamanmál, hér er á ferðinni blákaldur femínískur raunveruleiki og hreint ótrúlegur vitnisburður þeirrar karlfyrirlitningar sem virðist vera ofin inn í meira og minna alla stjórnsýslu a.m.k. í höfuðborginni og hjá stofnunum Ríkisins. Kynjafyrirlitning sem aldrei myndi líðast innan þessara sömu stofnana, væri hún á hinn veginn.
Erindið var svohljóðandi:
„Góðan dag,
Ég rakst nýlega á grein í Fréttatímanum frá 15. júlí sl. um rannsókn sem kynjafræðineminn Thomas Brorsen Smidt vinnur nú að um klámnotkun í vinnuumhverfi Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands. Af lestri greinarinnar að dæma virðist Thomas raunar leggja klámnotkun og kynferðislega áreitni að jöfnu og dregur þá ályktun að þar eð karlkyns starfsmenn [Reykjavíkurborgar] geti ekki fróað sér við starfsstöðvar sínar yfir því klámi sem þeir skoði í vinnutíma þá hljóti þeir að nota klámið til að áreita kvenkyns samstarfsmenn sína á beinan og óbeinan hátt sem þeir geri vegna þess að það misbjóði karlmennsku þeirra að vinna með eða undir konum.
Thomas leggur út frá því að klám á vinnustað myndi einhvers konar varnarhjúp utan um karlmenn og að innan hans geti þeir litið konur, femínista og jafnréttissjónarmið hornauga. Skemmt sér og samstarfsmönnum með því að segja klámbrandara og í öryggi tjáð reiði sína í garð kvenkyns vinnufélaga án þess að vera stimplaðir karlrembur vegna þess að þar með viti þeir að hinir gaurarnir eru með sér í liði, eins og kynjafræðineminn orðar það.
Nú kemur orðið fátt mér á óvart sem frá kynjafræðingum og femínistum kemur en ég verð að segja að ég varð hálf hvumsa við þegar ég sá, í fréttinni, að Reykjavíkurborg hafi styrkt gerð þessarar rannsóknar. Ég er því með nokkrar spurningar þessu tengdu.
- Er það almennt álit yfirmanna Reykjavíkurborgar að andlegu atgervi karlkyns starfsmanna borgarinnar sé svo ábótavant að til að kljást við þau grimmu örlög að vera látnir vinna með og/eða undir konum þá leiti þeir skjóls í klámglápi á vinnutíma í örvæntingarfullri tilraun til að bjarga því litla sem eftir er af karlmennku sinni?
- Hvaða nefndir eða einstaklingar innan borgarinnar taka ákvörðun um að fjármunum hennar sé vel varið til rannsókna á borð við þessa?
- Hvernig finnst þeim sem ákvörðun tóku um að styrkja gerð þessarar rannsóknar það samræmast gr. 2.2.5 í Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar sem segir að stuðla beri að jákvæðu viðhorfi til allra starfa innan borgarinnar og að andrúmsloft á vinnustað sé gott?
- Mega Reykvíkingar búast við því að stjórnendur borgarinnar sjái ástæðu til að nota skatttekjur borgarinnar til að fjármagna fleiri rannsóknir sem stuðla að og viðhalda karlfyrirlitningu á þessum síðustu og verstu?
Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“
Svarið barst mér aðeins viku síðar og kann ég Mannréttindaskrifstofu bestu þakkir fyrir það. Svona hljóðaði það:
„Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar hefur móttekið tölvupóst frá þér dags. 3. október 2011 þar sem m.a. eru settar fram spurningar í fjórum liðum. Hér á eftir eru spurningarnar teknar óbreyttar úr tölvupósti þínum og þeim svarað.
- Er það almennt álit yfirmanna Reykjavíkurborgar að andlegu atgervi karlkyns starfsmanna borgarinnar sé svo ábótavant að til að kljást við þau grimmu örlög að vera látnir vinna með og/eða undir konum þá leiti þeir skjóls í klámglápi á vinnutíma í örvæntingarfullri tilraun til að bjarga því litla sem eftir er af karlmennku sinni?
Við vitum ekki hvaða álit yfirmenn almennt hafa á þessu. Þeir eru bæði margir og margvíslegir en þeir tala um starfsfólk, bæði konur og karla, af hlýju og virðingu og engin ástæða er til að ætla að þeir telji „andlegu atgervi“ karlkyns starfsmanna borgarinnar ábótavant. Rannsóknin snýst ekki um álit yfirmanna en hins vegar sýna niðurstöður umræddrar rannsóknar að klám og niðrandi umtal um konur á sér stað hjá Reykjavíkurborg og við því verður brugðist.
- Hvaða nefndir eða einstaklingar innan borgarinnar taka ákvörðun um að fjármunum hennar sé vel varið til rannsókna á borð við þessa?
Sótt var í Nýsköpunarsjóð námsmanna um fjármagn til rannsóknarinnar. Umsækjandi var nemandinn sjálfur en hann óskaði eftir stuðningi Reykjavíkurborgar ef til kæmi og var hann fúslega veittur. Farið er yfir allar umsóknir af Nýsköpunarsjóði og þurfa þær að uppfylla ströng skilyrði og fær aðeins hluti umsækjenda styrk. Þessi styrkumsókn hlaut tveggja mánaða styrk frá sjóðnum og þar með einn frá Reykjavíkurborg. Þeir fjármunir koma úr sérstökum sjóði sem settur var á laggirnar til að kosta mótframlag borgarinnar í Nýsköpunarsjóðsverkefnum. Reykjavíkurborg tekur fagnandi umleitunum um þátttöku í verkefnum sem fara fyrir Nýsköpunarsjóð námsmanna tengist þau starfsemi borgarinnar með einhverjum hætti eins og í þessu tilviki.
- Hvernig finnst þeim sem ákvörðun tóku um að styrkja gerð þessarar rannsóknar það samræmast gr. 2.2.5 í Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar sem segir að stuðla beri að jákvæðu viðhorfi til allra starfa innan borgarinnar og að andrúmsloft á vinnustað sé gott?
Markmiðið með þátttöku Reykjavíkurborgar í rannsókninni er að stuðla að jákvæðu andrúmslofti á vinnustað, andrúmslofti þar sem jafnréttissjónarmiða er gætt bæði í orðum og í umhverfi, og fellur hún því fullkomlega að grein 2.2.5 í mannréttindastefnu borgarinnar.
- Mega Reykvíkingar búast við því að stjórnendur borgarinnar sjá ástæðu til að nota skatttekjur borgarinnar til að fjármagna fleiri rannsóknir sem stuðla að og viðhalda karlfyrirlitningu á þessum síðustu og verstu?
Þessi rannsókn, eins og áður segir, stuðlar ekki að karlfyrirlitningu heldur er ætlunin að nýta niðurstöður hennar til að efla jafnrétti á vinnustað. Rannsókn á því hvernig kvenfyrirlitning getur birst á vinnustöðum felur ekki í sér karlfyrirlitningu. Það er okkar álit að þessum 170.000 kr. sem Reykjavíkurborg lagði til verkefnisins hafi verið vel varið og niðurstöður sýna að það var full ástæða til að leggja í þann leiðangur. Reykjavíkurborg sættir sig ekki við að klámefni hangi uppi á vinnustöðum borgarinnar eða við niðrandi tal um konur eða karla. Reykjavíkurborg mun þess vegna bregðast við niðurstöðum rannsóknarinnar. Það eru ekki bara konur sem líða fyrir klámefni sem ætlað er körlum heldur einnig fjölmargir karlar sem vilja ekki láta orða sig við slíkt og hafa skilning á því að klám er ein birtingamynd kvenfyrirlitningar. Það er skylda borgarinnar bæði með vísan í lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla t.d. grein 22 og með vísan í mannréttindastefnu borgarinnar t.d. grein 2.2. að bregðast við niðurstöðum rannsóknarinnar. Þess utan er það eindreginn vilji borgarinnar að skapa heilbrigt umhverfi fyrir bæði konur og karla sem starfa hjá Reykjavíkurborg og í því felst ekki karlfyrirliting heldur þvert á móti – virðing fyrir báðum kynjum.Að lokum vil ég taka fram, af gefnu tilefni, að undirrituð er bæði femínisti og kynjafræðingur“
Síðasta setningin sýnir okkur að enn og aftur kemst ég ekki í gegnum múr forréttindafemínista í samskiptum mínum við stjórnsýsluna. Mér finnst það markvert þar sem ég er jú iðulega að gagnrýna aðgerðir einmitt þess hóps sem síðan situr sjálfur fyrir svörum.
Hvað varðar svarið efnislega þá kveður við sama tón og alltaf þegar femínistar eru annarsvegar. Þegar barist er gegn ranglæti í garð kvenna má nota sama ranglæti í garð karla. Eða hvernig er annars hægt að verja það að berjast gegn niðrandi umtali í garð kvenna með niðrandi umtali í garð karla?
Hér sjáum við að það eru tvö siðferðisviðmið í gangi innan Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur þar sem forréttindafemínistar virðast ráða ríkjum. Eitt fyrir karla og annað fyrir konur. Hefði rannsakandi gætt kynhlutleisis þá er ég ekki í nokkrum vafa um að rannsókn hans hefði leitt til þeirrar niðurstöðu að karlmenn þoli einnig niðrandi umtal á vinnustöðum en að femínískum hætti þá var beinlínis lagt upp með að líta framhjá því og þótti það bara sjálfsagt af þeim embættis- og starfsmönnum sem greiddu götu þessa kynjafræðings.
Þessi rannsókn var drifin áfram af stækri karlfyrirlitningu og engu öðru.
SJ
21.4.2012 kl. 18:50
Einar bíður eftir svari við nokkrum spurningum um útgáfu þessa bæklings. Hann er búinn að fá staðfest að hann geti átt von á svari í næstu viku.
22.4.2012 kl. 12:04
Glæsilegt! Hlakka til að sjá hvað hann fær út úr því.