Ég hef verið að hugsa um það sem Eva sagði í Silfri Egils um yfirtöku femínista á orðræðunni. Ég hef lengi dáðst að hæfileikum femínista til að móta orðræðuna og beita henni þar með sem tæki í baráttu sinni. Um orðræðu segir í Skírni, Tímariti hins Íslenska Bókmenntafélags, vor 2004:
„Orðræða er áberandi hugtak á okkar dögum. Skilgreiningar á því eru margar en oft er það notað um merkingarbæran tjáningarhátt af einhverju tagi, hvort heldur er í ræðu eða riti, mynd eða máli. Orðræða birtist þá jafnt í bókmenntum, fjölmiðlum, stjórnmálum, kvikmyndum, tísku og hvers kyns tjáningarleiðum sem maðurinn nýtir sér. Birtingarmyndirnar geta verið leyndar og ljósar. Í þessum víða skilningi tengist orðræða valdi með ýmsum hætti. Hún getur í senn verið afurð valds og viðhaldið því, eða verið vitnisburður um átök. Í orðræðunni birtist myndin sem við gerum okkur af heiminum, hún getur löggilt og áréttað gildismat, forréttindi eða afstöðu, sem hún getur einnig afhjúpað og hafnað“
Það má kannski segja að mótun femínista á orðræðunni birtist okkur með þrennum hætti. Í fyrsta lagi með endurskilgreiningu hugtaka sem þegar eru til. Þetta geta verið hugtök eins jafnrétti, femínismi, klám, nauðgun og vændi sem í hugum femínista þýða eitthvað allt annað en þau þýða í hugum flestra annnara. Dæmi um afbökun hugtaka geta verið hvernig hugtakinu jafnrétti (jafn réttur) er einatt ætluð sama merking í umræðunni og jafnstaða (jöfn staða). Beiting hugtaksins jafnrétti þegar raunverulega er verið að berjast fyrir jafnstöðu er villandi þar eð jafnstöðubarátta gengur oftar en ekki þvert á jafnrétti sem sést best á sérlögum kvenna eða sértækum aðgerðum sem ætlað er að veita konum forskot í kappleikjum lífsins.
Annað dæmi er hugtakið klám sem skv. kennslubókum í jafnrétti þýðir nú kynbundið ofbeldi (gegn konum að sjálfsögðu). Þá er skilgreining íslenskra femínista á hugtakinu femínismi í algjöru ósamræmi við upphaflega merkingu þess orðs en skv. Femínistafélagi Íslands er femínisti karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því. Þessi afbökun er augljóslega gerð til að hugmyndafræðin höfði til sem flestra en skilgreiningin er í hróplegu ósamræmi við aðgerðir Femínistafélags Íslands sem hefur skipulega barist gegn afnámi misréttis í garð karla. Þá er gaman frá því að segja að ég er argasti femínisti skv. þessari skilgreiningu.
Í öðru lagi sýnir þróun nýrra hugtaka, sem femínistar hafa verið einsaklega duglegir við, hvernig þeir stjórna orðræðunni. Dæmi um hugtök úr smiðju femínista eru; kynbundið ofbeldi, kynbundinn launamunur, launamunur kynja, klámvæðing, styðjandi kvenleiki o.fl. Árangursrík beiting hugtaksins kynbundið ofbeldi hefur gert baráttu við ofbeldi karla gegn konum hærra undir höfði en öllum öðrum tegundum ofbeldis. Beiting hugtakanna kynbundinn launamunur og launamunur kynja sem oft er ruglað saman, hefur svo fært ábyrgð á kjarabaráttu kvenna frá þeim sjálfum og yfir á herðar yfirvalda ásamt því sem mörg stéttarfélög virðast leggja meiri áherslu á kjarabaráttu kvenna en karla.
Í þriðja lagi er það svo afneitun á hugtökum sem henta ekki femínistum. Ég sýni m.a. fram á þetta með bréfasendingum til Jafnréttisstofu þar sem ég legg til að í orðabók stofnunarinnar verði bætt við hugtökum sem lýsa misrétti eða slæmri stöðu karla í samfélaginu eða neikvæðum hliðum femínisma. Þessi erindi birtast hérna mánaðarlega næstu mánuði en meðal hugtaka sem ég hef stungið upp á eru kynbundinn dauðamunur, kynbundinn refsimunur og söguleg skuld. Ég fullyrði að mér mun aldrei takast að hafa áhrif á hugtakaval stofnunarinnar sem ekki hefur einu sinni séð ástæðu til að setja inn vel þekkt hugtök á borð við foreldrajafnrétti þar sem það hentar ekki málstað femínista.
Þá keppast femínistar við að afneita hugtökum sem þeim hugnast ekki en nærtækt dæmi um það er sjálft hugtakið forréttindafemínismi sem ætlað er að aðgreina öfgafulla femínista frá hinum sem barist hafa fyrir jafnrétti. Hrafnhildur Ragnarsdóttir skrifar grein á Smuguna sem lýsir þessu ágætlega en um hugtakið forréttindafemínisma segir hún:
„Í fyrsta lagi, hann er ekki til. Hann er tilbúið uppnefni útbúið af þeim sem eru hræddir við og/eða ekki skilja baráttuna fyrir kynjajafnrétti. Femínistar berjast ekki fyrir því að konur njóti meiri réttinda en karlmenn. Það þarf bara að kynna sér baráttuna í cirka korter til að sjá það. Karlmenn eru í stærstum meirihluta allra stjórnenda í viðskiptum og í opinberri starfsemi, þeir fá hærri laun, meiri fríðindi og hafa mun meiri aðgang að völdum en konur. Femínistar vekja athygli á þessu misrétti og berjast gegn því. Femínistar berjast fyrir jafnrétti, ekki forréttindum. Allt skynsamt fólk ætti að vita betur en að slengja svona rangyrðum fram. Þetta vanvirðir kvennabaráttuna frá upphafi sem hófst með baráttu fyrir kosningarétti kvenna og launum fyrir vinnu kvenna, eitthvað sem okkur þykir nú sjálfsagt.Í dag er m.a. verið að berjast fyrir jöfnum launum, gegn mansali og hlutgervingu kvenna. Það felast engin forréttindi í því“
Það er rétt hjá Ragnhildi að ekki allir femínistar berjast fyrir því að konur njóti meiri réttinda en karlar en það er jafn dagljóst að forréttindafemínistar gera það. Þessi vefur er fullur af staðfestum dæmum um það. Þessi yfirlætislegu skrif benda til þess að Ragnhildi finnist að femínistar eigi að stjórna orðræðunni. Þeir eigi að ákveða hvaða hugtök eigi rétt á sér og það hvað ekki. Ef hugtakið er ekki úr smiðju femínista eða opinberlega samþykkt af þeim, þá er það einfaldlega ekki til.
Hún var líklega innblásin af orðum Þorgerðar Einarsdóttur, kynjafræðiprófessor sem sagði á fundi hjá Femínistafélagi Íslands að „mikilvægt verkefni fyrir femínista er að brúa þekkingargjána og taka túlkunarforræðið í sínar hendur“.
SJ
23.4.2012 kl. 23:09
Þetta er fróðleg íhugun hjá þér Sigurður og allrar athygli verð. Mikið þætti mér fróðlegt að fá á pistlinum álit einhverra þeirra feminista sem sega má að vísað sé til í pistlinum, svo sem Þorgerðar Einarsdóttur sjálfrar, en þó miklu fremur einhverra þeirra sem eru almennir meðlimir Feministafélags Íslands, álit um hvort viðkomandi telji eitthvað í pistlinum eiga rétt á sér. Annars öskrar þögn feminista úr þessum röðum, þ.e. þögn þeirra á spjallvef þínum við og um pistla þína. Því það bendir til þess að þeir annað hvort forðist blogg þitt eins og heitan eldinn eða að öfugt við flesta aðra vefi þar sem um feminisma er ritað þá treysti þeir sér ekki í umræðu um pistla þína. Dembum ábendingu inn á vef FÍ…
24.4.2012 kl. 14:04
Við heyrum líklega ekki frá Þorgerði. Hún kvaddi mig með þeim orðum að samræður við mig þjónuðu ekki vitrænum tilgangi eftir að hafa lesið þetta blogg en ég var þá að spyrja hana hversvegna hún liti ekki á meðlög sem framfærslu í kynjarannsóknum sínum. Það er svolítið merkilegt að eftir því sem ég les meira um femínisma og raunverulega kynni mér málin, því heimskari virðist ég verða að mati þeirra.
Hvað varðar þögn femínista þá er kannski mest æpandi hvað það er orðið erfitt fyrir mig að fá svör, jafnvel frá stofnunum sem femínistar stjórna. Frá Femínistafélagi Íslands hef ég aldrei fengið svar við fyrirspurnum, frá Mannréttindaskrifstofu Íslands fæ ég ekki svör við erindum, frá Jafnréttisstofu virðist ég hættur að fá svör o.s.fv. Þrátt fyrir þetta eru erindi mín eðliega fram sett og sett fram af kurteisi. Þá er ég hættur að fá svör frá Stígamótum og hef jafnframt ekki fengið ársreikninga þeirra þrátt fyrir að samtökin séu rekin af almannafé.
Það er auðvitað alvarlegt ef ég þarf að fara að leita liðsinnis lögfræðinga við að fá svör við erindum mínum frá opinberum stofnunum en í öllu falli sýnir þetta að það er einhver viðkvæmni í gangi fyrir gagnrýnni umræðu um störf þessara stofnana. Viðkvæmni sem ég held að þú myndir ekki sjá hjá öðrum stofnunum Ríkis og sveitarfélaga. Það rennir óneitanlega stoðum undir megininntak gagnrýni minnar á forréttindafemínisma.