Takk Dofri

5.12.2015

Blogg, Myndbönd

Á dögunum steig Dofri Hermannsson, stjórnmálamaður og leikari fram og lýsti 16 ára ofbeldisfullri sambúð með fyrrverandi konu sinni. Þetta gerði hann fyrst í Stundinni en svo í þættinum Ísland í dag þar sem hann sagði sögu sína ásamt Friðgeiri Sveinssyni.

Dofri lýsir andlegu og líkamlegu ofbeldi sem hann mátti þola á meðan á sambandinu stóð en einnig annarskonar ofbeldi sem hann og börn hans hafa mátt þola eftir að sambandinu lauk.

Dofri er ekki fyrsti karlmaðurinn til að stíga fram og lýsa ofbeldi af þessu tagi en hann hefur þó talsverða sérstöðu miðað við þá sem á undan hafa komið hérlendis.

Hann er t.d. opinber persóna, þekkt andlit og hann tilheyrir þeim væng stjórmálanna þar sem kvenhyggja er hvað mest áberandi, við miðju eða einhversstaðar vestan megin við miðju.

Þetta allt gerir það að verkum að saga Dofra verður ekki strax óljós minning um nafnlausan mann með bjagaða rödd eða sverta útlínumynd.

Nei. Eftir þessu var tekið.

Athyglin var, og verður, þó ekkert í líkingu við það þegar kona stígur fram og lýsir ofbeldi af hálfu fyrrum maka. Eitthvað í mannlegu eðli og ríkjandi tíðaranda gerir það að verkum að barinn karl er einfaldlega ekki eins gott tíví.

Ofbeldi eins og það sem Dofri lýsir virðist því miður vera algengt. Þetta þykist ég vita vegna þess hve oft ég hef heyrt af því eða séð. Bæði í umhverfi mínu en einnig í umræðum sem skapast í kjölfar frétta af málefnum er varða foreldrajafnrétti.

Ég hef séð stæðilegustu karlmenn sem eru fastir í sambúð með eitruðum konum vegna þess að þeir eiga börn með þeim. Og vegna þess að þessar konur minna þá reglulega á að ef þeir fari þá muni þeir aldrei sjá börnin sín aftur. Undir þessari ógn sitja þeir áfram til að njóta samveru við börn sín og stundum vernda þau. Þetta gera þeir á kostnað alls hins.

Það er ekki síst út af þessu sem ég hef aldrei áttað mig á því hversvegna oft er talað um konur sem veikara kynið. Karlmenn eru að meðaltali sterkari en konur líkamlega en það er bara svo ótrúlega lítill hluti af heildarmyndinni. Konur á Íslandi eru í stöðu til að beita svo miklu skæðara ofbeldi á öðrum sviðum. Tilfinningalegu, andlegu og félagslegu.

Og sumar gera það óspart.

Ég get ekki ímyndað mér hversu sársaukafullt það hlýtur að vera að vera sviptur börnum sínum. Verða af því að mynda við þau eðlileg tengsl og ferðast með þeim í gegnum fyrstu árin sín. Mér þætti ekki ótrúlegt að margir feður kysu frekar reglulegt líkamlegt ofbeldi en það helvíti sem foreldrafirring og tálmun hlýtur að vera.

En nóg um það í bili. Mig langar að bregða hér ljósi á þann aðstöðumun sem karlar búa við þegar kemur að forræðismálum og það hvernig femínistar berjast opinberlega gegn foreldrajafnrétti og réttindum barna og feðra þó þeir segist ekki gera það.

Fyrst fjölmiðlaumfjöllunin.

Dofri stígur upphaflega fram í viðtali við Stundina en kemur svo fram hjá Lóu Pind Aldísardóttur í Stóru málunum í þættinum Ísland í dag. Stöð 2 hefur verið að stíga eftirtektarverð skref í jafnréttismálum karla undanfarin misseri og ég er viss um að ég er ekki sá eini sem hef tekið eftir því.

Ekki verður hjá því komist að horfa á sögu Dofra í samanburði við regluleg viðtöl sem birtast við konur sem kunna fyrrum sambýlismönnum sínum allt til foráttu. Oft erlendum körlum og alltaf í miðri forræðisdeilu eða rétt eftir úrskurð sem er konunum í óhag.

Mótív Dofra og þessara kvenna eru þó eins ólík og þau geta orðið. Það er ekki að sjá að Dofri sé að reyna að hafa börnin af barnsmóður sinni heldur er hann að ljá máls á kerfisbundnu vandamáli. Aðgerðarleysi kerfisins gagvart ofbeldi móður. Hann talar á þeim nótum að virða þurfi rétt barna til að tengjast báðum foreldrum sínum og ekkert í málflutningi hans gefur tilefni til að ætla að hann vilji traðka á rétti barnanna til að tengjast móður sinni.

Það sem aftur á móti virðist sammerkt með öllum konum sem stíga fram með sama hætti er hinsvegar krafa um fullt forræði og fulla umgengni. Þær vilja ekki þurfa að una dómsniðurstöðum og úrskurðum embættismanna heldur vilja þær allt. Í sumum þessara mála hefur síðan komið á daginn að konan er ekki það fórnarlamb sem hún gefur sig út fyrir að vera heldur ofbeldismanneskjan.

Þessi skýri munur er ekki vísbending um að konur séu svona miklu verri en karlar heldur er þetta óhjákvæmileg afurð þess kerfis sem við búum við. Konur eru með öll spil á hendi og lenda því síður undir í forræðismálum nema ærin ástæða sé til.

En af hverju er ég að tala um þetta í samhengi?

Vegna þess að Dofri mætir tortryggni af fjölmiðlafólkinu sem ræðir við hann. Stundin birtir þannig tilvitnun í fyrrverandi konu Dofra sem vísar ásökunum hans á bug. Hvenær hefur það gerst að fjölmiðlafólk prófar að kynna sér hina hliðina þegar kona stígur fram með þessum hætti?

Lóa Pind grípur meira að segja fram í fyrir Dofra í miðri frásögn hans o til að benda okkur áhorfendum á að hann sé auðvitað bara einn til frásagnar og að þessvegna getum við ekki farið nánar út í efnisþætti málsins. Hún stoppar hann. Hvenær hafa slíkir varnaglar verið reknir undir málflutningi konu?

Og eitt enn sem er algjörlega útilokað að konu hefði verið boðið upp á; Dofri lýsir því hvernig Barnaverndin o.fl. hafi sagt við sig að ef hann vilji börnunum sínum vel þá ætti hann að sleppa takinu. Að ef hann sé ábyrgur faðir þá eigi hann að láta barnið fara þegar verið sé að toga það af honum og eitra samskipti þess við hann. Og spurningin sem Dofri fær í stúdíói Stöðvar 2 eftir þessa lýsingu; ,,en er það ekki í rauninni eina lausnin?„.

Ekki misskilja mig. Ég er afar þakklátur blaðamönnum Stundarinnar og Lóu Pind hjá Stöð 2 fyrir að miðla þessari sögu og ég held að allir áhugamenn um foreldrajafnrétti og karlréttindi ættu að vera það.

En það er hinsvegar alveg ljóst að kyn ræður miklu um það hvernig fjölmiðlafólk tekur á viðmælendum í svona málum. Þetta endurspeglar að mínum dómi viðhorf mæðraveldisins sem hafa dýpri rætur en flestir virðast gera sér grein fyrir.

Og talandi um rætur. Það er því miður staðreynd að femínistar hafa um allan hinn vestræna heim, um áratugaskeið, barist gegn foreldrajafnrétti og réttindum barna og feðra í sifjamálum.

Það bregst þó ekki að þegar rót vandans er rædd, þ.e. sú staðreynd að femínistahreyfingin kærir sig bara ekkert um að láta af hendi þessi forréttindi sín, þá stökkva femínistar fram og þvertaka fyrir að hreyfingin hafi nokkru sinni barist gegn foreldrajafnrétti. Stundum er bætt í og jafnvel fullyrt að femínismi hafi beinlínis leitt til framfara á þessu sviði.

Nú jæja. Ef ferill femínista er svona glæstur, þá ættu þeir ekki að hafa á móti því að rakin séu nokkur dæmi um framlag Femínistafélags Íslands til foreldrajafnréttis.

Við skulum byrja á að líta á frétt sem birtist á dv.is þann 3. desember 2009 og bar einfaldlega yfirskriftina ,,Femínstar vara við ábyrgum feðrum„. Þar segir m.a:

,,Femínistafélag Íslands ályktar gegn boðskap Félags um foreldrajafnrétti, áður Ábyrgir feður, sem felur í sér þá kenningu (PAS-kenningin) að forsjárforeldri, oftast mæður, ali börn sín á hatri gegn barnsföður. Femínistar segja þrýsting frá ábyrgum feðrum, þess efnis að beita kenningunni í forsjár- og umgengnismálum hérlendis, farinn að skila sér í samfélaginu og vara við þeirri þróun“

Hér er Femínistafélag Íslands beinlínis að vara við því að mark sé tekið á mönnum eins og Dofra, Friðgeiri og öllum hinum. Femínistarnir eru hér hreinlega að búa í haginn fyrir ofbeldiskonur eins og þær sem hér eru til umfjöllunar.

Glæsilegt stelpur. Stórglæsilegt.

Til að glöggva sig frekar á andstöðu femínista við foreldrajafnrétti er líka ágætt að líta til umsagnar Femínistafélags Íslands um frumvarp til nýrra barnalaga sem félagið skrifaði þann 23. mai 2011 og skilað til Allsherjarnefndar. Þar segir m.a:

,,Félagið styður áframhaldandi fyrirkomulag um að dómara sé ekki heimilt að dæma sameiginlega forsjá“

Femínistgar vilja semsagt áfram það ástand að kona hafi öll spil á hendi varðandi forræðis- og forsjármál sem er einmitt það sem gefur ofbeldiskonum valdið sem þær þurfa til að geta beitt börn sín og barnsfeður ofbeldi.

Flott þetta.

Og þetta versnar. Eins og allir vita sem hafa kynnt sér þessi mál þá er ásökun um ofbeldi aðalvopn ofbeldiskvenna sem vilja beita foreldrafirringu og tálmunum. Femínistafélags Íslands vill brýna þetta vopn enn frekar:

,,Femínistafélagið vill einnig leggja til að tekið verði til skoðunar hvort almennar reglur einkamálaréttarfars um sönnunarfærslur skuli eiga við þegar álit er um hvort barn eða aðrir á heimili barns verði fyrir ofbeldi á heimili sínu. Með hagsmuni barnsins að leiðarljósi væri vert að taka til skoðunar að hvort veita eigi dómara heimild til þess að lækka sönnunarmat i slikum málum með hagsmuni barnsins að leiðarljósi“

Félagið vill semsgt auðvelda tálmunarmæðrum að fremja ofbeldi sitt með því að lækka kröfur um sönnunarbyrði þegar þær nota það sem vopn að ásaka barnsfeður sína um ofbeldishegðun. Þetta hefði nú komið sér aldeilis vel fyrir barnsmóður Friðgeirs.

Og enn bæta þessi félagssamtök íslenskra femínista í:

,,Femínistafélag íslands leggur til að lögð verði niður heimild í bamalögum til þess að komið verði á umgengni með aðför.“

Enn ein tillaga sem styrkir stöðu tálmunarmæðra. Ef þær neita að virða rétt barna til að tengjast báðum foreldrum þá verði óheimilt að koma á umgengni með aðför.

Í þokkabót vill félagið svo að það verði hagkvæmara fyrir ofbeldiskonur að beita ofbeldi sínu:

,,Femínistafélagið leggur þó til að einnig verði skoðaðar afleiðingar dagsekta og fjámáms með tillit til hagsmuna bamsins“

Það gengur náttúrulega ekki að gera ofbeldiskonur blankar er það? Það væri náttúrulega kynbundið misrétti býst ég við.

Kæru femínistar. Það þarf hreint ansi góðan vilja til að koma auga á ómetanlegt framlag ykkar í þágu jafnréttis og réttinda barna í ykkar eigin skrifum og yfirlýsingum.

Satt best að segja benda sönnunargögnin öll í eina átt. Að þetta snúist nú bara ekki um neitt nema rassgatið á ykkur sjálfum.

Getur það verið?

Hér er svo umrætt innslag úr Íslandi í dag:

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

,

2 athugasemdir á “Takk Dofri”

 1. Grumpy old men Says:

  Sæll Sigurður.

  Hefur þú fengið svar við fyrirspurn þeirri sem þú sendir til virðulegs Ríkissaksóknara. Ég held að sá tími sem hún hafi til að svara sé liðinn Kær kveðja

 2. Grumpy old men Says:

  „Kæru femínistar. Það þarf hreint ansi góðan vilja til að koma auga á ómetanlegt framlag ykkar í þágu jafnréttis og réttinda barna í ykkar eigin skrifum og yfirlýsingum.

  Satt best að segja benda sönnunargögnin öll í eina átt. Að þetta snúist nú bara ekki um neitt nema rassgatið á ykkur sjálfum.

  Getur það verið?“ ÆÆÆ
  Ekki vera svona vondur við greiinn þær ráða ekki alveg við karlahatrið í sér

%d bloggurum líkar þetta: