Þórey Guðmundsdóttir afhjúpuð

20.8.2015

Blogg

Undanfarin misseri hefur Þórey Guðmundsdóttir birt greinar á visir.is þar sem hún reynir að sá fræjum tortryggni í garð fráskilinna og/eða forræðislausra feðra.

Þórey Guðmundsdóttir

Þórey Guðmundsdóttir

Til að gera skrif sín meira spennandi stráir hún saman við frásögnum af lífláts- eða ofbeldishótunum og mútutilraunum. Þá birtir hún leiðarvísir erlendra foreldrajafnréttissamtaka, ætlaðan níðingum um það hvernig þeir eiga að beita blekkingum, fölskum ásökunum og sálfræðihernaði til að klekkja á barnsmæðrum sínum, sjálfum sér til hagsbóta.

Hljómar óneitanlega svolítið spennandi, ekki satt?

Ritstíll Þóreyjar er þannig að það er ekki heiglum hent að rekja þræði fullyrðinga hennar. Hún setur fram alvarlegar og á stundum óskýrar ásakanir en passar sig á að þær beinist að illa skilgreindum hópum. Þá vísar hún til ógreinilegra heimilda sem í sumum tilfellum reynist erfitt eða ómögulegt að staðreyna.

Mig langar þó að fara svolítið ítarlega ofan í saumana á tveimur síðustu greinum Þóreyjar. Fyrst ,,Gagnsæi – Stölkun – Ofbeldi“ frá 22. mai sl. og svo þeirri nýjustu ,,Feðraréttarhreyfingar“ sem birtist núna 14. ágúst sl.

Einhver þarf að gera þetta.

Seinni greinin er að miklu leyti endurtekning á hinni fyrri. Ég ákvað því að taka greinarnar ekki fyrir hver á eftir annari heldur fara sérstaklega ofan í hvern efnisþátt eins og Þórey setur hann fram í báðum greinunum.

Julien Blanc og frústreruðu feðurnir

Fyrst er það ævintýralega langsótt spyrðing Julien nokkurs Blanc við forræðislausa feður á Íslandi. Fyrri grein Þóreyjar hefst á vægast sagt mjög undarlegri umfjöllun um þennan mann (svona í ljósi samhengisins). Blanc þessi er mjög umdeildur maður og hefur jafnvel verið nefndur ,,hataðasti maður í heimi“ af stórum íslenskum fjölmiðli.

Það sem ég veit um manninn er þetta er hálfþrítugur spjátrungur sem ferðast um heiminn og telur sig þess umkominn að kenna körlum einhverskonar tækni við að nálgast konur. Hann virðist haldinn talsverðri kvenfyrirlitningu og hefur m.a. verið bannað að koma til Ástralíu, Bretlands og Singapúr vegna vinnu sinnar.

Áætluð koma hans til Íslands fór út um þúfur í kjölfar mikillar fréttaumfjöllunar um kvenfyrirlitningu hans, einkum eftir að hann tók skýringarmynd af Duluth módelinu og lagði upp sem leiðbeiningar um hvernig ætti að koma fram við konur. Módelið er nota bene, fræðileg kortlagning á kynbundnu ofbeldi.

,,Ef til vill manstu, að undirskriftum var safnað til að andmæla komu manns að nafni Julien Blanc fyrir nokkru. Sá hinn sami Julien Blanc var i Danmörku með námskeiðahald dagana i kring um 11. janúar þ.á. Ef til vill hefur þú líka séð þetta námskeiðsefni hér að neðan, en þetta notar maðurinn. Ég mæli með því að leita manninn uppi á netinu til frekari upplýsinga“.

Þegar ég las þennan fyrsta hluta greinar Þóreyjar gat ég ekki varist því að hugleiða hvað í fjandanum þessi barnlausi fáviti hefði að gera með umræðu um forræðismál og forræðislausa feður á Íslandi.

Til glöggvunar á því skrifar Þórey:

,,Vera má, að einhver spyrji: Hvað kemur þetta okkur við á Íslandi?

Á mbl.is var hinn tuttugasta janúar, góð grein (höf. AMC) þar sem fullyrt var skv. erlendum heimildum, að á Íslandi væri þessi aðferðafræði notuð og að á Íslandi væru menn, sem væru í tengslum við erlend félagasamtök sem hafa aðferðir Julien Blanc að leiðarljósi. Ég veit einnig að svo er, a.m.k. í rúmlega tug tilfella“

Í seinni grein sinni mætir Þórey tvíefld til leiks. Þessir ótilgreindu menn eru þá orðnir íslenskir feður. Feður sem vilja brjóta niður barnsmæður sínar nánar tiltekið. Og ef þetta var ekki nóg til að djöfulgera feður þá getur Þórey frætt okkur um það að feðrahreyfingar víða um heiminn noti innihald Duluth módelsins í fræðsluskyni með sama hætti og Blanc:

,,Ég vil leggja áherslu á, að það er rétt að hringurinn, sem efst var í geininni, var upphaflega gerður í varnaðarskyni fyrir konur. Það breytir ekki því, að Julien Blanc notar hann sem kennsluefni fyrir feður, sem vilja brjóta niður barnsmæður sínar. Feðrahreyfingar víða um heiminn nota innihald hringsins í fræðsluskyni“

Ókei, þetta virkar þá semsagt einhvernveginn svona:

Forræðislausir feður á Íslandi og Julien Blanc eru samnefnarar vegna þess að höfundur einhverrar greinar á mbl.is ,,AMC“, hefur það eftir erlendum heimildum að á Íslandi sé þessi aðferðafræði notuð af einhverjum og að á Íslandi væru einhverjir menn í sem hefðu tengsl við einhver erlend félagasamtök sem hefðu einhverjar aðferðir Julien Blanc að leiðarljósi.

Langsótt? Það fannst mér líka.

Holur í málflutningi Þóreyjar

Það fer auðvitað ekkert á milli mála að Þórey ætlar sér með þessum skrifum sínum að skapa hjá lesandanum hugrenningartengsl milli forræðislausra íslenskra feðra og eins hataðasta manns í heimi, Julien Blanc.

Vandamálið er hinsvegar bara það að Julien Blanc heldur ekki námskeið fyrir feður um samskipti við barnsmæður sínar. Og það hefur hann aldrei gert. Það sem Julien gefur sig hinsvegar út fyrir að gera er að kenna einhleypum körlum að nálgast konur og það með vægast sagt mjög vafasömum aðferðum.

Svo eru það skrif Þóreyjar varðandi greinina merkilegu af mbl.is. Þið munið, þessa sem finna mátti erlendar heimildir fyrir því að Duluth módelinu hefði verið breytt í einskonar leiðarvísi fyrir íslenska ofbeldismenn. Hér á landi væru einhverjir menn í tengslum við einhver erlend félagasamtök sem hafa aðferðir Blanc að leiðarljósi.

Greinin finnst ekki og ekki höfundur hennar heldur.

Ég kembdi sjálfur vefinn mbl.is eftir greinum þennan dag. Og dagana í kring raunar líka. Þegar leit mín hafði engan árangur borið hafði ég samband við mbl.is og spurði eftir því hvaða grein Þórey gæti verið að vitna til.

Svarið var að hvorki greinin finndist né heldur fréttamaður eða bloggari á mbl.is með tilgreint kenni ,,AMC“.

Listi varaformanns Foreningen Far

Þá komum við að leiðarvísi varaformanns Foreningen Far. Raunar segir Þórey ekkert um það í greinum sínum að um sé að ræða samtökin Foreningen Far, stærstu foreldrajafnréttissamtök Danmerkur. En hún gefur það upp í viðtali síðar.

Um er að ræða lista eða leiðarvísi sem Þórey segist hafa undir höndum. Skv. upplýsingum frá Þóreyju bæði í þeim greinum sem hér eru til umfjöllunar, og síðar í útvarpsviðtali í þættinum Harmageddon, á þetta að vera leiðarvísir sem varaformaður dönsku foreldrajafnréttissamtakanna Foreningen Far álpaðist til að birta á Facebook síðu sinni alveg óvart.

Og efnið? Leiðbeiningar til feðra um það hvernig þeir eiga að beita blekkingum, fölskum ásökunum og sálfræðihernaði til að klekkja á barnsmæðrum sínum, sjálfum sér til hagsbóta.

Leiðarvísirinn er í grein Þóreyjar settur fram á dönsku. Sjá grein Þóreyjar. Hér er listinn aftur á móti á okkar ástkæra ylhýra. (Athugið að töluliðurinn fimm kemur tvisvar fyrir í lista Þóreyjar en hér er þetta í réttri töluröð):

 1. Ásakaðu móðurina um að vera veik á geði. Segðu að undir venjulegum kringumstæðum ættu lítil börn að vera hjá móður sinni en að þú hafir áhyggjur.
 2. Farðu fram á fullt forræði eða viku-viku fyrirkomulag. Markmiðið er í rauninni ekki að fá að umgangast börnin, þar sem þú vilt bara losna undan meðlagsgreiðslum.
 3. Vertu alltaf stundvís og virtu alla samninga um umgengni. Rýmkaðu svo umgengnina eftir því sem barnið eldist. Áreittu móðurina með öllum hugsanlegum aðferðum sem ekki eru refsiverðar, svo sem að eyðileggja fatnað sem barnið kemur með til skiptanna og með því að nota samverustundir til að hræra í barninu og etja því gegn móðurinni.
 4. Greindu félagssyfirmálavöldum í sífellu frá áhyggjum þínum af barninu.
 5. Tilkynntu og klagaðu allt sem mögulegt er í öllum tilvikum.
 6. Talaðu aldrei verulega illa um móðurina – stattu frekar fast á því að þú sért áhyggjufullur.  Tæklaðu áhyggjur móðurinnar vegna hegðunar þinnar (ofsóknum og sifjaspellum) með því að tilkynna sveitarfélaginu, lögreglu og stjórnsýslustofnunum fyrirfram að móðirin muni koma með falskar ásakanir og að það sé sú aðferð sem þessi tegund mæðra beiti jafnan.
 7. Mótmælu ásökunum alltaf af fullri rósemi og stillingu með þeim rökum að sannanir skorti, haltu staðfastlega fram sakleysi þínu og því að þú sért fórnarlamb rangra sakargifta.
 8. Búðu til ágreiningsmál hvenær sem því verður við komið varðandi: ferðir, meðlag, meiðsli, umgengni, samveru í sríum, búsetu, forræði.
 9. Skrifaðu móðurinni löðrandi væmin bréf um líðan barnsins og hversu innilega þú óskir eftir samvinnu –  ef hún lætur blekkjast geturðu vísað til samstarfs og haldið forræðinu þrátt fyrir að þú haldir áfram að áreita hana.
 10. Farðu fram á að lögheimiilð verði flutt til þí þegar þú hefur náð fram umgengnissamningi upp á 9 daga á móti 5, þegar barnið hefur skólagöngu og í hvert sinn sem móðirin flytur.
 11. Leitaðu til sýslumanns í hvert sinn sem þú færð barnið ekki til umgengni – einnig þegar það er vegna veikinda. Með því móti verða til mörg mál vegna þess hjá sýslumanninum og það lítur út eins og móðirin sé viljandi að valda þér óþægindum og getur með tímanum mist réttinn til að vera lögheimilisforeldri vegna umgengnistálmana.

Það er aldeilis. Frá sjónarhóli andstæðings foreldrajafnréttis þá hlýtur þetta að hljóma næstum of gott til að geta verið satt. Að varaformaður stærstu foreldrajafnréttishreyfingar Danmerkur birti leiðavísi fyrir það hvernig hyggilegast sé að beita blekkingum og ofbeldi gegn barnsmæðrum sínum. Og það á alnetinu. Alveg óvart.

Holur í málflutningi Þóreyjar

Það vakti sérstaka athygli mína að í útvarpsviðtalinu við Harmageddon, sagði Þórey að fyrri grein sín innihéldi skjáskot af leiðarvísinum. Það er einfaldlega ósatt. Í grein Þóreyjar er ekkert skjáskot heldur ritaður texti og það er allur munur þar á eins og flestir gera sér sjálfsagt grein fyrir.

Hér fer Þórey vísvitandi með ósannindi. Þeir sem heyra bara viðtalið og lesa ekki grein Þóreyjar telja kannski ekki ástæðu til annars en að ætla að hún sé að segja satt hvað þetta varðar.

Mér fannst nú frekar ótrúlegt að þessi ummæli væru rétt eftir varaformanninum höfð. Þau bara virka þannig á mig – ótrúleg. Mér fannst líka afar ótrúlegt að hann hefði birt þetta á Facebook síðu sinni- óvart.

Jafnvel þó maðurinn væri svona andstyggilega innrættur held ég að slík manneskja myndi leggja alla áherslu á að halda því leyndu fyrir umheiminum. Ef við ímyndum okkur að þetta hefði verið hugsað sem lélegur brandari þá fannst mér líka afar ótrúlegt að maður í þessari stöðu myndi sýna á sér svo snöggan blett þó ekki væri nema af hreinni eigin hagsmunagæslu.

Ekki get ég sagt að mér hafi þótt fullyrðingar Þóreyjar trúlegri eftir að ég komst að því að ekki finnst nokkur einasta fréttaumfjöllun um þennan leiðavísi á internetinu. Það þarf ekki frjótt ímyndunarafl til að vita að svona mál hefði fengið gríðarlega fréttaumfjöllun.

Þórey er ekki eini hatrammi andstæðingur foreldrajafnréttis sem heimurinn hefur alið og það liggur í augum uppi að fylking skoðanasystra Þóreyjar hefði séð til þess að svona nokkuð fengi aldrei að gleymast.

Og þetta leiðir okkur að stærsta vandamálinu við leiðarvísinn.

Hann finnst ekki á gervöllu alnetinu. Hvorki tangur né tetur af honum.

Tja, nema í grein Þóreyjar það er.

Ég tók ölll ellefu atriði listans og leitaði að öllu orðasambandi hvers töluliðar innan gæsalappa. Slík leit ætti að draga fram allar síður sem innihalda þetta sama orðasamband og Google leitar á. Hvert einastra hinna ellefu atriða á listanum leiddi aðeins til einnar leitarniðurstöðu, greinar Þóreyjar.

Þvílík undur og stórmerki. Upplýsingar sem gætu gengið endanlega frá meintum höfundi og stórskaðað samtökin sem hann gegnir trúnaðarstörfum fyrir, er hvergi að finna nema hjá Þóreyju. Sem hefur vitaskuld geymt þær vel og passað sig á að gera ekki opinberar fyrr en nú. Væntanlega af einskærri tillitsemi við þessi ágætu samtök?

Ég vil svo ekki skilja við þennan þátt skrifa Þóreyjar án þess að nefna það sem við blasir. Þ.e. þá augljósu hagsmuni sem andstæðingar foreldrajafnréttis, eins og Þórey, hafa af því að birta svona lista og segja hann runninn undan rifjum óvinarins.

Væri það ekki sannkallaður draumur í dós ef barnaverndaryfirvöld litu á allar umkvartanir föður sem einhverskonar klæki sem hefðu ekkert með velferð barna þeirra að gera?

Barnaverndin

Þórey dregur auðvitað ekkert úr gífuryrðunum þegar skrif hennar beinast að yfirvöldum og þá sérstaklega barnaverndarnefndum.

Segja má að gagnrýni Þóreyjar byggi annars vegar á eigin reynslu og hinsvegar á ákúrum Ríkisendurskoðunar eins og hún kallar það. Í fyrri greininni sem hér er til umfjöllunar segir:

,,Þegar mér var sagt fyrst, að barnaverndin vísaði markvisst frá öllum tilkynningum um andlegt og /eða líkamlegt ofbeldi og illa meðferð á börnum í sambandi við samverur, fannst mér það satt að segja ekki trúlegt. En í ljós kom að svo er.

Einhver hefur gefið um það tilskipun, eða vinnureglu, að vísa skuli tilkynningum frá. Meira að segja er það sums staðar svo, að kjörnir fulltrúar í barnaverndarnefndunum fá aldrei að frétta um tilkynningar, sem komið hafa. Það vald er barnaverndarnefndum óheimilt að framselja til starfsmanna (sjá 2002 nr. 80 10. maí, § 14, 3. mgr, 1. liður). Er þetta spilling í skjóli leyndar?

Tilkynningarnar, jafnvel um alvarlegar misþyrmingar, andlegar sem og líkamlegar, eru afgreiddar af einhverjum tilfallandi starfsmönnum, sem að lögum hafa ekki til þess vald. Síðan eru send stöðluð bréf til foreldra, sama bréfið aftur og aftur en ekkert til tilkynnenda, sem þó hafa margir hverjir skerpta tilkynningaskyldu að lögum (§ 17 í barnaverndarlögum) og bera þannig ábyrgð á að börn séu ekki beitt ofbeldi. Fimm tilfelli hef ég sannreynt og heyrt um fleiri“

Og úr seinni grein Þóreyjar sem hér er til umfjöllunar segir:

,,Barnavendin á Íslandi hefur nýverið fengið ákúrur frá ríkisendurskoðun. Ekkert hefur heyrst um, að eitthvað verði gert til úrbóta. Dæmi eru um, að barnaverndarnefndir fái aldrei til sín frá ráðnum starfsmönnum sínum, tilkynningar um ofbeldi feðra gegn börnum. Tilkynningarnar afgreiddar af starfsmönnum og oft vísð frá. Lagagrunnur fyrir slíkum afgreiðslum er veikur í besta falli, ekki fyrir hendi í versta falli. Skaðabótaábyrgð væri, ef því væri að skipta, hjá nefndunum sem heild ekki strfsmönnum. Dæmi eru einnig um, að opnuð séu mál gegn þeim, sem reyna að styðja börn, fyrir það eitt að styðja þau gegn ofbeldi feðra. Þetta gerist ef feður biðja um slíkt“

Ég get svo eiginlega ekki stillt mig um að skjóta hér inn tilvitnun í gerin Þóreyjar þar sem hún lýsir því hvernig henni hafi verið hótað af varðhundum barnaverndarkerfisins fyrir að hafa tjáð hugmyndir sínar um ,,barnaverndarkerfið“:

,,Ég hef þegar fengið ,,aðvaranir” í einkaskilaboðum á Facebook, vegna þess, að ég tjáði fyrir nokkru þessa hugmynd um að leggja niður barnaverndarkerfið í heild sinni, þar sem nokkrir heyrðu til. Ógnanir einnig, augliti til auglitis“

Já, hún lætur sko ekki að sér hæða, barnaverndarmafían. Vesalings konan.

Holur í málflutningi Þóreyjar

Tilkynningum um ofbeldi markvisst vísað frá? Tilskipanir gefnar um að jarða tilkynningar um ætlað ofbeldi forræðislausra feðra?

Eins og kannski gefur að skilja fannst mér þessar fullyrðingar Þóreyjar ótrúlegar. Eins og raunar flestrar ef ekki allar fullyrðingar hennar hingað til. Ég sendi því erindi til Barnaverndarstofu sem innihélt eftirfarandi fjórar spurningar með vísan til skrifa Þóreyjar:

 1. Er það rétt að barnaverndarnefndir vísi markvisst frá öllum tilkynningum um andlegt og/eða líkamlegt ofbeldi og illa meðferð á börnum í sambandi við samverur?
 2. Er það rétt að einhver hafi gefið um það tilskipun eða vinnureglu að vísa svona tilkynningum frá?
 3. Er það rétt að kjörnir fulltrúar í sumum barnaverndarnefndum fái aldrei að frétta um tilkynningar sem komið hafa?
 4. Er rétt að tilkynningar, jafnvel um alvarlega misþyrmingar, andlegar sem og líkamlegar, séu afgreiddar af einhverjum tilfallandi starfsmönum sem að lögum hafa ekki til þess vald?

Svar Barnaverndarstofu við spurningu 1:

,,Eftir að barnaverndarnefnd hefur fengið tilkynningu eða upplýsingar á annan hátt um að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra, áreitni eða ofbeldis af hendi annarra eða eigin hegðunar berbarnaverndarnefnd skylda til þess að meta hvort um rökstuddan grun sé að ræða. Skal sú ákvörðun tekin eins fljótt og hægt er og  eigi síðar en 7 dögum  eftirað upplýsingarnar berast sbr. 21. gr. bvl. Það er engum tilkynningum vísað markvisst frá heldur er hver og ein tilkynning metin og brugðist við í samræmi við alvarleika máls“

Svar Barnaverndarstofu við spurningu 2:

,,Eins og fram kemur í svari 1. eru hvorki um tilskipun né vinnureglur til, eða hafa verið það, sem gera ráð fyrir því að málum líkt og þú nefnir sé sjálfkrafa vísað frá án þess að vera könnuð af hálfu barnaverndarnefnd.

Í þessu sambandi er þó rétt að geta þess  að algengt er að mál sem unnin eru á grundvelli barnalaga nr. 76/2003, t.a.m. forsjár- og umgengnismál, skarist á við barnaverndarmál sem unnin eru á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í frumvarpi til laga nr. 61/2012 um breytingar á barnalögum nr. 76/2003 eru skilin á milli ofangreindra laga og þeirra mála sem unnin eru á grundvelli þeirra gerð nokkuð góð skil.   Í einstaka málum reynir hvort tveggja á ákvæði barnaverndarlaga og barnalaga en hér getur verið um margvísleg mál að ræða. Sum mál eru nokkuð augljóslega barnaverndarmál og byrja sem slík en á seinni stigum getur komið til þess að foreldrar deila um forsjá, umgengni eða framfærslu á grundvelli ákvæða barnalaga. Í öðrum tilvikum byrja mál sem ágreiningur um forsjá eða umgengni en síðar geta koma upp á atvik eða aðstæður barns að rétt þyki að tilkynna það barnaverndarnefnd. Getur helst reynt á þetta ef grunur vaknar um að foreldrar tryggi barni sínu ekki viðunandi uppeldisaðstæður í skilningi barnaverndarlaga eða barn er beitt alvarlegu ofbeldi. Hér getur reynt á tilkynningarskyldu sýslumanna sem og annarra á grundvelli ákvæðabarnaverndarlaga. Stundum er málum af þessu tagi réttilega vísað til sýslumanns og barnaverndarnefndar á sama tíma og getur þá komið til þess að fjallað um málin samhliða. Í einstaka tilvikum getur djúpstæður og langvarandi ágreiningur foreldra í tengslum við forsjá og umgengni réttlætt afskipti barnaverndarnefndar. Í þessum málum er mikilvægt að átta sig á því hvort og hvaða úrræðum barnaverndarnefndir geta beitt og hvaða heimildir nefndirnar hafa til að gera ráðstafanir skv. ákvæðum barnaverndarlaga. Þess þarf að gæta að oft er óraunhæft að ætla barnaverndaryfirvöldum að leysa deilur um forsjá eða umgengni með einhvers konar ráðgjöf eða stuðningi eftir að búið er að leiðbeina, veita ráðgjöf og jafnvel beita sáttameðferð á grundvelli barnalaga. Í þeim málum sem réttilega eru hvort tveggja barnaverndarmál og forsjár- eða umgengnisdeila er nauðsynlegt að afmarka hlutverk hvors yfirvalds um sig og leita leiða til að samræma málsmeðferð, ákvarðanatöku og framkvæmd með hliðsjón af hagsmunum barnsins“

Svar Barnaverndarstofu við spurningu 3:

,,Starfsfólk barnaverndarnefnda starfar íumboði barnaverndarnefnda skv. reglum sem nefndirnar setja á grundvelli 14. gr. bvl. Barnaverndarnefndir koma því almennt ekki að tilkynningum og ákvörðunum um könnun. Reglur allra barnaverndarnefnda eru aðgengilegar á vefsíðu Barnaverndarstofu á síðunni Almennar upplýsingar – listi yfir barnaverndarnefndir. Kjörnir fulltrúar í barnaverndarnefndum koma því almennt ekki að einstaklingsmálum nema þegar kemur að beitingu þvingunar skv. einhliða áætlun.

Í þessu samhengi er rétt að geta þess að á síðustu árum hefur heildarfjöldi tilkynninga til barnaverndarnefnda á Íslandi oftast verið á bilinu 8.000 til 9.300 sem varða frá 4.500 til 5.000 börn. Umfang tilkynninga er langt umfram það að unnt sé að koma því við að kynna hverja tilkynningu til viðkomandi barnaverndarnefndar. Stærsti hluti þeirra tilkynninga þess eðlis að engin þörf er á því enda tekst prýðileg samvinna foreldra og starfsmanna í málinu í þorra málanna“

Svar Barnaverndarstofu við spurningu 4:

,,Sjá svar við spurningu 3″

Rétt eins og raunin er með allar fullyrðingar Þóreyjar sem ég hef kannað hingað til, reynast þær ósannar þegar að er gáð.

Að sjálfsögðu er tilkynningum um ofbeldi gegn börnum ekki sjálfkrafa vísað frá. Enginn hefur gefið tilskipun eða samið vinnureglur þar að lútandi og innsend grein Þóreyjar er þ.a.l. ekki eitt stærsta barnaverndarskúbb samtímans.

Framsetning Þóreyjar varðandi það að barnaverndarnefndir fái ekki að vita af tilkynningum sem berast, ber með sér að hún sé viljandi að skapa tortryggni um störf barnaverndarnefnda á fölskum forsendum.

Ég hef enga trú á að Þórey skilji ekki umboðssamband barnaverndarnefnda og starfsmanna barnaverndar. Sé það rétt metið hjá mér, er Þórey að spila inn á tilfinningar þess hóps lesenda sem ekki skilur eðli slíkra umboðssambanda.

Annað gott dæmi um hvernig hún reynir að spila inn á tilfinningar lesenda undir skrifum sínum um ,,barnaverndina“, er þegar hún segir: ,,Dæmi eru einnig um, að opnuð séu mál gegn þeim, sem reyna að styðja börn, fyrir það eitt að styðja þau gegn ofbeldi feðra.

Hún lætur hér í veðri vaka að hún viti fyrir víst að saklausar mæður hafi verið tilkynntar til barnaverndarnefnda beinlínis sem hefnd fyrir að hafa tilkynnt barnsföðurinn. Á einhvern yfirskilvitlegan hátt getur Þórey skorið úr um það var sannleikuinn liggur og að sjálfsögðu liggur hann hjá móðurinni.

Mig langar að taka sérstaklega fyrir það sem Þórey kýs að kalla ákúrur Ríkisendurskoðunar yfir ,,barnaverndinni„. Þórey vísar aldrei til þeirra gagna sem hún er að tala um en augljóst er að Þórey er hér að vísa til skýrslunnar ,,Staða barnaverndarmála á Íslandi“ frá því í mai á þessu ári. Þetta er jú eina skýrslan sem Ríkisendurskoðun hefur gefið út um barnavernd á Íslandi.

Tilurð skýrslunnar má rekja til deilna innan stjórnsýslunnar um ágæti þess að endurnýja þjónustusamning Ríkisins við meðferðarheimili Háholt í Skagafirði. Þessar deilur leiddu til þess að Fjárlaganefnd Alþingis óskaði eftir því við Ríkisendurskoðun að gerð yrði heildarúttekt á stöðu barnaverndarmála á Íslandi.

Skrif Þóreyjar um þetta efni eru með slíkum hætti að skilja mætti að umsögn Ríkisendurskoðunar hafi verið slæm. Að gerðar hefðu verið alvarlegar athugasemdir, (,,ákúrur„), við stöðu barnaverndarmála hér á landi.

Þórey hikar ekki við að láta í veðri vaka, með villandi framsetningu, að Ríkisendurskoðun hafi gert alvarlegar efnislegar athugasemdir við starfshætti stofnana sem starfa við barnavernd hér á landi.

Það er skemmst frá því að segja a engar ákúrur á Barnaverndarstofu eða barnaverndarnefndir er að finna í þessari skýrslu þó ýmsum sjónarmiðum sé þar velt upp. Í niðurstöðukafla skýrslunnar er að finna heilar fjórar ábendingar. Allar beinast þær að Velferðarráðuneytinu og varða yfirstjórnunarhlutverk þess yfir undirstofnunum sínum, s.s. Barnaverndarstofu.

Ef eitthvað er þá lúta þær að því að stofnanir sem hafa með barnaverndarmál hér á landi að gera, hljóti skýrara umboð og sjálfstæði frá ráðuneytunum.

Þá finnst mér fjórða og síðasta ábendingin sérstaklega áhugaverð. Sérstaklega ef höfð eru í huga inngrip Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem Innanríkisráðherra, í störf Barnaverndarstofu í máli Hjördísar Svan. Ég get ekki annað en túlkað þessa ábendingu sem svo en að hún gangi þvert á málflutning Þóreyjar.

Í ábendingunni segir:

,,Að mati Ríkisendurskoðunar verður stjórnsýslusamband þessara aðila að vera skýrt og óháð túlkun ráðherra hverju sinni. Þá þarf ráðuneytið að skýra hvert ráðgjafarhlutverk Barnaverndarstofu er gagnvart barnaverndarnefndum sveitarfélaga. Ríkisendurskoðun telur lagaákvæði þar um óljóst og nauðsynlegt að ráðuneytið eyði öllum vafa um túlkun þess“

Ríkisendurskoðun sér semsagt enga ástæðu til sérstakra ábendingar varðandi störf Barnaverndarstofu eða barnaverndarnefnda í landinu. Ef eitthvað er mælir Ríkisendurskoðun með því að styrkja umboð Barnaverndarstofu.

Í samtali sem ég átti við Ríkisendurskoðun tók starfsmaður fram að sér þætti fráleitt að tala um að í skýrslunni hefðu verið settar fram ,,ákúrur“ á barnavernd á Íslandi. Viðkomandi sagði að niðurstaða Ríkisendurskoðunar væri sú að í raun væri staða barnaverndarmála á Íslandi góð þó auðvitað mætti alltaf gera betur í jafn viðkvæmum málaflokki og barnavernd er.

Enn og aftur sjáum við að þegar betur er að gáð, standast fullyrðingar Þóreyjar engan veginn og í raun er ekki hægt að kalla skrif Þóreyjar um þennan þátt neitt annað en hrein ósannindi.

Barnalögin og tómlæti starfsmanna Sýslumanns

Ekki lækkar Þórey flugið þegar hún ræðir barnalögin og Sýslumannsembættin:

,,Í fyrstu grein allra laga má lesa það sem kallað er ,,andi laganna”. Í fyrstu grein barnalaga stendur, að ekki megi beita börn ofbeldi af neinu tagi. Barnaverndarlögin segja það sama. Barnasáttmáli SÞ segir það sama. Ennfremur Istanbulsáttmálinn. Þrátt fyrir bæði innlend lög og erlenda sáttmála, sem búið er að gera að hluta af íslenskri löggjöf, eru börn á Íslandi beitt grófu andlegu og líkamlegu ofbeldi og enginn gerir neitt. Í íslenskum lögum er ekkert, sem ákvarðar hvenær og á hvaða aldri hlusta skuli á og virða vilja barna. Alltaf skal virða vilja barna og taka mark á þeim, er þau gefa til kynna, að þau sæti illri meðferð. Þrátt fyrir þetta hefur verið farið um landið og námskeið haldin fyrir starfsfólk sýslumannsembætta og því haldið fram, að ekki skuli hlusta á andmæli barna gegn ofbeldi samveruforeldris, fyrr en börnin eru 7 ára. Það er brot á íslenskum lögum og brot á alþjóðasamningum, sem Íslendingar eru aðilar að“

Já því ekki það? Börn á Íslandi eru beitt grófu andlegu og líkamlegu ofbeldi og enginn gerir neitt.

Og já, auðvitað er fræðsluteymi í fullu starfi við að fara á milli Sýslumannsembætta og kenna þeim að virða að vettugi vísbendingar um ofbeldi samveruforeldris (les. föður).

Holur í málflutningi Þóreyjar

Þó alla jafna ætti ekki að þurfa að hrekja svona yfirgengilega brjálæðisleg skrif þá ákvað ég að gera það nú samt. Ég hafði samband við fjölskyldusvið Sýslumanns. Þið vitið, til að vera málefanlegur.

Spurningar mínar með vísan til greinar Þóreyjar:

 1. Er það rétt sem Þórey fullyrðir hér, að starfsmönnum Sýslumannsembættanna hafi verið uppálagt, á einhverskonar námskeiði, að hlusta ekki á ásakanir barna undir 7 ára aldri varðandi ætlað ofbeldi samveruforeldris?
 2. Um hvaða námskeið er greinarhöfundur að tala og hver er það sem heldur þessi námskeið fyrir starfsfólk Sýslumannsembættana?

Svar fjölskyldusviðs Sýslumanns við spurningu 1:

,,Nei“

Og svar fjölskyldusviðs Sýslumanns við spurningu 2:

 1. ,,Veit ekki til hvers er verið að vísa“

Fjárinn. Svo virðist sem ekki nokkur stofnun eða manneskja vilji spila með Þóreyju í þessu máli.

Feðraréttindahreyfingar

Þórey talar um eitthvað sem hún kallar ,,feðraréttindahreyfingar„. Þessar hreyfingar hafa að sögn Þóreyjar ekkert nema illt í hyggju fyrir börn og mæður.

Í grein sinni reifar hún upplýsingar úr ótilgreindum heimildum um skaðsemi ótilgreindra hreyfinga af þessum stofni. Það er þó engin leið að meta sannleiksgildi nákvæmlega þeirra rannsókna þar sem hún vísar ekki til þeirra að öðru leyti en því að segja hluta skrifa sinna vera byggðan á einhverri grein sem er samantekt úr einhverri rannsókn sem gerð var við Wollongong háskólann í Ástralíu.

Þó Þórey tali um rannsóknir á ótilgreindum erlendum feðraréttindahreyfingum, dylst auðvitað engum að tilgangur skrifa hennar er að vekja tortryggni í garð slíkra hreyfinga sem starfa hér á landi.

Hví í ósköpunum annars ætti hún að vera að draga fram rannsóknir á feðraréttindahreyfingum hinumegin á hnettinum í tengslum við umræðu um þessi mál hér?

Hún segir:

,,Sameiginlegt flestum feðraréttindahreyfingum er, að þær eru taldar skaðlegar feðrunum sjálfum sökum þess, að þessar hreyfingar leggja fumáherzlu á að feður byggi upp drottnunarvald sitt gagnvart börnum og barnsmæðrum, fremur en að taka raunverulega og uppbyggjandi þátt í uppeldi barnanna.

Þannig er ein venjulegasta aðferðin, sem feðraréttindahreyfingarnar ráðleggja, að gera barnsmóðurina ótrúverðuga, segja hana jafnvel andlega veika, (taka gjarnan fleiri úr fjölskyldu og stuðningsneti móður með í þann róg) svo og að saka stöðugt um, að mæðurnar hindri umgengni þeirra við börnin (tálmi eins og það er kallað í ísl. lögum). Nota þessir menn við þetta ríkuleg ósannindi.

Þannig er um þriggja þátta drottnun að ræða.

Nýrri heimildir segja drottnunina vera í 5 þáttum: Líkamlega, andlega, fjárhagslega, efnislega og kynferðislega. Raunin verður oftast, að fólk, sem ekki hefur orðið að þola þessa meðferð af eigin raun, trúir ekki sönnum frásögnum þolendanna, svo lygileg getur stölkunin orðið“

Og um verkan þessara samtaka á sálar- og tilfinningalíf feðra:

,,Feður, sem hafa skilið við móður barna sinna, eru oft haldnir djúpum eigin bágindum, sorg og reiði, þegar sambandi lýkur við móður og börn. Sumir ganga í feðraréttindahópa, sem halda því fram, að þeir berjist fyrir karlmenn og feður, sem séu fórnarlömb mismununar og óréttlætis í forræðis- og umgengnisréttarmálum (Family Court), svo og annars staðar. Þrátt fyrir að halda þessu fram, gera þessir hópar sennilega lítið til hjálpar við feður til að ná sér, né heldur byggja upp eða viðhalda sambandi sem er, eða jákvæðu sambandi við börn þeirra. Sumir karlmenn finna stuðning í þessum hópum, en geta einnig verið egndir til reiði, ásakana og niðurbrjótandi baráttutækni, málaferla og málssókna. Feðraréttindahreyfingar leggja megináherzlu á formleg prinsipp (svokallaðs) jafnréttis, fremur en að leggja áherzlu á að inna föðurhlutverkið af hendi með jákvæðum hætti, eða leggja áherzlu á velferð kvennanna. Sumir þessir hópar virðast hafa meiri áhuga á að endurvekja föðurvald og ákvarðanatöku feðra um líf barnanna og fyrrum eiginkvenna og barnsmæðra, heldur en að hafa raunveruleg tengsl við börnin. Aðrir hópar eru þó samt sem áður meira uppbyggjandi.

Lykilorð: Feður, faðerni, skilnaðir, feðraréttur”

Athyglisvert er, að ekki skuli orðið barn vera eitt af lykilorðunum“

Holur í málflutningi Þóreyjar

Hér á landi eru aðeins ein samtök starfandi sem gætu talist feðraréttindahreyfing m.t.t. markmiða þeirra í forræðis og umgengnismálum. Þetta er Félag um Foreldrajafnrétti. Ég undanskil hér Félag Meðlagsgreiðenda enda baráttumál þess félags af allt öðrum toga.

Félag um Foreldrajafnrétti hét áður Félag Ábyrgra Feðra og var stofnað árið 1997. Á vefsíðu samtakanna segir um félagið:

,,Félag um foreldrajafnrétti (áður félag ábyrgra feðra) var stofnað árið 1997 til að vinna að bættum samskiptum feðra við börn sín,  en stofnendum félagsins fannst mikið vanta upp á jafna stöðu mæðra og feðra við skilnað. Félagið skipti um nafn árið 2007 og hefur breytt  áherslum sínum.  Foreldrahlutverkið er ekki kyngert lengur og foreldrahlutverkið skilgreint út frá hagsmunum barnanna fremur en hagsmunum foreldranna. Félagið telur að verulega sé brotið á réttindum barna á Íslandi til að umgangast báða foreldra sína ríkulega eftir skilnað. Ljóst er að lagaumhverfið er úrellt á mörgum sviðum í þessum málaflokki og stuðlar enn að því að mæður beri meiri ábyrgð og skyldur við umönnun barna eftir skilnað“

Megininntak gagnrýni Þóreyjar á það sem hún kallar feðraréttindahreyfingar er að þessar hreyfingar einblíni á réttindi feðra. Að þau skeyti engu um réttindi barna. Þannig segir hún lykilorðin í baráttu þeirra vera feður, faðerni og feðraréttur.

Eins og sjá má á vefsíðu Félags um Foreldrajafnrétti, og merkja má af störfum þess félags, þá er þetta greinilega ekki raunin hér á landi.

Reyndar er erfitt að tala um að það félag sé feðraréttindahreyfing þar sem öll áhersla virðist lögð á foreldrajafnrétti óháð kyni. Fyrirferð hagsmunamála feðra er óhjákvæmileg afleiðing þess að misbrestur á foreldrajafnrétti hefur nánast eingöngu bitnað á feðrum. Ef nota ætti lykilorð til að lýsa þessu félagi þá væru þau frekar foreldrajafnrétti, hagsmunir barna og réttindi barna.

Þórey passar sig að tala nægjanlega ógreinilega í nánast öllum þáttum til að geta bakkað út úr þeim þegar á hólminn er komið. Þannig virðist hún t.a.m. algjörlega ósammála sjálfri sér  ef maður les grein hennar ,,Feðraréttindahreyfingar“ og hlustar svo á viðtal Harmageddon við hana.

Öll þessi gagnrýni fellur því um sjálfa sig og reynist ósönn að því leyti að við blasir að Þórey er hér að reyna að skapa tortryggni í garð Félgags um Foreldrajafnrétti. Þær fullyrðingar sem hún setur fram um ,,feðraréttindahreyfingar“ eiga ekki við í tilviki Félags um Foreldrajafnrétti.

Dr Michael Flood

Þó þetta mál alltsaman sé nú þegar orðið alveg sérdeilis vandræðalegt fyrir Þórey, þá hlýtur athgugun mín á sannleiksgildi orða hennar varðandi Dr. Michael Flood að vera sérstaklega pínleg fyrir hana.

Þórey notar nafn Dr. Michael Flood sér til handagagns og talar lauslega um rannsóknir hans á svokölluðum feðraréttindahreyfingum.

Hún bætir um betur með því að segjast hafa haft samband við manninn sjálf. Um Dr. Flood og samskipti hennar við hann segir hún:

,,Dr. Michael Flood er virtur prófessor, sem hefur rannsakað feðraréttindahreyfingar lengi. Margt er hægt að finna eftir hann á netinu, en þegar ég hafði samband við vinnustað hans til að spyrja um nýjustu rannsóknir, fékk ég að vita, að hann hafi fengið svo mikið af hótunum, m.a. líflátshótunum að hlé væri í bili á birtingum. Grimmur heimur þetta.

Sömuleiðis fékk ég að vita, að gjarnan væru boðanar mútur.

Ég varð ekki undrandi, þar sem jafnvel mér hafa verið boðnar mútur, ef ég veitti hjálp við að brjóta niður tilteknar mæður.“

Eruð þið líka búin að spotta viðskiptatækifærið héddna?

Holur í málflutningi Þóreyjar

Ég hafði samband við Dr. Flood til að kanna sannleiksgildi fullyrðinga Þóreyjar. Ég bar fullyrðingar Þóreyjar undir hann.

Í stuttu máli þvertók Dr. Flood fyrir að Þórey hefði haft samband við sig eða sína. Hann þvertók einnig fyrir að hótanir hefðu leitt til þess að hann hætti eða frestaði útgáfu rannsókna á feðraréttindahreyfingum og hann þvertók einnig fyrir að sér hefðu nokkru sinni verið boðnar mútur.

Það liggur þar með í hlutarins eðli að hann hefur ekki sagt Þórey þetta heldur eins og hún heldur fram. Hann bætti við að honum þætti skrýtið að Þórey væri að leggja sér þessi orð í munn.

Lokaorð

Þórey hefur aldrei verið neitt sérstaklega gefin fyrir foreldrajafnrétti

Þórey hefur aldrei verið neitt sérstaklega gefin fyrir foreldrajafnrétti

Þórey kvartaði yfir því í síðustu grein sinni ,,að örfáir karlar kusu að bregðast við ,,ad hominem” og ráðast á manneskjuna, með baktali og ósannindum, ekki fjalla um málefnið„.

Jæja, ég hef sýnt Þóreyju þá virðingu að einblína á málefnið og fara ofan í saumana á fullyrðingum hennar.

Og niðurstaðan er vægast sagt ekki góð fyrir Þóreyju.

 • Fullyrðingar um tengsl Blanc við íslenska feður: Rangar og/eða of víðtækar.
 • Fullyrðingar um leiðarvísi varaformanns Foreningens Far: Rangar
 • Fullyrðingar um ,,barnaverndina“: Rangar.
 • Fullyrðingar um ákúrur Ríkisendurskoðunar: Rangar.
 • Fullyrðingar um skeytingarleysi starfsmanna Sýslumanns: Rangar.
 • Fullyrðingar um feðraréttindahreyfingar: Rangar og/eða of víðtækar
 • Fullyrðingar um Dr. Michael Flood: Rangar.

Það blasir semsagt við að það er ekki heill þráður í málflutningi Þóryejar. Fullyrðing á eftir fullyrðingu reynist auðvelt að hrekja með því einu að grennslast fyrir um sannleiksgildi þeirra.

Og við erum ekki að tala um einhverjar smá yfirsjónir, við erum að tala um alla þætti sem leitast var við að staðreyna. Í því ljósi er auðvitað svolítið kostulegt að sjá hana kvarta yfir baktali og ósannindum í sinn garð. Skoðun á hennar eigin fullyrðingum leiðir lítið ef nokkuð annað í ljós en ósannindi hennar og baktal.

Þau orð hennar, að nokkrir karlar hafi ráðist á persónu sína í stað þess að takast á við málefnið, voru mér líka hugleikin eftir að ég las síðustu grein hennar. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki óhjákvæmileg afleiðing þess að setja frá sér jafn hatursfull og áráttukennd skrif og Þórey gerir hér. Getur það talist eðlileg krafa manneskju, sem viðhefur jafn ógeðfelldan málflutning og Þórey, að fólk eigi bara við hana málefnalegt spjall?

Þá hefur komið fram opinberlega að fyrir dómi er forræðisdeilumál sem hún sjálf er aðili að. Það segir okkur að Þórey hefur sjálf beina hagsmuni að því að hugmyndir hennar hjóti hljómgrunn. M.t.t. málarekstrartíma forræðismála gæti verið áhugavert að velta fyrir sér hvort það sé tilviljun að Þórey setji niður penna einmitt núna. Sjálfum finnst mér ólíklegt að um tilviljun sé að ræða.

Ég er ekki einn þeirra sem býsnast yfir því að Þórey hafi fengið þennan rant sinn birtann á Visir.is, næst stærsta vefmiðli landsins. Jú, það er vissulega til álitshnekkis fyrir miðilinn að hafa hleypt þessu í gegn og það veit það hvert mannsbarn að sambærilegt níð um íslenskar mæður hefði ekki undir nokkrum kringumstæðum verið tekið til birtingar.

Ég er þó ánægður með að Þórey vistaði þennan hroðbjóð á varanlegum miðli. Málflutningur hennar sýnir við hverskonar viðhorf forræðislausir feður eiga við að etja og það beint innan úr kerfinu sjálfu. En eins og flestir vita hafa nú þegar komið fram frásagnir kvenna af undarlegum vinnubrögðum Þóreyjar sem sáttamiðlari í forræðismálum þar sem hún virðist hreinlega reyna að pranga karlfyrirlitningu sinni inn á konur í skilnaðarferli.

Í málflutningi Þóreyjar má vel greina ákveðin stef sem hafa verið að verða skýrari í forræðisdeilumálum undanfarin misseri. Eftir því sem foreldrajafnrétti sækir á, því meiri harka hleypur í leikinn af hálfu kvenna sem þola ekki þá staðreynd að börnin þeirra eiga líka annað foreldri – föður sinn.

Við höfum því miður séð of mörg dæmi þess að sumar konur svífast einskis þegar þær uppgötva að tímarnir eru hægt og rólega að breytast til betri vegar hvað þetta varðar. Ýmislegt bendir til þess að ásakanir um ofbeldi séu síðasta haldreypi þessara kvenna til að snúa dómum og almenningsáliti sér í hag.

Þetta er sérstaklega beitt vopn þar sem við viljum, sem samfélag, auðvitað varna því eftir fremsta megni að börn búi við ofbeldi.

En við skulum ekki gleyma því að það að tálma umgengni barns við föður með bolabrögðum og á grundvelli mæðrahyggju er líka ofbeldi gegn börnum. Ofbeldi sem verður, eins og annað ofbeldi, að reyna að stöðva eftir fremsta megni.

Fyrst og fremst þess vegna eigum við ekki að hlusta á fólk eins og Þóreyju Guðmundsdóttur.

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

,

18 athugasemdir á “Þórey Guðmundsdóttir afhjúpuð”

 1. Eysteinn Pétursson Says:

  Óskaplega finnst mér prestakragi ljótur klæðnaður o góhugnanlegur. Hvað táknar hann eiginlega?

 2. Birgir Finnsson Says:

  Bravó. Frábærlega skrifuð grein og aðdáunarvert að þú skulir gefa þér tíma til að kanna staðreyndir málsins svona ítarlega.

  Ég skora hinsvegar á þig (þ.e.a.s. ef þú ert ekki búinn að því nú þegar) að senda hlekk á þessa grein til ritstjórnar Vísis. Hugsanlega verður það til þess að ritstjórnin hugsar sig tvisvar um næst þegar einhver sendir inn svona hatursboðskap og ætlast til að fá hann birtan.

  • Sigurður Says:

   Velkominn og takk fyrir innleggið.

   Ég er nú ekki búinn að senda þetta á Vísi.is en ég aðstoðaði dönsku samtökin við að senda þeim erindi fyrr í dag vegna meintra rangfærlsna Þóreyjar varðandi gjörðir varaformannsins.

   Það verður fróðlegt að sjá hvað þeir gera við það.

 3. Njörður Lárusson Says:

  Prestlærð manneskjan, virðist hafa gleymt boðorðunum 10.

  8. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.

 4. Þórir Says:

  Ein áhugaverð tenging sem þú kemur ekki inn á í skrifum þínum … varaformaðurinn sem átti að hafa skrifað þetta er barnsfaðir Sidsel Lyster. Prests sem er vinkona Þóreyjar. Sidstel er þekktasta tálmunarmóðir Danmerkur.

  • Sigurður Says:

   Velkominn og takk fyrir innleggið.

   Ég heyrði þetta þegar ég rannsakaði fullyrðingar Þóreyjar. Mér tókst að staðfesta að einn fyrrverandi varaformaður samtakanna er fyrrv. maður Sidsel.

   Aftur á móti fann ég ekkert því til staðfestingar að Þórey og Sidsel þekktust. Hefur þú eitthvað sem sýnir fram á þetta?

 5. Baldvin Says:

  Ég sat í stjórn Félags ábyrgra feðra í kringum aldamótin og alla tíð var áhersla félagsins á réttindi barna, ekki réttindi feðra sérstaklega. Áherslan var amk. sú að það væri börnum fyrir bestu að njóta samvista við báða foreldra og fjölskyldur þeirra og til að mynda var ein amma nokkuð áberandi í félaginu þarna á upphafsárunum,

  • Sigurður Says:

   Velkominn og takk fyrir innleggið.

   Ef ég mætti spyrja þig að einu. Þórey nefndi í viðtalinu við Harmageddon að Félag Ábyrgra Feðra hefði klofnað. Er það rétt? Ég hélt að það hafði bara orðið að Félagi um Foreldrajafnrétti. Þekkir þú þessa sögu?

   • Baldvin Says:

    Ég veit ekki um neinn klofning, það gerðist amk. ekki meðan ég var viðloðandi félagið. Það var einfaldlega gerð nafnabreyting á félaginu á sínum tíma, reyndar eftir að ég var þarna í stjórn.

 6. Sigurður Says:

  Frosti í útvarpsþættinum Harmageddon fylgir þessu máli hér eftir með glæsibrag!

  http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP38626

  • Þröstur Says:

   Þessi kona. Hún heldur áfram að bulla. Í viðtalinu segist hún hafa fengið 600 like. Þetta eru ekki like heldur deilingar á grein hennar. Hún yrði kannski hissa ef hún sæi það sem ég hef séð að allir sem deila greininni gera það til að vekja athygli á því hverslu slæm hún er 😀

  • Þröstur Says:

   Og já! Svo auðvitað segir hún okkur frá enn einni líflátshótuninni 😀 😀

  • Þröstur Says:

   Hahaha! Þetta verður betra og betra. Segist ekki komast í skjáskotið sem hún var að skrifa upp.

 7. Sveinn Geir Sigurjónsson Says:

  Það er sorg hvað konur beita fyrir sig ósannindum og óþvera máli sínu til stuðnings, ég hef séð talsvert af því og gegn því þarf að berjast. Það hefur rokið upp eitthvert hatursstríð gegn karlmönnum, þetta var sérstaklega áberndi í tengslum við 19 júni. Sorglegt

 8. asdasd Says:

  Les þetta, ekki aktívur en vill bara segja, takk fyrir að vera hetja og nenna að taka á þessu

 9. Kristinn Says:

  Er eitthvað að frétta af sönnunum Þóreyjar?

%d bloggurum líkar þetta: