Kristín Ástgeirsdóttir um kvennaþing

16.8.2015

Blogg

Þann 3. júní sl. var próf lagt fyrir Kristínu Ástgeirsdóttur, framvæmdastjóra Jafnréttisstofu. Prófið var lagt fyrir hana af Birki Blæ Ingólfssyni, fréttamanni RÚV.

Konan sem á að tryggja að hér ríki fullt jafnrétti kynja - konan sem finnst hugmyndir um að svipta karla kjörgengi frábærar. Kristín Ástgeirsdóttir

Konan sem á að tryggja að hér ríki fullt jafnrétti kynja – konan sem finnst hugmyndir um að svipta karla kjörgengi frábærar. Kristín Ástgeirsdóttir

Ég hugsa að hvorki Kristín né Birkir hafi verið meðvituð um að Kristín væri að þreyta próf en próf var það nú samt.

Ég er hér að tala um fréttaumfjöllun RÚV í kjölfar þess að Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, lagði til að karlar yrðu með lögum gerðir ókjörgengir fyrir næstu alþingiskosningar.

Birkir bar þessar hugmyndir undir Kristínu og óskaði viðbragða hennar sem framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu. Stofnunar hvers meginlutverk er:

,,að hafa eftirlit með að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé framfylgt„.

Laga sem hafa það svo að meginmarkmiði að:

,,koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.“

Það liggur auðvitað í augum uppi að rétta svarið við spurningu Birkis er eitthvað á þessa leið: Hugmyndir um að gera karlmenn ókjörgenga í alþingiskosningum á grundvelli kyns, eru ekki bara galnar heldur brjóta þær í bága við stjórnarskrá, jafnréttislög, jafnréttissáttmála og, að því er ætla má, siðferðisvitund allra siðlegra manna.

En þetta var ekki svar Kristínar. Ekki einu sinni nálægt því. Þess í stað svarar Kristín einhvernveginn svona:

,,Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, telur hugmyndina mjög athyglisverða og veit ekki til þess að þetta hafi nokkurn tíma verið gert. Hún telur ekki útilokað að hrinda hugmyndinni í framkvæmd, þrátt fyrir reglur stjórnarskrárinnar um jafnrétti.

„Það þyrfti að vera algjört samkomulag um að karlarnir drægju sig í hlé,“ segir Kristín og telur líkur standa til þess að ef slík sátt næðist væri hægt að hrinda hugmyndum Ragnheiðar í framkvæmd.

Kristínu þykir skipta máli hver tilgangurinn væri með slíkum inngripum. „Það þyrfti að vera alveg skýrt,“ segir hún og minnir á að á sínum tíma hafi kvennalistar verið heimilir í framboði til Alþingis, en það hafi verið aðgerð til að fjölga konum í framboði.“

Kristín hafði hér gullið tækifæri til að auka á trúverðugleika stofnunarinnar sem hún veitir forstöðu. Með því að taka harða afstöðu gegn þessum ótrúlegu og fasísku hugmyndum hefði hún getað sannfært jafnvel nokkur hundruð manns um að hún væri raunverulega að vinna skv. þeim lögum sem henni eru sett. Þ.e. í þágu jafnréttis en ekki aðeins að réttindum kvenna eða forréttindum þeirra eins og margir álíta.

Þessu tækifæri klúðraði Kristín með bravör og minnti okkur um leið á að hún lifir í femínískum fantasíuheimi. Svar Kristínar sýnir okkur að hún veigrar ekki fyrir sér að tala fyrir hugmyndum sem fela í sér beint, lagalegt misrétti gegn körlum.

Þá er velþóknun hennar á þessum hugmyndum einnig til marks um það að Kristínu finnst ekkert athugavert við það að ala á neikvæðum staðalímyndum um karlmenn. Það fer þvert gegn skilgreindu hlutverki stofnunarinnar þar sem þessar hugmyndir grundvallast á neikvæðum staðalhugmyndum um karlmenn. Hugmyndum sprottnum úr hugarfylgsnum kvenna þjökuðum af kvenrembu.

Hugleiðum einnig hversu æsilega galið það er að velta því fyrir sér í samtali við stærstu fréttastofu landsins að þetta væri framkvæmanlegt að fengnu samþykki allra karlmanna fyrir þessari stórmerkilegu samfélagstilraun. Þið gerið ykkur væntanlega grein fyrir því að ekki væri nóg að þeir karlmenn sem höfðu ætlað sér í framboð til þingkosninga, dragi sig í hlé. Það þyrfti auðvitað að liggja fyrir samþykki hvers einasta karlmanns (og raunar kvenna líka) um að þau sætti sig við að geta ekki kosið þá karlkyns fulltrúa sem, skv. þessari femínísku fantasíu, hefðu þá dregið sig í hlé.

Því ekki það? Okkur tókst nú einu sinni að gera Ísland fíkniefnalaust árið 2000.

Samanburður Kristínar við framboð Kvennalistans er algjörlega ótækur. Karlmenn voru ekki sviptir kjörgengi til að Kvennalistinn gæti boðið fram. Enginn glataði einum einustu mannréttindum við það að nokkrar konur sameinuðust í framboði til alþingiskosninga eins og væri ef ofangreindar hugmyndir yrðu að veruleika.

Tal Kristínar um ,,tilgang“ ætti auðvitað að vekja tortryggni hjá sérhverjum manni enda segir þetta okkur að í huga Kristínar er einhver sá tilgangur til sem réttlætir lögbundið misrétti og gerir það jafnvel æskilegt. Í kvenna þágu að sjálfsögðu. Þetta er svosem ekkert nýtt fyrir þá sem hafa fylgst með störfum Jafnréttisstofu að einhverju marki.

Hugmyndir þær sem hér eru til umræðu, og Kristínu finnst svo sniðugar, gera ráð fyrir að réttur karla til að bjóða sig fram til Alþingis, verði af þeim tekinn með lögum af því að þeir eru karlar. Þeim verði rutt úr vegi svo konur sem ekki standast við þá samkeppni, á markaðstorgi stjórnmálana, komist óhindrað til valda af því að þær eru konur.

En þó við séum með handónýta Jafnréttisstofu sem stýrt er af forréttindafemínista, þá er okkur ekki allar bjargir bannaðar. Sem betur fer. Téðum fréttamanni tókst að endingu að fá fram svarið sem Kristín hefði auðvitað átt að hafa á takteinunum. Það var hún Björg Thorarensen sem tók að sér að vinna vinnuna hennar Kristínar þennan daginn en í niðurlagi fréttarinnar segir:

,,Björg Thorarensen, lagaprófessor og sérfræðingur í stjórnskipunarrétti, minnir á að kjörgengi sé kjarni stjórnmálalegra réttinda allra borgara í landinu. Hún tekur fram að hún hafi ekki kynnt sér hugmyndir Ragnheiðar til hlítar, en telur vafasamt að það gangi upp að löggjafarsamkunda landsins yrði einungis skipuð konum.

„Það væri svo afgerandi skerðing á kjörgengi manna að binda það við kynferði, að það myndi aldrei standast ákvæði stjórnarskrár um jafnræði,“ segir Björg.“

Kristín, þú átt póst!

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

, ,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: