Jackie

7.4.2015

Blogg

Ein skýrasta birtingarmynd þeirrar brjálsemi sem einkennir forréttindafemínista er, að mínu mati, sú krafa að undantekningalaust eigi að trúa konum sem bera upp á menn sakir um kynferðislegt ofbeldi. Að hafa þessa hugmynd og vilja í alvöru aftengja almenn mannréttindi í þágu þessarar trúar er auðvitað ekkert annað en bilun og það sjá allir sem ekki eru bilaðir sjálfir.

Ekki skal skemma góða sögu með sannleikanum

Sabrina Erdely – Ekki skal skemma góða sögu með sannleikanum

Grein Sabrinu Erdely ,,Rape on Campus“ er nýjasta þekkta dæmið um það að til eru konur sem af margvíslegum ástæðum ljúga til um kynferðisofbeldi og skeyta engu um þann skaða sem það veldur saklausu fólki.

Grein hennar birtist í tímaritinu Rolling Stone í nóvember 2014 og byggir á viðtali við konu sem sögð er hafa fengið dulnefnið Jackie. Síðar hefur komið í ljós að konan heitir Jacqueline Coakley og er í raun kölluð Jackie dagsdaglega.

Í greininni lýsir Jackie hópnauðgun sem hún á að hafa orðið fyrir af sjö körlum í bræðralagsbyggingu á lóð Háskólans í Virginu þann 28. september 2012, þá 18 ára og á fyrsta ári náms við skólann.

Grein Erdely er eins og skrifuð upp úr femínískri skólabók um nauðgunarmenninguna (e. rape culture). Furðuhugmynd sem nýtur óskiljanlegrar hylli meðal femínista og er ein skýrasta vísbending þess að femínísk hugmyndafræði er að minnsta kosti pínulítið skrítin svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Fórnarlambið er ung og saklaus alþýðustúlka. Gerendurnir ríkir, ljóshærðir, sólbrúnir og stæltir meðlimir bræðralags (e. fraternity). Þá lýsir fórnarlambið einkennum áfallastreituröskunar í þaula og ekki skemmir fyrir að skólayfirvöldum virtist standa hjartanlega á sama um að sjö karlkyns nemendur við skólann hefðu nauðgað og barið nýnemann. Er við öðru að búast í þeirri nauðgunarmenningu sem við búum við spyr ég nú bara?

Stílbragð og nákvæmni frásagnar er slíkt að það vekur strax athygli. En það, ásamt efni hennar, gerir lesanda dagljóst að greinin var skrifuð til að sjokkera. Jafnvel líka opna umræðuna og vekja fólk til umhugsunar.

Frásögn Jackie

Jacqueline 'Jackie' Coakley í góðu grilli.

Stund milli stríða hjá Jacqueline ‘Jackie’ Coakley 

Sá hluti greinarinn sem byggir á frásögn Jackie fer hér á eftir í mjög lauslegri þýðingu en þó eins um alla efnisþætti:

Jackie var 18 ára þegar hún hóf nám við Háskólann í Virginu. Hún drakk ekki og hafði allt sitt líf verið fyrirmyndarnemandi. Greinin byrjar á að lýsa stemmningunni í fyrsta partíi Jackie hjá Phi Kappa Psi bræðralaginu (e. fraternity) en þar var hún stödd í boði Drew nokkurs, þriðja árs nema við skólann og meðlims í bræðralaginu.

Jackie vildi allt gera til að ganga í augun á Drew og greinarhöfundur lýsir því hvernig hún brosir til Drew og hvernig hann brosir blíðlega á móti. Okkur er sagt hvernig Drew að endingu stingur upp á að þau fari upp á aðra hæð hússins, burt úr hávaðanum, og hvernig hjarta Jackie tekur kipp við boðið.

Jackie og Drew höfðu kynnst stuttu áður þar sem þau sinntu vörslu við sundlaug Háskólans. Jackie hafði verið upp með sér þegar Drew bauð henni út að borða og svo í veislu bræðralagsins sem skv. greinarhöfundi samanstendur af piltum frá ríkum fjölskyldum. Fram kemur að hún var heila þrjá tíma að undirbúa sig fyrir stefnumótið með draumaprinsinum Drew. Raunar er undirbúningnum lýst í þaula ásamt því sem klæðnaði hennar er gerð góð skil. Svolítið eins og í góðri ástarsögu.

Við erum aftur stödd í húsi bræðralagsins kvöldið örlagaríka. Við fylgjum aðal söguhetjunni þar sem hún gengur upp stigann með Drew upp á aðra hæð hússins. Hann leiðir hana inn í herbergi og lokar hurðinni á eftir þeim. Í herberginu er niðamyrkur og Jackie sér ekki handa sinna skil. Hún snýr sér að Drew, fálmar eftir honum og hvíslar nafn hans. Það er þá sem hún áttar sig á að þau eru ekki ein í herberginu, einhver rekst upp við hana. Hún byrjar að öskra.

Hér nálgumst við klímax hinnar femínísku fantasíu um hinn hræðilega heim sem konur búa við. Karlaheim þar sem hold konu er ekkert annað en neysluvara sem neyta má með eða án samþykkis hennar. Ég verð samt að segja að lýsingarnar og smáatriðin sem fram koma í henni eru sláandi og kannski ekki úr vegi að vara viðkvæma við þeim.

Við lesum hvernig Jackie er lögð ofan á glerbrot á gólfinu og henni haldið þar af nokkrum körlum. Hún reynir að verja sig í byrjun og bítur í hönd sem haldið er fyrir vitum hennar. Það leiðir hinsvegar til þess eins að höndin verður að krepptum hnefa (já, þessu er lýst svona) sem kýlir hana í andlitið.

Karlarnir hlægja á meðan hugur Jackie leitar leiða til að skilja það sem er að gerast. Eitt stundarkorn hvarflar að henni að þetta sé hrekkur. Að á hverri stundu verði ljósin kveikt og grínið klárist.

En nei. Þegar ein karlmannsröddin fyrirskipar að gripið sé í fótlegg ,,þess“ (Já, ,,þess“ en ekki ,,hennar“. Svona rétt til að undirstrika hlutgervinguna) þá áttar hún sig á hvað klukkan slær.

Í greininni segir að Jackie muni hverja einust sekúndu næstu þriggja klukkustunda þar sem sjö karlmenn skiptast á að nauðga henni á meðan tveir aðrir hvetja nauðgarana og gefa leiðbeiningar. Annar þessara manna er einmitt enginn annar en draumaprinsinn Drew sem hefur nú aldeilis reynst úlfur í sauðargæru.

Við fáum ótal beinar tilvitnanir í níðingana eftir því sem fram vindur auk þess sem aðstæðum öllum og staðháttum eru gerð mjög góð skil. Svo góð raunar, að furðu sætir. Jackie yfirgefur svo blóðugan líkamann um það leyti sem einn mannanna treður bjórflösku ,,inn“ í líkama hennar.

Hún rankar svo við sér kl. 3 eftir miðnætti enn liggjandi á gólfinu. Veislan stendur enn sem hæst og hún hleypur í gegnum mannþröngina, berfætt, lemstruð og blóðug án þess að nokkur veiti því minnstu athygli enda nútímamenning svo mikil nauðgaramenning eins og allir vita. Henni tekst að hringja í vin sinn. Mínútum seinna kemur vinurinn ásamt tveimur öðrum að Jackie þar sem hún situr skjálfandi og augljóslega í miklu uppnámi.

Hér er því svo lýst (aftur með beinum tilvitnunum að því er virðist) hvernig vinirnir skeggræða það sín á milli hver verði félagslegur kostnaður Jackie af því að tilkynna um nauðgunina þar sem bræðralagið sem um ræðir er svo ríkt og valdamikið. Verslings Jackie hlustar á vinkonu sína væla yfir því að ef hún kæri þá muni vinahópnum aldrei verða hleypt í partí hjá neinu bræðralagi það sem eftir er skólagöngu sinnar.

Viðtalið við Jackie, sem greinin byggir á, er tekið tveimur árum eftir meinta hópnauðgun. Þegar Jackie er enn við nám í skólanum, nú á þriðja ári. Jackie hefur áhyggjur af því hvað gerist þegar greinin kemur út. Bræðralög eru jú snar þáttur í félagslífi við Háskólann í Virginíu. Einn vina hennar, sem kom að henni í kjölfar nauðgunarinnar, hefur einmitt varað hana við að koma fram með þetta þar sem hann er nú sjálfur hluti af bræðralagi. Greinin ber með sér að þetta hafi nú þegar kostað vinslit þeirra í millum.

Jackie upplýsir blaðakonu um að margir hafi ráðlagt sér að halda þessari lífsreynslu fyrir sig. Þar á meðal nafngreindur deildarforseti við Háskólann sem Jackie hafði tjáð frá ofbeldinu. Jackie heldur áfram og segir okkur frá samtali við vinkonu sína sem ræður henni alfarið frá því að gera þetta opinbert. Samtalið ber með sér að Jackie telji þetta níðingsverk dæmigert fyrir skólann og að skólinn hafi of lengi fengið að fljúga undir radarnum. Svolítið svona hingað og ekki lengra fílingur.

Að sögn greinarhöfundar er Háskólinn í Virginíu ekki nútímaleg stofnun. T.a.m. séu þar engir starfandi hópar róttækra femínista (væntanlega ekki ó-róttækra heldur). ,,Take back the night“ göngur séu það eina sem minni á femínisma við þennan íhaldssama skóla. Þær laði þó einungis að sér um 500 hræður ár hvert. Erdely fræðir okkur um að þetta þýði auðvitað ekki að nauðganir eigi sér ekki stað í Charlottesville, þær séu aðeins þaggaðar niður. Bæði nemendur og stjórnendur skólans taka þátt í þessari þöggun að því er virðist til að vernda orðstýr skólans. Þetta vill greinarhöfundur meina að sé kerfislægt og menningarlegt vandamál, (e. culture of hidden sexual violence) og að einhverjar ótilgreindar konur séu farnar að skrumskæla skammstöfun skólans UVA og noti þess í stað UVrApe. Hvað annað segi ég nú bara!

En aðeins aftur að Jackie sem skv. greininni hélt sig inni á herbergi heimavistar sinnar í tvær vikur eftir nauðgunina af ótta við að hitta kvalara sína. Þá hafði hún gert ráðstafanir til að minnka líkur á að rekast á Drew við störf sín. En allt kom fyrir ekki. Næst þegar Drew hitti Jackie, tveimur vikum eftir að hafa leitt hópnauðgun á henni, lét hann sem ekkert væri, heilsaði henni og spurði hvort hún væri viljandi að sniðganga sig. Jackie missti málið en Drew þakkaði henni fyrir samveruna um kvöldið og sagðist hafa skemmt sér konunglega.

Í greininni er því lýst hvernig Jackie tókst á við afleiðingar nauðgunarinnar og hversu erfitt var fyrir hana að halda áfram við skólann. Svo mikil togstreyta var innra með henni að hún var að endingu sett á sterk þunglyndislyf. Versnandi árangur hennar í skólanum leiddi svo til þess að hún var kölluð til deildarforseta þar sem hún brotnaði niður um leið og móðir hennar, sem var viðstödd, upplýsti manninn um það sem hafði gerst. Með þetta var henni vísað til annars yfirmanns við skólann, Nicole Eramo sem ku hafa haft það hlutverk að taka við kvörtunum og kærum af kynferðislegum toga.

Fullyrt er að hafi hún verið hissa á frásögn Jackie þá hafi viðmót hennar í það minnsta ekki gefið það til kynna. Í lok viðtals eru Jackie boðnir þrír valkostir hvernig hún getur haldið áfram með málið en lögð er áhersla á að ákvörðun um það sé alfarið í hennar höndum og hún ráði alfarið hvað gerist næst. Greinarhöfundur gagnrýnir þetta fyrirkomulag og vill, að því er virðist, að skólinn taki ákvörðun um þetta fyrir meint fórnarlömb kynferðisofbeldis. Því næst er fullyrt að skólinn hafi viljandi ekki aðhafst í málinu vitandi að það gengu hópnauðgarar lausir við skólann.

Fram kemur að Jackie segist þekkja tvær aðrar konur sem hafi lent í hópnauðgun hjá sama bræðralagi. Þá er haft eftir henni að hún telji nauðganir svo algengar í þessum tiltekna skóla að einni af hverjum þremur konum þar sé nauðgað en ekki einni af hverri fimm eins og margir femínistar trúa að sé raunin svona heilt yfir. Eftir að Jackie opnaði sig með þetta tók ekki betra við skv. því sem fram kemur í greininni. Stúlkukindin hefur verið kölluð ,,cunt“ og ,,feminazi bitch„. Þá hefur karlmaður meira að segja hent flösku beint í snjáldrið á henni svo hún brotnaði. Alltsvo flaskan, ekki snoppan á Jackie.

Í niðurlagi greinarinnar deilir Jackie með okkur eftirköstum þessarar reynslu og hvernig líðan hennar er í dag. Henni líður að eigin sögn eins og hún sé föst í sínu eigin persónulega fangelsi. Hún segist óttast að þannig muni henni líða allt sitt líf. Hún grætur mikið og er myrkfælin og þegar hún lýsir árásinni þá leitar hugur hennar alltaf til þess tíma þegar hún var að undirbúa sig fyrir stefnumótið með Drew, þegar hún stóð fyrir framan spegilinn og setti á sig maskarann. ,,Ég vissi ekki að þetta væri í síðasta sinn sem ég sæi mig sem eitthvað annað en tóma skel“ segir Jackie um þessa minningu.

Jackie lýsir einnig síendurteknum martröðum sem alltaf eru eins. Hún sér sig ganga upp þrepin í bræðralagshúsinu eins og hún gerði kvöldið örlagaríka. Hún kallar á sjálfa sig, stoppaðu, stoppaðu en veit að það er um seinan. Í raunveruleikanum er hún þegar búin að ganga upp stigann og fara inn í herbergið og hlutirnir verða aldrei samir á ný. Það angrar Jackie að Drew og hinir fautarnir geta látið eins og ekkert sé og sofið rótt en hún þurfi að ganga á móts við herbergið á hverri nóttu og kenna sjálfri sér um á daginn.

Hér lýkur frásögn Jackie af meintri hópnauðgun og eftirmálum hennar. Mér fannst það nauðsynlegt að miðla af nokkurri nákvæmni því sem fram kemur í grein Sa­brina Er­dely. Ekki síst til að sýna út í hve mikla nákvæmni greinarhöfundur fer en ég tek fram að í upprunalegri grein er atvikum lýst af enn meiri nákvæmni auk þess sem samskiptum er oft lýst orðrétt að því er virðist.

Eftirleikurinn

Ég hef lengi veitt því athygli að femínistar virðast geta leyst kynferðissakamál með því einu að lesa fréttir af þeim. Ég held ég viti hver galdurinn er. Ef atvikalýsingar minna femínista á skólabókardæmin þá telja þær fullvíst að hinn grunaði sé sekur um hinn meinta glæp. Já, ég held að þetta sé bara alls ekkert flóknara en þetta.

Ófáir femínistar lásu þessa grein og trúðu í henni hverjum einasta stafkrók.Nafntogaðir femínistar stigu fram og studdu Jackie jafnvel eftir að fram komu haldgóðar vísbendingar um að saga hennar væri líklega ekki sönn. Gífuryrði voru höfð um þá sem svo mikið sem voguðu sér að benda á misfellur í frásögn Jackie.

Reynsla Jackie, eins og hún lýsir henni, og eftirköst eru í fullkomnu samræmi við heimssýn femínista. Þá vegur einnig þungt að frásögnin varpar ljósi á meint kerfisbundið samsæri gegn konum. Nokkuð sem femínistar slá aldrei hendinni við.

Bættu svo við þetta þeirri óskiljanlegu kröfu að það eigi undantekningalaust að trúa hverri einustu konu sem ber sakir á karl um kynferðisofbeldi. Þar með hefur tekist að skapa aðstæður fyrir fullkominn storm vandlætinga og vænibrjáls sem femínistar eru jú þekktir fyrir.

Konan sem í þessari frásögn fékk dulnefnið Jackie er sannarlega til, eins og áður sagði, og hún sagði Sabrinu Erdely þessa sögu. Trúði Sabrina sögunni eða fannst henni hún einfadlega falla fullkomlega að þeirri heimssýn sem hún vildi draga upp fyrir okkur hin? Þetta getur enginn vitað fyrir víst.

Greinin er núna umfjöllunarefni fjölmiðla um allan heim. Bæði Rolling Stone og Sabrina Erdely sjálf, hafa fengið bágt fyrir þessa afleitu blaðamennsku. Fram hefur komið að Sabrina gerði ekkert til að staðfesta sannleiksgildi frásagnarinnar annað en að tala við vini Jackie.

Erdely hefur afsakað þetta með því að Jackie hafi beðið sig um að hafa ekki samband við hina meintu árásarmenn af ótta við hefndaraðgerðir og því að vefsíða umrædds bræðralags hafi ekki haft fullnægjandi upplýsingar svo hægt hafi verið að hafa samband við hina meintu árársarmenn.

Gögn sýna að hún virðist heldur ekki hafa borið þetta tiltekna mál upp við stjórnendur skólans þegar hún átti samskipti við þá. Þetta bendir óneitanlega til þess að Erdely hafi einfaldlega þótt þessi saga of góð til að spilla henni með sannleikanum.

Um ástæður þessa að Jackie spann upp þessa lygaþvælu virðist margt enn á huldu. Eftir því sem fram hefur komið í erlendum fjölmiðum virðist hún upphaflega hafa diktað upp persónuna Drew til að egna vin sinn til að ganga á eftir sér, vin sem hún var hrifin af. Hún ku jafnvel hafa gengið svo langt að skrá nafn Drew á einhverskonar samfélagsmiðil til að sanna tilvist Drew fyrir vinum sínum, þ.m.t. þeim sem hún var hrifin af og vildi fá athygli frá.

Hún virðist hafa logið sögunni af hópnauðguninni að vinum sínum sem sumir staðfestu frásögn hennar við blaðamann þó sumir þeirra hafi sagt margt tekið úr samhengi eða vera óljóst. Þá hafa a.m.k. tveir þessara vina tjáð fjölmiðlum að þeim hafi fundist sem Sabrina Erdely hafi verið búin að ákveða efni greinarinnar burt séð frá vitnisburði þeirra.

Eftir að grein Sabrinu Erdely var birt í Rolling Stone tók við mjög erfiður tími hjá meðlimum bræðralagsins sem um ræðir. Þetta eru jú ekki það fjölmenn félög að svona frásögn jafngildir nánast nafngreiningu.

Framin voru skemmdarverk á húsi bræðralagsins og meðlimum þess hótað lífláti svo þeir hröktust af heimavistinni um tíma. Þeir voru þó ekki þeir einu sem fengu líflátshótanir. A.m.k. einn starfsmaður skólans, sem Erdely nafngreinir í grein sinni, fékk einnig líflátshótanir.

Þá brást skólinn við með því að banna starfsemi félagsins. Allison Booth, prófessor við skólann og femínisti notaði tækifærið og sagði alla menningu bræðralaga sjúka. Laganemi við skólann, Colin Downes, bætti um betur og skrifaði grein sem birtist á almennum fjölmiðlum þar sem hann lagði til að bræðralög yrðu skilgreind sem glæpagengi svo gera mætti eignir þeirra upptækar á grundvelli laga um glæpaklíkur.

Allir meðlimir bræðralagsins lágu undir grun fyrir að hafa framið mjög grófa nauðgun og máttu vita að allir í nærumhverfi þeirra hefðu lesið mjög nákvæmar og grafískar lýsingar af árásinni sem einhverjir þeirra áttu að hafa framið.

Sannleikurinn kemur í ljós

Lögregluembættið í Charlottesville, sem fyrst varð upplýst um málilð eftir lestur greinar Rolling Stone, lokaði rannsókn málsins endanlega þann 23. mars sl. með þeim orðum að ekkert benti til þess að nokkuð brot hefði verið framið.

Embættið hafði raunar séð ástæðu til að opinbera efasemdir sýnar um sannleiksgildi frásagnarinnar strax 12. Janúar sl.

Fram kom að hið meinta fórnarlamb hefði ekki sýnt samstarfsvilja við rannsókn málsins.

Það var þó ekki fyrr en tveimur vikum eftir að lögreglan gaf út fyrri tilkynningu sína sem fyrsti fjölmiðillinn hafði hugrekki til að lýsa efasemdum. Það var Richard nokkur Bradley hjá Worth Magazine, sem fyrstur fjölmiðlamanna lýsti efasemdum um að frásögn Jackie ætti við rök að styðjast. Þetta var þann 27. Janúar sl.

Fjölmargir femínstar gagnrýndu hann fyrir að draga orð konunnar í efa. Þar á meðal var Hannah Rosin, höfundur bókarinnar The End of Men and the Rise of Women, sem sagði orð Bradley gefa í skyn að frásögn fórnarlambsins væri hreinn uppspuni.

Eftir seinni yfirlýsingu lögreglunnar hættu margir fjölmiðlar að tipla á tánum og Washington Post varð fyrst til að lýsa því yfir að greinin væri tómt bull með afgerandi hætti.

Viðbrögð Rolling Stone

Viðbrögð Rolling Stone og Sabrinu Erdely hafa verið vægast sagt undarleg.

Þann 2. desember 2014 lýsir Sabrina Erdely því yfir að hún standi við grein sína og segist sannfærð um að greinina hefði ekki verið hægt að vinna betur.

Þá vogar Erdely sér að segja að hún vilji ekki að gagnrýni á greinina taki athygli frá hinu raunverulega hneyksli sem hún lýsir, því að skólayfirvöld hafi ekki rannsakað ásakanir Jackie.

Þann 5. desember 2014 viðurkennir Rolling Stone loks að eitthvað misræmi sé í frásögn Jackie.

Þann 6 desember 2014 uppfærir Rolling Stona afsökukunarbeiðni sína og segir mistkökin sín en ekki Jackie.

Það er svo ekki fyrr en 5. apríl sl. sem Rolling Stone dregur greinina alfarið til baka. Við það tækifæri segir Jann S. Wenner, útgefandi blaðsins að Jackie sé bersýnilega frábær í að spinna og segja sögur.

Daginn eftir sá blaðið ástæðu til að tilkynna um það sérstaklega að ekki stæði til að reka femínistafólið hana Erdely úr starfi sínu fyrir þessi afglöð sem fjölmiðlarýnar vour þá farnir að lýsa sem verstu blaðamennsku ársins og sögulegu klúðri.

Viðbrögð Sabrinu Erdely

Og hvað er að frétta af femínistanum Sabrinu Erdely?

Hún hefur núna fyrst viðurkennt mistök sín beðist afsökunar á gjörðum sínum. En hverja hefur hún beðið afsökunar? Hún hefur beðið lesendur blaðsins afsökunar og hún hefur beðið þolendur raunverulegs kynferðisofbeldis afsökunar.

Henni hefur enn ekki hugkvæmst að biðja mennina sem urðu fyrir ofbeldi hennar afsökunar. Þeir eru jú eftir allt saman bara karlmenn og þ.a.l. sjálfsagt nauðgarar hvort eð er. A.m.k. svona inn við beinið.

Þetta er raunar gegnumgangandi einkenni á svona málum. Fjölmiðlafólk sér alltaf ástæðu til að enda fréttaumfjallanir um svona mál með því að tala um mögulegan skaða sem þetta kann að valda konum sem koma fram með raunverulegar ásakanir síðar meir.

Öllum virðist standa á sama um karlana sem verða fyrir þessum fólskulegu árásum með beinum hætti og hinum sem eiga það á hættu að verða fyrir þessu hvar og hvenær sem er.

Þá eru aldrei dregin fram ummæli femínista sem krefjast þess að létt sé á sönnunarbyrði í ætluðum kynferðisbrotamálum eða jafnvel að sönnunarbyrði sé snúið við í þessum málaflokki.

Slíkur er nú nauðgunarkúlturinn.

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

3 athugasemdir á “Jackie”

  1. Nasty old male Says:

    Þessi saga minnir á http://en.wikipedia.org/wiki/Duke_lacrosse_case

%d bloggurum líkar þetta: