Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt. Sem betur fer.
Í gær lærði ég t.d. að geirvörtur kvenna væru eitthvað sem þyrfti að frelsa og að konur á ýmsum aldri hefðu, þar til í gær, upplifað sig heftar, ófrjálsar og beittar órétti fyrir að mega ekki spranga um stræti og torg berbrjósta. Nokkuð sem karlmenn gera alla daga eins og allir vita.
Um þetta hafði ég verið fullkomlega grunlaus og er þar efalítið karlrembu minni um að kenna. Ég segi efalítið vegna þess að ég var einnig algjörlega ómeðvitaður um að það væri ekkert annað en sjálft feðraveldið sem skikkaði konur til að klæða sig eftir veðri.
Hvað annað.
Það dugði svo ekkert minna en berbrjósta þingkona til að leiða mig í ljósið hvað þetta varðar. Það var hún Björt Ólafsdóttir, þingkona Bjartrar Framtíðar sem sendi eftirfarandi fræðsluerindi frá sér út á veraldarvefinn:
Meint félagslegt meðvitundarleysi mitt endar ekki þarna. Ó nei. Ég hef einnig verið fullkomlega ómeðvitaður um það hvernig ofgnótt brjósta á veraldarvefnum (klám) sé feðraveldinu að kenna um leið og það á að vera feðraveldinu að kenna að einstaka konur megi ekki bera á sér brjóstin opinberlega.
Fyrir utan nú það að mér hafði hingað til fundist augljóst að enginn skortur virðist vera á konum sem líta á brjóst sín, og umgangast þau, sem eitthvað allt annað og meira en spena til að fæðugjafar. Ætli ég verði ekki að treysta því, á meðan ég treð brjósti Bjartar Ólafsdóttur upp í feðraveldið á mér einhvernveginn, að femínísk hugmyndafræði lumi á einhverri glansandi fínni skýringu á þessu misræmi. Skýringu sem á bara eftir að koma fram.
Þetta var ekki eina þingkonan sem gerði mig ruglaðan í rýminu í gær. Hanna María Sigmundsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins spurði hvenær ,,basic anatómía“ hafi orðið kynferðisleg og eitthvað sem ætti að fela. Og ég sem hafði fram að þessu gengið um með þá grillu í höfðunu að getnaðarlimur minn og hreðjar væru ,,basic anatómía“ sem færi betur á að ég héldi frá augum almennings svona alla jafna. Einfaldlega vegna þess að það samræmist siðvenjum þess samfélags sem ég hef kosið að tilheyra.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem femínistum finnst nauðsynlegt að upplýsa okkur um leyndardóma kvenlíkamans. Síðast var það píkan sem lék aðalhlutverkið á árlegum degi sem ýmist var nefndur ,,Píkudagurinn“ eða ,,V-Dagurinn“ en vaffið hér stendur fyrir ,,Vagina“. Á píkudeginum voru ýmsir píkutengdir viðburðir í boði, s.s. upplestur úr bókinni Píkusögum (e. Vagina Monlogues) og jafnvel leiksýningar innblásnar af þessu bókmenntaverki. Ef ég man rétt þá tók sjálf Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og fleiri stjórnmálakonur þátt í einhverskonar upplestri á Píkusögum í tilefni dagsins. Ætli Ingibjörg hafi ekki verið borgarstjóri þegar þetta var.
Píkusögupartíið varð eitthvað endasleppt. Kannski vegna þess að fólk sem stóð utan hreyfingar femínista átti eitthvað erfitt með að skilja hvernig bók sem í upphaflegri útgáfu innihélt orðin ,,If it was rape, it was a good rape“ og þá um nauðgun á 13 ára stúlkubarni af 24 ára gamalli konu, var orðin að einhverskonar íkoni í baráttu gegn kynferðisofbeldi.
En þversagnir virðast jú vera svolítið kjarninn í femínískri orðræðu. Nú sjáum við t.a.m. yfirlýsta femínista tala af mikili velþóknun um það að konur og jafnvel ungar stúlkur séu að dreifa nektarmyndum af sér á veraldarvefnum. Þegar kona sem er allt annað en yfirlýstur femínisti gerði það sama hér um árið voru viðbrögðin af allt öðrum toga. Þá var birt grein á femínískum fjölmiðli, skrifuð af yfirlýstum femínista þar sem þessi kona var sögð hafa sýnt af sér dómgreyndarleysi og vera narsissisti.
Ekki misskilja mig. Lífsgæði mín minnka ekkert við það að konur beri á sér brjóstin. Ég myndi jafnvel ganga svo langt að segja að þau gætu við þetta aukist eilítið. Þessi grein er ekki skrifuð vegna þess að ég tel ber brjóst kvenna muni leiða til félagslegrar hnignunar eða flýta fyrir endurkomu hins smurða. Hún er skrifuð til að benda á þversagnarkenndan málflutning þeirra femínista sem standa að þessari ,,byltingu„.
Bæði kynin búa við takmarkanir á einstaklingsfrelsi sínu. Ekki bara konur. Þetta er óhjákvæmilegt ef fólk vill lifa í samfélagi við annað fólk. Bæði karlar og konur geta hagað sér með óviðeigandi hætti m.t.t. ríkjandi siða eða gilda og hlotið bágt fyrir. Bæði konur og karlar hafa mótað þann félagslega samning sem liggur að baki þessum venjum og siðum. Að halda því fram að konum séu þrengri skorður settar en körlum, og eingöngu af körlum, lýsir engu öðru en sjálfmiðun.
SJ
| Taktu þátt | Óskast | Rannsókna- & heimildasafn |
27.3.2015
Blogg