Með tiltölulega stuttu millibili lætur íslenskt fjölmiðlafólk misnota sig af ofbeldiskonum sem spila sig sem fórnarlömb þeirra sem þær eru að níðast á. Ég er hér að tala um viðtöl við konur sem eru að ,,opna umræðuna“ nú eða ,,sig“ um það ægilega ofbeldi sem þær og börn þeirra máttu þola á meðan þær voru enn í sambandi við barnsfeður sína.
Reyndar held ég að aðeins hluti þess fjölmiðlafólks sem um ræðir trúi raunverulega orðum viðmælenda sinna eða velti sannleiksgildi þeirra yfir höfuð nokkuð fyrir sér. Allt of margt fjölmiðlafólk er einfaldlega haldið karlfyrirlitningu og er þess vegna móttækilegt fyrir þessari þvælu. Þetta er sá hópur sem slær aldrei hendinni á móti góðri sögu af vondum karli og kennir sig við femínisma.
Það er ansi langt síðan ég byrjaði að veita þessum greinum athygli. Það sem fyrst og fremst vakti eftirtekt mína var það að uppbygging þessara greina er alltaf eins. Eða því sem næst. Ef meira en helmingur neðangreindra atriða á við, þá geld ég sjálfkrafa varhug við því sem fram kemur í svona skrifum:
- Greinin birtist í miðli sem telst mjög femínískur og/eða er skrifuð af manneskju sem er yfirlýstur femínisti.
- Konan sem um ræðir er í miðri forræðisdeilu eða hefur nýlokið við að nema barn ólöglega á brott.
- Konan lýsir skilnaði sínum sem ,,flótta“
- Konan lagði aldrei fram ásakanir á hendur barnsföðurnum fyrr en eftir að deilur spruttu um forræði eða umgengni.
- Konan sýnir óbilgirni í kröfum og vill sjálf fullt forræði og jafnvel 100% umgengni.
- Konan virðist ekki sjá sína sök í deilunni og lítur svo á að allir aðrir en hún sjálf beri ábyrgð á stöðu sinni
- Konan lýsir ,,kerfinu“ sem fjandsamlegu og á móti sér.
- Konan á ekki í neinum vandræðum með að ætla barnsföðurnum að þola raunir sem hún segist sjálf aldrei geta þolað (s.s. að lifa án barna sinna).
- Konan virðist vera þeirrar skoðunar að hún sé, á grundvelli kyns síns, hæfara foreldri en barnsfaðirinn og séu uppi deilur um forræði þá eigi hún sjálfkrafa að hafa fullt forræði vegna þess.
Þið þekkið þetta eflaust. Tíðni þessara greina er um ein til tvær á ári og líklega er öllum enn í fersku minni mál Hjördísar Svan sem náði ótrúlegum árangri í að sannfæra fólk um að hún væri í raun fórnarlambið í brotum sem hún situr nú í fangelsi fyrir að hafa framið.
Nýjasta greinin þessarar náttúru er viðtal Ingibjargar Daggar Kristjánsdóttur við Bergljótu Arnalds sem birtist í síðasta tölublaði Stundarinnar. Yfirskrift viðtalsins er ,,Ástin ofbeldið og flóttinn“ sem hljómar óneitanlega eins og titill á femínískri ástarsögu í samtímanum. Þetta viðtal skorar fullt hús stiga á ofangreindum skala.
Í greininni kemur fram að Bergljót og barnsfaðir hennar eru tiltölulega nýskilin og að hún hafi í framhaldi þurft að þola það mikla óréttlæti vera dæmd til að deila forræði yfir dóttur sinni með föðurnum. Skv. málsskjölum virðist faðirinn aftur á móti aldrei hafa farið fram á neitt annað en sameiginlegt forræði og bauð meira að segja að lögheimili barnsins yrði skráð á heimili Bergljótar og að hún hefði meiripart umgengni við barnið. Þetta gat Bergljót bara alls ekki sætt sig við, hún vildi allt og alls ekkert minna en það.
Ekki er annað hægt að lesa af greininni en að bæði Bergljótu og Ingibjörgu finnist það hin mesta afturför að nú nýlega sé byrjað að tryggja börnum rétt til beggja foreldra en þetta er fyrsti Hæstaréttardómur sem dæmir sameiginlega forsjá. Sérstaklega finnst þeim þetta bagalegt þegar ekki ríki traust á milli foreldranna. Eða eins og segir í inngangi greinarinnar:
,,Eftir erfiðan skilnað, þar sem kærurnar gengu á báða bóga, hún kærði hann fyrir ofbeldi og hann hana fyrir ólöglegan brottflutning barns úr landinu, var þeim dæmd sameiginleg forsjá, jafnvel þótt augljóst væri að traust ríkti ekki milli foreldranna“
Hér eru konurnar tvær semsagt að segja að til þess að móðir geti tryggt sér fullt forræði, þurfi hún einungis að ýfa upp deilur og þá gangi forræðið sjálfkrafa til hennar. Ég gerist hér svo frakkur að geta mér þess til að hvorki Bergljótu né Ingibjörgu þætti það jafn sjálfsagt að forræði gengi sjálfkrafa til föður undir sömu kringumstæðum. En ég gæti auðvitað haft rangt fyrir mér í því.
Hugmyndum Bergljótar um það hvernig bæta mætti réttarkerfið líkur ekki þarna. Þannig kvartar hún t.d. sáran yfir því að það þurfi að sanna ásakanir sem hún leggur fram gegn barnsföður sínum og ekki bara það, hún kvartar yfir því að hún þurfi að fara út úr húsi til að leggja fram kærur:
,,Lögin þarf að laga. Hvergi í hegingarlögum er sérkafli um heimilisofbeldi. Hægt er að meta það til refsiþyngingar ráðist maður á aðila sér nákomnum. Að öðru leyti er ekki tekið tillit til eðlis heimilisofbeldis og áhrifa þess á brotaþola. Ekki er tekið tillit til andlegs ofbeldis, kúgunar og þeirrar ógnarstjórnar sem oft fylgir slíkum málum. Ekki er hægt að dæma fyrir samfelluna og samhengið – óttann sem fylgir því að vita ekki hvenær næsta áras muni eiga sér stað og hersu slæm hún verður, heldur er hvert atvik rannsakað sem sérstakt tilvik og þarf að sanna sem slíkt.“
Hér velti ég fyrir mér hvers barnsfaðir Bergljótar má þá gjalda sem ekki veit hvenær næsti fjölmiðill útvarpar einhliða og ósönnuðum ásökunum Bergljótar í sinn garð.
,,Bergljót telur að þessu þurfi að breyta, ,,Það er ekki hægt að ætlast til þess að konur geti gengið inn á læknamiðstöð og fengið áverkavottorð eða inn á lögreglustöð að kæra manninn sinn, rétt eins og þær séu að fara í bankann eða að sækja póstinn. Það er vitað að konur geta ekki gert þetta svona. Það þarf rosalega mikið til að kona í ofbeldissambandi leiti réttar síns þannig að mér finnst ekki rétt að þegar konur gera það miðist rannsóknin við hvert tilvik fyrir sig.“
Það er nefninlega það. Þessu hljóta auðvitað allir að vera sammála er það ekki? Það er auðvitað ekkert annað en brot á réttindum kvenna að ásakanir þeirra þurfi að rannsaka og sanna þegar þær saka barnsföður sinn um ofbeldi í miðju forræðisdeilumáli. Karlmenn ættu auðvitað að eiga velferð sína undir velvilja barnsmæðra sinna og umgengni þeirra við börn sín ættu að sjálfsögðu að vera einhverskonar fall af vilja og þörfum móðurinnar á hverjum tíma.
Glöggir lesendur munu hér hafa áttað sig á því svo ótrúlega vill til að allar þær ,,réttarbætur“ sem Bergljót leggur hér til myndu vera henni sjálfri í hag og öðrum konum, sem eins og hún vilja beita börnum sínum sem vopnum gegn barnsfeðrum sínum. Þetta hlýtur auðvitað að vera tilviljun.
Svona heilt yfir virðist samband Bergljótar og barnsföður hennar hafa verið frekar erfitt fyrir báða aðila. Það er líka þannig að það þarf tvo til og eins og þeir vita sem nenna að kynna sér rannsóknir á heimilisofbeldi, þá er það langoftast gagnkvæmt og konur a.m.k. jafn miklir gerendur og karlarnir. Skv. því sem fram kemur í greininni neitaði maðurinn staðfastlega að hafa beitt Bergljótu ofbeldi en viðurkenndi að hafa í eitt skipti ,,gengið of langt“ eins og það er orðað en jafn skjótt tekið ábyrgð á gjörðum sínum og leitað sér hjálpar.
Annarsstaðar í greininni lýsir Bergljót hinsvegar kynferðislegri áreitni sinni í garð mannsins og finnst það ekki bara í lagi, heldur nær hún á einhvern ótrúlegan hátt að snúa þessu á þann veg að það hafi verið hún sem var beitt órétti:
,,Mig langaði í kynlíf en hann var ekki í stuði fyrir kynlíf. Ég gekk á hann og sagði að ef við myndum ekki stunda kynlíf þá myndi ég ekki sofa neitt um nóttina og ég nennti ekki að fara í IKEA daginn eftir eins og við höfðum talað um. Hann varð pirraður og brást harkalega við“
Síðan lýsir hún því að hún hafi grátið í kjölfar þess að maðurinn tjáði henni að hann vildi ekki stunda kynlíf með henni í þetta tiltekna skipti. Hún segist eiga erfiðara með að tala um þetta en annað sem hún er óánægð með í fari mannsins þar eð þetta snéri að kynferðislegum samskiptum.
Þeim örfáu ykkar sem sjáið ekki lasleikann í þessu býð ég að ímynda ykkur hvernig þið sæjuð þetta ef þið væruð að lesa viðtal við karlmann í dagblaði að væla yfir því að hafa ekki fengið nóg að ríða heima hjá sér.
Sem betur fer er ég ekki einn um að sjá í gegnum þessa þvælu Bergljótar. Það er kannski til marks um sjálfmiðun þeirra að hvorki Bergljót né Ingibjörg virðast gera sér grein fyrir því hversu auðvelt það er fyrir hlutlausa manneskju að sjá hvernig málið liggur í raun af lestri greinarinnar. Tökum dæmi:
,,Fyrir héraðsdómi hafði Bergljót meðal annars þurft að svara spurningum á borð við þessa frá dómurum, líkt og fram kemur í dómsskjölum: ,,Getur þú útskýrt fyrir mér af hverju, ef þetta var svona mjög erfitt, af hverju fórstu ekki fyrr út úr þessu, af hverju gekk þetta ekki fyrr fyrir sig ef að þú varst svona óánægð og ofbeldið var svona mikið og að þetta var allt svona skelfilegt eins og þú lýsir?“
Það er dagljóst að þeir aðilar sem hvað besta yfirsýn höfðu yfir málið efuðust um frásögn Bergljótar og ennfremur er tekið fram að ein af dómsforsendum sé sú að Bergljót hefði sýnt ákveðna óbilgirni gagnvart barnsföður sínum með því að hvika hvergi frá kröfu sinni um fullt forræði. Þá er rakið í rökstuðningi fyrir dómsniðurstöðunni að það væri ekki rétt að veita Bergljótu fullt forræði, þar sem slíkt leiddi fremur til þess að valdabarátta og neikvæð afstaða málsaðila festist í sessi.
Fram kemur að dómarar og jafnvel sjálfur lögmaður Bergljótar hafi hvatt hana til að semja og taka tilboði um sameiginlega forsjá auk þess sem lögheimili barnsins yrði skráð hjá Bergljótu og hún nyti meirihluta umgengni. Hún segist hafa hafnað boðinu vegna þess að hún vildi geta ,,horft stolt í augu barnsins síns“. Stolt yfir því að hafa reynt að svipta barnið föður sínum væntanlega og úthúða honum opinberlega. Við hin sjáum að þetta hefur ekkert með stolt að gera. Hér hefur frekja og eigingirni Bergljótar einfaldlega borið hana ofurliði, svo kyrfilega að hún gekk úr tengslum við raunveruleikann undir málarekstrinum.
Bergljót furðar sig á því að dómurinn hafi ekki byggt niðurstöðu sína á ósönnuðum ásökunum hennar í garð barnsföðurins. Ásökunum sem henni fannst fyrst tímabært að leggja fram þegar hún hafði augljósa hagsmuni af þvi að leggja þær fram. Auðvitað sjá allir nema alhörðustu karlhatarar hvar hnífurinn stendur í kúnni.
Bergljót virðist líka hafa almennt sjúkleg viðhorf til karla en í viðtalinu kvartar hún yfir því að barnsfaðir hennar skuli hafa rétt á að setja barnið sitt í pössun. Bergljót virðist þeirrar skoðunar að einungis mæður séu færar um að ,,skynja“ hver sé ákjósanleg parnapía og hver ekki. Þessi kynbundni hæfileiki eigi svo að leiða til þess að feður óski leyfis hjá barnsmæðrum sínum áður en þeir setja börnin í pössun. Þetta segir hún t.d. um karlmann sem barnsfaðirinn fékk til að passa fyrir sig barnið:
,,Kannski er þessi maður ekki hættulegur, en ég þekki hann ekki og vil ekki að hann sé að passa dóttur mína“
Já bara kannski það sé hugsanlegt að umræddur karl sé ekki hættulegur. Ég velti fyrir mér hvort Bergljót hefði komist í jafn mikið ójafnvægi hefði barnapían verið kvenkyns. Ég velti líka fyrir mér hvort Bergljót telji sig skylduga til að fá samþykki frá barnsföður sínum áður en hún setur barnið þeirra í pössun? Ég efast um það en aftur, með þeim fyrirvara að ég gæti haft rangt fyrir mér.
Síðan get ég nú eiginlega ekki stillt mig um að láta hér fylgja tilvitnun í það hvernig þetta dómsmál hefur kostað söngfuglinn röddina:
,,Röddin er rám og Bergljót ræskir sig. ,,Það hefur eitthvað verið að raddböndunum síðan dómur féll. Ég missi alltaf röddina þegar ég tala um þetta. Ég fæ þessa köfnunartilfinningu eins og það sé verið að þagga niður í mér. Kannski af því að ér fannst ekki hlustað á mig í réttarkerfinu.“
Þeir sem hafa lesið eitthvað í femínískum literatúr vita að ,,raddir“ kvenna eru fyrirferðamikill þáttur í femínískri merkingarfræði en skv. hugmyndafræðinni miðar allt í heimi hér að því kæfa raddir kvenna. Í þessu tilviki er það hið karllæga réttarkerfi sem lét ekki undan frekju Bergljótar og verður þar með til þess að enn ein kvenröddin þagnar.
Þetta viðtal við Bergljótu er gott dæmi um það ofbeldi sem karlmenn búa við í forræðisdeilumálum og þann kerfislæga stuðning sem ofbeldiskonur fá m.a. hjá femínistum við að níðast á körlum. Okkur mun sem samfélagi aldrei takast að fyrirbyggja það að konur eins og Bergljót eða Hjördís geri það sem þær gera. Dæmin sýna að tálmunarmæður svífast einskis. Þær fórna velferð og heilsu barna sinna fúslega í þágu eigin þarfa eða jafnvel til þess eins að koma höggi á föðurinn.
Hinsvegar ættum við að líta á það sem verkefni að uppræta blaðamennsku eins og þá sem Ingibjörg Dögg stundar hér. Bergljót er tilbúin til að ausa yfir föður dóttur sinnar svívirðingum og ásökunum um margvíslegt ofbeldi sem rannsakendum annað hvort þótti ekki ástæða til að ætla að hefði verið framið eða kæmi niður á getu föðurins til að rækja hlutverk sitt. Við skulum líka hafa í huga að Bergljót mælir hér fyrir afnámi mannréttinda á grundvelli kyns. Hún vill að ásakanir kvenna í garð karla þurfi ekki að rannsaka eða sanna til að hægt sé að sakfella karlmenn.
Og þetta finnst Ingibjörgu fyrirtaks ,,fréttaefni“. Að manneskja fái nokkrar blaðsíður í dagblaði til að rífa í sig æru annarar manneskju og mæla fyrir afnámi mannréttinda helmings samfélagsins er sjúkdómseinkenni. Ekki bara á fjölmiðlinum sem um ræðir heldur einnig á samfélaginu sem lætur þetta viðgangast. Við skulum líka hafa í huga að þetta var fyrsti Hæstaréttardómurinn sem dæmir sameiginlegt forræði. Ætla má að jafnréttissinnaður blaðamaður hefði séð ástæðu til að fagna því í stað þess að ráðast á einn málsaðila þess dóms og draga réttmæti niðurstöðunnar í efa.
Svo lengi sem við sættum okkur við gengdarlausan áróður femínista fyrir því að karlmenn séu skeppnur þá mun þetta viðgangast. Þegar búið er að mála einn þjóðfélagshóp þessum litum þá verður allt í einu í lagi að tala um hópinn eða einstaklinga innan hans á þessum nótum. Það er þetta sem gerir það að verkum að Ingibjörg og svo ritstjóri miðilsins sem hún starfar fyrir, horfa á þennan þvætting og finnst góð hugmynd að birta í næsta tölublaði sínu.
Þeim sem efast um kynjavinkilinn í þessari greiningu býð ég að benda mér á magra blaðsíðna viðtöl í almennum fjölmiðum við karla sem viðhafa ærumeiðandi ásakanir á hendur barnsmæðrum sínum, þegar þeir hafa augljósa hagsmuni af því, og mæla fyrir afnámi mannréttinda kvenna án þess að blaðamanni eða ritstjórn detti í hug að staðreyna upplýsingarnar eða veit viðmælanda sínum nokkurt einasta viðnám.
Hér er svo að lokum yfirlýsing frá lögmanni barnsföður Bergljótar sem hún sendi fjölmiðlum fyrir hans hönd:
,,Bergljót Arnalds hefur komið fram í fjölmiðlum með alvarlegar ásakanir gegn barnsföður sínum. Hefur hann farið þess á leit við undirritaða að eftirfarandi upplýsingum verði komið á framfæri við Morgunblaðið.
Ásakanir Bergljótar um meint ofbeldi barnsföður voru teknar til ítarlegrar skoðunar í forsjármáli sem Bergljót fór af stað með í þeim tilgangi að fá fulla forsjá yfir barni þeirra. Dómarar, þ.m.t. sérfróðir sálfræðingar sem kallaðir voru til af réttinum, komust að þeirri niðurstöðu að engin gögn lægju fyrir um ætlaða ofbeldishegðun barnsföður hennar. Bergljót tapaði málinu bæði í héraðsdómi og í Hæstarétti. Engu að síður er birt einhliða frásögn hennar án þess að hlið föðurins komi fram eða sú niðurstaða héraðsdóms og Hæstaréttar að Bergljót hafi ekki verið í ofbeldissambandi.
Bergljót hefur dregið barnsföður sinn fyrir barnaverndarnefnd, lögreglu, héraðsdóm og Hæstarétt, og hvergi fengið undirtektir við þær ásakanir sem hún tíundar í viðtölunum. Hún hefur heldur ekki fengið neinn hljómgrunn fyrir ásökunum sínum í garð vina eða fjölskyldu barnsföður síns enda eru þær uppspuni frá rótum.
Þess ber að geta að dómstólar sáu tilefni til að nefna sérstaklega hversu neikvætt viðhorf Bergljót hefði gagnvart barnsföður sínum og að henni hafi ekki auðnast að leggja deilu þeirra til hliðar í því skyni að ná samkomulagi um hagsmuni og velferð barnsins. Viðtölin við hana þarf að lesa í ljósi þessarar afstöðu hennar.
Það er óásættanlegt að Bergljót og fjölmiðlar birti mynd af barnungri dóttur málsaðila og blandi barninu þannig óafvitandi í ofbeldisásakanir gegn föður sínum.
Svona umfjöllun meiðir og er ekki til þess fallin að byggja undir þá sátt sem æskileg er í umhverfi barnsins. Hún er ekki heldur til þess fallin til að skapa opna og trúverðuga umfjöllun um það mein sem að heimilisofbeldi er.
Komin er niðurstaða í langa og erfiða forsjárdeilu. Í fyrsta sinn í sögu Hæstaréttar hefur forræðisdeilu lyktað með dómsniðurstöðu um sameiginlega forsjá. Það hefur mikilvægt fordæmisgildi. Faðirinn mun ekki tjá sig um þessar ásakanir í fjölmiðlum, enda standast þær ekki skoðun og það bitnar á barni þeirra að halda umfjölluninni á lofti.
Mikilvægt er að þessar deilur séu lagðar til hliðar og að foreldrar gefi hvort öðru svigrúm til að sinna uppeldi barnsins og hafi hagsmuni þess að leiðarljósi.
Virðingarfyllst,
f.h. föður
Helga Vala Helgadóttir, hdl.“
Það er nefninlega það.
SJ
12.3.2015 kl. 11:30
Þakka góða grein. Svona greinar eru nauðsynlegt mótvægi við umræðuna í dag.
14.3.2015 kl. 1:31
Verði þér af því og takk sömuleiðis.
12.3.2015 kl. 20:11
Þetta er flott samantekkt og væri gott ef hún kæmi víðar.
14.3.2015 kl. 1:36
Það er held ég borin von að svona skrif birtist víða miðað við tíðarandann í dag þó nauðsynlegt sé. Það mun renna upp sá dagur að ,,við“ sjáum sjúkleikann í því að almennir fjölmiðlar líti á það sem hlutverk sitt að birta einhliða viðtöl við tálmunarmæður eða konur í forræðisdeilum. Því miður held ég þó að það sé nokkuð langt þangað til.
12.3.2015 kl. 20:42
Takk fyrir þetta, Sigurður. Gott framtak.
Búinn að sakna þín undanfarna mánuði 🙂
14.3.2015 kl. 1:36
Ég saknaði þín líka 😉
12.3.2015 kl. 22:23
Mjög góð samantekt á þessu máli. Gaman að sjá aftur greinar frá þér.
14.3.2015 kl. 1:38
Takk. Tók mér gott frí að þessu sinni.
13.3.2015 kl. 11:04
Hrokinn er slíkur í þessum skrifum þínum að mér fallast hendur !
Ég hefði átt að hætta að lesa þennan viðbjóð á annari málsgrein en það voru einhverjar hvatir sem drifu mig áfram í að klára þennan lestur.
Þér er búið að takast að láta mig bjóða þér á kaffihús einhverntíman þegar þú hefur tíma og ég vill endilega að þú horfir í augun á mér og segir þetta allt við mig.
Hefur þú áhuga ? Hvenær ?
Kv Maríanna Pálsdóttir
14.3.2015 kl. 1:30
Velkomin Maríanna og takk fyrir innleggið.
Ég er hreint ekki viss um að þú hefðir gott af kaffibolla.
13.3.2015 kl. 11:12
Svo vill til að ég hef rannsakað þetta mál í hörgul, þ.á m. öll málsgögn. Í fyrsta lagi ber að geta að hvorki barnavernd né dómstólar hafa fengið ofbeldismálið í hendurnar og hvorugur aðilinn hefur komist að neinni niðurstöðu um ofbeldi. Í forsjárdeilu aðila fjölluðu dómstólar afar léttvægt um ofbeldið og dæmdu sameiginlegt forræði, þar sem ekki þótti líklegt að faðir barnsins myndi ráðast að móður þess í framtíðinni.
Í yfirlýsingu föður kemur fram að dómstólar hafi komist „ að þeirri niðurstöðu að engin gögn lægju fyrir um ætlaða ofbeldishegðun barnsföður hennar“. Þetta er fjarri sanni, enda fjölmörg gögn til staðar. Þeirra á meðal eru tölvupóstsamskipti aðila á meðan á hjónabandi stóð. Þar segist móðir vera sár yfir því að hann hafi ráðist á sig og niðurlægt þegar hún var ólétt. Móðir segir: „Þú braust mjög alvarlega gegn konu og litlu barni.“ Faðir svarar: „Ég axla fulla ábyrgð á því sem ég gerði og er í meðferð út af því. Þú þarft ekki að gera neitt, bara gefa mér tíma til að vinna úr þessum málum.“
Á öðrum stað segir faðir: „Ég hef hugsað mikið, iðrast meira og lagt mikið land undir fót til að ég missi aldrei stjórn á mér aftur.“ Á enn öðrum stað segir faðir: „Ég mun aldrei leggja hendur á þig aftur.“
Meðal gagna er einnig staðfesting á því að faðir sæki ofbeldismeðferð hjá félaginu Karlar til ábyrgðar, sem er sálfræðimeðferð niðurgreidd af ríkinu fyrir karlmenn sem hafa beitt heimilisofbeldi.
Meðal gagna er einnig áverkavottorð frá lækni, sem lýsir 10×10 cm marbletti eftir hnefa föðurins, eftir eitt þeirra ofbeldistilvika sem hann viðurkennir bersýnilega í tölvupóstsamskiptum.
Jafnframt eru gögn um að móðir hafi sótt skjól og meðferðir hjá Kvennaathvarfi, framburður vitna sem sáu móður brotna saman skömmu eftir ofbeldistilvik og segja frá atburði og fleira.
Þess má geta að faðirinn er „mannréttindalögfræðingur“ og „viðskiptasiðfræðingur“. Á yfirlýsingunni sést vel hans sérgrein; að koma fyrir sig orði á sannfærandi máta.
Hvort rétt hafi verið að birta myndir af barni er allt annað mál, sem föður virðist með yfirlýsingu sinni takast að gera að aðalatriði. Myndbirtingin má vel vera umdeild, en úr viðtölum við móður má lesa að tilgangur hennar sé tvíþættur: Annars vegar að auka líkurnar á að barnið þekkist og letja þar með föður til að setja barnið í vafasama pössun, og hins vegar að styrkja þá ábendingu að ofbeldisbrot gegn foreldri barns að því viðstöddu, barnungu, teljist ekki brot á hagsmunum barnsins í núverandi lagaumhverfi.
Að mjög vel ígrunduðu máli sýnist mér yfirlýsing föður vera skjal þar sem ofbeldismaður kemur fram, nafnlaust, og hampar íslenska réttarkerfinu. Undri hvern sem vill.
13.3.2015 kl. 15:21
Ég hef verið lögfræðilegur og sálfræðilegur ráðgjafi föðursins. Ég þekki því málið vel og finnst ég knúinn til að svara SDJ.
Dómstólar ítarlega í gegnum þau gögn og persónulegu pósta sem að þú gefur þér leyfi til að birta úr. Þau snúa öll að einu tilviki sem átti sér stað löngu áður en þau skildu. Barnsfaðirinn var þá kominn útí horn og brást illa við þegar Bergljót „lét ljót orð falla í hans garð“, eins og segir í dóminum. Hann sá strax eftir því og tók á því af ábyrgð eins og þú bendir á.
Þetta eina tilvik gerir hann ekki að ofbeldismanni né gefur Bergljótu rétt til að reyna að eyðileggja orðstír hans eða ráða ein högum barns þeirra.
Það að sýna myndir af barni í svona umræðu telst lögbrot í mörgum nágrannalanda okkar og er aldrei réttlætanlegt. Breytir engu þar um þó að tilgangur móðurinnar hafi verið að stýra í gegnum fjölmiðla hvar faðirinn setur barnið í pössun – óneitanlega sérstök aðferð til þess – eða að vinna að málstað sem að henni hugnast. Foreldrar eiga að vernda börn sín fyrir svona átökum, ekki setja þau í fremstu víglínu.
13.3.2015 kl. 15:36
SDJ.
Ég er forvitinn á þennan texta þinn. Mig langar að spyrja þig spurninga og gaman væri að sjá svörin frá þér.
Þú segir að myndbirtingin sé gerð til „að letja föður til að setja barnið í vafasama pössun.“
Var faðirinn að setja barnið í vafasama pössun? Ef málið er ótti af föður og hans meinta ofbeldi, þá skil ég ekki afhverju pössunin sé vandamál né að það komi forræðisdeilu um barn við.
Næsta er. Er það rétt gagnvart barninu að blasta því fram í opinn almenning? Hvers á barnið að gjalda? Ef ég skil svona deilur rétt, þá á það að vera hlutverk foreldra og forráðamanna að gera sitt allra ýtrasta að hlífa börnunum við svona hörku og deilu. Með svona myndbirtingu er verið að svifta barninu þessu nauðsynlega skjóli sem það þarf.
Faðir gengur við að hafa farið of langt, hann staðhæfir að hann hafi farið og sótt sér hjálpar með það. Maðurinn gengst við því og leitar sér hjálpar. Þú notar það gegn honum. Ég átta mig ekki á því hví þú gerir svona lítið úr því að manneskja betrumbætir sig og gengst að sínum parti í, að því virðist, mjög harðri deilu.
Á hvaða tímapunkti myndi það henta þér að samþykkja það að manneskja hafi bætt sig svo hægt sé að ræða þetta alvarleg mál eins og fullorðinn einstaklingur?
Ég persónulega hef einnig farið of langt í sumum þeim málum sem standa mér næst og sagt hluti sem betur hafa verið ósagðir. Ég gengst við því og axla ábyrgð. Í eðlilegu samfélagi myndi slíkt flokkast undir það að vera jákvætt og uppbyggilegt skref. Þú keyrir það í svaðið í þessum pistli þínum.
Svo í lokin, (Fyrst þú ert með meiri upplýsingar um þetta mál en við hin), hvernig stendur á því að hvorki hjá barnavernd, héraðsdómi eða hæstirétti, var lögð ofuráhersla á þetta meinta grófa ofbeldi sem Bergljót vill meina að hafi átt sér stað? Miðað við magnið af ofbeldismálum sem koma á borð þessara ofangreindra stofnana, þá virðist vera að allir hafi buxurnar niðrum sig hvað frásögn Bergljótar varðar. Ég á erfitt með að skilja að staðreyndum sé bara sópað til hliðar vegna þess að maðurinn er lögfræðimenntaður og sé góður að tala. Við höfum fullt af siðblindingjum sem þessar stofnanir þurfa að umgangast og dæma, árlega.
13.3.2015 kl. 23:24
Til Réttar:
Faðir gefur ærið tilefni til að birt séu orð hans í tölvupósti með því að ljúga röngum sakargiftum upp á Bergljótu í nýjustu yfirlýsingunni.
Nei, dómstólar fjölluðu alls ekki ítarlega um gögn sem varða ofbeldið, heldur afgreiddi héraðsdómur ofbeldið í einni málsgrein og sagði það ekki sitt að skera úr um hvort ofbeldi hefði átt sér stað.
Nei, þau snúa ekki öll að einu tilviki. Í tölvupóstum viðurkennir hinn nafnlausi faðir augljóslega tvö tilvik; annað þegar Bergljót var ólétt og hitt þegar barnið var eins árs gamalt. Alls kærði Bergljót þrjú ofbeldistilvik.
Faðirinn gengst við einu tilviki fyrir dómi, enda ekki annað hægt vegna gagnanna. Það gerir hann eins vægt og honum er frekast unnt. Gögnin sýna hins vegar ljóst að ofbeldið var af mjög alvarlegum toga. Þess má geta að framburður Bergljótar hefur í hvívetna verið á eina lund og í samræmi við öll málsgögn, en framburður föður er misvísandi í tölvupóstum, fyrir dómstólum, í yfirheyrslum hjá lögreglu og loks í nýjustu yfirlýsingu hans og í hrópandi ósamræmi við gögnin. Í nýjustu yfirlýsingunni hverfur hann t.a.m. skyndilega frá áðurnefndri viðurkenningu og ber á Bergljótu að ljúga upp á sig ofbeldið.
Eins og ég sagði má myndbirting barnsins vel vera umdeilanleg. Hún er hins vegar smánarlegt aukaatriði, sem faðir reynir (og tekst) með yfirlýsingu sinni að gera að aðalatriði, Bergljótu til niðrunar og sjálfum sér til upphefju (sem er hans augljósasta markmið).
Til Sindra V:
Já, faðir hafði barnið í afar umdeildri pössun sl. sumar. Ég efast um að nokkru foreldri hugnist vel að frétta af fjögurra ára dóttur sinni í sundi með tæplega fimmtugum manni sem það þekkir engin deili á (og eftirfarandi atburðir gáfu stranglega tilefni til áhyggna). Að öðru leyti um barnið vísast í framangreint.
Gott væri ef faðir gengist við ofbeldinu, eins og þú segir. Fyrir dómi gerir hann það að eins litlu leyti og hann kemst upp með, en dómurinn er birtur án nafna aðila og hlaut enga almannaathygli. Í yfirlýsingu sinni, sem hann birtir í nafnleysi og fær gríðarlega fjölmiðlaútbreiðslu, viðurkennir hann hins vegar alls ekki neitt ofbeldi, heldur segir að ásakanir Bergljótar séu uppspuni frá rótum og að dómstólar hafi komist „að þeirri niðurstöðu að engin gögn lægju fyrir um ætlaða ofbeldishegðun barnsföður hennar“. Með þessum lygum og rangfærslum ber maðurinn þungar sakir á Bergljótu, en rangar sakargiftir hafa næsthæstan refsiramma allra glæpa hegningarlaga.
Yfirlýsing föður gefur ærið tilefni til að fletta ofan af lyginni sem í henni felst og setja fram upplýsingar úr þeim gögnum, sem hann segir ekki vera til. Hann hefur svo sannarlega ekki axlað ábyrgð gjörða sinna, heldur eys hann úr fylgsni sínu aur yfir Bergljótu og málstað hennar með því að væna hana um ósannsögli og lygar. Réttlætanlegt hlýtur að vera að sýna fram á þá misgjörð hans umfram að hampa honum sem hetju.
Varðandi lokaspurningu þína: Bergljót tilkynnti ofbeldið til lögreglu á meðan á hjónabandi stóð, en treysti sér þá ekki til að kæra manninn sinn. Lögregla sá ástæðu til að tilkynna þetta til barnaverndar, vegna eðlis brotanna. Barnavernd kallaði móður og föður til viðtala hvort í sínu lagi (ath. að það var ekki móðir, heldur lögregla sem tilkynnti ofbeldi til Barnaverndar). Barnavernd sá ekki ástæðu til að fara með málið lengra, því hún taldi fullvíst að faðir væri ekki lengur inni á heimili barnsins.
Fyrningarreglur hegningarlaga komu í veg fyrir að ákært yrði vegna ofbeldisins og því fengu dómstólar það ekki til meðferðar. Bergljót hefur sagt aðra meginástæðna þess að hún stígur fram einmitt þá að hún vilji hvetja til breytts lagaumhverfis um heimilisofbeldi, einkum hvað varðar fyrningu.
14.3.2015 kl. 0:29
Ég veit ekkert um þetta mál og ætla því ekki að tjá mig um það. Hins vegar finnst mér ríkja í þessum pistli viss misskilningur sem er nauðsynlegt að uppræta. Hugtakið „feminismi“ felur ekki í sér þá skilgreiningu að femínistar hati karlmenn eða vilji almennt karlmönnum illt. Það er vissulega rétt að sumar konur sem skilgreina sig sem feminista hafa vissa andúð á karlmönnum og verða þær að eiga það við sig. Ég sem feministi og kona neita hins vegar að láta draga mig í dilka með slíku fólki. Það verður að gera greinarmun á því hvað hugtakið feminismi stendur fyrir og hvað fólk sem telur sig feminista stendur fyrir prívat og persónulega…
Að því sögðu vil ég benda á að það eru vissir hópar í samfélaginu sem telja að konunni eigi alltaf að trúa í svona málum því það gerist svo sjaldan að þær séu að ljúga. Fyrir mitt leyti þá er enginn í áskrift að trúverðugleika hjá mér, karlmenn ljúga og konur ljúga, þannig erum við gerð, því miður…
En já, ef þú vilt ná eyrum fleira fólks þá held ég að þú ættir að sleppa þessum „feministar eru vont fólk sem hatar karlmenn“ staðhæfingum…
14.3.2015 kl. 1:29
Velkomin Elva og takk fyrir kurteislega framsett innlegg.
Það vill brenna við að fólk taki skrifum mínum þannig að ég sé að alhæfa um alla femínista en það er þó ekki svo.
Hér er aðeins gagrýndur sá armur femínisma sem gerir kröfu um meira en jafnrétti og/eða elur á karlfyrirlitningu. Heiti vefsvæðisins er einmitt tilraun til að undirstrika að ég er alls ekki að alhæfa um alla femínsta eða að blammera femínisma í heild sinni. Ég rek þetta ágætlega undir síðunni ,,Um bloggið“.
Ég skil hvað þú ert að fara með að aðgreina hvað femínismi stendur fyrir annarsvegar og hvað einstakir femínistar standa fyrir hinsvegar. En eins og málið horfir við mér þá hefur femínistahreyfingin verið yfirtekin af brjálæðingum (þessum fámenna en háværa hópi) og ég er alls ekkert einn um þá skoðun.
Ég myndi líklega sjá þetta eins og þú ef forréttindafemínistar væru færri eða ef ég sæi einhverja tilhneygingu innan hreyfingarinnar í þá veru að úthýsa fasískum og hatursfullum áróðri forréttindafemínista.
16.3.2015 kl. 14:25
Þakka þér fyrir þessi skrif og fleira sem hefur komið fram á þessari síðu.
Ég las þetta viðtal og fannst sumt í frásögn hennar á einhvern hátt skrítið. Ég var einmitt að hugsa, finnst engum neitt athugavert við svona frásagnir? Ég bjóst ekki við að neinn hefði kjark til að benda hið augljósa.
Ég hef misst trú á Stundinni sem fjölmiðli, samt ekki bara út af þessari grein. Allt of hlutdrægur/pólitískur miðill fyrir minn smekk, eins og fleiri fjölmiðlar hér á landi.
Umræðan í fjölmiðlum hér á landi einkennist á því aðeins er fjallað um vondu ofbeldiskarlana eða vafasömu feðurna. Það nýtur samúðar en það er ekki rétt mynd af stöðu mála.
Nýlegar erlendar rannsóknir sýna að konur eru líklegri en karlmenn til að beita ofbeldi í nánum samböndum. Eldri rannsóknir sýna álíka niðurstöður. Ólíklegt er að slíkar rannsóknir verði gerðar hér á landi, miðað við ástandið í jafnréttismálum á Íslandi.