Bleikt.is: Fimm ástæður þess að karlmenn eru óþarfir

19.1.2014

Blogg

Ég ætlaði vart að trúa mínum eigin augum þegar ég las grein sem mér var bent á núna skömmu eftir áramót. Greinin birtist á vefnum bleikt.is þann 3. janúar sl. og er að hluta til þýðing upp úr grein eftir Hanna Rosin, sem færði okkur bókina The End of Men and the Rise of Women.

Rosin þessi aðhyllist hugmyndir um að konur ættu að vera körlum æðri í samfélagi manna og segir konurnar í fjölskyldu sinni hafa fóstrað þetta viðhorf. Á vef sínum segir Rosin m.a um þetta:

„I come from a long line of matriarchs, women who either ruled over their husbands, or ran away from them. My mother is an intimidating figure. She has always served as the neighborhood watchdog, taking on bullies and running the co-op board with an iron fist. If you met her, it would be obvious why I was open to possibility of female dominance, because she embodied it long before it became the defining trend of our era“

Íslenska greinin ber yfirskriftina Fimm ástæður þess að karlmenn eru óþarfir og það er ritstjórn sem er skrifuð fyrir þessu skólpi. Ritstjóri bleikt.is er Hlín Einarsdóttir.

Í skrifum sínum segir Hlín grein Rosin ,,bráðskemmtilega“ og ,,umhugsunarverða“. Svo uppnumin var Hlín af þessum soraskrifum Rosin að hún gaf út þýðingu á greininni aðeins degi eftir að hún birtist fyrst á vef Time Magazine. Karlfyrirlitningin sem opinberast skrifum Rosin, og þýðingu Hlínar, er slík að umfangi að ég sé ekki hvernig ég á að gera annað en að birta þýðinguna í heild sinni hér:

„Eru karlmenn bókstaflega óþarfir? Auðvitað ekki og ef við þyrftum að sanna það myndum við aldrei vinna. Til dæmis höfum við ekki enn fundið leið til að komast yfir sæði án þeirra, þið vitið, lifandi sæði.

Til að sigra þessa rökræðu verðum við að sanna að karlmenn, eins og við skilgreinum þá í sögulegum skilningi – réttbornir til valda, ætlað að vera leiðtogar, hrokafullir, ringlaðir yfir öllu sem er ekki þeir, sem dæmi um það má nefna: „Ég skil ekki. Er þetta strákur klæddur sem stúlka? Eða stúlka klædd sem strákur?“ séu óþarfir.“

Svona hefst grein eftir Hanna Rosin sem birtist á vef Time og hefur vakið töluverða athygli enda bráðskemmtileg og umhugsunarverð. Hún heldur síðan áfram:

Fyrir langa löngu, þegar karlmenn fóru á veiðar voru konurnar heima til að þurrka rykið af í hellinum, safna berjum og ala upp loðin börnin. Þetta er saga sem við höfum sagt okkur sjálfum í tugi þúsunda ára til að útskýra hvers vegna karlar stjórna heiminum á meðan konurnar eru dæmdar til að vera hitt kynið, („líffræðilega óhæfar til forystu“ segir núverandi forsætisráðherra Ástralíu). Eftir rúmlega einnar aldar efnahagslegan framgang og nokkra áratugi samdráttar er orðið augljóst að þessi saga er ekki lengur sönn, ef hún var það þá nokkurn tímann. Þetta eru ástæðurnar:

Eitt: Karlmenn eru óþarfir því þeir bregðast á vinnustaðnum.

Á síðustu áratugum hafa tekjur karlmanna dregist saman hægt og rólega en tekjur kvenna hafa hækkað. Á síðasta ári vann einn af hverjum fimm körlum ekki, eitthvað sem hagfræðingar segja vera mesta félagslega vandann sem við glímum við. Að hluta er þetta vegna þess að hagkerfin eru að breytast en karlarnir ekki. Um leið og framleiðsluiðnaðurinn breytist í þjónustu- og upplýsingaiðnað ná karlarnir ekki að laga sig að breytingunum eða verða sér úti um þá hæfni sem þarf til að ná árangri.

Á sama tíma færast konurnar í hina áttina. 2009 urðu þær í fyrsta sinn í sögunni fleiri en karlar á vinnumarkaðnum. Nú eru meðaltekjur kvenna undir þrítugu í Bandaríkjunum hærri en meðaltekjur ungra karla, þetta er mjög mikilvægt því þetta sýnir hvernig framtíðin mun verða.

Að karlmenn eru óþarfir er tilkomið vegna þess að þeir standa sig ekki í skóla en konur gera það.  Í næstum öllum löndum, í öllum heimsálfum nema einni, eru konur um 60 prósent þeirra sem útskrifast úr háskóla en það er menntun sem til þarf í dag til að ná árangri.

Margir strákar dragast aftur úr strax í fyrstu bekkjunum og ná ekki að vinna það upp. Margir karlar álíta skólagöngu vera tímasóun, stelpulegan.

Tvö: Karlmenn eru óþarfir þar sem þeir eru ekki lengur nauðsynleg fyrirvinna heimilanna.

Í fyrsta sinn í sögunni eru konur um allan heim að giftast niður fyrir sig, það er giftast körlum sem eiga minni framavonir en þær. Nú er svo komið að í um 40 prósent hjónabanda eða ástarsambanda í Bandaríkjunum þá hefur konan hærri laun en karlinn. Ekki er langt síðan þetta var mjög sjaldgæft. Þá eru ótaldar einstæðu mæðurnar sem stýra sínum eigin fjölskyldum og sjá alfarið fyrir þeim.

Konur eru í ótalmörgum stjórnunarstöðum í fyrirtækjum sem hefðu verið lokuð fyrir þau hér áður fyrr. Konur gegna embættum forsætisráðherra í fjórum stærstu fylkjum Kanada, rektor Harvard háskóla er kona, framkvæmdastjóri Facebook er kona, stjórnarformaður bandaríska Seðlabankans er kona og einnig framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en Christine Lagarde tók við því embætti eftir enn eina glæsiframmistöðu nútíma karlmanns.

En af hverju eru ekki fleiri konur stjórnarformenn eða forsetar? Í því sambandi er rétt að benda á að það eru aðeins fjórir áratugir síðan konur fóru að komast til valda en karlar hafa haft 40.000 ár til þess. Miðað við það er framgangur kvenna mikill og hraður.

Þrjú: Í lægri stéttunum og miðstéttunum er vel sýnilegt hversu óþarfir karlar eru.

Þegar ég tala á samkomum í háskólum um hvarf karlanna finnst konunum sem sækja fyrirlestrana það algjörlega augljóst sem ég segi. Verkamannastéttinn finnur mest fyrir því hversu óþarfir karlarnir eru því það eru karlar sem missa vinnuna og viljan til að eiga börn og konurnar gera allt einar og búa í rauntil mæðraveldi. En af hverju giftast þessar konur ekki barnsfeðrum sínum eða búa með þeim? Því er best svarað með því sem margar konur segja mér: „Hann yrði bara enn einn munnurinn til að metta.”

Fjögur: Karlar eru óþarfir því þeir hafa glatað einkarétti sínum á beitingu ofbeldis og yfirgangs.

Konur hafa öðlast meira kynferðislegt sjálfstraust og eru orðnar ágengari og ofbeldisfyllri, bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt, þær fara í stríð, í fangelsi og eins og alvöru húsmæður í New Jersey berja þær alla þá sem slá drykk úr höndum þeirra.

Fimm: Þetta eru endalok karlmanna því þeir eru líka helteknir af líkamshárum sínum.

Í óborganlega skemmtilegri bók sinni lýsir Caitlin Moran þeirri erfiðisvinnu sem það er að vera kona, til dæmis því hversu óásættanlegt það er að vera með hár annarsstaðar en á höfðinu.

Að vera óþarfur þýðir ekki að viðkomandi sé einskis virði. Það þýðir að vera úreltur. Tvígengisvélin gerði reiðhjólin óþörf en það þýðir ekki að við hötum reiðhjól. Við notum þau bara eins og við viljum en viðurkennum um leið nauðsyn hagkvæmni og breytinga. Við þurfum ekki að breyta körlunum í geldinga. Við getum varðveitt allt það sem við viljum um karlmennskuna en aðlögum sumar skilgreiningar því sem heldur aftur af karlmönnum.

„Þegar ég hugsa um heiminn eftir að karlar verða óþarfir, hugsa ég um heiminn sem sonur minn mun erfa, þar sem hann getur ef honum sýnist svo farið með börnin sín á leikvöllinn klukkan 3 síðdegis á þriðjudegi án þess að nokkur líti hann hornauga og hugsi hvort hann sé atvinnulaus eða að hann sé algjör aumingi. Fólk muni bara ganga framhjá honum og ekki gefa honum neinn gaum. Hann geti verið hann sjálfur í nýjum heimi,“ segir Rosen að lokum.

Ég held að það þurfi ekkert að hjálpa fólki að sjá hvað er bogið við svona skrif og það að dreifa þeim áfram. Það hlýtur einfaldlega að blasa við öllu venjulegu fólki. Ég vil þó nefna eitt í þessu sambandi: Þessi skrif birtast okkur mitt í öllu væli forréttindafemínista um að hatursorðræða sé kynbundið vandamál sem bitni sérstaklega á konum.

Konur verða vissulega fyrir hatri/fyrirlitningu sem grundvallast á kynferði þeirra af hálfu einhverra karla en það sama má segja um karlmenn. Ég er með tilgátu sem ég get þó ekki sýnt fram á með gögnum en ég held að kvenfyrirlitning birtist okkur einkum í athugasemdum vanstilltra einstaklinga undir fréttum og slíku á meðan karlfyrirlitningu er fjölmiðlað af miðlum eins og bleikt.is o.fl. við mikinn fögnuð kvenna sem hata karla.

Aðspurð hvernig henni dytti í hug að standa fyrir þýðingu og útgáfu á hatursskrifum eins og þeim er birtast í greininni sagði Hlín Einars þetta:

„Sæll. Hvernig færðu það ut? Hefur þú lesið greinina?
Kv
Hlin“

Maður er bara tekinn á heimaskítsmáti.

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

10 athugasemdir á “Bleikt.is: Fimm ástæður þess að karlmenn eru óþarfir”

  1. Eiríkur Stefánsson Says:

    Ég las þessa grein og manni fallast hendur, hversu endalaust er hægt að tala skít um karlmenn og finnast það í lagi, einstakar setningar í greininni eru svo fyrirlitlegar að ég tel greinina jafnvel verða það grófa að um hreint hatur sé að ræða og mætti skoða með að kæra þetta fyrir það hatur sem það augljósleg er.

    Hvað ef að menn.is myndi birta grein þar sem við ræktum bara karla í klónuðum legum eins og í Brave New World, engin þörf á konum að því að þær geta ekkert einar og sér, verða alltaf að fá reglur og takmarkanir á karla og þurfa svo mikið af styrkjum til að framfleita sér að það er ódýrara fyrir skattborgandi karla að notast við ræktuð börn.

    Það verður eiginlega að skrifa svona andstæðu því þetta er ekki boðlegt lengur.

    Eiríkur.

    • Sigurður Says:

      Já, þetta er nú með hressilegri hatursgreinum sem ég hef séð lengi, a.m.k. meðal greina á íslensku.

      Sjálfur vil ég þó seint setja lög á svona skrif á meðan þau ekki beinast að æru einstaklings. Ég trúi því að það væri óheillaþróun. Sama óheillaþróun og það væri að veita samskonar hugmyndum forréttindafemínista brautargengi um bann við andfemínískri orðræðu.

      Svona skrif dæma sig sjálf og eru að því leytinu gagnleg að þau sýna að hatursorðræðuvæl forréttindafemínista er ekkert annað en einmitt það; væl.

  2. Geiri Says:

    Ég vil líka benda á eitt sem hefur verið að byrtast síðust árinn.
    Auglýsingarnar ( sérstaklega á erlendum sjónvarpsstöðvum) þar er vitlausi karlinn og gáfaða konann mikið í sviðsljósinu, farið að minna á hálfnöktu dömurnar að selja bíla í gamla daga. þar er mjög mikið hamrað á heimsku, óheppni, klaufaskap og að fara í taugarnar á konunni.
    Það er farið að bera svo mikið á þessu að mér er farið að hætta að lítast á blikuna.

  3. spyrill Says:

    Mig langaði að spyrja þig hvort þetta sé líka dæmi um forréttindafemínisma?
    http://knuz.is/2013/05/29/33-astaedur-fyrir-thvi-ad-vid-thurfum-feminisma/
    Ég veit ekki um neinn sem samþykkir ofbeldi, en hvernig er hægt að leysa það vandamál?

    • Geiri Says:

      ég sé þetta ekki sem fórrétindafeminisma. þetta er mannréttinda baráta. en grein sem kallast „Fimm ástæður þess að karlmenn eru óþarfir“ er allt annað mál og ummæli þín eiga þar með ekki við í þessu samhengi. Að skella þessu sem rök í þessu máli er svipað og oft virðist einkenna það fólk vill kalla „forrétindafeminisma“.

  4. Sveinbjörn Hjörleifsson Says:

    Þið verðið að fara að ná ykkur í einhvers konar snefil af íróníu og kaldhæðni og geta lesið á milli línanna.

    Þessi grein, sem ég hef lesið í heild sinni á ensku, er paródía á ákveðna umræðu og ætti ekki að taka of bókstaflega. Þetta er í rauninni mjög fyndin grein ef maður les á milli línanna í henni.

    Ég hef við og við gagnrýnt ákveðin aspekt af femínisma. Til dæmis er ég sammála því sem hefur verið ritað á þessa síðu að það er eitthvað verulega bogið við viðbrögð ákveðins fólks og sérstaklega íslenskra stjórnvalda í brottnámsmáli Hjördísar Svan. Þótt ég sleppi því að taka afstöðu með eða á móti hvorugu foreldrinu þá finnst mér íslensk stjórnvöld vera að gera sitt allra besta til að búa til einhvers konar mannlegan harmleik.

    Þetta er hins vegar ekki gott dæmi að taka um einhvers konar öfgafemínisma. Þið hafið ruglað saman alvöru hlutnum og paródíu á hann.

    • Eiríkur Stefánsson Says:

      Sveinbjörn, það var sett af stað paródía á netinu, mjög illa gerð og augljósalega rugl, það var nákvæmlega engin húmor fyrir henni og þetta er búið að viðgangast svo lengi að jarðvegurinn getur bara ekki ræktað svona paradíu eftir allan ágangi seinust ár.

    • Sigurður Says:

      Velkominn og takk fyrir innleggið Sveinbjörn.

      Æi, ég veit það ekki. Myndi ég komast upp með að skrifa svona grein um konur og ætlast til þess að þær sæju íróníu og kaldhæðni í skrifunum? Ég held ekki. Raunar held ég að ég myndi, með því, frekar mála mig út í horn og það með réttu.

      Ég velti þessum íróníuvinkli fyrir mér þegar ég fékk, að mér fannst, ótrúlegt svar frá ritstjóranum en komst að þeirri niðurstöðu fyrir mig að ég sæi ekki íróníu í þessu. Hanna Rosin er jú réttnefnd kvenremba eins og önnur skrif hennar um sig sjálfa staðfesta.

      Það að velta upp spurningunni hvort karlmenn séu ,,óþarfir“ er að hlutgera karla og lýsir fyrirlitningu á þeim. Erum við tæki til að auðvelda konum lífið? Af hverju skyldir þú verða óþarfur undir nokkrum kringumstæðum? Er tilveruréttur þinn að einvherju leyti háður því að þú gagnist einhverjum öðrum s.s. konum? Ég bendi á að þrjár af ástæðunum fimm í greininni á Bleikt tengjast meintu minnkandi aflahæfi karla í samanburði við konur.

  5. Karl Smart Says:

    En að kæra Hlín fyrir að birta hatursskrif á netinu.

    • Sigurður Says:

      Ég er fylgjandi takmörkunum á tjáningarfrelsi þegar um er að ræða ærumeiðingar sem beinast að einstaklingum.

      Ég er alls ekki fylgjandi almennum takmörkunum á tjáningarfrelsi eins og að skilgreina bann við hatursskrifum gegn hópum eða þvíumlíkt. Ég er þeirrar skoðunar að samfélagið sé fyllilega í stakk búið til að takast á við hatursskrif án þess að setja þurfi um það lög. Slík lög eru gjarnan misnotuð af þeim hópum sem þeim er ætlað að vernda og færa okkur nær samfélagsskipan sem ég er alls ekki hrifinn af. Ég bendi á að forréttindafemínistar eru um þessar mundir að vinna að því að andfemínísk orðræða verði bönnuð. Það gæti þýtt að þau skrif sem birtast hér á þessum vef verði bönnuð. Viljum við það?

      Þau skrif sem Hlín ákvað að birta á vefnum bleikt.is koma sér langverst fyrir hana sjálfa og aðstandendur síðunnar sem hún ritstýrir.

%d bloggurum líkar þetta: