Sambönd: Konur þurfa að hætta að haga sér eins og asnar svo við viljum þær

14.1.2014

Blogg

Glannaleg fyrirsögn ekki satt? Jafnvel til marks um yfirlæti, fordóma og vanþroska þess sem skrifar, myndu margir eflaust segja.

Fred karlinn að fara í taugarnar á henni Vilmu sinni.

Fred karlinn að fara í taugarnar á henni Vilmu sinni.

Ég hef þó enga tölu á hve oft ég hef lesið fyrirsagnir þar sem talað er niður til karla með svipuðum hætti. Þetta gerist í greinum kvenna sem telja sig þess umkomnar að gefa öðru fólki ráð um hvernig það á að haga sér á stefnumótum og í tilhugalífi almennt. Froðan sem á eftir kemur er jafnan af sama meiði og það má vel spara sér lestur allra þessara greina með því að lesa og meðtaka eftifarandi: ,,Þið karlar þurfið að vera meira svona og minna hinsegin og tríta okkur eins og prinsessurnar sem við erum, þá verður allt í lagi“. Ég kalla þetta stundum einmitt prinsessuheilkennið.

Ég fékk nýlega senda ábendingu um svona grein sem er nú með kjarnyrtari fordómagreinum af þessari sort sem ég hef séð lengi. Hún birtist á vefsvæðinu pjatt.is undir yfirskriftinni: ,,Karlmenn þurfa að læra að tjá sig betur“. Greinin er skrifuð af Önnu Birgis. Konu sem lýsir sér sem sjálfstætt starfandi dúx úr skóla lífsins. Við skulum renna yfir greinina saman.

Eftir afleita tilraun til að hvítþvo sig af þeim kynjafordómum sem á eftir koma, hefst greinin  með orðunum:

,,Við erum nokkar vinkonur sem eru á aldrinum 30 – 55 ára og margar á lausu. Og það er sama sagan hjá okkur öllum, virðist ekki skipta máli hver aldurinn er. Oft á tíðum skítleg framkoma sem minnir á Fred nokkrun Flintstone.“

Svona fyrir þá sem ekki vita er téður Flintstone persóna í teiknimyndaseríu fyrir börn sem fjallar um steinaldarmenn. Flestir ef ekki allir þættir um þessa fígúru ganga út á að hann gerir einhver heimskupör sem gáfaða konan hans, hún Vilma, þarf svo að greiða úr. Svo afburðagreind er Vilma, í samanburði við Fred, að yfirleitt gerir hann sér hvorki grein fyrir þætti sínum í að skapa vandamálið né því hvernig úrlausn þess er konu hans alfarið að þakka. Fyndnin snýst um það hvað hann er heimskur en hún gáfuð.

Greinarhöfundur víkur þá máli að íslenskum steinaldarmönnum sem virðast því að hennar mati að minnsta kosti læsir:

,,Strákar – það er víst árið 2013 núna. Það er ekki hægt að slá okkur í höfuðið með sleggu og draga okkur heim á hárinu. Sá tími er löngu liðinn og við viljum herramennskuna aftur í tísku takk.

Að vera samkvæmur sjálfum sér er eitthvað sem ansi marga karlmenn skortir. Þeir segja eitt og gera svo annað og jafnvel hafa samt meint þriðja hlutinn. Hvernig eigum við að halda í við þessa endalausu vitleysu?“

Fyrir íslenska steinaldarmenn hljóta svona ráðleggingar hreinlega að vera gulls ígildi. Af hverju er þetta efni ekki kennt í skólum!? Hversu margir okkar kannast ekki við það vandamál að illa gangi að laða konur til fylgilags við okkur með ofbeldi eða þjösnaskap?

Svo kemur greining sérfræðingsins á orsökum þess að áhugi karlmanns á konunni dvínar, eða bara að honum finnst sambandið vera að þróast of hratt fyrir sinn smekk, og lætur þá skoðun sína í ljós með orðum:

,,Karlmaður getur gengið á eftir þér með grasið í skónum í langan tíma en svo um leið og þú sýnir honum áhuga og gefur færi á þér þá er hann horfinn. Það er eins og þetta hafi bara snúist um að „veiða“.

Og annað, þú ert búin að vera að deita karlmann í smá tíma og þið hafið eytt nóttum saman og gert ýmislegt skemmtilegt. Einn góðan veðurdag segir hann alveg upp úr þurru:

„Þetta er svolítið mikið!“

Bein þýðing á þessu er: „Ég er hræddur, vill ekki binda mig og langar að sjá hvað fleira er í boði þarna úti.“

Bein þýðing sérfræðingsins hlaut auðvitað að vera á einhverja allt aðra lund en orð karlsins gefa beinlínis til kynna. Það er að sjálfsögðu með öllu óhugsandi að karlhelvítinu finnist konan einfaldlega ekki áhugaverð við nánari athugun eða  að hann hafi rétt á tilfinningum sínum þrátt fyrir að þær henti ekki konunni. Karlmaður sem sýnir þá ósvífni að bindast ekki fyrstu konunni sem hann hittir heitböndum, hlýtur auðvitað að vera eitthvað bilaður.

Höldum áfram:

,,Ég fékk að heyra það um sjálfa mig um daginn að ég gæfi of mikið af mér of fljótt. En ég er forvitin að vita – hvenær er eitthvað of fljótt?“

Svarið við þessari spurningu er skuggalega einfalt og hljómar svona: Þegar hinni manneskjunni finnst eitthvað vera of fljótt. Já, enn og aftur er vísbendinguna að finna í orðum karlsins sem finnst sambandið vera að þróast á hraða sem honum ekki hugnast, eða hefur orðið efasemdir um að hann vilji framtíðarsamband með konunni sem um ræðir. Ótrúlegt en satt.

Miðhluti greinarinnar finnst mér fanga þann hugarfarsvanda sem liggur að baki þeirri gremju sem greina má í svona skrifum. Í þessum hluta greinarinnar er orðum beint til kvenna. Hér eru konur hvattar til að vera nákvæmlega eins og þær eru eða vilja vera, en karlar aftur á móti lastaðir fyrir að vera eins og þeir ýmist eru eða vilja vera.

Ef svo óheppilega vill til að karlmaðurinn hafi aðrar væntingar til sambandsins en konan, þá á hann einfaldlega ekki skilið að vera með prinsessunni og er líklega ekki hinn eini rétti. Greinarhöfundur leiðir konur í sannleikann um það að ef samband endar, þá hljóti það að vera vegna þess að hann var ,,röng manneskja“ og betra hefði verið fyrir hana að ,,velja rétt“ í byrjun.

Undir lokin hefjast svo umvandanir greinarhöfundar í garð karla aftur:

,,Karlmenn þurfa að læra að opna sig og TALA

Ekki þegja það í hel þangað til búið er að mála sig út í horn og allt of seint að opna sig.

Þið verðið að læra að tjá ykkur.

Við konur er klárar og allt það og getum allt sem við ætlum okkur og viljum gera, en að lesa hugsanir er ekki einn af okkar ofur-kröftum eins mikið og við vildum geta það þá er það því miður ekki þannig“

Hér höfum við megininntakið í þeirri kynrembu sem einkennir þennan hugmyndaskóla. Fólk (konur) sem talar svona til karla virðist ganga út frá því að tjáningarmáti karla sé einhverskonar vandamál í sjálfu sér og að karlar eigi að tileinka sér máta sem hentar konum  betur. Það er þó vandséð hver sá háttur á að vera því eins og sjá má í grein Önnu, virðast þeir karlmenn sem voru tilefni þessara skrifa hennar hafa verið að gera einmitt þetta; að tala, að tjá hug sinn.

Það sem svo gerist er að greinarhöfundur tekur til við að gera það sem hún þó viðurkennir að hún sé ekki fær um; að lesa hugsanir. Þannig gerir hún sér upp hugmyndir um að orð karlsins þýði eitthvað allt annað en einföld framsetning þeirra gefur til kynna. Hér er ég að vísa til ,,beinna þýðinga“ greinarhöfundar á orðum sem ætti ekki að vera svo flókið að skilja.

Og nú má ég til með að skella inn tilvitnun í niðurlag greinarinnar sem sýnir öðru fremur þá kvenrembu sem hér liggur að baki:

,,Ef mér líkar við einhvern þá er ég ekki feimin að segja það upphátt við viðkomandi og annað, þegar stelpa/kona segir að henni líki við strák/mann þá meinar hún það frá öllu hjarta.

En þegar strákur og jafnvel karlmaður lætur falleg orð falla um konu þýðir það ansi oft: „Mig langar að ná þér í rúmið“

Svona greinar eru leiðinlega algengar og mæta furðulega litlum viðbrögðum þegar þær birtast fyrir þá fordóma og fyrirlitningu sem þær fela í sér. Grunnhugmynd þessarar froðu er að karlmenn séu konum óæðri. Þeir hafi ekki rétt á tilfinningum sínum – ef þeim er yfir höfuð ætlað að hafa einhverjar tilfnningar til að byrja með. Ef þeir vilja enda samband við konu þá hlýtur það að vera til marks um óheilbrigði eða óheilindi þeirra. Konur eru fullkomnar en karlar þurfa að breytast og verða meira eins og konurnar vilja því þær hljóta að vera einhverskonar viðmið um það hvað telst eðlilegt í samskiptum kynja og hvað ekki.

Og svo er hér fyrsta og vonandi síðasta ráð mitt til kvenna í makaleit sem birtist hér á þessum vef: Ef þið lítið á karlmenn með sama hætti og lagt er upp með í svona greinum, þá laðið þið að ykkur karla með litla sjálfsvirðingu og skapið ykkur þannig þau örlög sem þið vildu kannski helst forðast. Ef þið aftur á móti umgangist karlmenn af virðingu, þá munuð þið laða að ykkur karla sem bera virðingu fyrir ykkur.

Verði ykkur að góðu.

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

6 athugasemdir á “Sambönd: Konur þurfa að hætta að haga sér eins og asnar svo við viljum þær”

 1. Eiríkur Says:

  Ég hló upphátt við lesturinn, ég hef einmitt hugsað um þetta ótrúlega narsiska viðhorf kvenna, sjálfur fæ ég senda greinar frá minni eigin kærustu sem fjalla um hvernig aðrir karlar gera svona og svona til að gera konurnar sína hamingjusamar, ég er enn ekki búinn að treysta mér í umræðu um þessi mál við hana 🙂

  Annars er augljóst að konur virðast setja hamingju sína í hendur karlmanna og sýna mun minna sjálfstæði nema við sérstakar aðstæður og hvatningu, já þetta á að vera gamaldags viðhorf og ekki rétt en ég er ungur maður og ég get bara ekki betur séð en að þetta er málið miðað við það efni og nálgun feminismans á vandamálum kynjanna.

  Er þetta ekki komið aftur að því sem oft langar umræður enda á, jafnrétti feminisma innifelur ekki fórn á eldri forréttindum kvenna eða að hætta skal sjálfu fórnarlambsblætinu?

  Eiríkur Stefánsson

 2. Halli Says:

  Takk fyrir góða grein Sigurður.
  Mér þykir eitt atriði í skrifum konunnar skjóta verulega skökku við. Hún segir „Þeir segja eitt og gera svo annað og jafnvel hafa samt meint þriðja hlutinn. Hvernig eigum við að halda í við þessa endalausu vitleysu?“ og einnig „Við konur er klárar og allt það og getum allt sem við ætlum okkur og viljum gera, en að lesa hugsanir er ekki einn af okkar ofur-kröftum eins mikið og við vildum geta það þá er það því miður ekki þannig“.
  Bíddu bíddu, hefur það ekki verið almennt álit í árana rás að maðurinn sé rökhugsandi vera og segir (oft óþægilega) almennt hug sinn, á meðan konan, tilfinningaveran, gefur vísbendingar að því sem hún vill, sem karlinn á erfitt með að skilja, þar sem hann þarf að heyra hlutina sagða beint út? í gegnum árin hefur þessi atburðarás verið einmitt notuð í bröndurum, bókum, myndum og leikritum.
  Ég veit ekki um aðra karlmenn nema mig og vini mína, en þetta hefur einmitt oft valdið vandamálum í samböndum okkar að hugsanalesarinn okkar hefur ekki virkað eins og til var ætlast með þeim afleiðingum sem því getur fylgt.
  Hver kannast til dæmis ekki við að vera spurður af konu sinni hvort hún sé feit í þessum buxum og það er vitað mál að við megum ekki segja sannleikann um það, heldur virða hina alkunnu kröfu að fara framhjá sannleikanum eða ljúga til að halda friðinn.
  Ég vill taka það fram að ég geri mér fulla grein að konur/karlar hafa mismunandi hæfileika til hugsanalesturs og að tjá sig hreint út sem manneskjur, í þessu tilviki er ég að tala um almennann skilning í alhæfingar útgáfu.

 3. Grumpy old man Says:

  Ég er farinn að samfærast æ betur um það að eftirfarandi tilvitnun sé ekki svo vitlaus
  Pat Robertson describes Feminism so: “ The feminist agenda is not about equal rights for women. It is about a socialist, anti-family political movement that encourages women to leave their husbands, kill their children, practice witchcraft, destroy capitalism,

  Þetta stúlkubarn er greinilega upprennandi Hildur. L nr 2

  • Hrafnhildur Says:

   Nefndu mér einhver dæmi þess að Hildur hafi látið svona hluti, eins og Anna gerir, útúr sér. Ég mana þig.

 4. Þórdís Helga Says:

  Flott grein! Vert að vekja athygli á þessu, því þetta er því miður mjög algengt.

 5. Sigurrós Yrja Says:

  Góð lesning og þörf…! Er orðin þreytt á þessu kvenremburugli sem skýlir sér á bakvið feminisma, hugtak sem er einmitt og því miður löngu búið að afskræma… Takk fyrir mig… 🙂

%d bloggurum líkar þetta: