Bækur: The Morning After: Sex, Fear and Feminism

25.9.2013

Bækur

Roiphe_Katie_The_Morning_AfterKatie Roiphe, höfundur bókarinnar The Morning After: Sex, Fear and Feminism, er ekki fyrsta konan til að ofbjóða ást forréttindafemínista á fórnarlambshugmyndinni. Hún er heldur ekki sú síðasta.

Roiphe ólst upp við femínískan boðskap móður sinnar og hafði, þegar hún hóf námsferil sinn við Harvard Háskóla haustið ’86, þær fyrirfram mótuðu hugmyndir að femínismi væri jákvæður og valdeflandi fyrir konur. Við Harvard og síðar Princeton Háskóla gat, að hennar mati, að líta eitthvað allt annað. Ungar háskólastúdínur voru sem lamaðar af hræðslu og bókstaflega helteknar af ofsóknarhugmyndum um hættulega karlmenn. Roiphe fannst sem búið væri að endurreisa gildi og hugmyndir sem fyrri kynslóðir femínista höfðu verið að berjast gegn, hugmyndir um veiku, viðkvæmu konuna sem þyrfti vernda fyrir ógnum daglegs lífs.

Á þessum tíma stóðu bandarískir femínistar í ströngu við að troða sem flestum þáttum samskipta kynjanna undir hatt annars þekktra ofbeldishugtaka. Stefnumótanauðganir (e. date rape) og kynferðisleg áreitni voru þó sérstaklega í deiglunni. Karkyns háskólastúdentar voru á þessum tíma að byrja að upplifa menntastofnanir sem karlfjandsamlegar og fengu jafnvel í hendur leiðbeiningar frá skólayfirvöldum um hvernig þeir ættu að bera sig að við að stunda kynlíf með þessum viðkvæmu verum sem konur áttu að vera.

Þannig var þeim uppálagt að spyrja beinna og skýrra spurninga við hvert einasta skref kynmaka. Í stað þess að reiða sig á innsæi eða tilfinningu fyrir vilja og löngunum hjásvæfa sinna skyldu karlar spyrja spurninga eins og „má ég kyssa þig núna“ og „má ég hneppa frá blússunni þinni núna“ eins oft og þurfa þætti í aðdraganda kynmaka og meðan á þeim stóð.

Bókin er lýsing höfundar af upplifun sinni af námsárum sínum og því hvernig femínistar höfðu skapað andrúmsloft ofsóknaræðis og heiftar, heiftar út í karlmenn og vandamál sem að stórum hluta virtist ímyndað. Í þessu andrúmslofti femínískrar heterófóbíu hafði verið gefin út forskrift af því hvaða skoðanir fólk skyldi hafa og það að vera á öndverðu gat hreinlega reynst fólki skaðlegt. Þetta reyndi Roiphe á eigin skinni en auk mjög harkalegra og ómálefnalegra viðbragða femínistahreyfingarinnar, bárust henni hótanir um ofbeldi eftir útgáfu bókarinnar og þurfti oftar en einu sinni að vera undir lögregluvernd þegar hún áritaði eintök af bók sinni í verslunum.

Í bókinni má lesa all nokkur dæmi um upplogna tölfræði forréttindafemínista um tíðni kynferðisofbeldis. Þá er sagt frá staðfestum tilvikum þar sem femínistar gerðust sekir um að leggja fram falskar ásakanir um kynferðisbrot (í þágu málstaðarins!), jafnvel femínistar sem voru í áhrifastöðum þeirra hópa sem stýrðu þessari „baráttu gegn kynferðisofbeldi“.

Á stöku stað er hægt að hlægja að vitleysunni eins og t.d. frásögn sálfræðingsins sem fékk hringingu frá skjólstæðingi sínum um miðja nótt þar sem viðkomandi tjáði honum að hún hefði verið að gera þá merku uppgötvun að sér hefði verið nauðgað tveimur árum áður. Eða kennslukonunni sem var á barmi taugaáfalls efir að hafa lesið prófsvör karlkyns nemanda þar sem dæmisaga var sögð af kvensömum manni að nafni „Dave Stud“. Svo mjög fékk þetta á hana að hún var komin á fremsta hlunn með að kæra nemandann fyrir kynferðislega áreitni þegar hann skráði sig úr kúrsinum, sér og „fórnarlambi“ sínu til heilla.

Roiphe skrifar góðan texta, er mælsk og hæfilega ögrandi. Það gerir bókina einkar skemmtilega aflestrar sem er svosem ekki of algengt þegar um bækur af þessum toga er að ræða, því miður.

Útgáfuár: 1994
Síðufjöldi: 200

SJ

| Taktu þátt | Óskast | Rannsókna- & heimildasafn |

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: