Ég viðurkenni fúslega að stundum þarf ég að hafa mig allan við til að vera málefnalegur þegar ég tala um sumar kenningar kvennafræðinnar. Mér finnst hugmyndin um þörfina á að vera málefnalegur líka stórlega ofmetin. Sá siður hefur gert það að verkum að okkur gengur ekki eins vel og ella að drepa afleitar hugmyndir í fæðingu. Fólk fer að leika einhverskonar leik þar sem því finnst að það þurfi að virða sjónarmið sem aðeins ruglað fólk getur haft.
Ég er að auki þeirrar skoðunar að margar femínískar hugmyndir séu enn að þvælast á markaðstorgi hugmyndanna vegna þess að kvennafræði var, á sínum tíma, gefið frítt spil eða einskonar friðhelgi innan fræðasamfélasins. Ef karlmenn hefðu á sjöunda áratug síðustu aldar staðið fyrir fræðigrein sem setti fram hugmyndir, segjum sambærilegar femínískum hugmyndum um orsakir kynferðisofbeldis eða að hálfur heimurinn vélaði gegn þeim á öllum sviðum samfélagsins, hefðu þeir verið sendir heim með skófar á rassinum. Eins kaldhæðnislega og það kann að hljóma, þá á femínismi herramensku að hluta til að þakka tilveru sína.
Hér tekur enginn annar en Richard Dawkins sig til og tætir í sig hugmyndir femínistans Luce Irigaray sem greindi kenningar Alberts Einstein, Sir Isaak Newtons o.fl. í kynjafræðilegu ljósi. Ég hélt ég dæi þegar ég sá þetta en það besta er að hann hefur hugmyndirnar bara beint eftir og það nægir öllu venjulegu fólki til að koma auga á fáránleikann.
Myndbrotið er partur af fyrirlestri sem Dawkins hélt á 35. ársþingi samtakanna Freedom from Religion Foundation helgina 12-13 október 2012:
–
SJ
12.4.2013 kl. 18:59
Brilliant
4.6.2013 kl. 23:25
HAHAH alveg frábært