Barnaheill bulla

20.3.2013

Blogg

Bull er snar þáttur í baráttu forréttindafemínista. Allt of stór hluti heimsmyndar nútímafólks byggir á „staðreyndum“ sem eru alls engar staðreyndir, heldur aðeins hugmyndir sem fæðst hafa í kollinum á forréttindafemínistum og eru síendurteknar af fólki sem hefur beinan eða óbeinan hag af því að þessar hugmyndir móti samfélagið.

Allir sem nenna að rekja sig eftir forsendum að baki fullyrðingum forréttindafemínista komast fljótt að því að oftar en ekki stendur einfaldlega ekki steinn yfir steini í þessum furðuheimi sem femínísk hugmyndafræði er. Það var mér lengi ráðgáta hvernig pólitísk hreyfing getur leitt heilu samfélögin til að trúa hlutum sem eru í augljósri andstöðu við fyrirliggjandi upplýsingar og reynsluheim einstaklinga sem samfélagið samanstendur af.

Eftir þónokkurn lestur um skuggahliðar femínismans er töfraformúlan mér hinsvegar dagljós: Fullyrðingar sem settar eru fram í þágu góðs málstaðar mæta ekki gagnrýnni hugsun á leið sinni inn í sjálfsvitund samfélagsins. Ef almenningur lítur svo á að þú sért að vinna að göfugu málefni í þágu einstaklinga eða þjóðfélagshópa sem minna mega sín, virkar það eins og einskonar þvæluþolsmagnari og þú getur einfaldlega sagt hvað sem er.

Þegar þvælan hefur verið sett fram, öðlast hún svo sjálfstætt líf í höndum áróðursvélarinnar sem tilheyrir sama hugmyndamengi og einstaklingurinn, samtökin eða stofnunin sem setti hana upphaflega fram. Nýlega fengum við ómetanlegt sýnishorn af fæðingu svona bull-hugmyndar sem mun án efa verða að „sannleik“ í meðförum forréttindafemínista sem vísa munu til hennar sem gildrar „heimildar“ í framtíðinni.

Stubburinn sem styrinn stóð um. Fyrirsætan Chrishell Stubbs.

Stubburinn sem styrinn stóð um. Fyrirsætan Chrishell Stubbs.

Þetta byrjaði allt með því að Benetton búðin setti upp auglýsingu í verslunarrými sitt sem sýndi unga konu, að því er virtist nakta, en hár og hendur huldu brjóst og kynfærasvæði. Einhverjum fannst þetta ósmekklegt, tók mynd af auglýsingunni sem varð síðan að frétt á dv.is. Vandlætingaraldan lét ekki á sér standa og ekki skorti lýsingarorðin hjá femínistum sem fannst þessi auglýsing í meira lagi óviðeigandi. Hvern hefði grunað?

Ekki stóð á femínistunum í athugasemdakerfi dv.is sem logaði af tímalausri snilld. Ég get eiginlega ekki stillt mig um að birta hér eftirfarandi tvenn ummæli:

„Fyrir mér er þetta auglýsing fyrir barnaklám og anoreksíu“

„Það er eins og verið sé að auglýsa mansal“

Einmitt það sem ég hugsaði.

Í fyrstu virtist vandlæting hinna skinhelgu byggjast á því fyrirsætan væri barn. Þeir sem voguðu sér að tjá þá skoðun sína að þeim þætti ekkert athugavert við auglýsinguna fengu á sig eftirfarandi perlur frá siðferðisyfirstéttinni; „Þú!! Ert ástæðan fyrir því að það séu til feministar“.

Fljótlega bárust þó fréttir af því að þarna var ekki barn á ferðinni heldur fullorðin kona. Þá breyttist vandlætingartónninn og umkvartanir fóru að snúast um að konan væri bara of „barnaleg“. Hér hafði jarðvegurinn verið plægður og samtökin Barnaheill sendu frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Barnaheill harma að ýmis fyrirtæki sýni börn á kynferðislegan hátt í auglýsingum sínum.

Barnaheill- Save the Children á Íslandi harma að ýmis fyrirtæki skuli ítrekað sýna börn á kynferðislegan hátt i auglýsingum sínum. Slíkt er brot á réttindum barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur lögfest. Aldrei skal tengja barn við neitt sem er kynferðislegt eða klámfengið. Einstaklingur er barn til 18 ára aldurs. Kynferðisofbeldi gegn börnum og myndefni þar sem börn eru sýnd á kynferðislegan hátt hefur aukist til muna á undanförnum árum, ekki síst eftir tilkomu netsins. Auglýsingar þar sem börn eru sýnd á kynferðislegan hátt er ein birtingarmynd þessa efnis. Að búa til slíkt efni og dreifa því er brot á íslenskum lögum og brot á réttindum þeirra barna sem í hlut eiga. Einu gildir hvort barnið eigi að líta út fyrir að vera barn eða eldra en það er.

Barnaheill- Save the Children á Íslandi skora á öll íslensk fyrirtæki að sýna ábyrgð þegar þeir birta auglýsingar með börnum, hvort sem verið að auglýsa vöru fyrir börn eða fullorðna. Barnaheill hvetur jafnframt almenning til að láta sig málið varða og tilkynna ef þeir verða varir við slíkt efni. Hægt er að tilkynna í gegn um ábendingahnapp Barnaheilla á vefsíðu samtakanna. http://www.barnaheill.is/TilkynnaologlegtefniReportillegalcontent/
Sýnum ábyrgð og verndum börnin okkar. Það þarf þjóð til að vernda barn“

Það er nefninlega það. Hér höfum við yfirlýsingu sem augljóslega er sett fram sem innlegg í umræðu um téða Benetton auglýsingu og það þrátt fyrir að ekki hafi verið um barn að ræða. Það er hinsvegar langt í frá það eina sem fólk með vald á rökrænni hugsun kynni að hafa staldrað við í sambandi við þessa yfirlýsingu.

Er það t.d. virkilega svo að ÝMIS fyrirtæki sýni BÖRN ÍTREKAÐ á KYNFERÐISLEGAN hátt í auglýsingum sínum? Ég verð að segja að þessi ítrekaða dreifing ýmissa fyrirtækja á barnaklámi hefur þá jafn ítekað farið algerlega fram hjá mér svo ég tali nú eins og femínisti á sínum þriðja lattebolla þann morguninn.

Ég var forvitinn að vita meira um þau fyrirtæki sem þetta gera og ekki síst umfang vandans. Ég sendi því eftirfarandi erindi til Barnaheilla:

„Góðan dag,

Ég rakst á tilvitnun í tilkynningu frá ykkur á dv.is. Þar segir m.a:

„Barnaheill- Save the Children á Íslandi harma að ýmis fyrirtæki skuli ítrekað sýna börn á kynferðislegan hátt i auglýsingum sínum. Slíkt er brot á réttindum barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur lögfest. Aldrei skal tengja barn við neitt sem er kynferðislegt eða klámfengið. Einstaklingur er barn til 18 ára aldurs“

Hvaða ýmsu fyrirtæki eru það sem þetta gera?

Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“

Sem Barnaheill svara:

„Heill og sæll Sigurður.

… og takk fyrir að hafa samband.

Án þess að nefna ákveðin fyrirtæki eða auglýsingar sem birta óviðeigandi myndir af börnum, kemur það því miður alltof oft fyrir og hefur áhrif á birtingarmynd þeirra. Börn eiga rétt á vernd gegn þátttöku í hvers kyns klámi. Séu þau sýnd á kynferðislegan hátt er það brot á íslenskum lögum.

Það er hlutverk Barnaheilla að standa vaktina í þágu barna, vinna að aukinni vernd þeirra og auknum mannréttindum. Áskorunin er liður í því að vekja fólk og fyrirtæki til umhugsunar um ábyrgð þeirra þegar kemur að börnum.

Kær kveðja

Það er nefninlega það. Femínistarnir hjá Barnaheill nenna ekkert að nefna þau fyrirtæki sem sýna myndir af börnum á kynferðislegan hátt. Sem reyndar eru orðnar „óviðeigandi myndir“ núna.

Mér finnst þetta ekki svara spurningum mínum og sendi því framhaldserindi. Nú býð ég hinsvegar að aðeins sé bent á eitt fyrirtæki sem ítrekað hafi framið þetta lögbrot, að sýna barn á kynferðislegan hátt í auglýsingum sínum:

„Sæl og takk fyrir svarið.

Nú hafði ég samband þar sem þetta eru ansi alvarlegar fullyrðingar, „að ýmis fyrirtæki skuli ítrekað sýna börn á kynferðislegan hátt i auglýsingum sínum“. Þessi yfirlýsing Barnaheilla er sett fram á vef dv.is í samhengi við umdeilda auglýsingu Benetton búðarinnar sem sýnir nakta konu sem þó hylur brjóst og kynfæri með hári og höndum. Fyrirsætan á þeirri mynd er þó ekki barn heldur fullorðin kona í skilningi laga.

Af yfirlýsingu ykkar að dæma og svarinu sem þú sendir mér virðist hér um umfangsmikinn vanda að ræða. Talað erum að fyrirtæki sýni börn ítrekað á kynferðislegan hátt, að þetta komi allt of oft fyrir en engar vísbendingar eru gefnar um það hvaða fyrirtæki eða hvaða auglýsingar Barnaheill er að tala um.

Getur þú nefnt mér eitt dæmi þar sem fyrirtæki (væntanlega íslenskt, þó það komi ekki fram í yfirlýsingu ykkar), sýnir barn ítrekað á kynferðislegan hátt í auglýsingum sínum?

Kv. Sigurður“

Sem Barnaheill svara:

„Sæll aftur.

Ástæðan fyrir áskoruninni sem við sendum út í gær er ekki bara þetta einstaka mál sem þú vísar í, heldur fleiri mál sem hafa komið upp. Það er ekki okkar ábyrgð að DV tengi áskorunina við þetta ákveðna mál. Aldur fyrirsætu skiptir heldur ekki máli. Það að sýna einstakling á barnalegan og kynferðislegan hátt á sömu myndinni er bannað samkvæmt íslenskum lögum.

Við munum ekki nefna dæmi um fyrirtæki, en við munum áfram standa vörð um réttindi barna og benda á þegar brotið er á þeim og hvetjum almenning til  að gera slíkt hið sama.

Með kveðju

Þetta furðumál verður bara enn furðulegra með hverju svarinu sem kemur frá Barnaheillum. Ég hef enga trú að að þessi yfirlýsing tengist ekki auglýsingu Benetton búðarinnar en ætla ekki að gera mál úr því.

Hér er enn og aftur talað eins og um umfangsmikinn vanda sé að ræða. Talað er um „fleiri mál sem hafa komið upp“ en ómögulegt er að fá upplýsingar um svo mikið sem eitt fyrirtæki sem ítrekað sýnir börn á kynferðislegan hátt í auglýsingum sínum.

Nú, þá hlýtur að vakna sú spurning hversvegna samtökin Barnaheill kjósa að halda hlífiskildi yfir fyrirtækjum sem brjóta þesssi lög. Er það ekki í meira samræmi við stefnu samtakanna að kæra slík fyrirtæki eða a.m.k. beina kvörtunum til viðeigandi yfirvalda?

Ég held því áfram og býð henni nú að nefna aðeins fjölda tilvika. Það ætti nú ekki að vera svo erfitt er það?:

„Sæl,

Hvaða lög eru þetta sem þú vísar til?

Og hversvegna kærið þið ekki mál þar sem lög eru brotin gagnvart börnum en haldið þess í stað hlífiskildi yfir fyrirtækjunum sem gerast brotleg? Sérstaklega þegar brotin eru svona tíð eins og þú lætur í veðri vaka?

Treystir þú þér til að segja hvað tilvikin eru mörg? Alltsvo, hvað fyrirtækin eru mörg og hvað auglýsingarnar eru margar sem þið segið að brjóti gegn þessum lögum?

Kv. Sigurður“

Þá kemur svar við aðeins einni spurningu:

„Sæll Sigurður.

Þetta eru hegningarlög sem þú getur kynnt þér og voru samþykkt í byrjun árs 2012.

Kveðja

Það er auðvitað efni í aðra færslu að hér á landi hafi verið sett lög sem banna að sýna fullorðinn einstakling á barnalegan og kynferðislegan hátt jafnvel þó ég geti tekið undir að slíkt kunni að vera bæði óviðeigandi og ósmekklegt. Þessi lagasetning fór hreinlega framhjá mér og hefur líkast til ekki fengið mikla umræðu.

Þetta er gott dæmi um lög sem gera ekkert annað en að skapa forréttindafemínistum vinnu sem hefur ekkert raunverulegt gildi hvað varðar skaðaminnkun í samfélaginu. Miklu líklegra er að brjálæðingar muni misnota þessi lög til að ljá eigin gildisdómum meira vægi í opinberri umræðu og jafnvel valda saklausu fólki skaða.

Ég ítreka fyrri spurnignar mínar:

„Sæl,

Er þetta eina spurningin sem fæst svar við úr síðasta skeyti mínu?

Kv. Sigurður“

Sem Barnaheill svara:

„Sæll aftur Sigurður.

Ég skil ekki alveg tilganginn með spurningum þínum.

Þér er velkomið að koma í heimsókn á skrifstofur okkar og kynna þér starfið sem við vinnum í þágu barna – og þeim aðferðum sem við beitum til að ná fram auknum mannréttindum í þeirra þágu.

Kær kveðja

Og enn ítreka ég:

„Skiptir máli hver tilgangurinn er? Hefur það áhrif á svör við einföldum spurningum sem beint er til Barnaheilla hver tilgangurinn með þeim er?

Spurt var:

Og hversvegna kærið þið ekki mál þar sem lög eru brotin gagnvart börnum en haldið þess í stað hlífiskyldi yfir fyrirtækjunum sem gerast brotleg? Sérstaklega þegar brotin eru svona tíð eins og þú lætur í veðri vaka?

Treystir þú þér til að segja hvað tilvikin eru mörg? Alltsvo, hvað fyrirtækin eru mörg og hvað auglýsingarnar eru margar sem þið segið að brjóti gegn þessum lögum?

Þessar spurningar eru hér með ítrekaðar.

Kv. Sigurður“

Við þessu barst ekkert svar, sem er auðvitað svar í sjálfu sér, og nokkuð algengt þegar maður gengur á femínista og biður þá að standa skil á fullyrðingum sínum. Það eru nefnilega hrein ósannindi að íslensk fyrirtæki dreifi barnaklámi, hvað þá að þau geri það ítrekað. Hér voru Barnaheill bara að bulla.

Hér sjáum við, skref fyrir skref, hvernig bullhugmyndir femínista fæðast og öðlast líf. Hvernig 21 árs kona verður að barni og myndin af henni að barnaklámi á grundvelli ógreinilegra lagaskilgreininga sem þessir sömu femínistar taka svo að sér að túlka ofan í okkur óupplýstan almúgann.

Við sjáum líka hvernig það að þjónka alræðisblæti femínista með lagasetningum sem virðast tiltölulega sakleysislegar eru aðeins vörður á leiðinni að femínísku alræði.

Hvað annað skyldi stelpunum hjá Barnaheill finnast ósmekklegt?

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

, ,

6 athugasemdir á “Barnaheill bulla”

 1. Siggi Sigurðsson Says:

  Þetta eru ær og kýr feminista: svara aldrei spurningum.

 2. Gunnar Says:

  Það þyrfti að gera mikið meira af þessu. Kjaftæðið sem fær að vaða uppi virðist bara aukast. Það er eins og við séum að að verða óupplýstari með tímanum.

 3. Stefán P Says:

  það er í sjálfu sér einkennilegt afhverju akkúrat þessi umræða er ekki útbreiddari – þetta virðist vera svo glóandi heit kartafla að enginn vill koma nálægt henni.

  En svona upplifi ég feminiska umræðu, það er í góðu lagi að ýkja dálítið (jafnvel hressilega) fyrir málstaðinn – leyfa umræðunni svo að malla í smástund og svo brýst út einhver kyngimögnuð flóðbylgja um e-ð sem er algerlega óstaðfest og er knúið áfram af persónulegri sannfæringu og mögulega einhverjum „reynslusögum“. Enginn þorir opinberlega að mótmæla og sögusagnir verða að óhagganlegum staðreyndum. Skapabarmafárið er nýlegt dæmi um þetta. Stundum finnst mér ég búa á Animal Farm – ég get svo svarið það.

 4. david rurik Says:

  Þessi pistill er alveg spot on!

 5. Sigurjón Says:

  Makalaust. Persónulega þótti mér auglýsing Benetton ósmekkleg en það skiptir ekki máli kannski. Það sem mér þykir athyglisvert er einmitt það sem þú bendir á, Sigurður, að opinberar stofnanir láti frá sér jafn villandi upplýsingar og eru hér að finna.

  Takk fyrir þetta, Sigurður.

 6. Bjammisei Says:

  Það besta er að feministar taka sig til og auglýsa fyrirtækin all hressilega, því að málið er ekki auglýsingin heldur að auglýsa eigin málstað.

  Held þeim sé skítsama um auglýsinguna, því ef það væri málið þá ætti fólk að hundsa auglýsinguna og búðina, en ekki dreifa.

  Sambandi við hegningarlög, ef kærasta mín klæðir sig í skólastelpu búning á góðum laugardegi (tek það fram að hún keypti búningin á eigin spýtur og ég ýtti henni ekki út í slíkt) hvað þá ? Er ég að brjóta lög ?

%d bloggurum líkar þetta: