Fórnarlambsfemínismi útskýrður í tveimur commentum

19.2.2013

Blogg

Hugtakið fórnarlambsfemínismi er eitthvað sem ég hef ekki notað mikið þó það hafi dúkkað upp við og við í kynjaumræðunni. Svona án ábyrgðar þá held ég að Sverrir Stormsker hafi verið fyrstur til að nota það hér á landi þegar hann skrifaði um þau ummæli Guðnýjar Halldórsdóttur að við lifðum í hræðilegri drengjaveröld. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Í Bandaríkjunum hefur þetta hugtak verið notað meira. M.a. af konum á hægri væng stjórnmálanna sem kæra sig ekki um að einatt sé dregin upp sú mynd af konum að þær séu vitgrannir vesalingar. Lausleg athugun sýnir að hugtakið victim feminism fer að birtast snemma á tíunda áratugnum, m.a. í skrifum Dr. Christina Hoff Sommers.

Að vilja skilgreina sig sem fórnarlamb er svosem ekki bundið við femínista þó vissulega megi segja að femínistahreyfingin hafi náð hvað bestum árangri í að skilgreina fórnarlambshópinn. Þær hafa jú komið þeirri hugmynd inn í haus milljóna manna um allan hinn vestræna heim að helmingur mannkyns, konur, séu fórnarlömb hins helmings mannkyns, karla og að ef þú ert þeim ekki sammála þá sért þú hreinlega þátttakandi í kúgun á konum. Vel gert, ekki satt?

Hér gæti vaknað sú spurning hversvegna þessi fórnarlambsímynd nýtur jafn mikilla vinsælda og raun ber vitni, einkum meðal  kvenna. Trúa konur því t.d. að karlar standi þeim þetta mikið framar að andlegu atgervi að geta hreinlega stjórnað þeim eins og hundum? Eða að á þróunarskeiði nútímamannsins hafi móðir náttúra ekki útdeilt til kvenna neinum styrkleikum til mótvægis við karllæga styrkleika?

Ég held að skýringuna á vinsældum fórnarlambshugmyndarinnar sé að leita í öðru. Ávinningur þess að láta votta sig sem fórnarlamb er nefninlega ótvíræður. Þegar þeim áfanga er náð er tekið til við að krefjast þess að ríkið fari í það að rétta hlut hins yfirlýsta fórnarlambs með ýmsum hætti. Kynjakvótar og ýmiskonar sérlög til handa konum eru dæmi um þetta. Femínistar eru fullmeðvitaðir um þetta og hafa meira að segja látið standa sig að því að tala um fórnarlambsöfund (e. victim envy) þegar bent hefur verið á að karlar búi við margskonar misrétti, einkum vegna framgangs forréttindafemínisma.

Segja má að forréttindafemínisminn sé einskonar framhald eða afleiðing fórnarlambsfemínismans en þessir tveir hugmyndaskólar eru í raun samofnir og óaðskiljanlegir. Að krefjast stjórnvaldsaðgerða til að rétta ímyndað ranglæti í sinn garð er jú krafa um forréttindi. Þetta er rauður þráður í gegnum nánast alla baráttu femínista í dag. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að forréttindafemínistar ganga út frá því að kynin séu eins frá náttúrunnar hendi. Út frá þeirri ályktun gefa femínistar sér það að ef hlutföll kynja eru ekki jöfn á þeim sviðum samfélagsins sem þær telja ákjósanlegt, þá sé það vegna undirliggjandi mismununar.

Ég rakst nýlega á hreint frábært dæmi um þessa ofsóknarhugmynd. Ung kona færir inn athugasemd undir frétt á dv.is sem leggur út frá opinni línu þar sem almenningi gefst kostur á að taka viðtal við ungan stjórnmálaáhugamann með því að senda inn spurningar. Allir sem hafa facebook aðgang geta sent inn spurningar og kerfið er galopið.

fornarlambafeminismi1

Ungu konunni finnst greinilega eitthvað lítið um spurningar frá konum og spurning hennar ber það með sér að hana gruni að konur mæti einhverjum sérstökum hindrunum – af því að þær eru konur.

Þetta ofsóknaræði sjáum við út um allt. Ef konur eru ekki helmingur stjórnarmanna, þá er það út af samsæri karla gegn konum. Ef konur fá ekki sömu laun og karlar að meðaltali í einhverju úrtaki, þá er það út af samsæri karla gegn konum. Ef konur eru ekki jafnmargar körlum í Silfri Egils eða einhverjum öðrum fréttatengdum miðli, þá er það út af samsæri karla gegn konum. Ef konur hafa ekki haft sig í að framleiða eða leikstýra jafnmörgum kvikmyndum og karlar, þá er það út af samsæri karla gegn konum. Semsagt, allt leiðir að þessum sama brunni; samsæri karla gegn konum.

Í þessu dæmi búum við hinsvegar svo vel að upplýsingar um raunverulegar ástæður þess að konur eru svona lítt áberandi í þessu tilviki liggja fyrir í rauntíma. Fundarstjórinn hefur einfaldlega fullkomna yfirsýn yfir það hvernig innkomnar spurningar skiptast m.t.t. kyns og svarar:

fornarlambafeminismi2

Því miður er það svo í áðurnefndum dæmum, um t.d. launamun kynja og hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja, að flóknara er að sýna fram á að lágt hlutfall kvenna megi rekja til þess að konur hafi aðrar áherslur í lífinu en karlar (að meðaltali). Þetta hefur þó oftsinnis verið gert en þá ber svo við að slíkar rannsóknir hafa engan Jafnréttisiðnað til að miðla þeim upplýsingum til ráðamanna (á kostnað hins almenna skattborgara nota bene).

Ef við ímyndum okkur að búið væri að setja lög um kynjakvóta á opna línu hjá DV sem krefðist þess að fundarstjóri jafnskipti spurningum kvenna og karla þá sjá allir, nema forréttindafemínistar, að það væri búið að tryggja konum þau forréttindi að eiga fimm sinnum auðveldara með að komast að á opinni línu en karlar. A.m.k. í þessu dæmi.

Og það er forréttindafemínismi í hnotskurn.

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

2 athugasemdir á “Fórnarlambsfemínismi útskýrður í tveimur commentum”

  1. Sævar B. Says:

    Þetta er einmitt málið. Kynin eru ólík frá náttúrunnar hendi og vissulega hafa skapast samfélagslegar hefðir um hlutverk kynjanna gegnum aldirnar, sem erfitt er að brjótast út úr, en eins og samfélag okkar er í dag, þá hafa bæði kyn nákvæmlega sama rétt, hvort sem það er lagalegan rétt eða rétt til menntunar. Kona getur orðið rafvirki, flugmaður eða forstjóri álrisa ef hún kýs að feta þá braut á meðan karlmaður getur orðið hjúkrunarfræðingur, leikskólakennari eða flugþjónn, þrátt fyrir að ekki sé langt síðan þessar stéttir „tilheyrðu“ hinu kyninu. Bæði kyn hafa sama rétt til fæðingarorlofs, sem ég tel vera mikið jafnréttismál. Sem sagt, kona getur komist áfram á sínum verðleikum alveg eins og karlmaður, sjáum bara Vigdísi Finnbogadóttur, Rannveigu Rist eða allar þær ótalmörgu aðrar konur sem hafa náð frama í stjórnum fyrirtækja, stofnana eða í stjórnmálum. Ekki komust þær í sínar stöður af því að einhver vinnuveitandi var skikkaður til að fylgja kynjakvótareglum eða einhverjum annars konar forréttindareglum.
    Konur eru helmingur Íslendinga, hafa sama atkvæðisrétt, sömu réttindi til menntunar og sömu möguleika til að kjósa sér sína braut í lífinu eins og karlmenn, en af því að þær virðast ekki gera það í nógu miklum mæli samkvæmt áliti forréttindafeminisma þá er ástæðan ekki sú að það sé þeirra vilji, heldur af því að þær séu kúgaðar af „karlaveldinu“. Og þegar 18 karlar og 2 konur sækja um tvær stjórnendastöður þá verði að velja 1 aðila af hvoru kyni, annað sé mismunun. Jamm, segjum hinum 17 körlunum að þeir hafi þurft að berjast harðar fyrir starfinu en sú 1 kona sem ekki fékk starfið.

    Skilaboð forréttindafeminisma til kvenna virðast vera þessi: „Þið eruð brothættar og viðkvæmar verur sem getið ekki fótað ykkur í þessum harða heimi karlanna nema við verndum ykkur með sérreglum.“

    • Sigurður Says:

      Þú bendir á nokkra góða punkta.

      Og því miður held ég að þetta sé rétt, að helsta uppskera femínistahreyfingarinnar sé ekki aukinn áhrifamáttur kvenna heldur lærður aumingjaskapur.

%d bloggurum líkar þetta: