Titill bókarinnar, Karla Marx, er skírskotun til marxískra róta femínismans sem höfundur persónugerir í hinni diktuðu Körlu í þessari bók. Höfundurinn, Marshall Rockford Goodman er harður hægri maður og ber bókin það með sér.
Það er eitthvað sem hefur alltaf truflað mig pínulítið við tal um marxískan femínisma þó það sé vissulega margt skylt milli kommúnisma og róttæks femínisma. Það er t.d. ekki erfitt að benda á fasismann sem felst í báðum þessum stefnum en þegar forréttindafemínismi er gagnrýndur úr þessari átt er stundum eins og umræðan detti niður á þrætuplan hefðbundinna stjórnmála. Fyrir mér er baráttan gegn forréttindafemínisma svo mikið meira en það enda gætir áhrifa forréttindafemínisma vissulega einnig meðal hægrikvenna á íslandi þó í töluvert minna mæli sé en meðal vinstri sinnaðra.
Höfundur skoðar ítök öfgafemínískra afla í stjórnkerfi, fjölmiðlum og mennta- og réttarvörslukerfi Bandaríkjanna og leggur vissulega fram mörg sláandi dæmi um fasíska tilburði femínista á þessum sviðum. Rakið er hvernig töluvert misræmi sé í boðuðum markmiðum femínista annarsvegar og raunverulegum gjörðum eða niðurstöðum hinsvegar. Þetta misræmi fari almennt fram hjá vel meinandi stjórnmálamönnum með þeim afleiðingum að öfgaarmur femínistahreyfingarinnar komist til meiri áhrifa en ella væri og í raun megi segja að eitt helsta kænskubragð öfgafemínista sé að koma alltaf fram í sparifötunum þegar það skiptir máli.
Höfundur sýnir einnig ágætlega fram á hvernig jafnréttisiðnaðurinn fjármagnar sig í gegnum lagasetningar sem ráðist er í til höfuðs allskyns vandamálum og skapa störf sem þessir sömu lobbýistar taka svo náðarsamlegast að sér að vinna.
Nokkuð ítarlega er farið í þá vaxandi karlfyrirlitingu sem öfgafemínismi fóstrar og verður sífellt meira áberandi í menningu okkar og hvernig grafið hefur verið undan því sem karlar gerðu vel í fortíðinni undir gengdarlausum ásökunum femínista um kúgun karla á konum.
Bókin hefur að geyma nokkuð af sögulegum staðreyndum og staðfestum dæmum áhugafólk um karlréttindi ætti að láta sig varða en það skal tekið fram að höfundur grefur sig helst til of mikið ofan í bandaríska stjórnsýslu, sem er svona helsti gallinn við bókina. Stíll höfundar er svolítið harður sem fólki getur ýmist fundist kostur eða ókostur.
Útgáfuár: 2008
Síðufjöldi: 154
SJ
17.2.2013
Bækur