Ég skrifaði fyrir skemmstu um komu karlahatarans Germaine Greer hingað til lands. Það er óþarfi að endurtaka allt sem ég hef sagt um Greer að öðru leyti en því að mér finnst það ákveðið sjúkdómseinkenni á íslensku kvennahreyfingunni að hún skuli velja að bjóða hingað til lands jafn ruglaðri og hatursfullri manneskju og Greer er.
Eitt af því sem mér er hugleikið í þessu sambandi er hversvegna manneskja með jafn fyrirlitningarhlaðnar og öfgafullar skoðanir fær að spúa hatri sínu innan salarkynna Háskólastofnunar, Háskólans á Bifröst. Ég sendi því Bryndísi Hlöðversdóttur, rektor Háskólans á Bifröst eftirfarandi bréf:
„Góðan dag,
Ég rakst á eftirfarandi texta á vefsíðu Háskólans á Bifröst þar sem fjallað var um ráðstefnuna Tengslanet lll og lykilfyrirlesara hennar, Germaine Greer:
„Prófessor Germaine Greer hélt salnum föngnum meðan hún talaði. Skoðanir hennar eru afdráttarlausar. Kvenfrelsi er markmiðið. Konur eiga ekki að stefna að jafnrétti til að komast á toppinn á forsendum karla og traðka þar á öðrum konum. Konur eiga að auðga líf sitt (og um leið annarra í kringum sig) á eigin forsendum en ekki karlanna. Hún setti fram líkinguna um apasamfélagið þegar hún lýsti fyrirtækjamenningu nútímans, þar sem aðal górillan raðar í kringum sig já-bræðrum, hinum táknræna trúð, arftakanum og öðrum ófrumlegum af sömu tegund. Fyrirtækjastjórnun karla felst í því að gera ekki neitt – það er það sem skilur á milli kvenna og stjóra. Þær vinna. Karlarnar hirða afraksturinn, segir Greer. Konur eru duglegar. En það er vitleysa að standa í þeirri trú að þeim verði umbunað fyrir dugnað sinn og trúfestu. Jafnvel unglingsstrákar hafa sjálfstraust, sem konur hafa ekki. Hún hvatti konur til þess að leggja ekki svona hart að sér við að sanna sig – þær ættu að láta til sín taka og að sér kveða – eða eins og sagt er á nútímamáli: láta vaða! Og slappa svolítið af. Hún er þeirrar skoðunar að verðmætamat kvenna sé merkilegra en karla og tími sé kominn til þess að það nái útbreiðslu í samfélaginu. Germaine Greer er löngu heimsfræg sem ein af guðmæðrum femínismans og sem „drottning gífuryrðanna“. Skoðanir hennar hafa eðlilega breyst í áranna rás. Í upphafi prédikaði hún frjálst kynlíf en hefur síðar skipt um skoðun og gagnrýnt markaðsvæðingu kynlífsins og þær þversagnir sem jafnréttisbaráttan hefur einnig haft í för með sér. Mörg ummæli hennar eru fleyg og The Scotsman sagði um hana að á öld hins tilgerðarlega spuna væri hún svo hispurslaus og hreinskiptin að það skipaði henni í algeran sérflokk“.
Ég er með nokkrar spurningar varðandi þetta:
- Er það skoðun stjórnenda skólans að karlmönnum sem starfa við fyrirtækjastjórnun megi líkja við górilluapa?
- Er það skoðun stjórnenda skólans að karlkyns stjórnendur geri ekki neitt í vinnunni sinni?
- Er það skoðun stjórnenda skólans að karlmenn séu ekki duglegir?
- Er það skoðun stjórnenda skólans að verðmætamat kvenna sé merkilegra en karla?
- Má búast við því að Háskólinn á Bifröst hýsi eða standi að fleiri viðburðum í framtíðinni sem geta af sér viðlíka hatur á afmörkuðum þjóðfélagshópum (körlum eða öðrum)?
Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“
Rúmum mánuði eftir að ég sendi Bryndísi skeytið minnti ég á mig þar sem ég hafði ekki fengið svar. Daginn eftir barst mér eftirfarandi:
„Sæll Sigurður,
Takk fyrir að sýna Háskólanum á Bifröst áhuga. Þú vitnar í pósti þínum til orða sem fyrirlesari á ráðstefnu flutti á ráðstefnu. Það gefur auga leið að fjölmargir sem tengjast skólanum eða koma hingað sem gestir tjá sig um hin ýmsu málefni og gera það á eigin ábyrgð. Skólinn þarf hvorki að svara fyrir skoðanir þeirra né að gera þær að sínum. Skólinn á vonandi eftir að hýsa margar ráðstefnur í framtíðinni þar sem fólk tjáir skoðanir sínar, umdeildar eða ekki og eftir sem áður verða orð þeirra sem þar tala á eigin ábyrgð en ekki skólans.
Með kærri kveðju,
Bryndís Hlöðversdóttir“
Svar Bryndísar hefði auðvitað verið af allt öðrum toga ef hér væri verið að gagnrýna manneskju sem líkti einhverjum öðrum þjóðfélagshóp við lata og eigingjarna apa á siðferðilegu lágplani. Segjum konum, samkynhneigðum, innflytjendum eða blökkumönnum.
Þetta veit Bryndís vel en hún veit einnig að barátta forréttindafemínista, sem hún hefur tekið virkan þátt í, hefur skapað andrúmsloft karlfyrirlitningar í samfélagi okkar. Í slíku andrúmslofti er svona hatursáróður látin óátalin og jafnvel hvatt til hans svo ólíklegt er að hún hljóti mikið bágt fyrir.
Þess má að lokum geta að Bryndís sat í stjórn Kvenréttindafélags Íslands árin 1992 til 1997 og var formaður þess 1995 til 1997.
SJ
22.1.2013 kl. 15:23
Sæll Sigurður.
Þetta svar Bryndísar er ekta „ekki“ svar, þ.e. hún svarar í engu spurningum þínum heldur beinir þeim frá sér. Enda væri það í besta falli óþægilegt að svara spurningunum raunverulega, því orðræða Germaine Greer er svo hatursfull og niðrandi.
Þú átt heiður skilið fyrir þetta framtak.
22.1.2013 kl. 15:30
Mæli með því að einhver taki sig til og snúi öllum kynjum við í umræddri umfjöllum á heimasíðu Bifrastar, nokkum viss um að innan 10 mínútna væru nokkrir ónefndir aðilar komnir í drottningaviðtal í Kastljósi.
T.d. „Heimilisstjórnun kvenna felst í því að gera ekki neitt – það er það sem skilur á milli karla og kvenna. Þeir vinna. Konurnar hirða launin, segi ég. Karlar eru duglegir.“
23.1.2013 kl. 19:42
Ertu þú að mælast til þess að Háskólar ritskoði fólk sem heldur þar fyrirlestra.. ég skil ekki alveg hvert þú ert að fara með þessu… Ég sé ekki betur en að hún svari því hreint út að skoðanir fyrirlesara endurspegli ekki viðhorf skólans eða stjórnenda hans… Mér er jafn illa við þessar skoðanir fyrirlesarans og þú, en ég geri mér enga grein fyrir því hvert þú ert að fara með þessu væli…
24.1.2013 kl. 12:05
Velkominn Kristmann og takk fyrir innleggið.
Að sjálfsögðu er í gildi óformleg ritstjórnarstefna hjá þessum háskóla sem og ððrum. Á grundvelli þeirrar ritstjórnarstefnu myndi Háskólinn ekki bjóða velkominn fyrirlesara sem líkti blökkumönnum við lata apa.
Ég er bara nokkuð sáttur við að búa í samfélagi sem kærir sig ekki um slíkt. Hvað með þig?