Klámvæddi kvikmyndaskólinn

2.12.2012

Blogg

Sumar færslur á þessum vef skrifa sig nánast sjálfar. Bréf Hildar Lilliendahl til Kvikmyndaskóla Íslands, vegna myndar af varalitaðri konu í auglýsingu skólans er dæmi um þetta (rauð- og feitletrun mín):

Til okkar sem stöndum að vefritinu knúz.is hafa leitað nemendur við skólann sem er gróflega misboðið. Þær segja viðkomandi kennara hafa kallað þær hrikalega viðkvæmar þegar þær gerðu athugasemd við auglýsinguna. Þær upplifa myndina sem skilaboð um að þær hljóti að dreyma um frama í klámi fyrst þær völdu skólann þinn til að mennta sig við.

Okkur hefur einnig borist til eyrna að þessi sérlega ósmekklega auglýsing á þínum vegum hafi verið búin til af Sigurði Kristni Ómarssyni, kennara við skólann sem þú rekur.

Þarna sést opinn munnur konu, kroppaður út úr heildarmyndinni, og undir yfirskriftinni „Leiktu með mér.“ Hvað er átt við? Gengst höfundur auglýsingarinnar við því að hafa ætlað sér að spila á tvíræða merkingu sagnarinnar leika? Er skólinn tilbúinn til að viðurkenna að þarna sé bæði verið að vísa til leiklistar og kynlífs? Því það er sannarlega vandséð hvað þessi opni munnur hefur með leiklist að gera og kynlífs-/klámtengingin öllu augljósari.

Með myndinni er gefið til kynna að kvennemendur skólans séu fyrst og fremst kynferðisleg viðföng karlnemenda. Þá beri að hvetja til að skrá sig til náms þar sem þeir muni „upplifa drauminn,“ enda muni bíða þeirra opinmynntar graðar konur sem vilji leika við þá.

Er þetta myndin sem þú vilt draga upp af nemendum skólans þíns? Nú má ljóst vera að bæði stelpum og strákum í skólanum er verulega misboðið, það hafa komið fram kvartanir sem viðkomandi kennari gerir lítið úr. Því spyrjum við; hver eru þín viðbrögð? Hvernig bregst þú við því að nemendum skólans líði illa vegna opinberra kynferðislegra tilvísana og niðurlægingar kvenna (og raunar beggja kynja) af hendi starfsfólks?

Með ósk um snör viðbrögð f.h. ritstjórnar knúz.is,

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir“

Ég hugsa, svei mér þá, að ég ætli bara að taka undir með kennaranum við skólann, sem sagði stúlkurnar vera „hrikalega viðkvæmar“. Ég vona svo sannarlega að stúlkurnar gleymi ekki að njóta þess tíma þegar líf þeirra er svo slétt og felt að ekki þarf meira til að koma þeim úr jafnvægi. Þessi lúxus er ekki varanlegur og mun taka enda, sennilega upp úr því að þær flytja út frá foreldrum sínum.

Að öðru leyti óska ég þeim góðs gengis við að berjast gegn þeim ægikrafti sem myndin leysti úr læðingi og ku nú þrýtsa á þær, á einhvern yfirskilvitlegan hátt, að leggja fyrir sig frama í klámi.

Annars finnst mér þetta á pari við Smáralindarmálið margfræga. Þá finnst mér vert að nefna að það hefur komið í ljós að myndin í auglýsingunni var fengin að láni úr grein sem fjallaði um jálavaralitun eins og Harpa Hreinsdóttir bendir á.

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

2 athugasemdir á “Klámvæddi kvikmyndaskólinn”

  1. Ingimundur Says:

    „hrikalega viðkvæmar“, ég taldi í svari á knuz.is að um kynslóðarof, skynjunarrof væri að ræða fyrst þessir nemar gætu lesið út eitthvað um að graðar konur biðu nýrra nemenda í Kvikmyndaskólanum, sjá http://knuz.is/2012/11/27/opid-bref-til-stjornenda-kvikmyndaskola-islands/ .Og reyndar að spurning væri hvort skólinn hentaði ekki frekar eldri og þroskaðri einstaklingum. Þessir nemendur gerðu þó vel að kvarta fyrst þeir töldu á sér brotið en með útskýringum hefði það átt að duga, enda ku allt vera fallið í ljúfa löð í skóla. En heldur fannst mér Hilmar Odds vera fljótur á sér að segja þessar auglýsingar ekki vera í anda þeirrar stefnu sem hann ynni eftir, á erfitt með að ímynda mér að hann geri athugasemd við þessar auglýsingar eftirá.

    • Sigurður Says:

      Ég held að viðbrögð Hilmars Oddsonar sýni fyrst og fremst hvað fólk telur sig þurfa að þjónka viðhorfum femínista jafnvel þó þau séu líklega viðhorf mjög fámenns hóps.

%d bloggurum líkar þetta: