Hið femíníska vefrit, Knúz.is birti í fyrradag pistil eftir Stefán Ingvar Vigfússon. Pistlinum, sem ber yfirskriftina „Ævintýri framhaldsskólanema í landi kvenfyrirlitningar„, virðist ætlað að deila á kvenfyrirlitningu en er, merkilegt nokk, yfirfullur af kvenfyrirlitningu.
Hér er ég ekki að tala um klassíska kvenfyrirlitningu sem sjálfsagt flestir þekkja, heldur er ég að tala um þá bakdyrakvenfyrirlitningu sem einkennir femíníska hugmyndafræði. Undirtitillinn; „Eða hvernig ég hætti að óttast femínisma og lærði að elska hann“, inniheldur reyndar þekkt stef karlfyrirlitningar en látum það liggja milli hluta að sinni.
Hugmyndafræði forréttindafemínisma er í sérflokki þegar kemur að þversögnum og tvöföldu siðgæði. Þetta vita sjálfsagt allir sem fylgjast með skrifum forréttindafemínista. Ég ákvað að skrifa þessa færslu vegna þess að þessi pistill Stefáns er langt því frá eina dæmið um femíníska kvenfyrirlitningu af þessu tagi sem ég hef vitnað um ævina. Raunar var ein af mínum fyrstu opinberunum í þessum efnum fyrir fjöldamörgum árum, þegar ég hlustaði á aldraðan femínista í viðtali á Rás 2 lýsa áhyggjum yfir því að allt of fáar ungar konur fylgdu henni að máli og gaf í skyn að það hlyti að vera vegna andlegrar fátæktar þeirra.
Pistill Stefáns fjallar um þá gagnrýni sem nýlega stofnaður sjálfshjálparhópur fyrir fólk með Gillz-óþol hefur fengið á sig frá konum. Einkum ungum konum. Ég hef lesið slatta af þeim 40 metrum af innleggjum sem birtst hafa á fésbókarveg téðrar grúppu. Ég fæ ekki betur séð en að þetta framtak hópsins hafi kallað á neikvæð viðbrögð fremur en jákvæð. Kannski sem betur fer.
Stefán telur það mikið vandamál að konur séu ekki sammála sér og öðrum femínistum sem nú standa í rætinni ófræingarherferð gegn Agli Einarssyni (Gillz) í kjölfar þess að viðtal birtist við hann í Mónitor. Hann furðar sig á, og þykir beinlínis sorglegt að ungar stúlkur virðist fjarlægja sig hugtakinu femínisti og spyr; „stelpur, hvað er að ykkur?“. Þá seilist hinn hái herra í vopnabúr forréttindafemínista þegar hann stimplar þessar konur sem fulltrúa „klámkynslóðarinnar“ sem hafi misst sjónar á því hvað femínismi er. Að lokum tekur hann allan vafa af um það að hann lítur niður til kvennana þegar hann segir þær þjást af meingölluðu hugarfari og biður þær að „hugsa sinn gang“.
Konur sem eru svo heimskar að fylgja Stefáni ekki að máli, ættu auðvitað að vera þakklátar fyrir svona siðferðis- og gáfnafarsvita. Og jafn þakklátar fyrir að hafa hér vefrit sem leiðbeinir þeim þegar þær vita ekki í hvorn fótinn þær eiga að stíga.
SJ
26.11.2012 kl. 13:06
Komdu sæll Sigurður,
Mig langar til þess að þakka þér fyrir að vekja athygli á þessu, eftir að hafa lesið pistil þinn sá ég hvað mig skorti og stofnaði í tilefni þess FFS. Ég hef tengil meðferðis, vonandi hefurðu áhuga 🙂
https://ffasismis.wordpress.com/2012/11/26/stefnuskra-ffs/
26.11.2012 kl. 13:48
Velkominn og takk fyrir innleggið Stefán.
27.11.2012 kl. 18:41
Úr því að hún grínaðist ekki með kynferðislegt ofbeldi heldur beitti því bara, þá megum við væntanlega ekki eiga von á neinum viðbrögðum við þessu drottningarviðtali frá ritstjórn knuz.is, MH-ingum eða öðrum:
http://www.visir.is/mamma-gerdi-mistok/article/2012711279935
Nema kannski að jólaboðskapurinn sé að það er allt í lagi að sjónarmið gerandans komi fram í þessum málum… ef gerandinn er kona. Alla vega hljóta jólasveinarnir allir með tölu að óska þess að konur hætti að beita kynferðislegu ofbeldi.
3.12.2012 kl. 9:31
Góður pistill.
Þetta er einmitt það sem gerði mig fráhverfan feminisma; þegar ég áttaði mig á því að þetta var pólitískt dogma sem gerði konum meira ógagn en gagn, hvað þá karlmönnum.
Feministar margir hverjir, eins og sá sem þú vitnar í í greininni þinni, hafa nefnilega komist að heilögum kynjafræðilegum sanneik: Hvað felst í því að vera kona og hugsa eins og kona. Ef upp kemst um konur sem hugsa öðruvísi fer skoðannalögreglan í málið, því e-ð hlýtur jú að vera að þessum konum sem hugsa öðruvísi eða hafa aðrar skoðanir: Þær hafa ekki séð ljósið, ekki komist í kynni við sína innri konu, þær eru mengaðar af hugsunarhætti feðraveldisins o.s.frv. Það verður því að endurmennta þær, kenna þeim að hugsa upp á nýtt og frelsa þær frá sjálfum sér.
Þetta sem þú nefnir hér að ofan er langt frá því að vera einsdæmi um þennan hugsunarhátt, mér verður strax hugsað til fjaðrafjúksins í kringum Smartland Mörtu Maríu. Þar var sko komin kona sem hugsaði rangt og hafði svo vitlaus gildi að grípa varð í taumana.
Þetta minnir helst á Soviet-kommana sem vildu kenna greyið verkamönnunum að hugsa upp á nýtt; búa til nýjan mann. Þeir höfðu nefnilega líka meðhöndlað heilagan, vísindalega sannleik um mannlega tilveru.
Feminisminn minnir í marga staði á stækann marxisma en undir öðrum (kynja)formerkjum. Alla vega runnin undan rótum sama ófrjálslynda og dogmatíska hugsunarháttarins sem krefst þess að öllum öðrum hagsmunum sé hent á bálið í þágu „málstaðarins“.
5.12.2012 kl. 0:03
Takk og velkominn Freyr.
Já, dæmin eru mýmörg og þeim fer fjölgandi. Mér finnst undarlegt að hér hafi ekki verið sett á laggirnar hreyfing jafnréttisfemínista með almenna manngæsku að leiðarljósi. Ég held að sá armur femínismans sem ég fjalla um á þessum vef sé, sem betur fer, ekki fjölmennur en það er áhyggjuefni hvað hann hefur komist til mikilla áhrifa.