Fyrirlestur: Dr. Louann Brizendine um karlheilann

Að viðurkenna að kynin hafa ólíka styrkleika, og að sérkenni karla og kvenna hafi verið mannkyninu öllu ómissandi í þróun sinni, er óneitanlega meira heillandi en hugmyndin um að karlar hafi mótað konur eins og viljalausa óvita sem sáu ekki í gegnum plottið fyrr en 200 þúsund árum síðar. Almenn viðurkenning á að karlar og konur eru ólík í eðli sínu er það sem mun leiða hið langa og þrautleiðinlega kynjastríð til lykta og koma forréttindafemínistum í skammarkrókinn – þar sem þeir eiga heima.

Afneitun á þessum augljósu sannindum er ástæða þess að jafnréttisbaráttan breyttists í jafnstöðubaráttu. Að krafan um að konur nytu jafns réttar á við karla breyttist í að vera krafa um að ríkið jafnaði, með valdboði, hlutföll kynja á öllum þeim sviðum samfélagsins sem femínistahreyfingunni hugnaðist hverju sinni en öðrum ekki.

Dr. Louann Brizendine, prófessor við Kaliforníuháskóla í San Fransiskó, er ein þeirra vísindamanna sem rannsakað hafa eðlislægan mun á körlum og konum. Árið 1994 stofnaði hún UCSF Women’s Mood and Hormone Clinic sem hún stýrir enn í dag og fæst við þessar rannsóknir. Hún hefur sent frá sér tvær bækur sem byggja á niðurstöðum hennar. Bókina The Female Brain sem út kom árið 2006 og bókina The Male Brain sem út kom árið 2010.

Hér kynnir Dr. Brizendine bókina sína The Male Brain og fer stuttlega yfir nokkra þá þætti sem gerir karla að körlum. Hún hefur skemmtilegan framsögustíl og er ófeimin við að slá á létta strengi. Þá er líka gaman að heyra konu tala um kynmótun drengja sem eðlilegan hlut en ekki einhverskonar vírus sem beri að lækna með femínískri handayfirlagningu. Það heyrist því miður ekki oft nú til dags. Fyrirlesturinn var haldinn við Dómíníska Háskólann í Kaliforníu í mars 2010.

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

2 athugasemdir á “Fyrirlestur: Dr. Louann Brizendine um karlheilann”

 1. Halldór Says:

  Frábært að kynmótun drengja sé skilin sem eitthvað annað en einhverskonar nýr djöfull sem gengur í menn (sá gamli gekk í konur á miðöldum), og nýju prestarnir sem framkvæma særingarnar og prédikunirnar eru femínistarnir (konur).

  Finnst þetta fyndin þróun.

  Ég er samt ekki alveg að kaupa það sem konan segir, virðist vera svolítið mikið alhæfingar og skop og „reynslusögur“. Í stað þess að sýna rannsóknir og tölfræði á skjánum koma stock myndir og skrítlur. Er ekki hrifinn af svona staðhæfingafullum fyrirlestrum þar sem ég þarf í raun að leita uppi það sem hún segir eftir að ég hlusta á hana.

  • Sigurður Says:

   Já, ég myndi nú samt vilja gefa henni það að hér er hún að kynna bókina sína fyrst og fremst, frekar en þær rannsóknir sem bókin byggir á. Ég hef samt ekki enn lesið bækurnar hennar þannig að ég get svosem ekki lagt mitt mat á gæði niðurstaðna hennar – svo langt sem mitt mat á því nær.

   Ég myndi líka vilja virða henni það til hróss að stíll hennar gerir viðfangsefni hennar aðgengilegt almenningi. Það held ég að skipti ekki síst miklu máli þar sem það hefur verið gríðarlegur skortur á aðgengilegu efni sem telst gagnrýnt á femínískar kenningar. Hún og Simon Baron-Cohen gera þetta vel og ég vil sjá meira svoleiðis. Er rétt að byrja að lesa Stephen Pinker og það er talsvert erfiðara að fylgja honum eftir.

   Helvíti skemmtilegur punktur, þetta með djöfullinn sem gekk í konur á miðöldum. Því fer fækkandi sem femínistar virðast ekki hafa bara hreinlega snúið á hvolf í byltingu sinni.

%d bloggurum líkar þetta: