Ég er eiginlega kominn með eðlisbundinn kynjamun á heilann eftir að hafa gruflað aðeins í því nýjasta á þessu sviði. Bókin, The Essential Difference: Men, Women and the Extreme Male Brain, byggir á niðurstöðum rannsókna Dr. Simon Baron-Cohen, prófessors í Geðsjúkdómafræði við Cambridge Háskóla, og kenningum hans um að einhverfa skýrist af því að að heili þeirra sem eru með einhverfu, sé í raun heili með ofþroskaða karleiginleika (mér líður eins og ég sé að segja eitthvað ólöglegt núna).
Í þessum tilgangi hefur Cohen gert viðamiklar rannsóknir á eðlisbundnum mun milli karla og kvenna, þ.á.m. rannsakað kynbundinn mun á athygli nýfæddra ungabarna allt niður í tveggja daga gömul (semsagt áður en nokkur félagsmótun getur hafa átt sér stað). Cohen leggur upp róf fyrir styrkleikasvið mannsheilans þar sem samkennd (e. empathy) er lýsandi fyrir kvenheilann en skipulagssemi (e. systemizing) fyrir karlheilann. Þessar skilgreiningar eru auðvitað ekki altækar heldur byggja þær á meðaltölum. Þ.e.a.s: fleiri konur en karlar hafa yfir að ráða sterkri samkennd og fleiri karlar en konur hafa mikla skipulagshæfileika. Þannig geta konur auðvitað haft styrkleika sem oftar hitta karlmenn fyrir og karlmenn haft styrleika sem alla jafna eru meira áberandi hjá konum en körlum.
Í bókinnni leiðir Cohen svo út hvernig þetta birtist okkur í samfélaginu og hvernig ber að skilja þessa eiginleika í víðara samhengi en við gerum kannski alla jafna. Það er alveg óhætt að hrósa höfundi í hástert fyrir að gera skilaboð sín aðgengileg fyrir almenning, þ.e. fólk sem ekki er menntað á sviði sálfræði eða geðsjúkdómafræði eins og höfundur.
Þá er einnig áhugavert að sjá hvað höfundur taldi sig þurfa að fara varlega í að kynna rannsóknir sínar áður en hann kom fyrst fram með niðurstöður sínar. Það er ekki erfitt að fá á tilfinninguna að hin kraftmiklu öfl kynjafræðinnar sem aðhyllist mótunarhyggju, hafi spilað inn í það og séu jafnvel að hafa áhrif á framgang vísinda í því þvingandi andrúmslofti pólitískrar rétthugsunar sem nú ríkir.
Í lok bókarinnar eru svo nokkur próf, sem lesendur geta til gamans tekið, en þau gefa til kynna hvar styrkleikar viðkomandi liggja m.t.t. ofangreindra þátta. Þá er einnig próf sem gefur vísbendingu um hvar þú stendur m.t.t. einhverfu. Ég ætla að taka það próf núna.
Útgáfuár: 2007
Síðufjöldi: 288
SJ
21.10.2012 kl. 9:39
Áhugavert!
9.11.2012 kl. 0:52
Það er áhugavert að velta þessum eðlismun kynjanna fyrir sér. Það setur sjálfsagt enginn sig upp á móti þeirri augljósu staðreynd að karlmenn og konur eru ekki nákvæmlega eins. Fyrir utan augljós útlitseinkenni eins og kynfæri og hárvöxt, þá eru karlmenn almennt stærri og sterkbyggðari en konur, þ.e. hafa hlutfallslega meiri vöðvamassa en konur. Konur hafa svo þann eiginleika umfram karlmenn að geta gengið með börn.
Það sem femínistar hins vegar skilja ekki er að eðlismunur kynjanna sé meiri en þessi augljósu útlitsatriði hér að ofan. Eins og margar rannsóknir hafa sýnt fram á er heili karla og kvenna ekki nákvæmlega eins. Karlar hafa t.d. almennt meiri getu til rúmskynjunar og skipulagssemi (eins og Sigurður nefnir hér að ofan) og konur hafa meiri samkennd eða félagshæfni.
Þegar við leggjum svo saman útlitsmun og mun á heila manna og kvenna, getum við séð fyrir okkur af hverju þessu er svo háttað.
Fyrir mörgum milljónum ára bjuggu forfeður okkar við allt aðrar aðstæður en við í dag. Þeir bjuggu við harðneskjulegt umhverfi þar sem hafa þurfti sig allan við til að lifa af. Þegar samkeppni var um búsvæði urðu veikari dýr undir sterkari dýrum og þar með líklegra að sterkari dýr næðu að koma upp afkvæmum sem erfðu þá eiginleika o.s.frv.
Augljóst er að ef bæði kynin væru stöðugt á veiðum eða í bardögum við alls kyns villidýr eða samkeppnisaðila af sömu tegund, þá gæfist lítill tími til að ala afkvæmi. Því háttaði þróun því þannig að annað kynið sá um að ganga með afkvæmi og fæða þau á meðan hitt kynið varði fjölskylduna og veiddi til matar. Karldýrin urðu einfaldlega stærri og sterkari því þau þurftu meira úthald og krafta til að veiða eða verja búið, á meðan kvendýrin urðu minni og nettari til að sóa ekki óþarfa orku í að viðhalda miklum vöðvamassa sem þau þurftu ekki á að halda.
Forfeður okkar voru vel samkeppnishæf dýr vegna stórs heilabús og hárrar greindar og aðlögunarhæfni. Þeim fjölgaði því mikið og því augljóst að ef tegundinni ætti að vegnast vel þá yrði hún að lifa í hópum, þar sem kraftur fjöldans kæmi heildinni betur en einstaklingsframtak hvers og eins. Kvendýrin voru því mörg saman með mörg afkvæmi og þurftu því augljóslega að aðlagast þeim aðstæðum að vera í nánu samneyti með öðrum kvendýrum og afkvæmum þeirra, þar hefur aukin samkennd spilað lykilatriði. Samkennd skiptir einnig höfuðmáli í að auka líkur á að kvendýrið hugsi sem best um afkvæmi sitt, því ef afkvæmin dóu, erfðust þau gen þar af leiðandi ekki til næstu kynslóðar.
Karldýrin hins vegar gátu nýtt sameiginlega krafta sína til að fella stærri bráð eða hrekja burtu óvini og því gat skipt þá miklu máli að hafa góða skipulagshæfni og ekki sýst góða rökhugsun, t.d. að geta tekið ákvarðanir skjótt og samhæft aðgerðir sínar þegar bráðin snerist til varnar eða óvinir réðust á hópinn. Þau karldýr sem farnaðist vel gátu frekar dregið björg í bú fyrir fjölskyldu sína og þannig tryggt erfðaefni sitt til næstu kynslóða.
Jafnvel árþúsundum seinna, þegar komið er inn á sögulega tíma sést hvernig þessi eðlismunur kynjanna skiptir hlutverkum þeirra. Á öldum áður kröfðust flest verk líkamlegs styrks og því gaf augaleið að líkamlega sterkara kynið tók þau að sér á meðan hitt kynið sá um heimilið og uppeldið á meðan.
Eftir því sem tækni hefur fleygt fram og komið er inn á nútímann er ekki lengur eins mikil þörf á líkamlegum styrk til að sinna daglegu amstri, en þessi eðlislegi munur kynjanna er enn til staðar í genum okkar. Í dag getur kona skilað nákvæmlega sama vinnuframlagi og karlmaður, jafnvel þó hann sé líkamlega sterkari. En þar sem við höfum ennþá í genum okkar örlítið mismunandi eiginleika, þá mótar það vissulega hvaða ákvarðanir í lífinu við tökum. Sem dæmi þá eru mun fleiri karlmenn sem velja nám sem byggir á raungreinum á borð við stærðfræði og tölvunarfræði á meðan fleiri konur stunda nám sem tengist félagslegum þáttum, á borð við sálfræði, félagsfræði, kennara o.fl.
Ég er ekki að halda því fram að gerðir okkar stýrist eingöngu af eðlislegum þáttum, því samfélagið sem við búum í mótar ákvarðinir okkar vissulega líka. Það hver við erum í dag er einfaldlega vegna samblands af eðli okkar og samfélagsmótun. Það þýðir ekki að ætla að útiloka aðra hlið peningsins í umræðunni.
P.S. afsakið langan texta og ég vil taka fram að ég er ekki sérfræðingur um þessi málefni, heldur eru þetta mínar hugleiðingar út frá því sem ég hef lesið gegnum tíðina.
10.11.2012 kl. 12:06
Takk fyrir áhugavert innlegg. Já, maður skyldi ætla að það væri öllum ljóst að skýr hlutverkaskiupting meðal forfeðra okkar myndi skila sér í þróun ólíkra styrkleika meðal kynja.
Mér sýnist að eðlishyggjumenn séu hvergi að tala um að allan mun á kynjunum megi rekja til eðlisþátta, þetta sé alltaf samblanda af eðli og mótun. Hinsvegar hef ég séð ófáa femínista halda því blákallt fram að eðlismunur sé enginn miðað við þann mun sem rekja má til félagsmótunar. Stundum velti ég fyrir mér hvort þeir trúi þessu í raun eða hvort þeir séu að halda dauðahaldi í þessa villutrú vegna þess að þeir vita að trú á þetta er nauðsynleg forsenda kröfunnar um að ríkið jafni hlut kynja með valdboði.
Þá er líka áhugavert að karlar sem koma fram með kenningar um eðlisbundinn kynjamun finnst þeir greinilega þurfa að fara mjög gætilega í að setja kenningar sínar fram. Þannig beið Simon Baron-Cohen í mörg ár áður en hann þorði að opinbera rannsóknarniðurstöður sínar og þær kenningar sem hann byggði á þeim og öfugt. Stephen Pinker hefur sagt það sama. Hinsvegar veður konan, Dr. Louann Brizendine (sem ég var að birta á Youtube rásinni rétt í þessu) bara beint í þetta og gerir enga fyrirvara. Kannski þetta varpi ljósi á einhverja rétthugsun eða kennivald valdamikilla hópa innan fræða- og vísindasamfélagsins?