Bækur: Gender, Nature and Nurture

21.9.2012

Bækur

Bókin Gender, Nature and Nurture eftir Dr. Richard A. Lippa, Prófessor í sálfræði við Kaliforníháskóla í Fullerton gefur gott yfirlit yfir það nýjasta úr heimi vísindanna þegar kemur að atferlismun kynja. Lippa og verk hans hafa áður komið við sögu hér á þessari síðu en heimildamynd BBC, Brainsex byggði að stórum hluta á rannsóknum hans. Bókinni er ætlað að gefa yfirlit yfir þær rannsóknir sem gerðar hafa verið í þágu eðlishyggju og mótunarhyggju og meta svo muninn á þeim.

Farið er yfir það hvaða munur er á körlum og konum og kenningum sem teljast til eðlishyggju og mótunarhyggju. Loks eru reifuð þau rök sem notuð eru til að rökstyðja hvort um sig. Þessir þættir eru skoðaðir út frá bæði líffræðilegum og atferlisfræðilegum sjónarhóli. Bókin ber með sér að henni hafi verið ætlað að gefa sem best yfirlit yfir báða póla þessara kenningarskóla og hún gerir það vel. Það er hinsvegar ekkert launungarmál að Lippa telst til eðlishyggjusinna en það getur hann líka rökstutt öðrum fremur en skemmst er frá því að segja að hann stóð fyrir stærstu kynjarannsókn sem nokkru sinni hefur verið gerð en þátttakendur í henni voru um 500 þúsund hvaðanæva að úr heiminum.

Sjálfum fannst mér þó einna áhugaverðast að sjá niðurstöður samantektarrannsókna (e. meta-analysis) þar sem Lippa o.fl. höfðu greint niðurstöður úr fjölda kynjarannsókna með það fyrir augum að greina mynstur í niðurstöðum. Þá gerir Lippa einnig vel að skýra æskilega vísindalega nálgun við kynjarannsóknir af þessu tagi s.s. hvernig á að greina frávikahegðun frá meginhegðun en frávikahegðun er einmitt mikið notuð af femínistum til að slá eðlishyggjukenningar út af borðinu.

Þessi bók á því klárt erindi við alla sem velta fyrir sér femínískri hugmyndafræði þar sem hún einkennist einmitt af harðri mótunarhyggju og í raun nánast algerri afneitun á eðlishyggju. Á Íslandi, og reyndar víðar, hafa yfirvöld gleypt við áróðri femínista fyrir mótunarhyggju svo nú grundvallast svokölluð jafnréttislög á þeirri hugmynd sem er nokkuð sláandi í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga sem benda til þess að sú hugmyndafræði sé byggð á sandi.

Útgáfuár: 2005 (2. útg.)
Síðufjöldi: 270

SJ

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: