Í dag voru stofnuð samtök áhugafólks um hagsmuni meðlagsgreiðenda. Ég óska aðstandendum til hamingju með það um leið og ég vona að starfsemi félagsins megi verða sem flestum til góðs. Mér skilst að samtökin séu ekki með eiginlega heimasíðu en facebook síðu hópsins má sjá hér.
Af þessu tilefni er ekki úr vegi að draga fram gömul samskipti mín við Jafnréttisstofu þar sem ég gerði athugasemd við það að í Kynungabók, kennslubók í jafnrétti kynjanna sem Jafnréttisstofa stóð að útgáfu á, væru meðlög ekki skilgreind sem framfærsla. Það sem mér þykir einkar ógeðfellt við það, er að markmið þeirra forréttindafemínista sem skrifuðu Kynungabók virðist vera að innræta börnum meðlagsgreiðenda að framlag feðra þeirra skipti engu máli.
Ég sendi eftirfarandi erindi til Kristínar Ástgeirsdóttur, framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu þar eð hún er ein höfunda bókarinnar:
„Ágæta Kristín Ástgeirsdóttir,
Ég sendi þér þetta erindi bæði sem ritstjórnaraðila Kynungabókar svo og sem framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu en erindið varðar staðhæfingar sem ég hnaut um í Kynungabók er varða framfærslu. Á bls. 19 í Kynungabók segir:
„Hver er fyrirvinna á þínu heimili? Hugtakið fyrirvinna er í raun úrelt í íslensku nútímasamfélagi þrátt fyrir að það sé enn notað. Það felur í sér að tekjur eins fjölskyldumeðlims sjái fyrir fjölskyldunni. Einstæðar mæður eru stærsti hópur þeirra sem vinna fyrir heimilinu. Þær eru margfalt fleiri en einstæðir feður og jafnframt fleiri en þeir karlar sem sjá einir fyrir fjölskyldum sínum“
Af þessu verður ekki annað séð en að höfundar/ritstjórar Kynungabókar álíti meðlög ekki vera framfærslu en eins og þér er efalítið kunnugt um þá er það lögum samkvæmt svo að forsjárlaust foreldri greiðir forsjárforeldri meðlag mánaðarlega með barni þeirra.
Sé litið til talna um meðlagsgreiðendur frá Innheimtustofnun Sveitarfélaga frá 2010 sést að rétt um 11.000 karlar greiða meðlag með 18.753 börnum. Einfalt meðlag er á þessum tíma kr. 21.657,- þannig að meðalfjárhæð meðlagsgreiðslna þessara 11.000 karlmanna nemur kr. 37.290,- á mánuði. Þér til upplýsinga þá ná kvenkyns meðlagsgreiðendur tæplega 550 á sama tíma.
Hafa ber í huga að í þessum tölum er ekki reiknað með auknu meðlagi en dæmi eru um að hér á landi hafi karlmenn verði dæmdir til að greiða fjórfalt meðlag. Karlmaður sem svo er ástatt fyrir þarf því að greiða kr. 86.828,- með einu barni inn á heimili barnsmóður sinnar þar sem jafnvel eru tveir framfleytendur fyrir (móðirin og maki hennar).
Meðlagsgreiðandi þarf svo ekki að hafa nema rétt um kr. 300.000,- í mánaðarlaun til að geta verið dæmdur til greiðslu tvöfalds meðlags svo það er líklega ekki of geyst farið að áætla að meðlagsgreiðendur greiði að meðaltali eitt og hálft meðlag með hverju barni þegar teknar eru til beinar og óbeinar meðlagsgreiðslur. Sé það rétt nema meðalgreiðslur þessara karla rétt tæplega kr. 56.000,- á mann. Til að fá út heildarlaunatöluna sem viðkomandi þarf að hafa til að geta greitt þetta má, því sem næst, tvöfalda þessa tölu og þarf viðkomandi því að hafa um kr. 100.000,- í mánaðarlaun til þess eins að geta innt þessar greiðslur af hendi en sú upphæð bætir um 60% ofan á lágmarkaslaun.
Mig langar í þessu ljósi að spyrja þig hvernig á því standi að þessar greiðslur teljist ekki til framfærslu skv. Kynungabók og hversvegna börnum þessara sömu meðlagsgreiðenda eigi að kenna það í grunnskóla að greiðslur feðra þeirra skipti ekki máli og að móðir þeirra sé eini framfleytandi þeirra?
Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“
Svarið barst mér tæpum tveimur vikum síðar:
„Sæll enn og aftur Sigurður.
Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu fól mér að svara neðangreindu bréfi þínu.
Í bréfinu gerir þú grein fyrir því að þú ályktir sem svo að skýring á hugtakinu „fyrirvinna“ leiði á einhvern máta til þess að meðlög teljist ekki til framfærslu.
Í Kynungabók er ekki verið að fjalla um meðlög eða framfærslu í tilvitnaðri klausu, heldur aðeins verið að tala um hugtakið „fyrirvinna“ og benda á að það hugtak sé í raun úrelt, sjá beina tilvitnun þína í bókina hér fyrir neðan. Meðlög eru leið til þess að sinna lögbundinni framfærslu barna þegar foreldrar hafa skilið, hjón eru einnig framfærsluskyld hvort við annað o.s.frv. Á flestum heimilum er það einnig svo að mikil ólaunuð vinna fer fram, en sú vinna hefur ekki verið talin innan hugtaksins „fyrirvinna“. Jafnréttisstofa sér ekki að blanda þurfi þessu tvennu saman, þ.e. hugtakinu „fyrirvinna“ og hugtakinu „framfærsla“.
Jafnréttisstofa telur ekki tilefni til frekari athugasemda varðandi þetta atriði.
Virðingarfyllst
Ingibjörg Elíasdóttir lögfræðingur
Jafnréttisstofa“
Við þetta svar var ég engan veginn sáttur. Ábyrg afstaða hlutlausrar Jafnréttisstofu hefði verið að viðurkenna að hér hefðu orðið mistök sem bæri að leiðrétta hið snarasta. Því var hinsvegar ekki fyrir að fara hjá Jafnréttisstofu sem valdi, að femínískum sið, þá leið að neita því að nokkuð væri athugavert við þessa framsetningu. Ég sendi því eftirfarandi svar:
„Sæl aftur Ingibjörg,
Það er alltaf gaman að heyra frá þér. Takk fyrir svarið, ég met það mikils hve liðleg þú ert að bregðast við erindum mínum. Ég verð þó að viðukenna að ég er pínulítið ósáttur við svarið þitt núna. Alltsvo efnislega.
Þú segir í svari þínu: „Í Kynungabók er ekki verið að fjalla um meðlög eða framfærslu í tilvitnaðri klausu, heldur aðeins verið að tala um hugtakið fyrirvinna […] Jafnréttisstofa sér ekki að blanda þurfi þessu tvennu saman, þ.e. hugtakinu „fyrirvinna“ og hugtakinu „framfærsla“.
Eftirfarandi er úr Íslenskri Orðabók í útgáfu Eddu:
Framfærsla: Það að framfæra, framfæri.
Framfærandi: Sá sem annast framfærslu, framfærandi barns.
Fyrirvinna: Sá sem vinnur fyrir heimili.Eins og sjá má er merking hugtakanna „fyrirvinna“ og „framfærsla“ sú sama og af því leiðir að þrátt fyrir skýringar þínar er ekki hægt að skilja tilvitnaðan texta Kynungabókar öðruvísi en svo að ekki sé litið á meðlög sem framfærslu. Þá sérstaklega þegar sagt er að „Einstæðar mæður eru stærsti hópur þeirra sem vinna fyrir heimilinu. Þær eru margfalt fleiri en einstæðir feður og jafnframt fleiri en þeir karlar sem sjá einir fyrir fjölskyldum sínum“. Hér kemur hvergi fram að þær einstæðu mæður sem talað er um sjái fyrir heimilum sínum ásamt barnsfeðrum sínum í gegnum meðlög heldur er þeim stillt upp á móti þeim fáu körlum sem einir sjá fyrir fjölskyldum sínum sem óneitanlega styður við þann skilning að hér sé átt við að þessar einstæðu mæður teljist til einu framfærenda barna sinna.
Ég minni á að Kynungabók er m.a. beint að börnum sem eru innan við 18 ára. Mörg þessara barna eiga foreldra sem slitið hafa samvistum og þ.a.l. feður sem greiða með þeim meðlag. Þessum börnum er með því innrætt að faðir þeirra teljist ekki til framfæranda eða annarar af tveimur fyrirvinnum heimilisins.
Ítrekar þú, þrátt fyrir ofangreint, fyrra svar þitt að Jafnréttisstofa telur ekki tilefni til frekari athugasemda varðandi þetta atriði?
Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“
Það er skemmst frá því að sergja að lögfræðingur Jafnréttisstofu hafði engu við þetta að bæta og stóð því fyrra svarið. Jafnréttistofu er því vel kunnugt um þessa grófu rangfærslu en lætur sig engu skipta þó verið sé að innræta ungum skilnaðarbörnum að framlag föður þeirrra skipti engu máli þegar kemur að fjárhag heimila þeirra. Þessi femíníska túlkun á meðlögum einskorðast ekki við Jafnréttisstofu en ekki er langt síðan ég átti svipuð samskipti við Þorgerði Einarsdóttur sem hefur, þrátt fyrir að vera Prófessor í Kynjafræði enn þá skoðun að meðlög séu ekki framfærsla. Lesa má um það hér.
Þetta sýnir að það er kannski ekki vanþörf á að stofnuð séu samtök sem vinni að hagsmunamálum meðlagsgreiðenda sem í femínískum fræðum er greinilega ósýnilegt fólk.
SJ
12.4.2012 kl. 23:09
Kemur ekki á óvart. Jafnréttisstofa tengist ekki jafnrétti, nema þá kannske innbyrðis á meðal kvenna.