Orðabók Jafnréttisstofu: Söguleg skuld

1.4.2012

Blogg

Við höldum áfram að senda Jafnréttisstofu tillögur að hugtökum sem ættu að vera í orðabók stofnunarinnar á vef sínum; http://www.jafnretti.is. Tillaga mín um að hugtakinu Forvirkar sértækar aðgerðir væri bætt við oraðbókin féll, af einhverjum ástæðum, í grýttan jarðveg en nú sting ég upp á hugtakinu Söguleg skuld.

Söguleg skuld er hugtak sem sannarlega er einn af hornsteinum femínískrar hugmyndafræði og tilvik um notkun þess vel skráð. Þannig notaði Kvenréttindafélag Íslands þetta hugtak í ályktun sinni um forvalsreglur VG í Reykjavík en merking þess var staðfest í svari Formanns Kvenréttindafélags Íslands til mín við fyrirspurn þar að lútandi. Þá hefur Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, beitt þessu hugtaki óbeint í umræðum um málefni feðra sem berjast fyrir foreldrajafnrétti og enn fleiri dæmi má finna til.

Ég sendi Jafnréttisstofu eftirfarandi skeyti:

„Góðan daginn,

Það var leitt að þið skylduð ekki sjá ástæðu til að bæta hugtakinu „Forvirkar sértækar aðgerðir“ í ykkar annars ágætu orðabók eins og ég stakk upp á um daginn.

Nú er ég með aðra uppástungu sem ég held að væri gagnleg, sérstaklega þar sem hún skýrir vel hvernig einstökum málum er forgangsraðað í baráttunni fyrir auknu jafnrétti. Þetta mun vera hugtakið „söguleg skuld“. Söguleg skuld lýsir þeirri skoðun femínista að misrétti gegn körlum í nútíð og framtíð megi réttlæta með tillitil til fyrri tíma misréttis gagnvart konum.

Dæmi um þetta viðhorf má finna í ályktun Kvenréttindafélags Íslands frá 25. Janúar 2010 en þar fagnar félagið kvennakvóta er innleiddur hafði verið í forvalsreglur Vinstri Hreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar þá um vorið. Orðrétt segir í ályktuninni: „Þótt einungis eigi þetta við um VG í Reykjavík er innborgun hreyfingarinnar á hina sögulegu skuld kærkomið skref í átt að meira jafnræði kynjanna á sveitarstjórnarstigi“. Til þess að forðast allan misskilning sendi ég þáverandi framkvæmdastjóra Kvenréttindafélags Íslands, Halldóru Traustadóttur, póst og spurði hvað væri átt við með hugtakinu söguleg skuld. Í svari sínu segir hún: „Þar vísum við í hina sögulegu staðreynd að konur hafi ekki verið við völd að miklu marki – í þessu tilviki á sveitarstjórnarstiginu – undanfarna áratugi. Það má því segja að samfélagið skuldi konum mikið á þeim reikningi“. Margrét dregur þarna ekki dul á þá skoðun sína að henni finnist konum skuldað sakir fyrri tíma misréttis. Þar eð Margrét er á þessm tíma framkvæmdastjóri Kvenréttindafélags Íslands og í ljósi þess að þetta hugtak kemur fyrir í ályktun þess félags verður ekki betur séð en að hún endurspegli þarna skoðun félagsins.

Annað dæmi um þetta viðhorf mátti glögglega sjá í viðtali sem tekið var við Kristínu Ástgeirsdóttur, framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu, í Fréttablaðinu þann 2. september 2007. Þar ber foreldrajafnrétti á góma og baráttu forræðislausra feðra fyrir auknu jafnrétti. Um það segir Kristín: „Það á sér stað mjög alvarleg umræða um forræðismál og réttindi einstæðra feðra. Það þarf að fara mjög gætilega í slíkum málum því fyrst og fremst eru það hagsmunir barnanna sem eiga að ráða. Þau á ekki að gera að leiksoppi umræðunnar. Mér þykir svo vert að minna á að það eru aðeins um hundrað ár frá því konur fengu yfirhöfuð rétt yfir börnum sínum. Þar til þá voru börn eign karla og þeirra fjölskyldna“. Það að Kristín sjái ástæðu til að tilgreina sérstaklega að fyrr á tímum hafi konur búið við misrétti á þessu sviði og að hún telji að fara þurfi mjög gætilega í þessum málum, rennir enn frekar stoðum undir að hugtakið söguleg skuld er lýsandi fyrir ríkjandi viðhorf femínista og á þannig erindi við okkur öll.

Að framansögðu má ljóst vera að hugtakið er snar þáttur í femínískri hugmyndafræði. Skýring á merkingu þess ætti að vera öllum áhugasömum aðgengileg á vef Jafnréttisstofu ef hún ætlar á annað borð að auðvelda fólki að glöggva sig á helstu hugtökum jafnréttisbaráttunnar.

Eruð þið ekki sammála því?

Með góðri kveðju,
Sigurður Jónsson“

Sem Jafnréttisstofa svarar svona:

„Sæll Siguður.

Í tölvubréfi þínu hér fyrir neðan gerir þú að umtalsefni það sem þú kallar hugtakið „sögulega skuld“. Þessar pælingar þínar, eins og pælingar um „forvirkar sértakar aðgerðir“ eru teknar til athugunar og Jafnréttisstofa skoðar það hvort tilefni sé til að útfæra „sögulega skuld“ í orðabók Jafnréttisstofu eins og þú stingur upp á. Það gæti reyndar verið fróðlegt fyrir þig að ræða um þetta mál við fræðikonur og karla í kynjafræðum.

Það sem vekur reyndar athygli undirritaðrar í þessum síðustu skrifum þínum til Jafnréttisstofu er að þú fullyrðir að karlar í nútíð og framtíð séu, og verði, beittir misrétti, en orðrétt segir þú: „Söguleg skuld lýsir þeirri skoðun femínista að misrétti gegn körlum í nútíð og framtíð megi réttlæta með tilliti til fyrri tíma misréttis gagnvart konum.“

Eins og þér er kunnugt segir í  65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 orðrétt: 65. gr. [Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Jafnframt gilda, eins og þér er vel kunnugt, lögin nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í þeim lögum kemur fram að hvers kyns mismunun á grundvelli kyns sé óheimil. Markmið þeirra laga er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna, sjá 1. mgr. 1. gr. jafnréttislaganna. Heimilt er að beita sértækum aðgerðum til þess að markmiðum jafnréttislaganna um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sé náð.

Leitt er að sjá þá skoðun þína að þú teljir víst að annað kynið sé og verði beitt misrétti.  Undirrituð tekur ekki undir ofangreindar fullyrðingar þínar varðandi misrétti sem þú segir að karlar séu og verði beittir.

Eitt helsta hlutverk Jafnréttisstofu er að fylgjast með því að jafnréttislögunum sé framfylgt. Því tökum við til skoðunar allar ábendingar eða rökstuddan grun um það að konur eða karlar séu misrétti beitt og grípum til aðgerða, sé það innan okkar heimilda skv. jafnréttislögum.

Virðingarfyllst
f.h. Jafnréttisstofu“

Næst ætla ég að senda þeim tillögu að hugtaki sem þær geta ekki hafnað „Kynbundinn dauðamunur“. Sjáum hvað þær segja við því.

SJ

,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: