Femínismi er ekki öfgastefna

29.3.2012

Blogg

Femínismi, sem slíkur, er ekki öfgastefna. Ekki frekar en frjálshyggja eða félagshyggja. Hinsvegar eru til mörg blæbrigði femínisma, rétt eins og það eru til mörg blæbrigði af þessum stjórnmálastefnum sem oftast eru kenndar við hægra og vinstri. Almennt virðast flestir geta verið sammála um þetta og líklegast mótmælir því enginn að það er hægt að vera hófsamur eða öfgafullur hægri- eða vinstrimaður. En getur femínismi í einhverri mynd þá ekki talist öfgafullur?

Öfgar eru gildishugtak og allar tilraunir til að nálgast einhlíta niðurstöðu um hvað teljist öfgar og hvað ekki, því dæmdar til að mistakast. Hver gerir bara upp við sjálfan sig hvað honum finnst öfgafullt og hvað ekki. Eitt er þó sammerkt með öllu öfgafólki, það vill ekki kannast við að vera öfgafólk. Öfgafólki finnst skoðanir sínar eðlilegar og réttmætar þó annað fólk sé því ekki sammála en öfgafólk má gjarnan þekkja á heiftúðlegum viðbrögðum við gagnrýni á hugmyndafræði sína.

Forréttindafemínistar eru einmitt svona fólk, en því nafni hef ég kosið að nefna öfgafemínista til skýrrar aðgreiningar frá venjulegum femínistum (jafnréttisfemínistum). Forréttindafemínistar eru fólk sem flestum finnst hafa öfgafullar skoðanir en finnst sjálfu skoðanir sínar með svo miklum ágætum að það vill hefta málfrelsi fólks sem er þeim ósammála, ritskoða opinber viðtöl við fólk sem ekki er sama sinnis eða skilgreina það sem veikt. Mildilegustu kröfur forréttindfafemínista til fólks sem er þeim ósammála, eru þær að það verði að kenna því að hugsa „rétt“, þ.e. eins og forréttindafemínistar hugsa, gjarnan með kennslu strax á mótunaraldri barna.

Talsverð umræða hefur átt sér stað um öfgafemínisma síðustu vikurnar og það hefur verið stórfróðlegt að fylgjast með hvernig opinber umræða um þetta vandamál laðar einmitt til sín öfgafemínistana sjálfa sem vilja ekki kannast við að nokkuð sé til sem nefna mætti öfgafemínisma. Þeir sem tjá sig um það sem þeim finnst öfgar í femínískri baráttu fá á sig formælingar, háð og jafnvel ærumeiðandi svívirðingar frá úrvalsdeild íslenskra forréttindafemínista. Ástæðan fyrir þessum hörðu viðbrögðum forréttindafemínista er svo auðvitað sú að öfgar þola illa opna og gagnrýna umræðu. Öfgar þarf jú að matreiða með réttum hætti ofan í fólk og allra helst án truflunar frá fólki sem ekki er innvígt og innmúrað. Það er því beinlínis hagur forréttindafemínista að umræðan fari ekki fram sem skýrir áberandi þöggunartilburði þeirra gegn öllum sem voga sér að andmæla málflutningi þeirra.

Nánast allir hljóta að geta verið sammála því að manneskja sem gefur sig út fyrir að standa í jafnréttisbaráttu telst öfgafull þegar hún fer að berjast fyrir forréttindum, þ.e. kröfurnar fara fram úr upprunalegum markmiðum þeirra sem baráttuna há auk þess að enda í mótsögn við sjálfa sig. Ég hef, til aðgreiningar, kosið að að greina femínista í jafnréttisfemínista annarsvegar og forréttindafemínista hinsvegar.  Ég held að næstum því enginn sé á móti jafnréttisfemínisma og ég held að næstum því allir séu á móti forréttindafemínisma. Án aðgreiningar á þessu tvennu verður öll umræða um femínisma ómarkviss og sjaldnast nokkuð annað en hróp andstæðra fylkinga.

En hvað er þá forréttindafemínismi og telst hann vera öfgastefna? Við skulum byrja á að skýra betur hvað forréttindafemínismi er. Eins og hugtakið gefur til kynna er það femínisti sem aðhyllist forréttindi kvenna. Að æskja sér forréttinda getur augljólega aldrei farið saman við það að vera jafnréttissinni (jafnréttisfemínisti). Þetta má líka skýra á þann veg að jafnréttisfemínistar líta svo á að markmiðum baráttunnar sé náð um leið og konur njóta jafnra lagalegra réttinda á tilteknu sviði á við karlmenn. Forréttindafemínistar vilja aftur á móti ganga lengra og tryggja konum meðgjöf, stundum á grundvelli hugmynda sem forréttindafemínsitar kalla sögulega skuld, þ.e. að karlmenn í dag skuldi konum vegna meints misréttis sem konur hafa mátt þola fyrr á tímum. Forréttindafemínistar gefa sér að minni hlutdeild eða þátttaka kvenna á tilteknu sviði hljóti að vera afleiðing misréttis fremur en t.d. minni áhuga kvenna en karla á viðfangsefninu. Jafnframt skauta forréttindafemínistar svo listlilega vel framhjá sviðum þar sem á karlmenn hallar, þar er skýringar á bágri stöðu eða þátttöku karlmanna sagðar liggja í hans eigin vali og áherslum skv. skýringum þeirra. M.ö.o. þegar hlutdeild eða þátttaka kvenna er minni en æskilegt þykir samkvæmt einhverjum mælikvörðum þá er það karlmönnum að kenna og þegar hluteild eða þátttaka karla er minni en æskileg þykir þá er það líka karlmönnum að kenna.

Hvort forréttindafemínismi sé svo öfgastefna eður ei er hverjum frjálst að gera upp við sig. Ég hef skilgreint mín viðmið og get vel unað hverjum sem er að vera mér ósammála eða skilgreina einhver allt önnur viðmið. Mig langar þó að telja upp nokkur atriði sem falla undir mína skilgreiningu á forréttindafemínisma. Ég held mig við dæmi úr íslenskum raunveruleika svo upptalningin verði ekki allt of löng:

 1. Til eru þeir femínistar sem vilja snúa sönnunarbyrði við í nauðgunarmálum svo karl sem ásakaður er um nauðgun skuli teljast sekur þar til hann getur sýnt fram á sakleysi sitt. Ef hann þá getur það í slíku umhverfi. Þetta er í blóra við mannréttindaákvæði Stjórnarskrár Íslenska lýðveldisins ásamt ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu og Sameinuðu Þjóðanna sem Ísland er aðili að. Allir tilburðir í þessa veru eru því daður við afnám mannréttinda karlmanna á grundvelli kynferði. Talskona stígamóta talar fyrir þessu hér og launsátursfemínisti vitnar um að þetta sé sín skoðun og annara femínista hér.
 2. Konum með atvinnu hefur bókstaflega fjölgað eftir efnahagshrun á meðan karlar hafa misst vinnu í þúsundatali. Þegar atvinnulausir karlar voru 35% fleiri en atvinnulausar konur kröfðust prófessor í Kynjafræði og formaður Jafnréttisnefndar BSRB sértækra aðgerða til að vinna gegn atvinnuleysi kvenna. Sjá hér, hér, hérhér og hér.
 3. Forréttindafemínistar hafa barist fyrir kynjakvótum í stjórnum og stjórnunarstöðum opinberra stofnana og fyrirtækja. Skuggalega oft reynist það þó þessum sömu forréttindafemínistum þrautinni þyngri að hlýta ákvæðum gildandi Jafnréttislaga um kynjakvóta. Sjá hér, hér, hér og hér.
 4. Konur eru 70% opinberra starfsmanna. Þrátt fyrir það hafa fallið úrskurðir um að ráðning á (a.m.k.) jafnhæfum karlkyns umsækjanda, umfram kvenkyns umsækjanda, í starf hjá hinu opinbera hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga. Sjá hér.
 5. Hátt hlutfall kvenna í hinum svokölluðu kvennastéttum (80% í heilbrigðisstétt og 90% í kennarastétt) hefur gert það að verkum að nánast ómögulegt er að hagræða í þessum greinum án þess að það sé kallað bakslag í jafnréttisbaráttu. Ríkisreknar stofnanir, s.s. Jafnrétttisstofa  berjast gegn niðurskurði á þessum sviðum í nafni jafnréttis en þegja svo þunni hljóði þegar karlmenn missa störf sín í stórum stíl. Það sama má segja um fjöldann allan af stjórnmálamönnum. Sjá hér og hér.
 6. Ekki minni samtök en Kvenréttindafélag Íslands hafa opinberlega lýst þeirri skoðun sinni að misrétti gegn körlum megi réttlæta með vísan til fyrri tíma misréttis gegn konum. Sjá hér.
 7. Við setningu nýrra jafnréttislaga árið 2008 var gerð sú breyting að Félagi um foreldrajafnrétti var nú heimilað að tilnefna fulltrúa til setu í jafnréttisráði. Á sama tíma kváðu lögin á um að fjöldi kvenréttindafélaga mættu tilnefna fulltrúa. Þar á meðal er Femínistafélag Íslands. Að Félagi um foreldrajafnrétti væri hleypt að borðinu mótmæltu forréttindafemínistar harðlega í gegnum fulltrúa sinn á þingi. Sjá hér.
 8. Á sama tíma og ekki má alhæfa um konur sem  þjóðfélagshóp geysast þeir sömu forréttindafemínistar og það vilja banna, fram með neikvæðar alhæfingar um karlmenn. Þetta er sérstaklega áberandi eftir bankahrunið sem á skv. hugmyndafræði forréttindafemínista að hafa dunið á okkur fyrir tilstilli eðlislægra ágalla karlmanna. Sjá hér, hér, hér, hérhér og hér
 9. Á kápu nýjustu ársskýrslu Stígamóta gefur að líta listaverk sem sýnir sleggjur málaðar á rauðleitan bakgrunn. Í texta á myndinni segir: „Sleggjurnar sem berja niður alla kúnnana sem ganga um í bænum“. Sjá hér.
 10. Bæði leiðandi prófessor í kynjafræði og framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu hafa látið standa sig að því að líta ekki á meðlög feðra sem framfærslu inn á heimili barnsmóður. Þessi skilaboð senda þau svo börnum þessara manna í kennsluefni sem þeim er ætlað. Sjá hér og hér.
 11. Ritun Kynungabókar, sem ætlað er að fræða ungmenni um jafnréttismál, var í höndum 5 kvenna en engra karla. Þessar konur starfa allar að jafnréttismálum hjá hinu opinbera og í ritstjórnarhóp var t.d. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu. Í bókinni eru alvarlegar rangfærslur sem draga upp vonda mynd af karlmönnum og því kerfisbundið sleppt að ræða svið þar sem hallar á karla. Allir vita að það hefði aldrei farið hljótt, hefði fimm karlar skrifað kynrembuhlaðna bók um jafnréttismál fyrir börn á kostnað skattborgara. Sjá hér og hér
 12. Konum hefur um áratuga skeið staðið til boða lán sem eru niðurgreidd af ríki svo og hreinir peningastyrkir til atvinnumála kvenna sem körlum bjóðast ekki. Engir styrkir eða lán eru í boði fyrir karlmenn sem konur hafa ekki aðgang að. Ríkinu þótti meira að segja við hæfi að veita konum þessa forgjöf árið 2007 þegar lán bárust fólki nánast inn um lúguna óumbeðið. Sjá hér, hér, hér,  hér og hér.
 13. Forréttindafemínistar hafa um árabil barist fyrir því að konur og karlar fái ólíka afgreiðslu mála sinna hjá dómstólum landsins. Nú er svo komið að kona getur fengið karlmann dæmdan fyrir kynferðisáreitni/ofbeldi án þess að viðkomandi karl njóti réttarhalda. Sjá hér.
 14. Erlendar rannsóknir sýna að í allt að 30% gerenda í málum er varða kynferðisofbeldi gegn börnum eru konur. Hér á landi hefur kona aldrei verið dæmd fyrir slíkt ofbeldi. Lágt hlutfall þeirra mála sem koma upp á yfirborðið og/eða enda með dómi er af femínistum iðulega sagt vera til marks um kerfislæga mismunun gegn konum. Miðað við það að hérlendis komist konur alltaf upp með kynferðisbrot á börnum finnst mér fara heldur lítið fyrir umræðum þar um og þögnin jafnvel ærandi frá þeim samtökum sem berjast gegn kynferðisofbeldi.
 15. Nýleg íslensk rannsókn sýnir að konur fá hlutfallslega mun sjaldnar dóma fyrir afbrot en karlar sem fremja sambærilega glæpi. Þegar konur fá dóma eru þeir oftar styttri og/eða skilorðsbundnir. Misréttið sem höfundur rannsóknarinnar sá út úr því var að það væri óréttlátt gagnvart konum á glæpabrautinni að sýna þeim linkind.
 16. Með frumvarpi til nýrra barnalaga sem vinna hófst við árið 2008 var stigið stórt skref fram á við í átt til foreldrajafnréttis. Ein veigamesta breying á barnalögum átti að verða sú að dómarar fengju heimild til að dæma sameiginlega forsjá í tilvikum þar sem hann mæti það barni fyrir bestu í stað þess sem nú er að annað foreldrið „sigrar“ forræðismál en hitt „tapar“. Íslenska femínistahreyfingin lagðist á eitt um að bægja þessu eins og lesa má af umsögnum félaga þeirra við frumvarpið og kýs því áfram ójafnrétti þar sem það er konum í hag. Sjá hér.
 17. Þegar saksóknari efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, sem er kona, varð fyrir því sem flest fólk upplifir einhverntíman á lífsleiðinni, að vera uppnefnd af samstarfsmanni vildi hún að yfirvöld tækju á málinu. Af umræðunni sem spratt í kjölfarið var ljóst að forréttindafemínistum finnst sjálfsagt að konur fái vernd frá móðgunum og dónaskap á vinnustöðum. Vernd sem karlar njóta ekki. Sjá hér.
 18. Í gildandi jafnréttislögum segir að þeim sé ætlað að: “bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu”.
 19. Á póstlista Femínistafélags Íslands birtist í janúar 2010 auglýsing á ráðstefnu sem halda átti hérlendis. Yfirskrift ráðstefnunnar var “Jafnt er ekki nóg“. Sjá hér.
 20. Í desember 2009 mátti sjá þessa fyrirsögn á dv.is: „Femínistar vara við ábyrgum feðrum“. Þarna var átt við Félag um foreldrajafnrétti sem sannarlega berst fyrir jafnrétti á einu þeirra sviða sem á karlmenn hallar. Sjá hér.

Þetta er ekki tæmandi listi yfir öfgar forréttindafemínsista en þó alveg yfirdrifið nóg fyrir mig til að sjá að femínistahreyfingin er að einhverju leiti komin út í öfgar þó ekki se allur femínismi öfgastefna. Ég er þeirrar skoðunar að langsamlega stærstur hluti kvenna og karla séu jafnréttissinnuð og að stærstur hluti þeirra sem kalla sig femínista séu jafnréttisfemínistar fremur en forréttindafemínstar, út á þá hef ég ekkert að setja nema síður sé.

Ykkur sem hafnið því að til sé eitthvað sem kalla mætti öfgafemínisma eða spyrjið í gamansömum niðrandi tón, hvort eitthvað sé til sem kalla mætti öfgajafnrétti, langar mig að spyrja: Er allt þetta þá bara dæmi um venjulegan öfgalausan femínisma?

SJ

5 athugasemdir á “Femínismi er ekki öfgastefna”

 1. lebbins Says:

  Þó ég sjái e.t.v. ekki öll atriðin sem þú telur upp á sama hátt og þú – þá finnst mér greinin góð og komast ansi nærri kjarna málsins. Finnst reyndar flestar greinsr hér góðar og kem oft við.

  Barátta gegn þeim sem vilja forréttindi vinnst ekki með öfgum – heldur yfirveguðum og rökföstum málflutningi.

 2. Sigurður Jónsson Says:

  Velkominn lebbins og takk fyrir innleggið.

  Já, sitt sýnist hvejrum hvað telst til öfga en við erum sammála um það að það þarf að halda uppi opinberum málflutningi gegn þessu. Það þurfa sem flestir að láta í sér heyra og á sem fjölbreyttastan hátt.

  Sé vonandi meira af þér hérna!

 3. Theódór Gunnarsson Says:

  Mér datt í hug að halda mér til hlés, svona til að mynda ekki jákór, en get ekki stillt mig um að taka undir með lebbins. Hann orðaði þetta ágætlega.

 4. Guðjón Pálsson Says:

  Eftir að eiginkonan uppgvötaði síðu Sigurðar og gaf mér urdlið innpakkað í gjafaöskju með rauðri rós á konudaginn, hvarf um leið bleiki minnismiði minn af ísskápnum varðandi róandi pillur. Hún notaði hann sem kort með gjöfinni.

  Frábær síða. Takk fyrir mig.

  Guðjón

%d bloggurum líkar þetta: