Ég hef um nokkurt skeið notað mér orðabók sem Jafnréttisstofa heldur úti á vef sínum http://www.jafnretti.is. Í hana leita ég þegar ég vil fá nákvæmar skýringar á hinum ýmsu hugtökum jafnréttisumræðunnar.
Orðabók Jafnréttisstofu gerir hugtökum er lýsa mögulegu misrétti gagnvart konum góð skil en eitthvað fer minna fyrir hugtökum sem lýsa misrétti sem karlmenn verða almennt fyrir í meira mæli. Hugtök eins og „umgengnistálmun“, „kynbundinn dauðamunur“ og fleira í þeim dúr eru þar hvergi sjáanleg og jafnvel hugtök sem eru orðin þokkalega áberandi í umræðunni eins og „foreldrajafnrétti“ hafa, að því er virðist, ekki hlotið náð hjá jafnréttissinnunum á Jafnréttisstofu. Þá ber að nefna nokkur hugtök sem sannarlega eru lýsandi fyrir kröfur og málflutning forréttindafemínista en þykja kannski miður líkleg til að vera forréttindafemínistum til framdráttar í baráttu sinni. Hugtök á borð við „forvirkar sértækar aðgerðir“ og „söguleg skuld“ svo dæmi séu tekin.
Þar sem mér finnst að ríkisrekin stofnun sem stuðla á að jafnrétti eigi að vera kynhlutlaus fannst mér ekki úr vegi að senda þeim nokkrar þarfar ábendinga um það sem mér finnst vanta í orðabók þeirra, enda spyr Jafnréttisstofa neðst á síðunni hvort lesendum finnist eitthvað vanta í orðabókina og bjóða viðkomandi að senda uppástungur á netfang stofnunarinnar. Í nokkrum póstum gerði ég tillögur um hugtök sem mér fannst að ættu heima í orðabókinni og studdi með upplýsingum sem mér þótti réttlæta og skýra tilurð þessara hugtaka.
Fyrst tók ég fyrir hugtakið Forvirkar sértækar aðgerðir og sendi neðangreint skeyti:
„Góðan og blessaðan daginn,
Ég hef gert töluvert af því að nýta mér orðabókina sem þið haldið úti á vefsíðu ykkar og hefur hún reynst mér mjög gagnleg. Á henni bendið þið fólki á að senda ykkur tölvupóst ef því þykir eitthvað vanta í orðabókina.
Ég er með tillögu sem ég held að væri mjög gagnleg en það er hugtakið forvirkar sértækar aðgerðir. Þið hafið nú þegar skýringu á hugtakinu sértækar aðgerðir en ég sakna hins. Sérstaklega þar sem við erum nýbúin að sjá kröfu um forvirkar sértækar aðgerðir settar fram opinberlega. Það gerði t.d. Þorgerður Einarsdóttir Prófessor í kvennafræði í fréttum Ríkissjónvarpsins þann 16. mars sl. þar sem hún gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að stuðla að uppbyggingu starfa sem hún kallaði af einhverjum ástæðum karlastörf. Þá vildi hún meina að ríkisstjórnin hefði vikið frá eigin loforðum um samþættingu kynjasjónarmiða við hagstjórn og fjárlagagerð.
Þar sem ég vissi, þegar ummæli Þorgerðar féllu, að atvinnulausir karlar væru þriðjungi fleiri en atvinnulausar konur, og að raunar hefðu fleiri konur starf nú en fyrir bankahrun, sendi ég Þorgerði fyrirspurn og óskaði skýringa á hvernig hún fengi þetta út. Í svari sínu kom skýrt fram að hún byggði kröfu sína á erlendum rannsóknum er sýndu að í efnahagsþrengingum annara landa hefði atvinnuleysi sumstaðar orðið meira meðal kvenna en meðal karla en að þeirra áhrifa gætti jafnan á seinni stigum niðursveiflunnar. M.ö.o. Ríkisstjórn Íslands ætti að bregðast við því með forvirkum aðgerðum að einhverntíman í framtíðinni kynni atvinnuleysi meðal kvenna að verða meira en meðal karla.
Af þessum útskýringum fengnum má nátturulega segja að þetta liggji í augum uppi en mér þætti svo sannarlega vera til bóta fyrir jafnréttisumræðuna ef þetta hugtak væri almennt viðurkennt og skýrt á vef Jafnréttisstofu svo aðrir áhugasamir gætu fengið upplýsingar um það.
Eruð þið ekki sammála því að það þurfi að skerpa aðeins á þessu?
Með góðri kveðju,
Sigurður Jónsson“
Svarið barst mér um hæl og hljóðaði svo:
„Sæll og blessaður Sigurður.
Það er gott að vita að orðabókin á síðunni nýtist þér vel. Það er alltaf gaman að fá jákvæðar athugasemdir, þakka þér fyrir það.
Hugtakið „forvirkar sértækar aðgerðir“ sem þú nefnir hef ég ekki séð fyrr. Sértækar aðgerðir eru skilgreindar í 6. tl. 2. gr. laganna nr. 10/2008, eins og þér er kunnugt. Miðað við þá skilgreiningu og samkvæmt þeim skyldum sem á allt samfélagið eru lagðar samkvæmt jafnréttislögunum og þær meginreglur sem fram koma í markmiðsgrein laganna er ég ekki sannfærð um það að það sé þörf á því að innleiða þetta hugtak sem þú stingur upp á.
Við þökkum ábendinguna og tökum hana til skoðunar.
Með góðri kveðju“
Jæja, ekki virðist stofnunin hafa verið mér sammála að þessu sinni enda nokkuð um liðið að erindið var sent og enn er það ekki sjánalegt í orðabókinni. Við skulum sjá hvaða svör ég fæ við næstu ábengingum, ég bíð spenntur. Fylgist með.
SJ
4.3.2012 kl. 12:30
Koma kynjagleraugu einhverntíman fyrir í lögum?
4.3.2012 kl. 12:39
Velkominn og takk fyrir innleggið. Nei, ég ef ekki rekist á það. Hugtakinu „kynjagleraugu“ er fyrst og fremst ætlað að varpa ljósi á kynjavíddina í hinum og þessum málum.
4.3.2012 kl. 18:05
Áhugaverð orðabók þótt stutt sé. Ég minnist þess ekki að hafa séð þess sérstaklega getið í orðabók áður að eitthvað sé „skemmtilegt“ hugtak, venjulega eru orðum og orðatiltækjum ekki gefnar einkunnir eftir smekk orðabókahöfunda.
Verst að vera hætt að kenna því í þessari örorðabók eru mörg gullkornin sem gætu nýst í verkefni í íslenskukennslu.
4.3.2012 kl. 19:07
Já Harpa, þessari orðabók væri kannski betur lýst sem áróðursorðabók svo fólk vissi að í hana veldust bara orð og hugtök sem henta höfundum hennar.