Hatur forréttindafemínista á karlmönnum birtist okkur í ýmsum myndum. Svosem baráttu þeirra gegn mannréttindum karla eins og þau eru skilgreind í Mannréttindasáttmála Evrópu og Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Ég er löngu hættur að kippa mér upp við það þegar karlahatur og karlfyrirlitning brýst fram í málflutningi forréttindafemínista en hitt þykir mér alltaf jafn umhugsunarvert, það hvernig forréttindafemínistar virðast hafa frítt spil þegar kemur að hatursorðræðu og baráttu þeirra gegn mannréttindum afmarkaðra þjóðfélagshópa.
Ekki aðeins hefur þessi hreyfing frítt spil, heldur virðist enginn skortur á körlum og konum sem hafna því að nokkuð í þessum dúr hafi nokkru sinni mátt sjá í málflutningi forréttindafemínista. Þetta má t.d. sjá í athugasemdakerfum á miðlum sem fjalla um kynjamálin. Þetta er umræða sem ég þykist viss um að sé með öllu óhugsandi ef við ímyndum okkur t.d. hreyfingu rasista sem vildi takmarka þessi sömu réttindi útlendinga á grundvelli fyrirlitningar á þeim. Gott ef þessir sömu forréttindafemínistar færu ekki á rönguna yfir slíkum tilburðum.
Ein af þeim breytingum sem forréttindafemínstar berjast fyrir og vilja innleiða er sú að sönnunarbyrði sé snúið við í einum brotaflokki, kynferðisbrotamálum. Einkum þó nauðgunarmálum þar sem yfirgnæfandi meirihluti sakborninga eru karlmenn og meirihluti fórnarlamba konur en eitthvað segir mér að þess háttar kynjaskipting sé frumskilyrði fyrir því að hjá forréttindafemínistum vakni áhugi á að snúa við sönnunarbyrði. Í ljósi útbreiddrar vantrúar á að femínistar standi fyrir svona nokkru skulum við nú taka af allan vafa um að hér fari barátta forréttindafemínista gegn mannréttindum karla. Til þess skulum við draga fram lagagögn og beinar tilvitnanir í forréttindafemínistana sjálfa.
Fyrst er það Stjórnarskrá Íslenska Lýðveldisins en í 70. gr. hennar segir:
„Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð“
Og þá lög um Mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62 frá 1994, 6. gr., 2. töluliður:
„Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum“
Eins og sjá má á þessum nánast samhljóða lagagreinum, er það að teljast saklaus uns sekt er sönnuð bæði borgaraleg réttindi skv. Stjórnarskrá og grundvallarmannréttindi skv. Mannréttindasáttmála Evrópu. Víkjum þá að ummælum þekktra forréttindafemínista sem sýna, svo ekki verður um villst, að þeir vilja draga úr þessum mannréttindum í tilviki karla.
Í Smugugrein sinni „Karllægt réttarkerfi, besti vinur nauðgarans?“ frá því 11. desember 2011 óskapast María Lilja Þrastardóttir og Anna Bentína Hermansen yfir því að þessi grundvallarmannréttindi skuli ná yfir karlmenn sem sæta ásökunum um kynferðisofbeldi. (feitletrun mín):
„Sakfelling í kynferðisbrotamálum virðist miðast við að hægt sé að flokka verknaðinn undir rétt hegningarlagaákvæði. Sú skoðun er því ríkjandi að fórnarlambi nauðgunar eru settar þær takmarkanir við ákæru að sanna beri fyrir lögum, ásetning þess sem brýtur, framar því að meintur nauðgari skuli þurfa að sýna fram á sakleysi sitt. Þetta setur óneitanlega svip sinn á málalyktir í málum þar sem sýnilegir áverkar eru ekki til staðar, því hvernig er hægt að sanna ásetning einhvers til ódæðis ef ekkert er vitnið og málið byggist upp á orði gegn orði?“
Þá gengur Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta sýnu lengra þegar hún segir:
“Hugmyndafræðin „saklaus uns sekt sannast“ er ekki fullnægjandi þegar um nauðgunarmál er að ræða. Samkvæmt þeirri grunnhugsun eru sekir nauðgarar á hverju ári innan við tíu, á sama tíma og Stígamót og Neyðarmóttakan fást við um 250 nauðganir á ári og vitað er að það er toppurinn á ísjakanum. Þar með eru nauðgarar í að minnsta kosti 240 tilfellum saklausir á Íslandi á hverju ári, þrátt fyrir að hafa framið gróf mannréttindabrot.
Grunnhugsunin er auðvitað að dæma ekki nema sekt sé sönnuð, en ef við förum alla leið þangað að þar með séu viðkomandi saklausir, erum við í raun að dæma 240 konur á hverju ári fyrir að bera rangar sakir á menn. Flestar þessara kvenna reyna ekki að ná rétti sínum, ef þær reyna það eru þær tortryggðar og málin felld niður”
Þessari tilvitnun í orð Guðrúnar var póstað á vegg fésbókargrúppu Femínistafélags Íslands og hlaut þar bestu undirtektir innleggja í langan tíma. Þetta sýnir að forréttindafemínistar mæla fullum fetum fyrir afnámi grundvallarmannréttinda og vilja að þetta afnám eigi bara við um karlmenn. Þessi barátta gegn mannréttindum einskorðast ekki bara við fáa unga róttæklinga heldur sjáum við þessi viðhorf staðfest af landssamtökum femínista (Femínistafélag Íslands) og samtökum femínista sem rekin eru fyrir almannafé (Stígamót). Með öðrum orðum; karlmenn standa að hluta til straum af kostnaði við baráttu forréttindafemínista fyrir afnámi mannréttinda þeirra og sona þeirra í gegnum skattgreiðslur sínar.
Ef við ímyndum okkur samfélag sem innleiddi þessa femínísku hugmyndafræði í lög þá væru forréttindafemínistar búnir að skapa hér samfélag þar sem þeir, og konur almennt, gætu tekið karlmenn sem þær kynnu af einhverjum sökum illa við af lífi án dóms og laga í félagslegu tilliti. Það eitt að væna karlmann um að hafa nauðgað sér dygði til. Ég bendi á að þetta eru þeir glæpir sem fólk virðist almennt hafa mesta andstyggð á af öllum glæpum, þvert á það sem forréttindafemínistar halda gjarnan fram þegar þeir fullyrða að þessir glæpir séu að einhvejru leyti samþykktir af samfélaginu og jafnvel bara eitthvað karlasport.
Höfum þetta í huga næst þegar við sjáum karl eða konu hafna því að femínistahreyfingin berjist gegn mannréttinum eða vilji snúa sönnunarbyrði við í brotaflokkum þar sem karlmenn eru í meirihluta sakborninga. Vandamálið hér er ekki hatur forréttindafemínsta á körlum, það verður alltaf til fólk sem hatar aðra kynþætti eða þjóðfélagshópa og lítið við því að gera. Vandamálið er fályndi samfélagsins gagnvart þessum hættulegu viðhorfum sem aftur gefur þeim meira rými en þau eiga skilið. Hvar eru t.d. fjölmiðlar þegar fulltrúi samtaka sem rekin eru fyrir almannafé lætur ummæli sem þessi falla? Myndum við láta það gagnrýnilaust að fyrirsvarsmaður einhverrar opinberrar stofnunar mælti fyrir afnámi mannréttinda annara afmarkaðra þjóðfélagshópa s.s. samkynhneigðra, fatlaðra eða útlendinga?
Við karlmenn sem síðan verja þessa baráttu gegn mannréttindum sínum og sona sinna segi að lokum þetta; hysjið upp um ykkur buxurnar og ræktið upp sjálfsvirðingu. Mannréttindi féllu ekki af himnum ofan.
SJ
26.2.2012 kl. 19:45
Hérna ertu að fabúlera eins og í öllu öðru sem þú skrifar Sigurður minn. Það kemur mér svo sem ekki á óvart, enda blindaður af hatri til femínista og reynir að leita logandi ljósi að öllu því sem þú getur á mögulegan hátt snúið út úr og gert tortryggilegt.
Þú ert hræddur um að stjórnarskráréttindi séu brotin á „meintum“ nauðgurum en hefur engar áhyggjur af því að stjórnarskráréttindi séu brotin á „meintum“ þolendum. Ef þú hefðir lesið grein okkar Maríu Lilju hefðir þú áttað þig á að við vorum að tala um rétt hverrar mannesju til að fá áheyrn dómstóla. Í kynferðisbrotamálum er slíkur réttur þverbrotin. Staðreyndnin er að 15 af hverjum 15 nauðgurum ganga lausir. Kannski finnst þér það allt í lagi en mér finnst það ekki.
Að auki er það réttur hverrar einustu manneskju að leita réttar síns sé henni nauðgað, allt að 80% kærðra mála enda með fravísun. Þ.a.l er saklaus uns sekt er sönnuð ófullnægjandi í allri umræðu um þessi mál. Og þú kýst að ritskoða félagslegan veruleika með lagaákvæðum. Staðreyndin er sú að flestir nauðgarar sleppa án þess að mál þeirra fari nokkru sinni fyrir dóm. Og það er veruleiki Stígamóta og þeirra þolenda sem þangað leita. Þetta er ekki eitthvað sem ér búið til af karlahatri heldur staðreyndum og veruleika sem þú þekkir hvorki haus né sporð á.
Það er gott að þú sért ánægður með íslenska réttarkerfið, enda er það einmitt samkvæmt þínu höfði og þú virðist algjörlega blindur á þau forréttindi sem þú sakar aðra um. Staðreyndin er sú að þú gagnrýnir „meint“ forréttindi sem þú ásakar femínista um að hafa, en þær eru yfirleitt að fjalla um æskilegar breytingar sem eru ekki til staðar. Þannig að þær eru ekki handhafar forréttindanna. Þú ert hinsvegar handhafi forréttinda og heldur heila síðu út fyrir „meinta“ forréttindahafa en ert algjörlega blindur á eigin akfeitu forréttindi og rökleysu.
Ég er femínisti og það gallharður, ég vil jafnrétti. Karlar eru í dag í miklum forréttindahóp, flestir þeirra viðurkenna það og skilja að það sé best fyrir bæði kynin að jafnrétti sé náð. Sjálfsögð mannréttindi eins og að sjálfsávörðunarréttur kvenna yfir eigin líkama sé virtur og að þær geti sótt mál sín fyrir dómi, telur þú vera ásókn eftir forréttindum.
Það er sorglegt að þú sjáir ekki skekkjuna í eigin málflutningi en hún er hér einlægur vitnisburður um aðra misheppnaðar túlkanir sem hafa birst á þessari síðu og þínum málstað ekki til framdráttar, ef þú hefur einhvern málstað.
Bestu kveðjur Anna Bentína
27.2.2012 kl. 9:24
15 af hverjum 15 nauðgurum ganga lausir? Það eru semsagt engar sakfellingar fyrir nauðganir hérlendis?
Það eru, held ég, allir sammála um að brotaþolar í kynferðisbrotamálum eru ekki að fá viðunandi málsmeðferð í réttarkerfinu.
Sönnunarbyrðin er erfið og oftast ekki nema 2 til frásagnar um atburðinn – oftast er þetta semsagt orð gegn orði. Þannig sér ólöglærður leikmaður eins og ég þetta a.m.k.
Hvað hægt er að gera til að auðvelda rannsókn kynferðisbrotamála veit ég ekki – en fullyrði að raunverulegum úrbótum á þessu sviði yrði tekið fagnandi af samfélaginu í heild sinni.
Að ganga svo langt að snúa sönunnarbyrðinni við er hinsvegar fráleitt og gengur gegn grundvallarhugmynd réttarríkisins. Að bera á menn (eða konur) sakir og ætlast til þess að þeir/þær afsanni þessar sömu sakir gengur ekki og getur ekki viðgengist í lýðræðisríki. Það er ekki út í bláinn að menn (og konur) skuli vera saklaus uns sekt er sönnuð.
Svo væri ég til í vita hvaða „mikla forréttindahóp“ ég tilheyri, ég hef nefnilega ekki orðið var við mikil forréttindi.
27.2.2012 kl. 12:04
Anna, Stefán, velkomin og takk fyrir innleggin.
Anna,
Mig langar að byrja á að leiðrétta nokkrar rangar fullyrðingar hjá þér.
1. Ég sagði hvergi að ég hefði ekki áhyggjur af því að mannréttindi væru brotin á fórnarlömbum kynferðisofbeldis. Það eru þín orð.
2. Ég sagði hvergi að ég væri ánægður með íslenskt réttarkerfi. Það eru þín orð.
3. Ég hata ekki nokkra lifandi veru, ekki heldur femínista og finnst leitt að þú haldir það. Ég er sennilega of sérgóður til að gera sjálfum mér það að hata. Ég skal hinsvegar viðurkenna að það eru til skoðanir sem ég fyrirlít og ég held að þannig sé um okkur flest. Ég held t.d. að þú fyrirlítir skoðanir mínar en ég vona að þú hatir mig ekki því það myndi fara verst með þig sjálfa.
Þá að efnislegum svörum við innleggi þínu:
Það er sama hvað þú telur upp um þau vandamál sem sannarlega eru upp í baráttu við kynferðislegt ofbeldi. Ekkert sem þú segir mun breyta þeirri skoðun minni að það að berjast fyrir afnámi mannréttinda (árið 2012) er með öllu óverjandi. Ég tel mig hafa sýnt fram á í þessari færslu að samtök femínista eru vissulega að berjast fyrir afnámi mannréttinda þó þú lítir bara á þetta sem hugmyndir eða pælingar. Það að líta ekki á grunaðan karl eða konu sem saklaus uns sekt er sönnuð er brot á Mannréttindasáttmála Evrópu og Stjórnarskrá Íslenska lýðveldisins, sama hvernig það er orðað og þú getur ekki neitað því.
Raunar finnst mér athyglisvert hvernig þið setjið þetta fram opinberlega en hafnið því svo um leið að það sé ykkar vilji að draga úr þessum mannréttindum. Engu skiptir þó þið berjist fyrir mannréttindum á öðru sviði, maður kemur ekki út á sléttu með því að drepa mann ef maður bara bjargar öðrum, netto niðurstaðan af því er að maður hefur drepið mann og þarf að sæta refsingu fyrir.
Lög og félagslegur raunveruleiki eins og þú kallar það eru ekki tveir aðskildir hlutir. Lög eru sett til að fólk geti lifað saman í samfélagi þrátt fyrir galla sína og verða aldrei fullkomin. Það er áhugavert að þú sért þeirrar skoðunar að femínistar telji sig þess umkomna að ákveða hvenær lög eigi við og hvenær ekki. Það væri t.d. gaman að vita í hvaða tilvikum öðrum femínistum finnst réttlætanlegt að setja lög til hliðar til að knýja fram sitt réttlæti. Ég er þó alveg handviss um að ég vil ekki byggja slíkt samfélag að lög og reglur séu eitthvað sem þið ákveðið hvar eigi við og hvar ekki.
Og svona smá útúrdúr ef þú nennir, alls ekki nauðsynlegt þar sem þetta tengist ekki þessari færslu, en hvaða forréttindi hef ég?
28.2.2012 kl. 23:13
Klassík … þú ert bara vondur og vitlaus. Ég er gáfuð og góð 😀
29.2.2012 kl. 10:37
miðað við hve oft maður heyrir um nauðganir í þessu þjóðfélagi og hvað maður hefur séð til sumra kalla (strákpjakka)
þá efast ég stórlega um að 240 af þessum 250 á ári sem talað er um, séu saklausir.
mun líklegra að 240 séu sekir og 10 saklausir.
annars persónulega, þá myndi ég vilja að BÆÐI kynin löguðu samskipti sín við hvort annað.
myndi kalla mig húmanista frekar en karlista eða feminista, nema ég kann mun betur við dýrin. 🙂
2.3.2012 kl. 0:06
Velkominn Svenni og takk fyrir innleggið. Þetta er góð hugvekja, að bæði kynin lagi samskipti sín hvort við annað.
Vel má vera að næstum allir þessara séu í raun sekir. Ég held bara að afnám þeirra mannnréttinda að menn teljist saklausir uns sekt þeirra sé sönnuð fæli í sér afturhvarf til villimennsku sem mannskeppnan óx ekki uppúr fyrr en tiltölulega nýlega og er í sumum heimshlutum ekki enn vaxin upp úr. Þegar fólk telur sig þess umkomið að dæma annað fólk án réttlátrar málsmeðferðar þá er það orðið fasískt.
Kann ágætlega við ketti en börnin eru best 😉
29.2.2012 kl. 11:07
Sigurður, mér fyndist að þú ættir að fá þessa grein þína, eða stytta útgáfu hennar, birta í blöðunum sem aðsenda grein. Það myndi vekja athygli á þeim mikilvægu punktum sem þú setur hér fram á svo skilmerkilegan hátt. Það er gott að gera það þannig, og leyfa fólki að sjá með eigin augum hve mjög tilgangurinn helgar meðalið hjá íslenskum femínistum, eins og þeim sem þú nefnir.
29.2.2012 kl. 18:14
Velkominn Helgi og takk fyrir innleggið. Já, kannski maður ætti að gera það. Mér finnst a.m.k. óskiljanlegt hvað fjölmiðlar sýna þessu mikið tómlæti.
29.2.2012 kl. 13:41
Hildur Lilliendahl fer mikinn þessa dagana með skjáskotum af forkastanlegum ummælum karla í garð kvenna. Ágætis framtak hjá henni. En eitt skjáskotið er þarna aðeins vegna þess að viðkomandi minntist á að femínistar vildu snúa sönnunarbyrðinni við í kynferðisbrotamálum.
Sem sagt, maðurinn „hatar konur“ í augum Hildar af því að hann hermir upp á femínista að vilja skerða stjórnarskrárbundin mannréttindi eins og minnst er á hér í þessari grein að ofan. Gallinn við þetta hjá Hildi, að setja manninn þarna, er að það eru til borðleggjandi heimildir og staðfestingar að hann fer ekkert með fleipur. Og því er hann á lista yfir „karlar sem hata konur“ bara út af því að hann er ekki sammála femínistum. Þetta er ekki flókið. Hildur gerir sig svo líka sjálf „seka“ um að sýna karlmönnum sem ekki eru sammála henni eða femínistum (minnist ekki orði á allar konurnar) einstaka fyrirlitningu í þessu innleggi hér: http://kaninka.net/snilldur/?p=2083
Þetta innlegg gefur til kynna að hún telur, eins og reyndar fleiri forréttindafemínistar, að allir karlar sem ekki sjá jafnréttismál með augum forréttindafemínistans, séu á móti jafnrétti kynjanna. Sem er alls ekki rétt.
En varðandi að ganga á stjórnarskrárbundin mannréttindi.
Sigurður vitnar hér í tvær greinar einstaklinga. En það má við þetta bæta að sterkustu samtök femínista á landinu, Femínistafélag Íslands, hefur látið álíka tillögu fara frá sér í formi álits við lagafrumvarp.
http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=139&malnr=778&dbnr=2674
Þar stendur í þriðju málsgrein: „Femínistafélagið vill einnig leggja til að tekið verði til skoðunar hvort almennar reglur einkamálaréttarfars um sönnunafærslur skuli eiga við þegar álit er um hvort barn eða aðrir á heimili barns verði fyrir ofbeldi á heimi sínu. Með hagsmuni barnsins að leiðarljósi væri vert að taka til skoðunar að hvort veita eigi dómara heimild til þess að lækka sönnunarmat í slíkum málum með hagsmuni barnsins að leiðarljósi“.
Þetta er ekki einstaklingur þarna á ferð, þetta eru skipulögð samtök, sem leggja til að skoðað verði að stjórnarskrárbundin mannréttindi verði aflögð í refsimálum. Allnokkrir þingmenn í núverandi meirihluta eru í þessum samtökum. Fólk í þessum samtökum hafa haft frumkvæði af því að fá í gegn m.a. eftirfarandi lagabreytingar í krafti þessarar ríkisstjórnar:
– Afnám launaleyndar
– Austurrísku leiðina vegna heimilisofbeldis
– Sænsku leiðina vegna vændis
– Kynjakvóta í stjórnir fyrirtækja
Ætli viðsnúningur á sönnunarbyrgði í vissum refsimálum verði næst á dagskrá?
Þú getur bætt þessari heimild í heimildasafn þitt, Sigurður. Og takk fyrir þín ágætu skrif.
29.2.2012 kl. 18:22
Veistu, ég var einmitt að leggja lokahönd á færslu um listann hennar Hildar. Ég fékk þessi ummæli send til mín sem þú vísar í og fannst stórundarlegt að þetta skuli hafa unnið honum inn þennan sess.
Ég var í raun bæði ánægður og óánægður með þetta framtak Hildar þegar ég heyrði af þessu fyrst. Mér finnst ekkert að því að vekja athygli á fólki sem veður uppi með ógeðisathugasemdir á netinu. Á hinn bóginn sá ég margt á þessum lista sem ég gat bara ekki komið auga á hatur eða fyrirlitingu í, sbr. þau ummæli sem þú vísar til. Því miður breyttist þessi samfélagstilraun hennar í tæki til að veita hennar eigin kynrembu og karlfyrirlitningu farveg að mér sýnist.
Mjög gott að fá fram þennan vinkil á ályktun FÍ takk. Ég vil þó benda á að Guðrún Jónsdóttir skrifaði undir téð ummæli sem talskona Stígamóta. Það gefur ummælum sama vægi og FÍ nema hvað mér finnst markvert að benda á að samtök hennar eru ríkisstyrkt og lúta þar með öðrum kröfum en FÍ að mínu mati.
29.2.2012 kl. 20:47
Munið þið eftir jólakortinu hennar Sóleyjar Tómasdóttur hér um árið? „Askasleikir óskar sér þess að karlmenn hætti að nauðga“. Prófum að setja í staðinn „Askasleikir óskar sér þess að múslímar hætti sjálfsmorðsárásum“. Hvernig er þetta þá farið að hljóma?
29.2.2012 kl. 21:10
Velkominn Árni og takk fyrir innleggið. Já ég skil hvað þú ert að fara. Það getur verið gagnlegt að setja hlutina í annað samhengi til að sjá kynjaskekkjuna. Það er kannski kaldhæðni örlaganna að ef einhver vogaði sér að gefa út svona kort þá myndu þær hinar sömu og stóðu fyrir hinu sjálfsagt fara fremstar í flokki þeirra sem fordæmdu það.
5.3.2012 kl. 19:53
Áhugaverð lesning, ég hef sjálfur verulegar áhyggjur af framgangi feminista þessa daga. Það virðist vera að öfgar hafi alfarið tekið yfir í baráttu þeirra fyrir „jafnrétti“. Verst þykir mér að Anna B. hafi ekki svarað….ég er nefninlega mjög forvitinn að fá upplýsingar um hvaða forréttindi ég sem karlmaður hef, er eitthvað búinn að vera að fara á mis við þau.
5.3.2012 kl. 21:46
Velkominn Gunnar og takk fyrir innleggið.
Já þú ert ekki einn um það að vilja vita hvaða forréttindi kyn þitt hefur tryggt þér. Ég hef leitað gaumgæfilega og ekki fundið svo gott væri ef Anna gæti upplýst okkur en ég er reyndar ekki of vongóður um að hún geri það.