Menning karlfyrirlitningar

4.2.2012

Blogg

Karlfyrirlitning er fyrirbæri sem getur reynst erfitt að henda reiður á í samfélaginu enda sýnist sitt hverjum. Rétt eins og í tilviki kvenfyrirlitningar þá er mat á því hvað fellur undir karlfyrirlitningu að miklu leyti einstaklingsbundið. Þá er ekki óalgengt að fólk missi sig í túlkunargleðinni og sjá karl- eða kvenfyrirlitningu í hverju horni svo hreinlega jaðrar við vænisýki.

Ég er þeirrar skoðunar að menning okkar hafi á síðustu árum aukið þol sitt fyrir karlfyrirlitningu á sama tíma og þol fyrir kvenfyrirlitningu hefur snarminnkað. Það að kvenfyrirlitning fái minna rými í samfélaginu er auðvitað bara gott en það er að sama skapi bagalegt að stemmning fyrir karlfyrirlitningu skuli á sama tíma aukast. Það er t.d. áhugavert að velta fyrir sér hvort mannfyrirlitning (þ.e. karl- og kvenfyrirlitning) hafi nokkuð minnkað, fremur en að deilast bara niður á kynin í öðrum hlutföllum en áður.

Ég er líka þeirrar skoðunar að þessi breyting á samfélagi okkar hafi komið til vegna þess að femínistar hafa barist ötullega gegn öllum birtingarmyndum kvenfyrirlitningar á meðan þessi sami hópur lætur sig ekki varða karlfyrirlitningu. Þvert á móti virðist mörgum femínistum þrautinni þyngra að standa í baráttu sinni án þess að láta standa sig að karlfyrirlitningu sem stundum brýst fram eins og einskonar femínískt tourette. Þetta rýrir óneitanlega málstað þessara sömu femínsta. A.m.k. að mínu mati.

Mig langar að taka fyrir eitt dæmi úr menningu okkar sem ég rakst á í vikunni en það er brot úr Morgunþættinum Magasín á útvarpsstöðinni FM 957. Í þættinum hringdi þáttastjórnandi, Erna Dís, í ungan mann sem hún hafði kynnst á einhverskonar stefnumótasíðu sem hún skráði sig á í tilraunaskyni fyrir þáttinn. Ungi maðurinn er grunlaus um að verið sé að taka upp símtalið við sig, hvað þá að til standi að spila það í þættinum. Erna leiðir hann inn í samtal um eitthvað sem hann hafði örugglega ætlað að vera einkamál á milli sín og hennar, eins og ég geri ráð fyrir allir vilji þegar þeir gera hosur sínar grænar á stefnumótasíðum.

Í 80 sekúndur er samtalið þannig að ekkert í máli hennar gefur unga manninum annað til kynna en að hann sé að ræða við konu sem sé að sýna athygli hans jákvæð viðbrögð. Eftir það segir hún honum að hún hafi skráð sig á stefnumótasíðuna í tilraunaskyni fyrir þátt sinn en án þess þó að gefa til kynna að verið sé að taka samtalið upp með það að markmiði að útvarpa því. Þvert á móti leiðir hún samtalið að sameiginlegri vinkonu og kveðst þannig vita að maðurinn sé í sambandi með annari konu sem téð vinkona þekkir. Þá gerir Erna sér far um að draga fram atriði úr einkasamskiptum þeirra sem ég er nokkuð viss um að manninum þyki ekki þægilegt að séu á allra vitorði.

Upp frá þessu taka við nokkrar mínútur þar sem ungi maðurinn opinberar þroskaleysi sitt og reynir að klóra í bakkann. Hann viðhefur miður skemmtileg orð um konuna sem hann er í sambandi við, að því er virðist í tilraun til að réttlæta gjörðir sínar. Þau orð sem hann lætur falla í símtalinu voru án efa ekki valin til að segja í útvarpi enda veit maðurinn enn ekki að hann er á upptöku. Það breytir því ekki að hann talar af vanvirðingu um konuna sem hann er í sambandi við og er mér til efs að henni hafi verið skemmt við að hlusta á þetta.

Þegar Erna hefur tuskað manninn til lætur hún hann einfaldlega vita að hún ætli að spila upptökuna í þættinum sínum en það er eftir tæplega sex mínútna flamberingu þar sem maðurinn er niðurlægður af henni og sjálfum sér, hún gerir grín að honum og segist vona að kærastan hans „dömpi“ honum svo engum dylst fyrirlitning hennar á honum. Þetta hljóðbrot fær svo töluverða athygli og er deilt af þúsundum á Facebook. Á fésbókarsíðu FM 957 lýsa flestir sem færa inn athugasemd, velþóknun á þessu auk þess sem fúkyrðum er ausið yfir manninn. A.m.k. ein kona segist vilja beita manninn líkamlegu ofbeldi og óskar þess að kærastan hans geri það.

Hefur þetta eitthvað með karlfyrirlitingu að gera? Er endilega hægt að segja að kynjavinkillinn skipti máli í þessu tilviki? Ég vil meina að svo sé. Ég vil meina að það þurfi að vera til staðar ákveðin menning karlfyrirlitningar svo þáttagerðarfólk telji sér óhætt að framleiða og útvarpa svona efni. Sérstaklega þar sem það er ólöglegt að hljóðrita símtal við fólk án þess að upplýsa um það fyrirfram, svo ekki sé nú talað um að útvarpa því með óbjagaðri rödd mannsins og gefa upp fornafn hans (eins og var gert þegar upptakan kom fyrst á netið). Maðurinn var ekki að brjóta lög og gjörðir hans varða ekki almannahagsmuni hvað svo sem fólki finnst um framhjáhald.

Kynjavíddin verður manni ljóslifandi þegar maður víxlar hlutverkunum í huganum. Hefðu þáttagerðarmenn talið það óhætt, og þætti sínum til framdráttar að leggja gildrur sínar fyrir konu sem leitaðist eftir framhjáhaldi? Myndu þessir sömu þáttagerðarmenn hýsa ummæli á fésbókarsíðu sinni þar sem karlmaður segði eitthvað á þessa leið: „Djöfull langar mig að kýla þessa belju, ég vona sko að karlinn hennar geri það“?

Ég held ekki.

SJ

One Comment á “Menning karlfyrirlitningar”

  1. Theódór Gunnarsson Says:

    Nákvæmlega.

%d bloggurum líkar þetta: