Kæra Hanna Björg Vilhjálmsdóttir

29.1.2012

Blogg

Ég hlustaði á viðtal við þig í þættinum Sirrý á sunnudagsmorgnum frá því fyrir viku síðan þar sem Sirrý ræddi við þig um kynjafræðikennslu sem þú stendur fyrir í Borgarholtsskóla ásamt því að ræða jafnrétti og jafnréttismál almennt.

Ég verð að segja að sá kafli viðtalsins sem snerti á öfgum í baráttu femínista olli mér ákveðnum áhyggjum. Sjálfsagt er það ekki síst einmitt vegna þess að þú kennir ungu fólki kynjafræði sem ég lagði við hlustir en öfgar í baráttu femínista hafa lengi vakið áhuga minn.

Lesendum til glöggvunar gríp ég hér niður í viðtalið þar sem þú svarar spurningu Sirrýar um hvort þú hafir orðið vör við áhyggjur fólks af því að barátta femínista sé að einhverju leyti öfgafull. Um það hafðir þú þetta að segja:

„Ég spyr mjög gjarnan, skilgreindu fyrir mér hvað þú átt við með öfgafemínisma eða öfgafullum málflutningi og þá hef ég… það er tvennt sem að ég hef helst heyrt og dæmin sem að fólk talar um eru annarsvegar sú tillaga sem kom fram hjá einhverjum borgarfulltrúa eða hvað… og ég veit ekki hvort þetta var fyrst sagt í gríni eða hvað… en einhverntíman kom sú umræða um hvort að umferðaljósakarlarnir ættu ekki að vera kerlingar. Þetta fannst fólki öfgafullt. Annað sem að mér fannst líka mjög fyndið og skemmtilegt þegar fólk tekur dæmi um öfga og það er þingsályktunartillaga um það að við ættum að hætta að flokka kynin á fæðingardeildinni í bleikt og blátt sem er í rauninni táknmynd fyrir aðskilnaðinn sem við setjum kynin í og byrjar á fæðingardeildinni. Þannig að það er kannski meira svona táknrænt skilurðu að koma fram við bleiku og bláu börnin nákvæmlega eins og þetta eru semsagt dæmi um öfgafemínisma sem að ég hef heyrt þegar ég hef hoggið eftir því. Þetta þykja öfgar.

Í rauninni gef ekkert rosalega … brosi eiginlega út í annað þegar að fólk… það er ekki meiningin að gera lítið úr skoðunum fólks en mér finnst einhvernveginn ekki… þetta orð bara vera í rauninni trúverðugt þegar verið er að tala um þetta í þessu samhengi – jafnréttismálum því að hvað er … er til eitthvað öfgajafnrétti? Það er í rauninni engin baráttumanneskja fyrir jafnrétti með einhverja sjálfsvirðingu sem vill eitthvað meira en nákvæmlega það og hvernig geta það verið öfgar? Skilurðu hvað ég meina? þannig að þetta er svona í rauninni svolítið upphlaup finnst mér. Mér finnst þetta vera svona leið til þess að þagga niður, af því að öfgar er ljótt og vont og þegar fólk rís upp og notar þetta sem vörn eða tæki til þess að þagga niður í einhverjum að þá í rauninni er þetta bara það, þetta er bara aðferð til að þagga niður“

Ég lít á mig sem jafnréttissinna og ver talsverðum tíma í að benda á kynbundið misrétti og berjast gegn því. Sem jafnréttissninni er ég mjög áhugsamur um öfgar í jafnstöðubaráttu femínista sem að mínu mati er á köflum hrein andstæða jafnréttisbaráttu. Skilgreining á öfgum er auðvitað að einhverju leyti einstaklingsbundin en ég held að flestir ættu að geta verið sammála að eftirfarandi skilgreining gæti náð utanum öfgar þó hún sé ekki tæmandi: Það er þegar einstaklingur eða hópur krefst réttinda umfram aðra, þ.e. forréttinda og/eða sýnir af sér karl- eða kvenfyrirlitningu. Það kom mér verulega á óvart að kennari í kynjafræði skuli hafa farið jafn kyrfilega á mis dæmi um öfgafullan femínisma eins og þú virðist hafa gert og er það tilefni þessara skrifa minna.

Hvað varðar umferðarljósamálið og þingsályktunartillögu Kolbrúnar Halldórsdóttur um að sett yrðu lög um leyfilega liti á klæðum barna á fæðingardeildum, þá eru þetta betri dæmi um málefnaþurrð femínískrar baráttu frekar en að vera góð dæmi um öfgar. Ég held að afar fáir karlmenn líti á það sem réttindaskerðingu að þurfa að horfa á umferðarljósakerlingar eða vita til þess að nýburar klæðist hvítum fötum þó ég geti vel skilið að flestum finnist þetta skrýtnar áherslur hjá femínistum.

Til að nemendur þínir og aðrir komi, í framtíðinni, ekki að tómum kofanum þegar ræða á við þig um öfgar í femínisma fara hér örfá dæmi úr íslenskum raunveruleika sem geta fallið undir ofangreinda skilgreiningu á öfgum og eru miklu betri dæmi um öfgar femínista en stóra umferðarljósamálið eða lögbundin fatatíska nýbura:

 • Á sama tíma og karlar hafa verið konum heilum þriðjungi fleiri á atvinnuleysisskrá, og þrátt fyrir þá staðreynd að atvinnuleysi hefur nánast ekkert snert konur m.v. karlmenn í mesta efnahagshruni íslensks samfélags í seinni tíð, hafa nafntogaðir femínistar hvað eftir annað stigið fram og krafist þess að ríki og sveitarfélög beiti sér fyrir verndun og uppbyggingu kvennastarfa sérstaklega. Í ummælakerfi Femínistafélags Íslands á Fésbókinni hefur karlmönnum sem bent hafa á þá staðreynd að atvinnuleysi er meira vandamál hjá körlum en konum verið lýst sem vandamáli. Nánar hér.
 • Femínistafélag Íslands kynnti fyrir skemmstu þá skoðun Stígamóta að draga ætti úr stjórnarskrárbundnum mannréttindum karlmanna sem sæta ásökun um nauðgun. Það er skoðun Stígamóta að burtséð frá sekt eða sakleysi karla sem sakaðir eru um nauðgun skuli svipta þá grundvallarmannréttindum og líta á þá sem seka frá þeim tíma sem ásökun er sett fram. Markmið slíks „femínisma“ er því hreinlega misrétti en ekki jafnrétti. Nánar hér.
 • Í rúma tvo áratugi hefur það misrétti viðgengist hér á landi að konur hafa aðgang að öllum fjármálaafurðum sem karlar hafa aðgang að en ekki öfugt. Þ.e. konur geta sótt um sérstaka styrki frá hinu opinbera, fengið sérstakar kvennaábyrgðartryggingar og lán til atvinnurekstrar. Þetta náði meira að segja ákveðnu hámarki árið 2007 í mestu útlánaþenslu sem sögur fara af en þá bauðst konum, auk hinna opinberu styrkja, þróunaraðstoð í formi kvennalána hjá Spron í samstarfi við Þróunarbanka Evrópu og Norræna Fjárfestingabankann. Fyrir utan það hvað þetta felur í sér miður æskileg skilaboð um getu eða getuleysi kvenna þá þykir mér það smán við alla jafnréttishugsjón að kenna þetta við jafnrétti. Nánar hér, hérhér og hér.
 • Sjálft Kvenréttindafélag Íslands hefur opinberlega lýst því yfir að karlmenn í dag standi í skuld við konur vegna meints misréttis fyrr á tímum. Þetta kallar Kvenréttindafélagið hina sögulegu skuld og lætur í veðri vaka að hún verði aðeins gerð upp með því að veita konum réttindi umfram karla um óákveðin tíma. Það hljóta næstum allir að sjá að hugmyndir um að konur eigi inni forgjöf hjá samfélaginu á grundvelli sögulegrar skuldar getur ekki farið saman við það að berjast fyrir jafnrétti. Nánar hér.
 • Ýmis forréttindi til handa konum hafa verið lögfest hér á landi í blóra við ákvæði stjórnarskrár um að bannað sé að mismuna einstaklingum á grunvelli kyns og verður það raunar að teljast hreint ótrúlegt að það geti gerst á sama tíma og jafnréttismál eru jafn mikið í deiglunni og raun ber vitni. Dæmi um þetta eru lög um stórmeistaralaun, lög um húsmæðraorlof auk þess sem fram kemur í markmiðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá 2008 að þeim sé ætla að bæta stöðu kvenna sérstaklega. Þetta er ekki jafnrétti heldur lögfest mismunun. Nánar hér og hér.
 • Þegar jafnréttislög voru síðast tekin til endurskoðunar var í fyrsta sinn gert ráð fyrir því að aðrir en bara samtök femínista fengju að tilnefna fulltrúa til setu í Jafnréttissráði. Þetta voru samtök um Foreldrajafnrétti. Þessu mótmælti fulltrúi femínsta á þingi, Kolbrún Halldórsdóttir, harðlega þrátt fyrir að þessi samtök nytu þessara réttinda ásamt Femínistafélaginu, Kvenfélagasambandinu, Kvenréttindafélaginu, Stígamótum og Kvennaathvarfinu. Ekki aðeins mótmælti Kolbrún þessu heldur lýsti þeirri skoðun sinni að þessi félagsskapur hefði álíka mikið til jafnréttismála að leggja og fótboltaklúbbur. Nánar hér.

Þetta er alls ekki tæmandi listi og til eru mýmörg önnur dæmi um öfgar femínisma sem ekki fela endilega í sér kröfu um formleg eða óformleg forréttindi heldur falla frekar undir það sem á góðri og kjarnyrtri íslensku er kallað tóm vitleysa eða hreinlega brjálæði. Nýleg dæmi um það eru krafa femínista um að leikhússtarfsfólk sæki sér menntun í kynjafræðum svo það læra að setja ekki upp farsa sem gera grín að kvenpersónum, fullyrðingar um að ástæðan að baki kynfærarakstri kvenna sé barnahneigð karlmanna, það að stimpla fréttamenn nauðgaravini fyrir að tala ekki femínísku, að sjá reðurtákn í hverju horni, að endurskilgreina allt klám sem kynferðislegt ofbeldi, það að vilja berja lögmann fyrir að vinna vinnuna sína o.s.fv. o.s.fv. Nánar hér, hér, hér, hér og hér.

Ef farið er út fyrir landsteinana verður yfirlitið jafnvel enn lygilegra. Erlendis höfum við séð tillögur femínísks stjórmálaflokks um sérstakan skatt á karlmenn, við höfum séð kvennahreyfingu verða gagntekna af ranghugmyndum um valdamikið net barnaníðinga sem borða börn, við sjáum alvarlegar falsanir í rannsóknum femínista sem virðast spretta upp úr hreinu karlahatri. Við sjáum skuggalegt kennsluefni kynjafræðinga sem vilja að börn lygni aftur augum og sjái fyrir sér að verið sé að nauðga mæðrum þeirra eða systrum til þess að meðvitund þeirra um kynferðisofbeldi aukist. Við sjáum fyrrverandi ráðherra jafnréttismála undra sig á að ekki fleiri konur hati karla og stjórnanda kvennasamataka sem rekin eru á almannafé segja að karlmenn séu skeppnur. Þá hafa nokkur lönd innleitt lög sem heimila konum að drepa eiginmenn sína að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Nánar hér, hér, hérhér, hér og hér.

Við þessa samantekt ætti engan að undra að maður staldri við þegar maður heyrir femínsta hafna því að barátta þeirra hafi nokkru sinni farið út í öfgar. Maður hlýtur að spyrja sig; eru þeir sem fyrir þessu hafa barist ekki femínistar eða telst allt ofangreint einfaldlega rúmast innan hugmyndafræði venjulegs femínisma? Annað tveggja hlýtur að koma til. Svo er líka áhugavert að velta fyrir sér, í ljósi ofangreinds, hvort það séu kannski bara femínstar sjálfir sem eru að beita gagnrýnendur sína þöggun, en ekki öfugt, þegar þeir hlægja að gagnrýnendum sínum og spyrja með háði hvort eitthvað sé til sem heiti „öfgajafnrétti“.

Það er von mín að þetta yfirlit veiti þér betri innsýn í þá málefnalegu gagnrýni sem sett hefur verið fram á femínisma af ört stækkandi hópi fólks. Þá vona ég að í framtíðinni muni þér ekki bara finnast það fyndið eða broslegt þegar þú heyrir fólk gagnrýna öfgafullan femínisma og lítir ekki á þetta sem eitthvað upphlaup eða það sem verra er, tæki til þöggunar sem óþarft sé að gefa nokkurn gaum.

Bestu kveðjur,
Sigurður Jónsson

,

13 athugasemdir á “Kæra Hanna Björg Vilhjálmsdóttir”

 1. Óli Says:

  Fyrirgefðu en mér þykir þessi færsla vera ótrúlegt væl miðað við: „Ég lít á mig sem jafnréttissinna og ver talsverðum tíma í að benda á kynbundið misrétti og berjast gegn því. Sem jafnréttissninni er ég mjög áhugsamur um öfgar í jafnstöðubaráttu femínista sem að mínu mati er á köflum hrein andstæða jafnréttisbaráttu.“ Ég held að það væri rétt að eyða smá púðri í að útskýra hvar og hvernig þú bendir á kynbundið misrétti og hvar og hvernig þú berst gegn því (hef aldrei rambað inn á þetta blogg áður ef þetta er vettvangurinn).
  Um öfgana sem þú bendir á þá langar mig að benda á í því samhengi eftirfarandi:
  1. Glerþakið er raunverulegt í íslensku samfélagi og þó svo að karlar séu fleiri á atvinnuleysisskrá þá geta þeir gengið í flest þau ófaglærðu störf sem bjóðast auk þess að það hafa klárlega komið fram dæmi um að karlar séu á atvinnuleysisskrá á sama tíma og þeir hafa verið að vinna svart. Ófaglærðar konur upp úr fertugu eiga hins vegar litla sem enga möguleika að komast inn á vinnumarkaðinn ef þær missa vinnu.
  2. Í sambandi við Samtök um foreldrajafnrétti (sem áður hétu Félag ábyrgra feðra) þá var gjarnan beitt ómálefnanlegum aðferðum við að benda á misrétti sem feður búa við á kostnað kvenna. Samtök sem settu skjólstæðinga sína í fórnarlambshlutverk á þeim forsendum að ‘allir’ sem starfa í þessum geira séu konur sem vinna markvisst gegn feðrum með því að viðhalda og ýta undir hugmyndir um móðurrétt. Samtökin notuðu meðal annars hugtakið tálmamæður – líka í tilfellum þar sem skjólstæðingar þeirra voru ofbeldismenn sem höfðu bæði beitt móður og barn/börn ofbeldi… Þessi félagssamtök beittu svokölluðum ‘reverse öfgafemínisma’ einmitt með það að markmiði að vekja athygli á stöðu skjólstæðinga þeirra.
  Sem er – fyrir þá sem þekkja sögu femínisma og jafnréttisbaráttu á Íslandi (þú tekur eftir því að ég sleppi því að ræða hvað fer fram fyrir utan landssteinana þar sem jafnréttissinnar á Íslandi hafa ekkert um það að segja) einmitt það sem femínistar og rauðsokkur hafa beitt til að koma okkur á þann stað sem við erum í dag. Öfgarnir felast ekki síst í því að fara fram á miklu meira heldur en þarf til þess að geta gert málamiðlanir. Með öfgunum er einnig hægt að koma af stað umræðu. Ég sé ekki neina aðgerðar-jafnréttissinna vera að vinna í því að leiðrétta launaójafnrétti en það eru aftur á móti öfgasinnarnir sem berjast í þessu því það er líklegri leið til að skila árangri – sagan kennir okkur það.
  Mér finnst einmitt jafnréttissinnar í dag vera ótrúlega sáttir við hvernig staðan er núna og taka sem dæmi að samkynhneigðir megi nú gifta sig og að launamuninum sé ‘næstum því’ búið að eyða… það er bara ekki alveg nógu gott… sérstaklega í ljósi þess að femínismi er neikvætt orð í umræðunni, það er alltaf ákveðið bakslag að öfgarnir séu stimplaðir neikvæðir og að jafnréttissinnar séu bara frekar sáttir. Persónulega fagna ég því öfgunum því það fær mann til þess að velta þessu öllu fyrir sér og reyna að leggja sitt af mörkum í umræðunni en ég stend mig oftar en ekki að því að vera sáttur fyrir hönd okkar allra en það er kannski ekki síst vegna þess það er ekki nógu mikið um öfgana 😉

  • Sigurður Jónsson Says:

   Velkominn Óli og takk fyrir innleggið.

   Varðandi það misrétti sem ég bendi á og berst gegn þá gefur þessi síða sjálfsagt heildstæðasta yfirlitið yfir það. Ég hvet þig til að lesa efni hennar ef þú ert áhugasamur um þetta.

   Hvað varðar fyrsta tölulið athugasemdar þinnar þá finnst mér þú ekki sýna fram á að atvinnuleysisvandinn sé meiri hjá konum en körlum eða glerþakið sjálft ef við förum út í það. Í hvert einasta sinn sem ég hef fengið innsýn í einstök mál þar sem kona telur á sér brotið á vinnumarkaði hef ég ekki séð að vandamálið hafi haft nokkuð með kyn hennar að gera. Ég hef þann fyrirvara að það er ekki vísindaleg úttekt og vel má vera að hefði ég innsýn í öll mál, þá fengi ég aðra niðurstöðu. Ekkert hefur komið fram sem sýnir að karlar á atvinnuleysiskrá séu þar með röngu í meira mæli en konur.

   Í öðrum tölulið geri þú því skóna að Félag um foreldrajafnrétti reki öfgafullan áróður. Ég hafði ekki áhuga á jafnréttismálum þegar félagið hét Félag ábyrgra feðra og fylgdist því ekki með starfi félagsins á þeim tíma. Það sem ég hef séð í starfi Félags um foreldrajafnrétti þykja mér bara eðlilegar ábendingar/kröfur. Umgengnistálmanir geta örugglega átt sér stað og verið vandamál. Mér finnst allt í lagi að vekja athygli á því en ólíkt öðrum félagasamtökum þá finnst mér Félag um foreldrajafnrétti ekki alhæfa eitt né neitt þó þeir bendi á vandamál eins og tálmun.

   Ef öfgar eru réttlætanleg leið til að há baráttu eins og réttindabaráttu þá er gagnrýni á þá baráttu jafn réttlætanleg. Það á við um bæði samtök femínista og Félag um foreldrajafnrétti.

   Við verðum sennilega að vera sammála um að vera ósammála í þessu. Allavega enn um sinn.

 2. Grétar Thor Ólafsson Says:

  Hér rekur Sigurður nokkur dæmi um öfgar ákveðna femínista. Af nógu öðru er að taka. Þetta hefur allt verið nefnt áður og mun verða nefnt aftur. En samt sem áður skilja femínistar bara alls ekki af hverju þau eru talin „öfgafull“. Og spyrja svo „er það öfgafullt að vilja jafnrétti?“. Þetta hefur ekkert með markmiðið að gera (jafnrétti), þetta hefur með aðferðinar og heiftina að gera ásamt öðru.

  Ef femínistar vilja skilja af hverju „öfga“ stimpillinn kemur þá nægir bara að hlusta, lesa og meðtaka.
  En þetta er nú bara gallinn. Það er ekkert verið að hlusta, lesa né meðtaka. Og á meðan breytist ekkert.

  • Sigurður Jónsson Says:

   Velkominn Grétar og takk fyrir innleggið.

   Góður punktur. Þessi barátta vinnst hinsvegar ekki með því að sannfæra sanntrúaða og réttþenkjandi femínista. Hún vinnst með því að vekja athygli á öfgunum. Þessi ríka tilhneyging til að afneita öfgum þessarar hugmyndafræði vinnur náttúrulega femínistum sjálfum mest ógagn.

 3. Þórdís Says:

  Er ég frekar öfgafullt að halda úti heilli síðu um fyrirbæri þitt forréttindafemínisma og hafa þessa þráhyggju á femínistum og heimatilbúnum túlkunum þínum á málefninu. En benda aldrei sjálfur á nokkrar farsælar leiðir til að auka jafnrétti sem þú segir þig vera hlynntan. Þú ert alltaf í mótsögn og uppfullur af rangfærslum og mjög vafasömum túlkunum á flestu sem þú setur hér fram.

  • Davíð Says:

   Þórdís: Ef Sigurður er alltaf í mótsögn við sjálfan sig, hvernig væri þá að benda á nokkur dæmi um það eða þessar vafasömu túlkanir hans til að rökstyðja þessar fullyrðingar þínar?

   • Þórdís Says:

    Hver einasta færsla er mótsögn og hver einasta grein eru vafasamar túlkanir hans og fullyrðingar. Ef þú sérð það ekki sjálfur held ég að það sé fátt sem ég get sagt til þess að sannfæra þig 🙂

    • Sigurður Jónsson Says:

     Velkomin Þórdís og takk fyrir innleggið.

     Eins og ég segi í færslunni þá er mat á öfgum einstaklingsbundið. Af því leiðir að þér er frjálst að álíta þetta blogg öfgafullt.

     Mér finnst leiðinilegt að þú sjáir ekki hvernig skrif mín hér hafa á tíðum innifalið mínar skoðanir á hvernig stuðla megi að auknu jafnrétti en það er víst óhætt að segja að það er svolítið einkenni á hinni svokölluðu jafnréttisumræðu að andstæðir pólar skilja ekki hvorn annan.

     Hugleiddu þetta: Femínistar segja mér að í árdaga hafi hugmyndir þeirra mætt mikilli mótspyrnu og jafnvel enn þykja túlkanir femínsta vafasamar af mörgum og málflutningur þeirra fullur af rangfærslum. Þetta minnir mig á eitthvað sem ég las mjög nýlega.

     Svo eru líka túlkanir femínista heimatilbúnar og hafa alltaf verið. Eru þær þar með vafasamar?

    • Eva Hauksdóttir Says:

     Ég skil alveg hvað þér finnst öfgafullt við að halda úti heilli síðu sem er helguð baráttu gegn forréttindafeminisma. Reyndar finnst mér það ekki neitt öfgafyllra en að reka heilu félögin sem berjast fyrir forréttindum kvenna og netsíður þar sem öll heimsins vandamál eru skýrð út frá þeirri kenningu að helsta markmið samfélagsins (bæði karla og þeirra kvenna sem ekki aðhyllast rétta hugmyndafræði) sé það að halda konum niðri. Ég sé ákveðna biturð endurspeglast í skrifum Sigurðar. Ég sé mann sem telur að ef enginn segi „bíddu nú við, hvað er eiginlega að gerast hér“ þá muni kvenréttindabaráttan fljótt leiða til karlakúgunar en ekki jafnréttis.

     En ég sé ekki þessar mótsagnir og vafasömu túlkanir. Geturðu bent á þær eða þarf maður einhverskonar sérgáfu sem er algerlega óháð rökhugsun og hlutlægu mati til að koma auga á þær?

 4. Jón Sigurðsson Says:

  Sæll Sigurður.
  Ég er svolítið forvitinn að vita hvernig rannsókn þinni á frjálsum vændiskonum miðar. Hvað er að frétta af rannsókninni? Gáfu margar vændiskonur sig fram?

  • Sigurður Jónsson Says:

   Sæll Jón og velkominn.

   Þessu verkefni miðar hægar en ég gerði mér vonir um í fyrstu. Ég hef ekki getað sinnt því eins vel og ég ætlaði að auglýsa eftir þátttakendum og er þ.a.l. bara komin með tæplega helming þátttakenda miðað við það sem vonir stóðu til. Ég mun klára þetta og birta hér þegar þessu er lokið.

 5. Harpa Hreinsdóttir Says:

  Mér finnst stærsta áhyggjuefnið hvað kennarinn sem vitnað er í er ofboðslega illa máli farin – það er ekki heil brú í því sem hún er að reyna að koma út úr sér! Ef kennslan fer eins fram þá má guð vita hvaða hugmyndir og skoðanir nemendur hafa eftir eina önn hjá þessari bullukollu.

  Annars er ég hjartanlega sammála Evu, að venju.

 6. Gunnar Says:

  Klassískt:

  Femínisti: Allt sem þið segið er rangt.
  Gagnrýnandi: Getur þú bent á dæmi?
  Femínisti: Ég nenni því ekki. Þú ert bara fáviti ef þú sérð það ekki sjálfur.

%d bloggurum líkar þetta: