Það er orðið nokkuð síðan ég birti færslu um Kynungabók. Því fer þó fjarri að gagnrýni minni á bókina sé lokið. Það er af of miklu að taka til að svo sé. Mér finnst að hugmyndir aðstandenda Kynungabókar eigi að vera vel kynntar og öllum aðgengilegar svo lengi sem hugmyndafræði þeirra er álitin tæk til opinberrar stefnumótunar.
Nú er það þunglyndið. Á blaðsíðu 26 í Kynungabók má finna eftirfarandi klausu um þunglyndi kvenna:
„þunglyndi er algengara hjá konum en körlum og er munurinn meiri hjá yngra fólki en því eldra. Ekki er þó fullvíst að um líffræðilegar orsakir sé að ræða fyrir þeim mun og jafnvel talið að félagslegir þættir og mismunandi aðstæður kvenna og karla í samfélaginu hafi þar áhrif“
Hér á bersýnilega að vekja upp þau hugrif, hjá börnunum sem bókin er ætluð, að líf kvenna sé svo ömurlegt að þær þjáist af þunglyndi í meiri mæli en karlar.
Öllum ætti hinsvegar að vera ljóst að þegar tíðni sjálfsvíga karla er allt að tíu sinnum hærri en meðal kvenna þá er það vísbending um að þunglyndi sé einmitt ekki síðra vandamál hjá körlum. Það þarf heldur ekkert sérstaklega villt hugmyndaflug til að sjá að þetta bendir til þess að konur fái kannski bara frekar greiningu og meðferð vegna þess að þær eru duglegri við að leita sér aðstoðar.
SJ
24.1.2012
Blogg