Vilja að starfsmenn leikhússins sæki sér menntun í kynjafræðum

12.1.2012

Blogg

Mig langar að skrifa um frétt sem fór ansi hljótt í byrjun nóvember á síðasta ári. Vísir skrifaði um málið og aðeins var minnst á þetta á Bylgjunni. Fréttin fjallaði um gagnrýni Listakvenna í leikhópnum Kviss bang búmm á Leikhússtjóra Borgarleikhússins, Magnús Geir Þórðarson og uppsetningu leikhússins á farsanum Nei, ráðherra!

Forsaga málsins er sú að þær Eva Björk Kaaber, Eva Rún Snorradóttir og Vilborg Ólafsdóttir hugðust gera sér glaðan dag með því að sitja áðurnefnda sýningu. Eins og margir vita, þá er ekki alltaf auðvelt að vera forréttindafemínisti í iðu nútíma dægurmenningar og þetta reyndist vera einna af slæmu dögunum í lífi listakvennanna þriggja. Svo mjög fékk sýningin á þær að hún varð tilefni bréfaskrifa milli þeirra og leikhússtjóra auk þess sem þær skrifuðu grein um málið á vef Félags leikstjóra á Íslandi og lesa má hér. Þetta er meðal þess sem þær höfðu um málið að segja:

„Hvað var svona fyndið þetta kvöld á stóra sviði Borgarleikhússins? Við fengum ekki betur skilið en að það væru hinar svívirðilegu birtingarmyndir kvenna, homma og útlendinga í verkinu.

Áður en við gengum út (í hléi) höfðu tvær kvenpersónur stigið á svið. Önnur var í korseletti allan tímann, hún baðst ítrekað afsökunar á sjálfri sér, fékk engu ráðið um nokkurn skapaðan hlut og salurinn hló að því þegar mismunandi menn gripu um brjóstin á henni og einn skvetti framan í hana vatni. Hvað er fyndnara en niðurlægð, örvingluð, hálfnakin kona? Hinn kvenkarakterinn var kona sem hafði eitt verkefni þennan fyrri part; að koma handklæðum inn á bað. En konan sú, sem átti að leika útlending, var bara svo vitlaus að hún gat ómögulega komið handklæðunum fyrir á réttan máta. Við vorum reyndar ekki vissar um hvort það væri vegna þess að hún væri kona eða vegna þess að hún væri útlendingur.

Magnús Geir svaraði okkur fljótlega. Við lestur svarsins, þar sem Magnús Geir bar t.d. saman nekt Láru Jóhönnu í Nei ráðherra! við nekt Þrastar Leó í Gauragangi, áttuðum við okkur á því að við værum ekki að tala sama tungumálið. Við þrjár, sem erum svo heppnar að hafa hlotið kynjagleraugun, áttuðum okkur á því að Magnús Geir, eins og svo margir í samfélagi okkar í dag, væri hreinlega blindur á hinar ólíku birtingarmyndir kynjanna í samfélagi okkar og hvaða áhrif þær hafa á sjálfsmyndir fólks. Við sendum honum því annað bréf þar sem við báðum um að fá að útskýra fyrir honum hvað við sáum í verkinu.“

Í niðurlagi greinarinnar er svo vikið að þeirri brýnu nauðsyn að Magnús og annað starfsfólk Leikhússins sæki sér grunnmenntun í Kynjafræðum og/eða leiti til fagfólks s.s. kynjafræðinga eða sérfræðinga í jafnréttismálum (væntanlega hjá málshefjendum sjálfum) þegar unnið er að uppsetningu farsa hjá leikhúsinu.

Það er hreinasatt að þegar ég heyrði vitnað í grein þeirra á Bylgjunni þá var það mín fyrsta hugsun að þetta væri grín eða kynningarbragð sem leikhópurinn Kviss bang búmm stæði fyrir. Það hreinlega hvarflaði ekki að mér að femínískur fáránleiki hefði náð þessum hæðum. Það runnu því á mig tvær grímur þegar ég heyrði símaviðtal þáttarstjórnenda við Magnús þar sem hann lýsti bréfaskriftum sínum við hópinn og í ljós kom að þetta var bara alls ekkert grín. Svör Magnúsar báru með sér að honum þætti þetta ósvaravert bull þegar hann sagði að það væri erfitt að svara þessu málefnalega. Lái honum hver sem vill.

Það er allt útlit fyrir það að í hinni femínísku útópíu verði leikhúsum aðeins heimilt að gera grín að hvítum karlmönnum. Svona til að móðga ekki sýningargesti sem gætu mögulega verið femínistar …

… sem er náttúrulega bara lágmarkskrafa í nútímasamfélagi, er það ekki?

SJ

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: